Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Hin einkareknu heilbrigðiskerfi (á Íslandi)

Á Íslandi er heilbrigðiskerfið að mestu leyti ríkisrekið (fjármagnað fyrir skattfé og rekið af hinu opinbera). Á því finnast þó veigamiklar undantekningar. Það gleymist oft. Það gleymist oft því þeir afkimar heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem eru höndum einkaaðila eru sjaldnast í fréttum. Í þeim finnast ekki verkföll og frá þeim streyma ekki beiðnir til stjórnmálamanna um að setja meira fé í tækjakaup eða nýjustu tækni. 

Augljósasta dæmið finnst mér vera heilbrigðisþjónusta sjónleiðréttinga. Er einhver skortur á úrvali fyrir þá sem vantar sjónleiðréttingu? Það held ég ekki. Menn geta valið allt frá ódýrum og stöðluðum gleraugum í næsta apóteki (eða Kolaportinu) til fullkomnustu tækni leiseraðgerða. 

Annað dæmi er heilbrigðisþjónusta vöðvahnúta. Menn geta farið í nudd og látið labba á bakinu á sér eða smyrja það með hitakremi eða stinga á sig með nálum. Hérna er úrvalið mikið og verðlagið undir mikilli pressu vegna samkeppni.

Enn eitt dæmið er heilbrigðisþjónusta heyrnaskerðingar. Síðan árið 2003 hafa einstaklingar fengið að borga meira úr eigin vasa fyrir heyrnatæki en áður, og síðan 2006 hafa biðlistar eftir slíkum tækjum ekki verið til staðar. 

Einkarekin heilbrigðisþjónusta finnst vissulega á Íslandi, og hún blómstrar, læknar, flytur inn nýjustu tækni jafnóðum, starfar í bullandi samkeppnisumhverfi, og skilar hagnaði fyrir eigendur hennar.

Ég er einn af þeim heppnu sem hef fyrst og fremst haft þörf fyrir þá er snýr að sjónleiðréttingum og fyrir það er ég mjög þakklátur. Ég óska fleirum þess að geta verslað við veitendur heilbrigðisþjónustu á hinum frjálsa markaði, þeirra vegna. 


Trúir þessu einhver?

Verðbólga á evrusvæðinu hélst óbreytt í júnímánuði frá fyrri mánuði. Hún hefur nú mælst 0,5% fjóra mánuði í röð og hefur ekki verið eins lág frá því haustið 2010.

Trúir þessu einhver? Látum okkur sjá: Magn evra í umferð hefur aukist gríðarlega á seinustu árum. Það er um það bil tvöfalt á við það fyrir 10 árum síðan. 

euro-area-money-supply-m3

Hefur verðlag tvöfaldast síðan þá? Nei, ekki endilega. Hvað þýðir það? Það þýðir að tvöfalt fleiri evrur eru nú að elta svipað magn af vörum og þjónustu án þess að verðlag hafi hækkað. Það gengur ekki upp. Annaðhvort eru menn því að leika sér með "mælingar" á verðbólgu þannig að "óþægilegar" verðhækkanir eru vigtaðar niður, eða eitthvað annað og undirliggjandi er að eiga sér stað sem mun, eins og þyngdaraflið sem á endanum nær eplinu af trénu, láta á sér kræla seinna.

Síðan er það þessi blessaði ótti við verðhjöðnun, svona eins og hún sé slæmt út af fyrir sig.  Hún er vissulega slæm fyrir marga, t.d. skuldara, en góð fyrir aðra, þ.á.m. þá sem eru í vinnu og sjá laun sín duga fyrir fleiri og fleiri nauðsynjum og auknum sparnaði (sögulega hafa laun í umhverfi verðhjöðnunar lækkað hægar en verðlag almennt, og kaupmáttur launþega vex því að öllu jöfnu í umhverfi verðhjöðnunar, sem er gott). Að "óttast" verðhjöðnun er eins og að óttast kalt veður af því maður er búinn að borða óhollan mat og klæða sig illa í langan tíma og veikja ónæmiskerfi sitt svo mikið að það megi ekki við neinu. 

Annars er þessi frétt eins og hún leggur sig dæmi um að fáir virðast hafa lært nokkurn skapaðan hlut af hruninu á fjármálakerfum heimsins haustið 2008. Menn tala um bjartari tíma, að kreppunni sé lokið og fleira slíkt. Allt slíkt tal má afskrifa strax. Kreppunni er ekki lokið. Bankakreppan var afgreidd þannig að ríkisgjaldþrotakreppa er framundan. Hún verður miklu verri. 


mbl.is Verðbólga enn 0,5% á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknir skapa störf

Seðlabanki Íslands útilokar ekki að taka starfsemi tryggingamiðlara til rannsóknar vegna umsvifa þeirra eftir að gjaldeyrishöftin voru sett 2008. Varða hugsanleg rannsóknarefni sölu á tryggingasamningum fyrir hönd erlendra tryggingafélaga.

Þetta virðist vera við hæfi. Síðan höftin voru sett á hafa "rannsóknir" Seðlabanka Íslands aukist mjög í umsvifum. Margir hafa fengið vinnu við að framkvæma þessar rannsóknir. Margir fá þannig að ganga í jakkafötum og vera með bindi og framkvæma yfirheyrslur. Nú er búið að rannsaka útgerðarfyrirtæki og venjulegt fólk sem notar kreditkortið sitt til að versla á netinu. Næstir eru tryggingamiðlarar. Það er rökrétt. Við þurfum að halda þessu fólki í Seðlabanka Íslands uppteknu við eitthvað, ekki satt?

Boð og bönn eru lífskraftur ríkisvaldsins og á þeim dafnar það og þenst út.  


mbl.is Grunur um brot á lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það skrýtið?

Maður um tvítugt varð fyrir fólskulegri árás í strætóskýli við Vonarstræti um hálf sjö leytið í gærkvöldi. Ástæða árásarinnar virðist sú að hann átti ekki strætómiða til að gefa árásarmanninum. Fjölmargir gengu fram hjá þar sem fórnarlambið lá í blóði sínu án þess að veita honum aðstoð.

Maður er barinn til óbóta og gangandi vegfarendur gera ekkert til að aðstoða hann. Þetta finnst einhverjum vera skrýtið. Hvernig stendur á því?

Margir telja ranglega að við séum einstaklingar sem eigum að taka helstu ákvarðanir í lífum okkar. Það er rangt. Við eigum að detta með lokuð augun aftur á bak og bíða eftir að vera gripin af hlýjum en kæfandi faðmi ríkisvaldsins.

Það er ekki okkur að kenna að einhver verði fyrir líkamsárás. Er þetta ekki bara einhver eiturlyfjaneytandi sem lenti í handrukkun? Svoleiðis lið getur átt sig, eða látið lögregluna hirða sig (sé hún ekki of upptekin annars staðar að elta uppi unglinga með vímuefni á sér eða loka stöðum sem bjóða upp á dans fáklæddra meyja).

Það gæti haft í för með sér kostnað og óþægindi að aðstoða náungann. Nægur er nú kostnaður okkar af skattheimtu til að fjármagna aðstoð við allt og alla, jafnvel fullfrískt, vinnandi fólk með háar tekjur (sem þiggur fæðingarorlof, barnabætur og niðurfærslur lána úr vösum skattgreiðenda). Kerfið á að sjá um að aðstoða þá sem lenda í óhöppum eða eru óheppnir. Til þess eru skattarnir.

Sú tíð er liðin þegar almennir borgarar stóðu saman gegn óréttlæti heimsins og það er hið besta mál. Ríkið afvopnaði almenning og lofaði að sjá um baráttuna gegn því illa. Það er gott mál. Við viljum að ríkisvaldið sé eitt með vopn á hendi. Við sauðsvartur almúginn eigum ekki að þurfa sjá um að stöðva glæpamenn eða hlúa að fórnarlömbum glæpamanna. Til þess er ríkið.

Að maður liggi í blóði sínu á fjölfarinni götu og sé ekki sinnt af neinum: Er það skrýtið? Nei, það er ekki skrýtið. Það er skiljanlegt. 


mbl.is Lá í blóði sínu og allir gengu hjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld og góð hugmynd

Alm­ar Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda, seg­ir að hið ís­lenska vöru­gjalda­kerfi sé ósann­gjörn skatt­heimta sem mis­muni vöru­flokk­um og at­vinnu­grein­um. Hann seg­ir kerfið vera úr­elt og að stjórn­mála­menn verði nauðsyn­lega að sýna kjark og af­nema tolla og vöru­gjöld á öll­um sviðum.

Amen!

Hér er á ferðinni hugmynd sem er allt í senn góð, einföld og réttlát.

Margir Íslendingar hafa flækt sig í þeim frumskógi sem innflutningur til Íslands er. Gegnsæið er vægast sagt lítið í því ferli. Ekki er nóg með að innflutningi fylgi oft tollur og nær alltaf virðisaukaskattur. Ofan á allt þetta bætist allskyns önnur bein og óbein skattheimta (t.d. aðflutningsgjald, oft vörugjald, ýmsar tegundir úrvinnslugjalda og stundum eftirlitsgjald). Kerfið er svo flókið að ríkisvaldsins rekur svokallaðan tollskóla fyrir starfsmenn sína. Stundum dugir ekkert minna en svolítil skólaganga til að vita hvernig á að tolla koparvír úr hreinsuðum kopar sem er meira en 6 mm að þvermáli (sem ber vel á minnst 0% toll en 25,5% virðisaukaskatt auk þess sem 15 kr bætast við í úrvinnslugjald á pappírsumbúðir og 16 kr í úrvinnslugjald á plastumbúðir, skv. Tollskránni, flokkur 7408.1100).

Ég sendi t.d. móður minni gjöf með pósti til Íslands um daginn (lítið raftæki). Varan kostaði um 7000 íslenskar krónur fyrir mig (með sendingarkostnaði og virðisaukaskatti hér í landi). Sendingin skilaði sér til Íslands og hvað gerist þá? Önnur eins upphæð bættist við í innheimtu. Samt var heildarverðmæti varningsins undir þeim mörkum sem íslensk yfirvöld telja tollskyld. Að eitthvað sé kallað tollfrjálst er engin ávísun á að varan komist inn í landið án mikillar opinberrar gjaldheimtu.

Ég segi stundum að því verra sem ástandið er í einhverju ríki, því erfiðara er að fá vegabréfsáritun inn í það. Ætli megi ekki segja svipaða sögu um vöruinnflutning?

Það kæmi mér ekki á óvart ef 95% Íslendinga hefðu einhverja reynslu af "ólöglegum innflutningi" á einhverju. Betra er krókur en kelda, eins og einhver sagði, og ég tala nú ekki um ef keldan er svona fjárþyrst. 


mbl.is Vilja afnema tolla og vörugjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn getur gert hvað sem hann vill

Vátryggingamiðlarar sem þjónusta erlend tryggingafélög segja fund með sérfræðingum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME) í gær ekki hafa eytt óvissu um það hvort ýmsar gerðir tryggingasamninga verði metnar ólögmætar. 

Sem kunn­ugt er hef­ur regl­um um gjald­eyr­is­mál verið breytt þannig að sparnaður á veg­um er­lendra trygg­inga­fé­laga hef­ur verið bannaður.

Þá höfum við það. Seðlabanki Íslands breytti reglum og gerði þannig marga samninga ólöglega. Athugið: Reglum var breytt, og það gerði samninga ólöglega. Lögin standa óbreytt, en af því Seðlabanki Íslands getur gert hvað sem hann vill þá urðu reglubreytingar hans til þess að samningar urðu ólöglegir. Seðlabanki Íslands er eins og ríki í ríkinu sem ræður því sem hann vill ráða. Embættismenn innan Seðlabanka Íslands hljóta að ganga um í blautum nærbuxum vegna ánægju með þau miklu völd sem þeir hafa.

Það er kominn tími til að Íslendingar íhugi alvarlega tilganginn með því að hið íslenska ríki reki seðlabanka. Seðlabanki Íslands er stjórntæki. Með honum má þurrka út sparnað Íslendinga með seðlaprentun til að bæta stöðu útflutningsfyrirtækja. Með honum má lækka kaupmátt launa á Íslandi til að bjarga gjaldþrota og skuldsettum fyrirtækjum frá gjaldþroti (gjarnan fyrirtæki sem eru í náðinni hjá stjórnmálamönnum). Með honum má beina fjárfestingum lífeyrissjóða inn í ríkissjóð. Með honum má blása í bólur rétt fyrir kosningar til að laða kjósendur að ráðandi stjórnmálaflokkum. Með honum má raða embættismönnum inn í stjórnkerfið og búa til þæga kjósendur úr þeim - kjósendur sem fá að ganga um í jakkafötum á daginn og halda ráðstefnur með öðrum í jakkafötum.

Seðlabanka Íslands á að leggja niður.  


mbl.is Seðlabanki boðar svör á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningar og fyrirmæli

Í einni ágætri bók stendur (á bls. 168-169):

Government regulation not only usurps the authority of owners to control the use of their property, but the power to transfer their claims of ownership via contracts with others. As we have seen, a contract is but an agreement, by two or more persons, to exchange claims to the ownership of their respec-tive property interests. Thus, when the state, through its regu-latory practices, intervenes to alter the terms of this contract, or to decree, under statutes defi ning legal status, who can be contracting parties, it is denying people control over their prop-erty interests. Extended to its logical conclusion, such regula-tions amount to a denial of the self-ownership of the contracting parties, as they are denied the liberty of controlling their own efforts and resources to sustain themselves. 

Frekari rök fyrir þessari afstöðu er vitaskuld að finna í bókinni. Kjarni málsins er þessi: Tveir aðilar gerðu með sér löglegan samning. Ríkisvaldið setti síðan lög eða reglur sem gera samninginn ólöglegan. Ríkisvaldið ógilti í raun samninginn. Báðir samningsaðilar tapa, og ríkisvaldið græðir (fyrst og fremst í formi valda fyrir embættis- og stjórnmálamenn yfir okkur hinum, því fjárhagslegur ávinningur verður lítill sem enginn fyrir hið opinbera).

Verður ríkisvaldið dregið fyrir dómstól og krafið um skaðabætur? Nei, ætli það.

Má ríkisvaldið kannski bara gera hvað sem það vill með alla samninga og allar eigur allra? Mér sýnist það. 


mbl.is Ávöxtunin í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert orð: 'Skilaskylda'

Sumir fremja rán og aðrir þjófnaði. Sumir beita ofbeldi, taka í gíslingu og stunda barsmíðar.

Síðan eru það þeir sem skattleggja og leggja á "skilaskyldu". Þá eru það þeir sem framfylgja skólaskyldu og dæma til fangelsisvistar.

Hættir glæpur að vera glæpur þegar nafninu á honum er breytt? 

Íslendingar eru geðklofa þjóð.

Annar persónuleikinn er kröfuharður og gagnrýninn: Íslendingar eiga varla til orð af hneykslun þegar þeir skoða vöruúrval og verðlag í venjulegum verslunum. Þeir heimta meiri samkeppni. Þeir vilja meira úrval, lengri opnunartíma og lægra verð. Þeir vilja nýjustu tækni. Þeir vilja að verslanir séu hreinar.

Hinn persónuleikinn er dofinn og samdauna umhverfi sínu: Íslendingar láta ríkisvaldið svoleiðis traðka á sér að gólfmottur fá minnimáttarkennd. Skattar eru hækkaðir án mótmæla. Ríkissjóður safnar skuldum án þess að því sé mótmælt. Þjónusta er skorin niður. Biðlistar skammta þjónustu sem færri og færri geta notið þótt hún kosti sífellt meira. Krakkar koma ólæsir úr skólunum, fólk kemur lasið af sjúkrahúsum og peningarnir okkar fuðra upp á verðbólgubáli hins opinbera án þess að yfirgangi ríkisvaldsins sé mótmælt.

Hvernig væri að fá svolítið af kröfuharða Íslendingnum til að berjast gegn stanslausum yfirgangi hins opinbera? Ef enginn heldur aftur af ríkisvaldinu þá fer það sínu fram þar til við sitjum öll eftir í skuldasúpunni, með verðlausa peninga og í umhverfi nær algjörrar skattheimtu á öllu sem kallast verðmætt. 


mbl.is Getur orðið skilaskyldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til að lóga hestinum

Í Eyj­unni í dag sagði Már að auðvitað hefi gengið á ýmsu síðan en hann væri bú­inn að velta mál­inu tölu­vert mikið fyr­ir sér og sæi það þannig að Seðlabank­inn væri nú eins og stadd­ur í miðri á þar sem ekki væri sniðugt að stökkva af hest­in­um.

Seðlabankastjóri beitir frumlegum rökum fyrir áframhaldandi setu sinni á hrossinu sem kallast Seðlabanki Íslands. Hann hafi leitt hestinn út í miðja á og eigi að fá að klára ferðalagið yfir ána.

Þessum hesti mætti lóga og knapann mætti senda í frí eða á himinhá eftirlaun. Seðlabanka Íslands má áhyggjulaust leggja niður og ríkisvaldið getur um leið komið sér út úr peningaútgáfu með öllu. Seðlabankar eru tiltölulega nýleg uppfinning og fyrst og fremst tæki stjórnmálamanna til að framleiða fé ofan í ríkiskassann þegar skattheimtu er ekki hægt að auka meira. Bankarnir hafa stutt slíka starfsemi enda græða þeir vel á henni. Við hin sitju uppi með rýrnandi kaupmátt peninganna (verðbólga) og látum mata okkur á þvælu um að verðbólga sé "nauðsynleg" og að stanslaus rýrnun á kaupmætti peninganna "styrki útflutning" og að það sé betra en að sparnaður okkar haldi verðgildi sínu.

Í Bandaríkjunum og víðar hafa sprottið upp hreyfingar fólks [1|2|3] sem hefur séð í gegnum þá svikamyllu sem ríkisrekinn seðlabanki er. Er kominn tími á slíka á Íslandi? 


mbl.is Már sækir aftur um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkurborg styrkti?

Mikið er nú ánægjulegt að Reykjavíkurborg hafi "styrkt" stúkugerð í mínu gamla hverfi, Árbænum, um næstum því 100 milljónir. 

Auðvitað styrkti Reykjavíkurborg samt ekkert. Borgin tók fé með valdi frá útsvarsgreiðendum og borgaði fyrir jákvæða fjölmiðlaumfjöllun á borgarfulltrúum.

Hið ánægjulega er söfnun íbúanna í hverfinu fyrir stúkunni. Hún er til fyrirmyndar. Hitt - ránið hjá hinu opinbera sem var notað til að fjármagna óbeina auglýsingaherferð borgarfulltrúa á sjálfum sér - er verra.  

Ætli lægra útsvar í svona lagað hefði stuðlað að enn meiri velgengni í hinni frjálsu fjármögnun? Við komumst sennilega aldrei af því. Það er líka galdurinn: Það sem hið opinbera fjármagnar með ráni er sýnilegt og oft tilkomumikið. Hitt, sem aldrei leit dagsins ljós vegna ránsins, er engum sýnilegt.  


mbl.is Söfnuðu fyrir nýrri stúku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband