Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Út að keyra, skattleggja meira, háls nef og eyra

Árið 1989 birtist í áramótaskaupinu atriði sem hafði af einhverjum ástæðum djúp áhrif á mig, 11 ára snáða. Ég átti skaupið á upptöku (VHS) og hlustaði ítrekað á það til að heyra textann, vélrita og eiga. 

Með vélrita meina ég: Skrifa á ritvél. Þetta var áður en heimilið eignaðist tölvu og hvað þá prentara. 

Kannski var þetta atriðið sem gerði mig að frjálshyggjumanninum sem ég uppgötvaði mörgum árum seinna að ég væri.

Hvað um það. Þetta atriði kemur mér oft til hugar. Það er kannski við hæfi að hafa textann allan eftir:

Skattmann!
Morgunstund gefur gull í mund.
Skattleggja alla,
konur og kalla.
Út að keyra,
skattleggja meira,
háls, nef og eyra.
Berja, kýla, slá, vá!
Loka, hlekkja,
halda áfram að svekkja,
hér kemur ekkja.
Berja, kýla, slá,
farðu svo frá.
Skattleggja allt,
ríka sem snauða,
fæðingu og dauða,
ástir og unað,
allt nema munað.
Berja, kýla, slá,
mér liggur á!
Skattmann.
Lok, lok og læs,
svona er ég næs!

Þessi texti er auðvitað barn síns tíma. Fyrir utan að skattleggja ekkjur, fæðingu og dauða er núna verið að skattleggja okkur fyrir að prumpa, anda, keyra og henda rusli í ruslafötuna. Nýlega byrjuðu íslensk yfirvöld að fjármagna vopnakaup og svo þarf auðvitað að niðurgreiða geldingar á ungmennum og uppihald á mæðrum sem aðskilja feður og börn.

Kannski eitthvert skáldið geti tekið að sér að búa til nútímalegri útgáfu?

Í öðrum fréttum: Skatturinn á Íslandi hefur heimild til að féfletta fólk ef atvinnurekandi þess fer yfir einhver handahófskennd mörk í kostnaði við árshátíð, sem þó er að megninu til bara ferðakostnaður, matur, drykkur og gisting. Það vissi ég ekki.


mbl.is Starfsfólk gæti fengið reikning frá Skattinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bréf frá útlöndum

Mannréttindadómstóll Evrópu. Hljómar eins og mikilvæg stofnun hvers úrskurðir eru mjög mikilvægir. 

Eða voru það.

Þessi svokallaði dómstóll er auðvitað genginn af göflunum. Um daginn úrskurðaði hann að yfirvöld í Sviss hefðu ekki gert nóg til að koma í veg fyrir að hitabylgjur drepi eldri konu. Hann úrskurðaði einu sinni að dómarar á Íslandi eigi einir að fá að tilnefna fólk í stöðu dómara á Íslandi. Núna er hann að atast í fyrirkomulagi kosninga á Íslandi. 

Kannski er sumt af því sem kemur frá þessum dómstól gott og gilt og gott að hafa svona utanaðkomandi aðila til að skoða ýmis mál. Margir íslenskir borgarar hafa leitað á náðir dómstólsins og fengið eitthvað út úr því.

Um leið blasir við að hann er stjórnmálaafl til vinstri sem þarf hreinlega að byrja endurskoða með tilliti til notagildis, áhrifa og samsetningar. 

Íslendingar þurfa líka að venja sig af því að falla á hnén í lotningu þegar kemur bréf frá útlöndum. Gagnrýni er góðra gjalda verð en á stundum engan rétt á sér, satt að segja. Heldur ekki sú sem er skrifuð á útlensku.


mbl.is Spyr hvort að ekki þurfi að boða til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir sem segja þúsund orð

Í fréttum er nú sagt frá tilnefningum til barnabókaverðlauna Reykjavíkur 2024. Ég held að ég hafi aldrei heyrt um þessi verðlaun áður og fór aðeins á stúfana og rakst á mynd frá árinu 2020 sem segir þúsund orð.

bbvrvk

Í fyrsta lagi blasir við að myndin er frá veirutímum þegar handahófskenndar fjarlægðir á milli fólks utandyra áttu að koma í veg fyrir að loftborin veira ferðaðist á milli skrokka. Hjátrú sem skilaði engu, svo því sé haldið til haga.

Í öðru lagi sést hérna borgarstjóri sem er búinn að kafsigla borginni sinni í skuldum að deila út eins og milljón krónum til nokkurra listamanna úr vösum skattpíndra útsvarsgreiðenda. Veiruleikatengingin er engin.

Í þriðja lagi sést hérna hvernig stjórnmálamenn nýta hvert tækifæri til að kaupa sér vinsældir og athygli. Borgarstjóri lætur vitaskuld taka af sér ljósmynd þar sem hann er sjálfur í miðjunni og listamönnunum stillt upp í kringum hann. Það mætti ætla að borgarstjóri hafi unnið verðlaun.

Í fjórða lagi sést hérna líka dæmi um það hvernig gæluverkefnin hafa tekið algjörlega við af kjarnastarfsemi í opinberum rekstri. Af hverju er gjaldþrota borg að eyða milljón í að verðlauna barnabækur? Nú fyrir utan allan kostnaðinn við umstangið: Að finna tilnefningar, að fara yfir bækurnar, að skipuleggja veitingu verðlaunanna. Sennilega er raunverulegur kostnaður við umstangið margfalt verðlaunaféð. Vel rekin borg sem hefur efni á svona lagað getur auðvitað hent einhverjum brauðmolum í barnabókaverðlaun en þetta er ekki lýsing á Reykjavík í dag.

Í fimmta lagi er um að ræða mynd sem færi prýðilega vel í sögubókum framtíðarinnar þegar menn minnast tíma stjórnalausrar opinberrar sóunar, hjátrúar sem var kölluð vísindi, stjórnmála sem snérust um sýndarmennsku og blaðamanna sem spurðu aldrei spurninga.


mbl.is Þessi eru tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn: Þægileg innivinna

Höfum þetta bara alveg á kristaltæru: Flestir frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru að leita að þægilegri innivinnu, og, ekki síður mikilvægt, mikilli athygli.

Þeir vilja ferðast til útlanda til að drekka kampavín með útlendingum.

Þeir vilja klippa á borða.

Þeir vilja vera þægir og óumdeildir.

Kannski var þetta allt í góðu einhvern tímann, en núna eru breyttir tímar. Alþingi er á fullu að innleiða beint og óbeint framsal á fullveldi Íslands til erlendra embættismanna. 

Þingið er líka að reyna koma á fyrirkomulagi sem keyrir utan við stjórnmálin. Það er gert með því að setja lög sem leyfa ráðherrum að innleiða allskyns takmarkanir í gegnum reglugerðir. Heilu atvinnugreinarnar hafa nú þegar fengið að finna fyrir því.

Þingið er með veik hné. Minnisblað frá útlöndum fær það til að hrista og skjálfa. 

Þingið reyndi að binda Íslendinga í skuldafangelsi fyrir ekki mörgum árum síðan. Það tókst ekki af því að fyrrverandi forseti ákvað að spyrja þjóðina.

Sem leiðir hugann að hlutverki forseta í dag. 

Hann getur ekki lengur verið falleg sál sem gróðursetur tré eða klappar börnum. Forseti þarf að vera vakandi. Hann þarf að vera varðhundur. Stjórnarskráin heimilar þetta. 

Því miður segja skoðanakannanir að Íslendingar ætli að kjósa gegnumstreymisloka frekar en varnagla.

Vonum að það breytist.


mbl.is Ætlar ekki að láta skoðanakannanir ráða för
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallöxin sem hangir uppi í bili

Flestir sem lesa þetta búa í því sem oftast er kallað frjálst lýðræðisríki þar sem stjórnarskrá verndar réttindi borgaranna og heldur aftur af ríkisvaldinu, menn borga skatta til að fá aðgang að innviðum, heilbrigðiskerfi og menntastofnunum frekar en borga beint fyrir notkun á slíku, einhvers konar velferðarkerfi er til staðar sem heldur utan um marga og langa biðlista af ýmsu tagi, almenningur fær að kjósa á milli úlfa í sauðagærum og sauða með falskar tennur og svona mætti lengi telja.

Yfirleitt tökum við ekki eftir ríkisvaldinu í svona fyrirkomulagi. Samfélagið hefur sinn gang, vinna, fjölskylda og félagslíf skiptist á tíma okkar og við tökum í höndina á fólki sem við erum að kynnast. Við köllum samfélag okkar frjálst og laust við endalaus afskipti, svo sem að vera krafin um skilríki við hvert götuhorn eða bannað að hitta aðra vegna skoðana þeirra eða annarra persónulegra eiginleika. 

En við höfum líka gleymt veirutímum sem voru einmitt þessi endalausu ríkisafskipti af okkar daglega lífi. Við vissum ekki að hið opinbera gæti gert allt sem að gerði til að raska lífum okkar. Vissulega stendur einhvers staðar að neyðarástand geti kallað á ýmsar skerðingar en túlkun yfirvalda á slíkum heimildum fór úr öllum böndum og þau komust upp með það.

Það mætti segja að fallöxi hafi verið látin detta á samfélagið og skar af okkur frjálst mannlíf og samfélag.

Síðan hefur ekkert breyst nema að það er búið að toga fallöxina upp og festa.

Hún er ekki farin neitt. Það er jafnvel búið að slípa hana. Hún er þarna og vofir eins og skuggi yfir samfélaginu. Nýtt neyðarástand, eða svokallað neyðarástand, og hún verður látin falla aftur.

Mér finnst óþægilegt að vita af þessari fallöxi. Það er einhver böðullinn líka sem klæjar í fingurna að fá að sleppa henni aftur. Það gæti verið vegna stríðsátaka sem er búið að lokka inn í landið, óþarfa ótta við loftslagsbreytingar, jafnvel innfluttrar borgarastyrjaldar í boði innflytjenda og yfirvalda. Yfirvöld hafa greiðan aðgang að hugsunum flestra sem samþykkja allt sem þau segja. Það tók ekki langan tíma að hræða okkur með veiru og margir nú þegar að lamast af ótta yfir loftslaginu. Fer að styttast í að fallöxin verði send af stað aftur? Og erum við á meðan eins og kalkúnar innan girðingar sem halda að úr því þeir eru á lífi eftir 999 daga að þá verði þeir það líka eftir 1000 daga?

Persónulega er ég að reyna gera einhverjar ráðstafanir en ekki nógu mikið, satt að segja. Það er ekki hægt að treysta því að bankainnistæðan verði aðgengileg. Skólar gætu lokað. Greiðslukortin gætu hætt að virka. Það er hægt að finna skít á alla, sérstaklega á netinu, og senda á atvinnurekanda og jafnvel lögreglu. 

En ég get haldið áfram að mennta mig. Lesa bækur eftir andspyrnumenn veirutímanna. Verða ósigrandi í röksemdafærslunni. Það er líka hægt að styrkja sig líkamlega svo seinasta glundrið úr tilraunastofum yfirvalda hafi minni neikvæð áhrif. 

En mikilvægast af öllu: Að mynda gott og mikið tengslanet af fólki sem ætlar ekki að láta traðka á sér, aftur. Og þar er ég í góðum málum.


Ha, er ég ekki framfærandi?

Á Íslandi er við lýði kerfi sem mismunar foreldrum gróflega en um leið fyrir opnum tjöldum. Í þessu kerfi er foreldri barns ekki endilega framfærandi barns þótt þetta foreldri framfæri því með blöndu af meðlagi og beinni framfærslu (mat, föt, svefnaðstaða, vasapeningur, greiðsla fyrir tómstundaiðkun og svona mætti lengi telja). Raunar er það svo í íslenska kerfinu að um leið og annað foreldrið byrjar að greiða hinu foreldrinu meðlög, fyrir utan að halda uppi barninu, þá fær það ekki lengur að kalla sig framfæranda. 

Þetta er svona orðað í skattframtalinu (áhersla mín):

Á Íslandi fá framfærendur barna yngri en 18 ára ákvarðaðar barnabætur. Fullar barnabætur eru ákvarðaðar vegna barnsins fyrir fæðingarárið en engar fyrir árið þegar barnið nær 18 ára aldri. Eingöngu framfærendur barna eiga rétt á greiðslu barnabóta. Við ákvörðun þess hver telst framfærandi barns er fyrst og fremst litið til þess hjá hverjum barnið er skráð til heimilis í árslok samkvæmt Þjóðskrá og skiptir ekki máli þótt barnið hafi ekki verið skráð þar allt árið. Sá sem greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Barnabætur eru ákvarðaðar við álagningu opinberra gjalda sem fer fram árið eftir tekjuárið og eru barnabætur greiddar út í tvennu lagi, fyrri greiðslan er 1. júní og sú síðari 1. október. Sjá nánar A. lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Það mætti túlka þetta fyrirkomulag þannig að það sé einfaldlega verið að segja við feður (meirihluti meðlagsgreiðenda) að þeir fái ekki þessar blessuðu barnabætur af því að þeir greiða meðlög til móður, og óháð því hvað barnið fær að sjá föður sinn mikið og vera með honum. 

Í Danmörku enda skilnaðir foreldra oftast á jafnri umgengni, viku og viku, og meðlög eru að hluta frádráttarbær frá skatti svo foreldrar greiða oft meðlög til hvors annars og njóta þannig báðir frádráttarins (ekki í anda laganna en látið óafskipt). Barnabætur fylgja lögheimili barnsins og einnig er algengt að foreldrar deili slíkri skrásetningu (ef börnin eru fleiri en eitt) og fá þá báðir hluta af barnabótunum.

Á Íslandi er umgengni barna við föður sinn yfirleitt skert og jafnvel alveg stöðvuð, hann fær að borga meðlögin, sér ekki krónu af barnabótunum og þarf að auki að kyngja þeirri súru pillu að fá ekki að kalla sig framfæranda í pappírsvinnu hins opinbera þótt hann haldi vissulega heimili þar sem er herbergi fyrir barn (eða börn), matur í ísskápnum fyrir það og endalausir reikningar sem fylgja tómstundum þess, skólamáltíðum og fatakaupum.

Þetta er viðbjóðsleg og niðurlægjandi framkoma af hálfu hins opinbera á Íslandi og má alveg jafna að fullu við aðskilnaðarstefnu, skipulagða kúgun, mismunun gagnvart kynferði og barnaníð.

Það er fátt sem ég titla mig með meira stolti en að vera faðir með börn á framfæri - framfærandi! Að fráskildir feður á Íslandi þurfi að skrifa undir að vera ekki framfærendur til að geta skilað inn skattframtali er skipulagt ofbeldi.


Stjórnmálamenn í borðspili

Stjórnmálamenn rífast nú um það hvað sláturhúsi eigi og megi og þurfi að vera mörg. Þeir ráða því hvaða verðskrá þau eiga að bjóða viðskiptavinum sínum upp á. Þau niðurgreiða framleiðsluna og verja hana fyrir samkeppni en slíkri gjöf fylgja margar kvaðir sem binda hendur og takmarka svigrúm.

Öllu þessu má líkja við stjórnmálamenn í borðspili þar sem þeir kaupa og selja með gervipeningum í gerviveröld þar sem leikreglurnar breytast í sífellu. Við peðin látum færa okkur á milli reita þar sem fylgst er með því hvort við sveltum eða efnumst og það rætt hvort við þurfum bætur eða hærri skatta. 

Mögulega gæti landbúnaður ekki lifað af á Íslandi utan við borðspilið. Ég meina, er hrein, allt að því lífræn matarafurð af frjálsum dýrum ekki dottin úr tísku? Er nokkur eftirspurn eftir slíku fæði?

Það gengur að vísu ágætlega að reka flota af stórum skipum sem sigla við erfiðar aðstæður með dýrri áhöfn út á sjó til að sækja fisk og koma honum ferskum á diska í erlendum veitingahúsum, og græða vel á því, en matarafurðir á landi þurfa að vera í borðspili til að líta dagsins ljós, með blússandi tapi!

Ég veit að ég er að bera saman epli og appelsínur en það veit sjaldan á gott fyrir atvinnugrein og iðnað að vera fastur í borðspili stjórnmálamanna. Nú fyrir utan að ef starfsemi er í eðli sínu gjaldþrota þá á hún að mega hverfa.


mbl.is „Sláturhúsin standa tóm svo mánuðum skiptir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn fjölgar gæluverkefnum Reykjavíkur

Reykjavíkurborg hefur hlotið styrk frá Bloomberg Philanthropies til að stofna loftslagssjóð ungs fólks í Reykjavík. Hljómar eins og peningar frá himnum en auðvitað þarf eitthvað starfsfólk til að fara yfir umsóknir og sjá um bókhaldið. Hér er því um að ræða enn eina viðbótina á löngum lista yfir gæluverkefni í hinni gjaldþrota borg.

Nú fyrir utan að ungt fólk er ekki að fara leggja til neitt nothæft til málanna jafnvel þótt menn trúi á málstaðinn. Það eina sem því dettur í hug er að segja okkur að keyra minna í bíl og nota pappírsrör.

Þetta er kannski lítið og saklaust og tilgangslaust mál. Ég meina, Reykjavík sóar hundruðum milljóna nú þegar. Munar einhverju um nokkrar milljónir í viðbót?

En þetta er táknrænt. Táknrænt fyrir sveitarfélag sem hoppar á alla vitleysuna af fullum þunga og brennir svimandi upphæðum í leiðinni. Sveitarfélag sem er fyrir löngu komið langt út fyrir ramma lögskyldra verkefna sveitarfélaga. Sveitarfélag sem er rekið með það að markmiði að koma borgarfulltrúum í sem flest viðtöl svo kjósendur muni nöfn þeirra. 

Fyrir seinustu kosningar til borgarstjórnar var mikið talað breytingar. Eina breytingin er sú að greiðslukortum borgarinnar hefur fjölgað og vextirnir á þeim hækkað.

Greyið, greyið borgarbúar og jafnvel landsmenn allir sem þurfa bráðum að borga víxlana. Þeir eru eins og foreldrar fullorðins einstaklings sem neitar að vinna fyrir sér, heldur áfram að troða höndunum í veski annarra og er alltaf að reyna halda djamminu áfram.


mbl.is Reykjavík stofnar loftslagssjóð ungs fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruslið í háloftunum

Ég flutti um daginn innan Kaupmannahafnarsvæðisins. Það er næstum því að öllu leyti framför. Þó veldur eitt mér áhyggjum: Í stað þess að flokka rusl í tvo hópa er mér núna að sagt að ég þurfi að flokka í átta flokka. Já, ÁTTA!

Ég mun auðvitað komast að því hvar sársaukamörkin liggja og svindla á kerfinu eins mikið og ég get þar til ég mæti afleiðingunum (rusl er flokkað rétt á áfangastað hvort eð er), en þetta er samt ógnvænleg breyting.

Á gamla staðnum var auðveld að skilja kerfið. Flokkarnir voru tveir: Blandað heimilisrusl (umbúðir, matarafgangar) og þurrir hlutir úr plasti og pappír, auk stærri hluta eins og húsgagna, sem ég gat skilið eftir í litlum skúr sem var tæmdur reglulega.

Núna skil ég ekkert.

Mér er til dæmis sagt að flokka sérstakstaklega matarafganga. Það er viðbjóður. Ég rek lítið heimili og þarft þá að tæma mjög oft eftir langa gönguferð með sérstaka ruslapoka til að setja ofan í rotnandi hrúgu í tunnu eða gám, eða láta þetta rotna inni hjá mér. Viðbjóður hvoru tveggja. Betra er að losna við þetta með almennu heimilisrusli sem er komið í burtu með reglulegu millibili.

Mér er sagt að flokka sérstaklega plast og pappír. Hvað geri ég við umbúðir þar sem hvoru tveggja er límt saman?

Í mínum leiðbeiningum er mér sagt að henda kössum utan um flatbökur í blandað rusl. Ég hélt að slíkir kassar væru papparusl, gefið að það væru ekki heilu flatbökusneiðarnar í þeim, og auðvitað að vera lyktarlausir. Kannski er hin svokallaða endurnýting mismunandi eftir svæðum.

Ég þekki mann sem vinnur fyrir sorpmóttökustöð á Íslandi. Hann sér hvað verður um sorpið: Það er flokkað. Hann flokkar af þeim ástæðum ekki sjálfur. Ekkert.

Ég var í flugvél um daginn og á leið í slíka núna. Þar er ekkert flokkað enda ekki pláss til slíks. Hvað verður um það rusl? Það verður flokkað, af fagmönnum eða færibandi stjórnað af vélmennum.

Það læðist að mér sá grunur að öll þessi flokkunarárátta sé einhvers konar tilgangslaust ónæði sem er lagt á okkur peðin til að láta okkur virkilega finna fyrir því að við erum að tortíma plánetunni með neyslu okkar og lífsstíl. Og af engri annarri ástæðu. Sorpið fer það sem það fer, óháð því.


Þessir óþægu Afríkubúar

Fyrir ekki mörgum áratugum síðan var Asía talin stærsta vandamál heimsins. Þar voru hundruð milljóna fátæklinga sem bjuggu við hungur og vosbúð. Fellibylir þurrkuðu út heilu héröðin og neyðin var oft mikil.

Þessi tími er sem betur fer að mestu liðinn. Ástæðan er meðal annars sú að Asíubúar hafa unnið að því eins og brjálæðingar að byggja upp orkuinnviði sína sem þeir nýta til að knýja iðnað og ísskápa og gera það með kolum, olíu, gasi, vatnsafli og hreinlega öllu sem framleiðir orku (meira að segja lélegir, dýrir, óáreiðanlegir og plássfrekir orkugjafar til rafmagnsframleiðslu eins og vindur og sól eru nýttir). Lífskjör batna, það hægist á fólksfjölgun, líf lengjast og smátt og smátt opnar fólk augun fyrir vernd á loftgæðum og náttúru þegar sárasti sulturinn er að baki. 

Núna er vandamálið Afríka. Þar eru hundruð milljóna enn án rafmagns og hvað þá annarra nauðsynja nútímamannsins. Fátæktin leiðir til annarra vandamála, eins og flóttamannastraums, sjúkdóma og vosbúðar. 

En Vesturlönd hafa svolítið einkennilega nálgun þegar kemur að Afríku: Þau fordæma nánast allt sem Afríkuríki gera til að reyna bæta hlutskipti sitt.

Þeim er sagt að sleppa því að brenna jarðefnaeldsneyti til að eyðileggja ekki loftslagið hjá ríka fólkiu. Þau eiga á einhvern undraverðan hátt að geta efnast á einhvern allt annan hátt en afgangur heimsins, og vera umhverfisvæn í leiðinni. 

Gott og vel, þegar gömlu nýlenduherrarnir vilja ekki sleppa tökunum þá má reyna að þóknast þeim, og mörg Afríkuríki horfa núna til kjarnorku. Gott mál, ekki satt? Kjarnorka útvegar stöðuga orku sem réttlætir uppbyggingu á öflugu raforkudreifikerfi, veitir iðnaði möguleika á að koma sér fyrir og loftslagið upplifir ekkert nema vatnsgufu frá kæliturnunum.

Nei. Ekki nógu gott! Af hverju? Jú, af því Rússar eru að hjálpa Afríkuríkjunum með lánum, sérþekkingu og aðgangi að kjarnorkueldsneyti!

Rússar!

Við hverju bjuggust Vesturlönd þegar þau neituðu að aðstoða Afríku við að byggja upp hagkvæma og stöðuga orkuframleiðslu?

Við hverju bjuggust Vesturlönd þegar þau þóttust geta lokað Rússa af? Að aðrir heimshlutar gerðu það sama, þvert á eigin hagsmuni?

Ekki get ég svarað þessu en vegna aðgerða Vesturlanda er núna að verða til ný heimsmynd þar sem hlutverk Vesturlanda er einfaldlega minna en áður og blaðamenn okkur rassskelltir af þjóðarleiðtogum þegar þeir reyna að predika úr fílabeinsturni.

Ekki styð ég vegferð Rússa í Úkraínu þar sem menn eru að stráfalla af því tveir forsetar gátu ekki fengið að tala saman um endalok áratugar af átökum án afskipta okkar á Vesturlöndum. Öll stríðsátök eru slæm, líka þau sem við nennum ekki að mynda okkur skoðun á. En vegferð Vesturlanda er mér einnig stórt áhyggjuefni því ég bý á Vesturlöndum og sé að það verið að mála stórt skotmark á þau um leið og leiðtogar Vesturlanda þykjast ennþá vera (yfirlætisleg) rödd á heimssviðinu.


mbl.is Katrín mælist með mesta fylgið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband