Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Góður punktur

Í könnun sem Viðskiptaráð lét framkvæma í aðdraganda Viðskiptaþings kom fram að margir Íslendingar vilji mikið fyrir lítið. Þeir telja skattbyrði sína of háa en telja á sama tíma ónauðsynlegt að minnka opinber umsvif.

Þetta er góður punktur. Íslendingar þjást meira miðað við marga aðra af þeirri ranghugsun að halda að hið opinbera geti alltaf látið alla aðra borga fyrir ríkisreksturinn. Íslendingar halda t.d. að það sé nóg að hækka skatta á þá "ríku" til að fjármagna ríkisreksturinn. Þetta er ákveðið heilkenni ef svo má segja - ákveðin aftenging hugsana og raunveruleika.

Nú eru skattar svipað háir á Íslandi og hinum Norðurlöndunum, en svo ég taki Danmörku sem dæmi þá er ekki - ofan á háa skattana - innheimt aukalega hér og þar fyrir notkun ríkisrekstursins, t.d. ekki fyrir læknisheimsóknir eða háskóla. Danir heimta að skattheimtan sé látin duga fyrir ríkisrekstrinum.

Ríkisreksturinn er líka að vissu leyti betur skilgreindur í Danmörku (þótt vissulega sé hann umfangsmikill). Danir eru íhaldssamir á ríkisreksturinn. Hann á að vera eins og hann er. Íslendingar á hinn bóginn horfa gapandi á ríkisvaldið æða út í allskonar brennslu á skattfé ef þannig liggur á sitjandi ríkisstjórn. Síðan kvarta þeir yfir of háum sköttum. En það má ekki skera niður.

Ríkisvaldið þarf að minnka á Íslandi til að skattar geti lækkað, en skattar þurfa að hækka (á alla) ef ríkisvaldið á að halda núverandi stærð. Þetta er orðið svona einfalt. 


mbl.is Íslendingar vilja mikið fyrir lítið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil bók um skilvirkni

book-coverÉg var að gefa út bók um daginn og ætla hérna að taka saman allar hugsanlegar upplýsingar um hana. Þessi færsla verður uppfærð eftir því sem ég hef meira fram að færa. 

Bókin er á ensku og heitir:

The Smallest Efficiency Guide in the World: A guide for busy people who solve problems for a living

Stór titill á lítilli bók ef svo má segja!

Bókin er um skilvirkni í vinnu og á sennilega best við um skrifstofuvinnu en þó ekki eingöngu. Hún á að höfða til allt í senn starfsmanna, yfirmanna og þeirra sem starfa sjálfstætt. 

Hana má kaupa á Amazon og menn geta valið að fá hana sem rafbók eða á pappír. Þeir sem kaupa pappírsútgáfuna á Amazon.com geta, ef allt virkar sem skyldi, sótt sér rafbókarútgáfuna fríkeypis. 

Breska Amazon:

http://www.amazon.co.uk/dp/1505993059/

Þýska Amazon:

http://www.amazon.de/dp/1505993059/

Bandaríska Amazon:

http://www.amazon.com/dp/1505993059/

Ítalska Amazon:

http://www.amazon.it/dp/1505993059/

Franska Amazon:

http://www.amazon.fr/dp/1505993059/

Japanska Amazon (eingöngu sem rafbók):

http://www.amazon.co.jp/dp/B00RRRD58I/

Brasilíska Amazon (eingöngu sem rafbók):

http://www.amazon.com.br/dp/B00RRRD58I/

... og áfram mætti telja. Glöggir lesendur sjá sjálfsagt endurtekningar í slóðunum hér að ofan. 

Síða bókarinnar á Goodreads:

https://www.goodreads.com/book/show/24904461

Bókin á sölusíðu útgefenda er hér

Fyrir Íslendinga á Íslandi er sennilega ódýrast (upp á sendingarkostnað) að kaupa hana frá evrópskri Amazon-verslun. 

Ég vona að einhverjir sem þetta lesa slái til og eyði litlu fé og um hálftíma af tíma sínum í að kynna sér efni bókarinnar og fái heilmikið út úr því í aukinni skilvirkni, aukinni virðingu fyrir tíma annarra og betra flæðis í öllu sem kemur á borð viðkomandi. 

Og það besta af öllu: Hún passar í rassvasa eða innanverðan jakkavasa!

pictures-of-book

Bróðir minn, framkvæmdastjóri og yfirþjálfari Crossfit Katla, var svo vingjarnlegur að skrifa eftirfarandi umsögn um bókina:

review_OmarOmar

Forstjórinn minn var svo ánægður með litlu bókina mína að hann keypti 55 eintök fyrir yfirmennina í fyrirtækinu. Það ætti nú að geta flokkast sem góð byrjun.

Blaðamaður hjá Morgunblaðinu var svo vingjarnlegur að bjóða mér í svolítið viðtal vegna bókarinnar sem birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2015 (bls. 14) með eftirfarandi fyrirsögn:

mbl_fyrirsogn


Skipulagavaldið er hin nýja þjóðnýting

Djúpt inn í ráðhúsum sitja borgar- og bæjarfulltrúar og hugleiða hvernig þeim finnist að aðrir eigi að ráðstafa eigin eignum. Þeir geta ekki þjóðnýtt beint, því það myndi enda fyrir dómstólum. Þeir geta ekki keypt allt upp því skattgreiðendur ráða ekki við slík útgjöld. Hvað er þá eftir. Jú, skipulagsvaldið auðvitað!

Með skipulagsvaldinu eru hendur hins opinbera skornar lausar frá öllum höftum, kvöðum og tæknilegum formsatriðum eins og eignarrétti og stjórnarskrá.

Með skipulagsvaldinu má skikka menn til að loka rekstri sínum á ákveðnum tímum sólarhrings, banna þeim að innrétta eins og þeir vilja eða breyta útliti eigna sinna eins og þeir vilja, ákveða hvort tiltekinn rekstur snýst um að selja skó og minjagripi, áfengi eða mat, og svona má lengi telja.

Með skipulagsvaldinu geta yfirvöld flutt heilu flugvellina til, gert menn gjaldþrota, bætt eða hert aðgengi viðskiptavina að tilteknum fyrirtækjum, og hreinlega tekið heilu göturnar og hverfin í gíslingu. 

Með skipulagsvaldinu geta yfirvöld skipt út vegum fyrir göngu- og hjólastíga, bílastæðum fyrir grasbletti, húsum fyrir tómar lóðir og torgum fyrir hús. Mörkin virðast ekki vera neins staðar og húseigendur og rekstraraðilar virðast vera algjörlega berskjaldaðir fyrir þessari íhlutun, sem er oft bæði íþyngjandi og ósanngjörn.

En í stað þess að stemma stigu við þessu og berjast fyrir því að skipulagsvaldið sé minnkað töluvert reyna menn þess í stað að biðla til yfirvalda - biðja þau af sinni miklu náð um að beita því ekki þannig að menn endi í gjaldþroti eða sitji uppi með verðlausar eignir. Enginn efast um þetta mikla vald hins opinbera. Menn deila hins vegar um notkun þess.

Því fer sem fer. Yfirvöld fara sínu fram og slá á hendur þeirra sem mótmæla of mikið, en umbuna öðrum sem e.t.v. eru í tísku þá stundina. 

Skipulagsvaldið er hin nýja þjóðnýting. 

 


mbl.is Búðir og veitingastaðir 50/50
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan einkavædd

Íslensk yfirvöld hugleiða nú að kaupa stolin gögn fyrir reiðufé til að hafa uppi á meintum lögbrjótum. Gott og vel. Lögbrot þarf að upplýsa hvort sem lög eru góð og gild, bjánaleg, kjánaleg, gagnslaus, öllum til ama eða eitthvað allt annað.

Meintir lögbrjótar komust framhjá íslenskum yfirvöldum á sínum tíma. Verði gögnin til þess að ná í skottið á þeim er hérna komið fyrsta dæmið sem ég þekki til um einkavæðingu löggæslu á Íslandi. Einkaaðili lagðist í rannsóknir og gróf upp sönnunargögn og býður þau til sölu. Ríkisvaldið kaupir. Séu gögnin í raun sönnun á sekt er upplagt að rúlla þeim beint fyrir dómstóla og fá glæpamenn dæmda fyrir lögbrot.

Næst á dagskrá hlýtur að vera að leggja niður hluta af lögreglunni, t.d. hluta af efnahagsbrotadeildinni, og gefa út verðskrá fyrir sönnunargögn er leiða til handtöku glæpamanna. Þann fyrirvara þarf samt að hafa að þeir sem leggja fram sönnunargögn þurfi að greiða fyrir úrvinnslu á þeim en fái í staðinn hluta af fyrirhuguðum sektargreiðslum í vasann ef um lögbrot er að ræða.

Fangelsisdómum mætti í auknum mæli snúa yfir í sektargreiðslur til að auka fjárstreymið og hvetja menn til að koma fram með sönnunargögn. Um leið sparast útgjöld vegna fangelsisrekstrar, ofan á sparnaðinn vegna minnkandi lögreglu.

Þetta eru svo sannarlega nýir og spennandi tímar í löggæslu á Íslandi!


mbl.is Bjarni: Ekkert skattaskjól hjá mér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bless, draugur 20. aldar

Ríkisverslun er draugur frá 20. öld sem tók við af frjálsara fyrirkomulagi 19. aldar (a.m.k. á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum). Fasismi, kommúnismi og jafnaðarmennska lögðust á 20. öld á eitt við að smíða ríkisvald sem mátti gera hvað sem er á meðan það þjónaði einhverjum "æðri" eða "göfugri" markmiðum öðrum en að senda lögreglumenn á glæpamenn og landamæraverði á móti innrásaraðilum.

Ýmis afsprengi ríkisdýrkunarinnar finnast enn í dag. Ríkisvaldið á að sögn að geta stemmt stigu við of lítilli samkeppni, keypt og selt ýmislegt og gert það betur en einkaaðilar, smíðað reglur um öryggi á vinnustöðum, lengt líf okkar, aukið læsi barna, ræktað gagnrýna hugsun í börnum og passað upp á sparnaðinn í bankanum.

Ekkert af þessu stenst. Það eina sem ríkisvaldið gerir er að sópa til sín verkefnum og gefa fólki þá ranghugmynd að það geti núna hent sér blint aftur á bak með lokuð augun út í hvaða vitleysu sem er og ef eitthvað fer úrskeiðis er fóstruríkið tilbúið að grípa í þéttriðið öryggisnet sem flækir suma í sér til dauðadags. Enginn þarf að taka ábyrgð á sínu lífi, haga lífsstíl sínum þannig að heilsukvillar séu í lágmarki, tryggja sig fyrir áföllum, leggja fyrir, mæta til vinnu, passa peningana sína, stilla neyslu sinni í hóf eða halda lántökum innan viðráðanlegra marka.

Fasisminn, kommúnisminn og jafnaðarmannskan úthluta ríkisvaldinu svo umfangsmiklum verkefnum að fólk telur, með réttu eða röngu, að það sem ríkisvaldið bannar ekki sé hættulaust. Áfengi er löglegt svo drekkum það þar til lifrin bilar. Tóbak er leyfilegt svo reykjum það þar til við þurfum niðurgreidd lungnaþembulyf. Lántökur eru leyfilegar svo stundum þær þar til stjórnmálamenn lofa að bjarga okkur frá þeim. 

Ábyrgðartilfinning einstaklinga - þeirra sem þekkja eigin líf best allra og eigin líkama um leið - hefur verið undir stórkostlegri árás með þeim skiljanlegu afleiðingum að menn líta á ríkisvaldið eins og stranga mömmu sem veit best. 

Að ríkisvaldið reki smásöluverslanir eru fornminjar frá 20. öld og má gjarnan koma fyrir í litlum glerskáp og setja við hann skiltið: "Dagurinn sem ríkisvaldið skilaði því að hluta sem það tók á sínum tíma af frjálsu samfélagi."


mbl.is Verslun ekki hlutverk ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með að stefna að ruslflokki?

Hér er hugmynd:

Í stað þess að íslenskir skattgreiðendur séu látnir borga skuldir sem þeir stofnuðu ekki til og runnu í allskonar björgunaraðgerðir og ofan í vasa bankafólks og annarra eftirlætisskjólstæðinga hins opinbera, hvað með að losa þá undan þeirri byrði?

Hið íslenska ríkisvald ætti að íhuga möguleikann á að gefa það út til lánadrottna sinna að það ætli ekki að borga skuldir sínar.

Við það lækkar vitaskuld lánshæfismat þess niður í alla þá ruslflokka sem fyrirfinnast, en tvennt vinnst við það:

  • Skattgreiðendur geta nýtt fé sitt í annað en skuldir hins opinbera.
  • Hið íslenska ríki getur ekki fjármagnað sig á lánum og þarf að láta skatttekjur duga, en til að auka þær þarf vitaskuld gríðarlega aukningu á efnahagslegu frelsi, sem að hluta næst fram með gríðarlegum skattalækkunum.

Meira um hugmyndir af þessu tagi hér og hér.


mbl.is Feiknarlegir hagsmunir í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn raða sér í tilvitnanabækurnar

Ég hef áður bent á að þingmenn og aðrir ætli að nota umræðuna um breytt fyrirkomulag á áfengissölu á Íslandi til að raða sér í tilvitnanabækur framtíðarinnar.

Hérna er einn gullmoli í viðbót, sem Vefþjóðviljinn tekur svo ágætlega fyrir

Í tilvitnanabækur framtíðarinnar á eftirfarandi tvímælalaust heima:

Þetta mál er engan veginn tilbúið og þetta er mál sem að bannar ríkisrekstur. Það er nefninlega það að þegar menn eru að tala um aukið frelsi þá er það gert þegar er verið að banna ríkisrekstur,“ segir Guðbjartur, en varla sé hægt að tala um aukið frelsi þegar lagt sé til bann á aðkomu ríkisins að smásölunni á sama tíma.

Einhvern tímann tekst að hrinda aftur ríkiseinokun á áfengissölu á Íslandi. Þegar sá dagur kemur legg ég til að andstæðingar þeirrar breytingar verði settir undir rækilega smásjá almennings til að athuga hvort þeir nýti sér nýfengið frelsi til að kaupa sér rauðvín með matnum um leið og þeir kaupa matinn, eða öl með pizzunni, eða snakk með ölinum. Hinn möguleikinn, að kaupa alltaf áfengi í sérstökum áfengisverslunum (sem spretta eflaust upp líka ef svigrúm er gefið til þess), stendur þeim væntanlega áfram opinn þótt ríkisvaldið standi ekki í þeim verslunarrekstri. 

Það er svo áhyggjuefni út af fyrir sig ef einhver lítil nefnd á Alþingi getur hreinlega komið í veg fyrir að Alþingi fái mál til meðferðar af því að hún var skipuð einhverjum siðapostulum og smákóngum í hrossakaupum þingflokkanna við upphaf þings. 


Bæði og

Ég bý í Danmörku og finnst alltaf gaman að sjá hvernig fréttir frá Danmörku eru bornar á borð Íslendinga. Nokkrar athyglisverðar tilvitnanir í þessa frétt eru, að mínu mati, sem ég tek fyrir eina í einu:

"Helmingur Dana vill að hömlur verði settar á þann fjölda múslíma sem fær að búa í landinu ..."

Ég hef aldrei heyrt neinn Dana tala um ákveðinn fjölda. Hinsvegar finnst mörgum eins og að hægja eigi á innstreymi erlendra múslíma og jafnvel útlendinga af öllu tagi. Innflytjendur eru hlutfallslega miklu fleiri meðal glæpamanna og bótaþega. "Kerfið" sem Danir hafa byggt upp er komið nálægt þolmörkum víða og væri það eflaust ef innfæddir Danir drægju einir úr því lífið, og hvað þá þegar innflytjendur leggjast á sömu árar.

"... innan við fimm prósent Dana eru múslímar."

Það er rétt. En þeir eru nú samt nokkuð áberandi víða. Þeir búa gjarnan í sömu hverfum og blokkum og valda sumir hverjir miklum staðbundnum vandræðum. Þótt hinn venjulegi hvíti Dani búi í úthverfi einbýlishúsa þá sér hann alveg þyrpingar múslíma í nálægum hverfum og stendur stuggur af, sumpart skiljanlega. 

"Talsmaður danska Þjóðarflokks­ins, sem berst gegn inn­flytj­end­um ..."

Þessa kynningu á þessum flokki hef ég aldrei séð áður. Flokkurinn berst vissulega fyrir takmörkunum á fjölda innflytjenda og hælisleitenda og skorar mörg atkvæði út á það, en að hann berjist beinlínis gegn innflytjendum - það er nýtt fyrir mér! 

(Þess má geta að þetta er vinstriflokkur sem mér dytti ekki nokkurn tímann í hug að kjósa.)

"Hann seg­ir að umb­urðarlyndi og skiln­ing­ur Dana á stöðu annarra eigi und­ir högg að sækja."

Er það skrýtið? Segjum að ríkur maður sem búi í stóru húsi bjóði öllum sem vilja um að gista hjá sér og borða úr ísskáp sínum. Hann tekur við öllum. Dag einn rennur upp fyrir honum að gestirnir eru farnir að ganga mjög á eignir hans. Á hann að halda áfram að hleypa gestum inn þar til hann er gjaldþrota eða á hann á einhverjum tímapunkti að byrja takmarka aðgengið? 

Og það er það sem er að gerast í Danmörku. 

Sjálfur er ég nú innflytjandi í Danmörku og held í minn íslenska ríkisborgararétt. Danir hafa ekki dæmt mig af öðru en áhuga mínum á dönskum bjór og súrum mat. Á mínum vinnustað eru Indverjar, Króatar, Frakkar, Spánverjar, Norðmenn, Íranir og margt fleira. Allir vinna saman. Umburðarlyndi Dana er mikið þegar allir synda í sömu átt. Það er fyrst þegar menn byrja beinlínis að bíta í höndina sem fóðrar þá að umburðarlyndið gefur eftir.

Skiljanlega. 


mbl.is 50% Dana vilja takmarka fjölda múslíma í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um lýðskrum

Bandaríska alríkið eyðir miklu meira fé en það getur kreist út úr fólki og fyrirtækjum í skatta og látið seðlabankann prenta af peningum og Kínverja kaupa af skuldum.

Hvað gerist þegar eitthvert ríkisvaldið er á þannig braut? Þá byrjar ferli sem er svo vel þekkt: Allskyns "glufum" á að loka og krækja þannig í nokkra milljarða í viðbót. Þeir sem verða fyrir barðinu á þessum aðgerðum kalla lögfræðinga sína á fund og finna leiðir til að forða verðmætunum frá aukinni skattheimtu. Sum fyrirtæki loka og flytjast annað. Önnur grandskoða löggjöfina og finna aðra "glufu" til að smeygja sér í gegnum. 

Þau sem geta ekki varið sig þurfa að draga saman seglin og punga út. Enn önnur loka hreinlega - verða gjaldþrota.

Hið opinbera deyr þá ekki ráðalaust og beinir spjótum sínum að einhverju enn öðrum. "Auðmenn" eru yfirleitt heppilegt skotmark (og sumir hafa meira að segja hengt eigin andlit á skotskífu hins opinbera). Löggjöf er jafnvel smíðuð utan um ákveðin fyrirtæki (óljóst samt) til að herja á sjóði þeirra. 

Sér einhver hvernig þetta endar? 

Bandaríkin ætla að reyna "púlla Frakkland" á vandræði sín og beina sjónum almennings frá hinum raunverulega vanda: Að ríkisvaldið eyðir þar um efni fram. 


mbl.is Ná til fyrirtækja í lágskattaríkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríska leiðin: Fordæmi fyrir aðra?

Grísk stjórnvöld leita nú allra leiða til að forðast afleiðingar af miklu meiri eyðslu en tekjur geta nokkurn tímann staðið undir, sem sagt því að lifa á lánsfé um leið og öll verðmætasköpun er skuldsett til dauða.

Grikkir ætla að reyna að eyða sér út úr kreppunni. Það er ráð sem þeir hafa þegið frá hagfræðingum sem margir hverjir njóta mikillar hylli. Uppskriftin snýst í stuttu máli um að slá nýtt lán til að borga upp gamalt lán, og helst lána aðeins meira til að hafa eitthvað til að eyða í neyslu.

Gríska leiðin verður kannski vel heppnað fordæmi. Grikkir munu kannski fá stórar afskriftir og sleppa við að borga skuldir. Gott og vel. Hvað gerist næst? Önnur ríki taka upp á því sama. Sífellt verður þrengt að lánveitendum - þeirra sem framleiða verðmæti og lána þau til annarra í stað þess að njóta þeirra sjálfir. Á endanum lokast allar lánalínur. Þá verður verðbólgan ein eftir: Að prenta nýja peninga til að eiga fyrir einhverju. Gjaldmiðill í fjöldaframleiðslu er dauðadæmdur til lengri tíma. Er gríska uppskriftin banabiti evrunnar?

Annar möguleiki er sá að Grikkjum verði leyft að sigla sinn sjó. Þar í landi er víst ómögulegt að ná pólitísku samkomulagi um að snúa frá braut neyslu, eyðslu og skuldsetningar og byrja þess í stað að auka svigrúm fyrir verðmætasköpun. Gríski ríkissjóðurinn verður gjaldþrota og kröfuhafar ganga á eignir gríska ríkisins þar til engar eru eftir og yfirgefa svo landið. Grísk yfirvöld fá hvergi lán. Bótaþegar og gamalt fólk þarf að leita sér að vinnu. En kannski neyðast stjórnvöld til að lækka skatta og reyna raunveruleg úrræði til að vinna sig upp á ný. Kannski.

Sama hvað gerist held ég að Grikkland sé að mörgu leyti fyrsta blaðsíðan í nýrri efnahagssögu Evrópu. Fái Grikkir að stökkva frá skuldum sínum setur það fordæmi sem aðrir munu fylgja. Fái þeir að verða gjaldþrota er það forsmekkurinn að því sem bíður íbúa margra annarra Evrópubúa.

Elítan - stjórnmálamenn í innsta hring og eftirlætisskjólstæðingar þeirra - eru nú þegar að undirbúa sig fyrir hvoru tveggja. Þeir eru að forða verðmætum sínum úr pappírspeningum og í eitthvað áþreifanlegra, t.d. gull og silfur og dýr listaverk. Þeir eru að koma fé sínu í svokölluð skattaskjól (sem mörgum finnst vera ósiðleg leið til að bjarga eigum sínum úr brennandi húsi, en aðrir hafa sambúð með slíkri sjálfsbjargarviðleitni).

Almenningur getur ekki varið sig á sama hátt.

Ég segi: Reyndu að afla þér þjálfunar eða menntunar sem gerir þig að verðmætum starfskrafti jafnvel þótt allir bankar hrynji í kringum okkur og skuldafjallið lendir á herðum okkar. Komdu þér úr skuldum eins hratt og þú getur. Ekki gera ráð fyrir neinum lífeyri á þínum efri árum. Kynntu þér hagfræði sem gerir þér kleift að skilja umheiminn frekar en rugla hann. Og vonaðu það besta!


mbl.is Obama stendur með Grikkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband