Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Stokkið af sökkvandi skipi

Gjaldkeri Samfylkingarinnar, sem meðal annars hefur séð um umsýslu með leynisjóði íslenskra vinstrimanna, segir nú af sér. Ástæðan sem gefin er upp er að "fókusera umræðuna". Hann hefur engin lög brotið og borgar alla sína skatta og hefur ekki gert neitt rangt. Ég tek undir það - það er ekkert að því að vilja varðveita auð sinn. En hann segir engu að síður af sér. 

Þetta má nú alveg sjá í gegnum. Samfylkingin er að hverfa af landakorti stjórnmálanna á Íslandi og því skiljanlegt að menn vilji stökkva þar af borði hins sökkvandi skips. Það má gera á marga vegu og ein er sú að segja af sér og bera við einhverri allt annarri ástæðu. Þannig kemst viðkomandi hjá því að segja hreint út að ástæðan sé sú að það sé engum hollt að sitja fast á sökkvandi skipi.

Annars má alveg velta upp ýmsum möguleikum í þeirri umræðu sem nú geysar um lögleg félög og að fullu skattlögð og jafnvel félög sem er löngu búið að leggja niður eftir að þau höfðu ekki stundað neina starfsemi.

Ein er sú að allir ráðherrar segi af sér og að ríkisstjórnin verði þess í stað skipuð af ungliðahreyfingum stjórnarflokkanna. Ungliðarnir yrðu vonandi síður hræddir við að taka umdeildar en nauðsynlegar ákvarðanir, enda ekki atvinnustjórnmálamenn að hugsa um næsta endurkjör. 

Önnur er sú að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins segi af sér og skipi þess í stað trausta frjálshyggjumenn, hvar sem þá má finna. Fjármálaráðherra gæti þá orðið Gunnlaugur Jónsson og faðir hans Jón Steinar Gunnlaugsson gæti orðið innanríkisráðherra. Óli Björn Kárason gæti orðið atvinnuvegaráðherra á meðan Sigríður Andersen tæki við menntamálaráðuneytinu, svo dæmi séu tekin. 

Já, hví ekki?


mbl.is Hættir sem gjaldkeri Samfylkingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilhjálmur á ekki að segja af sér og heldur ekki Sigmundur

Nú eru eignafélög trúnaðarmanna í íslenskum stjórnmálum óðum að skjóta upp kollinum. Skoðun mín í fyrri pistli var sú að forsætisráðherra ætti að segja af sér því hann sagði ekki af fyrra bragði frá öllu er tengdist félagi konu hans og að það væri umfram allt klaufalegt. Nú hefur mér snúist hugur. Hann á ekki að segja af sér vegna þess máls. Gjaldkeri Samfylkingarinnar, sem ólíkt konu forsætisráðherra greiðir skatta af sínu félagi erlendis, á heldur ekki að segja af sér.

Menn eiga einfaldlega að fá að eiga sín félög í friði og á meðan öllum lögum er framfylgt á enginn að þurfa að skammast sín fyrir að flýja háa skatta eða veika gjaldmiðla eða pólitíska óvissu. Stjórnmálamenn ættu raunar að taka skrefið lengra og koma íslensku ríkisvaldi út úr peningaframleiðslu og að sem mestu leyti úr skattheimtu. Þá þyrfti enginn að flýja neitt til að forða fé sínu frá verðbólgubáli eða eignaupptöku. 

Stjórnmálamenn eiga samt að segja frá slíkum hagsmunum sínum og ráðstöfunum ef þeir vilja ekki lenda í sviðsljósinu vegna þeirra. 

Nú er að halda í sér andanum og vona að þessi aflandsfélagaumræða gangi yfir sem fyrst svo menn geti haldið áfram að vinna vinnuna sína.


mbl.is Aflandsfélagið ekkert leyndarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum Afríku kapítalisma

Fátækt ríkja er heimatilbúið vandamál þeirra.

Þetta hljómar e.t.v. kalt en hvernig getur það verið öðruvísi?

Mannkynssagan er full af dæmum um auðlindalaus sker með ómenntuðum íbúum sem tóku upp kapítalisma og urðu moldrík. 

Munurinn á Suður- og Norður-Kóreu er ekki munur á fólki, náttúruauðlindum, fjarlægð frá mörkuðum eða neinu slíku. Munurinn er viðhorfið gagnvart frjálsum markaði, virðingu fyrir eignarétti og afskiptum hins opinbera af daglegu lífi fólks.

Munurinn á bláfátækri en auðlindaríkri Kambódíu og auðlindalausa en moldríka steinklumpinum sem kallast Singapore aðeins sunnar er ekki í aðalatriðum fjarlægð frá helstu skipaleiðum. Singapore er eitt frjálsasta hagkerfi heims og þannig varð landið ríkt. 

Fyrir örfáum áratugum var Asía helsta vandamál heimsins. Þar geisuðu skæðustu hungursneyðirnar og farsóttirnar. Síðan fóru ríki Asíu að opnast fyrir heimsversluninni og finna hlutverk sitt í því flókna gagnverki sem heimsverslunin er. Afríka sat eftir í sósíalisma og Afríka er því orðið stærsta vandamálið.

Í stað þess að senda peninga og óskir um gott gengi til Afríku ættu ríkari íbúar heimsins að senda þangað beiðnir um frjálsa verslun og e.t.v. gott lesefni um ágæti hennar í leiðinni. 


mbl.is Skiptir öllu hvar fólk fæðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott en hugsanlega of seint

Ítarleg yfirlýsing og nákvæm svör við spurningum vegna eigna og umsýslu eigna eiginkonu forsætisráðherra er gott innlegg í umræðu sem einkennist sennilega fyrst og fremst af upphrópunum. 

Það er hæpið að forsætisráðherra hafi í starfi sínu barist gegn hagsmunum almennings til hagsbóta fyrir eiginkonu sína. Það er sennilega rétt að eiginkonan hefur tapað miklu fé og síður en svo grætt á starfi eiginmanns síns. 

Hins vegar er óheppilegt að hjónin hafi ekki verið búin að sjá þetta mál fyrir með því að lýsa aðstæðum sínum áður en einhver blaðamaður fór að grafast fyrir um hagsmuni þeirra og eignir.

Sennilega þarf forsætisráðherra að segja af sér til að tryggja vinnufrið fyrir ríkisstjórnina. Hann gæti komið vel út þannig og mætt tvíefldur til leiks í næstu kosningum. Það væri enginn ósigur fyrir hann sem stjórnmálamanns. 

Það er að vísu engin hefð fyrir því að ráðherrar segi af sér á Íslandi. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon eru hér bestu dæmin. Þau mega telja sig heppin að hafa ekki verið dregin fyrir einhvern rannsóknarréttinn til að svara fyrir verk sín.

Ég vona að forsætisráðherra segi af sér svo málefni hans flækist ekki fyrir ríkisstjórninni. Hann getur svo bara boðið sig fram aftur. 


mbl.is Hvað snýr upp og niður?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf Samkeppniseftirlitið ekki að koma hér að?

Víða finnast skrifstofur mannaðar opinberum starfsmönnum sem telja sig vita hvað sé hæfilegur fjöldi fyrirtækja á tilteknum markaði og jafnvel hvaða verð þau eiga að bjóða upp á. Stundum banna þeir samruna fyrirtækja, stundum hvetja þeir til þess að fyrirtækjum sé sundrað. Þeir geta ekki þvingað fjárfesta til að koma inn á markað en þeir geta haldið þeim sem fyrir eru í gíslingu og bundið bæði hendur þeirra og fé í taprekstri og sóun verðmæta.

Nú verða flugfélögin sem fljúga leiðina Keflavík-Kaupamannahöfn þrjú talsins. SAS mun sennilega reyna að afla sér markaðshlutdeildar með því að bjóða verð sem standa tæplega undir kostnaði. Önnur munu þá þurfa að gefa eftir hagnað sinn til að mæta þeirri samkeppni. Kannski verður einhver undir en viðbúið er að einhverjar breytingar þurfi að eiga sér stað.

Þetta er fullkomlega eðlilegt og hluti af frjálsum markaði. Svarið er því nei, hér er ekkert verkefni fyrir Samkeppniseftirlitið og raunar mætti leggja það niður án þess að nokkur yrði verr staddur, nema e.t.v. opinberir starfsmenn sem missa störf sín. 


mbl.is SAS með daglegt flug til Kaupmannahafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páfi hoppar á samskiptatækni hins frjálsa markaðar

Páfinn er þekktur fyrir það að meðal annars bölsóttast út í hinn frjálsa markað. Þar sér hann ekkert nema eigingirni, græðgi, misskiptingu og kúgun. Það er miður. 

Það er þá viss huggun í því að hann segi eitt en geri annað og taki í notkun hina ýmsu samskiptamiðla hins frjálsa markaðar til að koma boðskap sínum áfram og minna á tilvist sína.

Með nokkrum snertingum á snjallsímanum sínum getur páfi nú komið skilaboðum til milljóna fylgjenda á augabragði. Hann þarf ekki lengur að nota póstþjónustu hins opinbera eða senda út fréttatilkynningar til gamaldags fjölmiðla. Nei, á sama hátt og tveir unglingar skiptast á nektarmyndum yfir hálfan hnöttinn getur páfi nú boðað fagnaðarerindið milliliðalaust. 

Það er jú líka svo að hin kaþólska kirkja hefur, sögulega séð, ekki alltaf látið gangverk hins frjálsa markaðar standa í hálsinum á sér. Raunar hefur því verið haldið fram að "market economics is not contradicted by binding Catholic teaching but rather supported by it". Kannski páfi þurfi að kynna sér skrif fyrri páfa til að átta sig á því.

Páfa býð ég velkominn á Instagram og Twitter og þótt ég muni ekki fylgjast með honum þar (frekar en svo mörgum öðrum) þá vona ég að hann nái markmiðum sínum með notkun þessara samskiptamiðla. 


mbl.is Páfi mættur á Instagram og setti met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafbílar flytja mengun frá ríkum til fátækra

Rafbílavæðingin svokallaða er að mörgu leyti ágæt. Rafbílar blása ekki sóti og ögnum yfir fólk og götur þar sem þeir eru keyrðir. Þeir eru hljóðlátir. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Enn þarf að framleiða orkuna sem rafbílarnir nota. Þetta rafmagn er yfirleitt framleitt í stórum orkuverum fjarri götunum sem rafbílarnir keyra frá. Í sumum tilvikum er sú orka framleidd í löndum eða á svæðum þar sem mengun er frekar umborin en í stórborgunum þar sem rafbílafólkið á heima. Mengunin er því bara færð til - færð frá svæðum ríka fólksins til svæða fátæka fólksins.

Rafgeymar rafbílanna eru svo kafli út af fyrir sig. Þeir innihalda sjaldgæfa málma og önnur efni sem rjúka nú upp í verði á heimsmarkaði. Þeir innihalda líka allskyns efni sem eru beinlínis eitruð og er erfitt að losna við eða endurvinna.

Ég vona að það takist að venja heiminn af olíu og gasi og finna eitthvað snyrtilegra sem er engu síður meðfærilegt og sem um leið breytir því valdajafnvægi í heiminum sem olían styður við. Rafbílar eru kannski nauðsynlegur hvati í því samhengi. En rafbílarnir eru ekki eintóm blessun. 


mbl.is Bylting í dönskum bílasamgöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugalaus karlmaður kemur í stað drífandi kvenmanns

Lög um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja leiða nú til þess að áhugalaus eða framtakslaus karlmaður verður kjörinn í stjórn fyrirtækis í stað áhugasams og drífandi kvenmanns. Til hamingju með það, Alþingi Íslands og stjórnvöld öll!

Sem betur fer eru ekki til kynjakvótar um heimili. Slík lög kvæðu eflaust á um jafnt hlutfall fullorðinna karla og kvenna á heimilinu og myndu þannig í raun banna hjónabönd eða sambúð samkynhneigðra. 

Sem betur fer eru ekki til kynjakvótar í starfsgreinum. Þá yrði að segja upp yfir 50% af hárgreiðslukonum landsins og senda þær í störf sem þær hafa minni áhuga á. Byggingalóðir yrði um leið að manna af kvenfólki sem hefur engan áhuga á byggingarvinnu og minni líkamlegan styrk til að lyfta steypumótum og keyra þungar hjólbörur. 

Lög um kynjakvóta eru lög sem eru beinlínis andstæð öllum hugmyndum um jafnrétti einstaklinga til að leita hamingjunnar og sækja starfsframa á eigin forsendum. Lög um kynjakvóta dæma einstaklinga á grundvelli kyns. Þau dæma suma úr leik og aðra inn í leikinn eingöngu á forsendum kyns. Lögum um kynjakvóta má að þessu leyti líkja við gömlu suður-afrísk lög um kynþætti. Þau ber að afnema með öllu sem fyrst.  


mbl.is „Rangfærslur stýrðu umræðunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á nú endanlega að tryggja kjör Trump til forseta?

Anonymous, hópurinn sem meðal annars hefur ráðist á vefsíður íslenska ríkisins vegna hvalveiða Íslendinga, virðist ætla að tryggja Donald Trump kjör sem forseta Bandaríkjanna með gríðarlegri fjölgun samúðaratkvæða til hans.

Stuðningur við Trump er mikill og má e.t.v. að miklu leyti kalla óánægjufylgi - óánægju með boðskap annarra frambjóðenda. 

Ég er enginn stuðningsmaður Trump. Ef ég fengi kosningarétt í Bandaríkjunum yrði minn maður frambjóðandi bandaríska frjálshyggjuflokksins, Gary Johnson, og boðskapur hans er gjörólíkur boðskap Trump (og raunar Sanders og Clinton líka). 

Það er synd að hakkarahópur skuli óbeint hampa Trump með aðgerðum sínum, rétt eins og það var synd að hann skyldi leggjast gegn sjálfbærum hvalveiðum Íslendinga með skemmdarverkum. Það er stór munur á þessum hópi og aðalpersónu V for Vendetta þótt báðir aðilar skarti sömu grímu. 


mbl.is Í allsherjarstríð gegn Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef það virkar fyrir kvikmyndaiðnaðinn ...

Nú þarf varla að deila um það að niðurgreiðslur til einhverrar starfsgreinar valda uppsveiflu fyrir nákvæmlega þá starfsgrein. Menn deila helst um réttmæti þess að sumir fái niðurgreiðslur en ekki aðrir - að kvikmyndagerðarmenn geti þegið fé úr vasa ræstitæknisins eða forritarans til að hækka laun sín og auka umsvif.

Kvikmyndaiðnaðurinn fær beina styrki í formi endurgreiðslu. Snyrtilegra hefði verið að afnema skatta á kvikmyndaiðnaðinn, t.d. gera laun og búnað vegna kvikmyndaframleiðslu undanþegin virðisauka- og tekjusköttum.

Um leið mætti reyna að skapa álíka uppsveiflu í öllum öðrum atvinnugreinum á Íslandi, sem sagt með því að afnema skatta á laun og kaup á vörum og þjónustu með öllu.

Það getur varla verið pólitískt markmið að tryggja eingöngu samkeppnishæfni afþreyingariðnaðarins því nóg er af afþreyingu - nánast offramboð.

Það getur varla verið pólitískt markmið að sjúga fé, getu, svigrúm og umsvif úr starfssemi sem stendur á eigin fótum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi - að fullu skattlögð og án undanþága frá opinberri innheimtu - til að niðurgreiða afþreyingu. Afþreyingu!

Því af hverju ætti ríkisvaldið að leggja meiri áherslu á framleiðslu afþreyingar en t.d. hönnun og framleiðslu stoðtækja, fiskvinnslutækja og hugbúnaðar, svo dæmi séu tekin?

Leiðist stjórnmálamönnum svona mikið?


mbl.is Hækkun tryggir samkeppnishæfni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband