Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Besta hækja Samfylkingarinnar

Skammtímaminni Íslendinga er slæmt þegar kemur að stjórnmálum. Hér er því örlítil upprifjun:

Samflot S-flokkanna

Eftir kosningar 2007 mynduðu Sjálfstæðismenn og Samfylking ríkisstjórn. Hún átti að vera öflug og eiga sér fáa mótstöðumenn, enda með mjög mikinn þingstyrk. Eitthvað þróaðist samt stjórnarsamstarfið í óheppilega átt strax í upphafi

 Samstarf S-flokkanna er ekki sá happadráttur sem frjálslyndir hægrimenn vonuðust eftir. Samstarf þessara flokka er nauðsynlegt til að halda sem flestum vinstriflokkum utan ríkisstjórnar en  þar við situr. Pólitískt hugleysi Sjálfstæðismanna í stjórnarmyndunarviðræðunum olli miklum vonbrigðum. Pólitísk ofvirkni Samfylkingar í sumarfríi Alþingis hefur slegið út drungalegustu spár um tækifærismennsku og sýndarleik.

Samfylkingin var í stöðugum hótunum við stjórnarsamstarfið og beitti þar ESB-vendinum á Sjálfstæðismenn, sem þorðu ekki annað en láta undan. Síðan kom hrun, og Samfylkingarmenn nýttu tækifærið og hlupu eins langt frá yfirvegun og ábyrgð og hægt er að hugsa sér uns stjórnarsamstarfið varð úr sögunni, og pólitísk óvissa bættist ofan á þá efnahagslegu. 

Framsóknarhækjan

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var hrakin frá völdum í ársbyrjun 2009 tókst Samfylkingunni að sannfæra Framsóknarflokkinn um að styðja við minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna. Framsókn hugsaði sér gott til glóðarinnar og lét vaða yfir sig með fúkyrðum og skömmum þar til kom að kosningum. Eftir þær kosningar var ekki lengur þörf á stuðningi Framsóknarmanna og þeir fengu ekkert í skiptum fyrir undirlægjuhátt sinn.

Kattasmölunin

Samstarf VG og Samfylkingar hefur ekki gengið vel. Það eina sem þessir tveir flokkar eru sammála um er að skattahækkanir séu nauðsynlegar og að niðurskurður í ríkisrekstrinum sé slæmur. Um annað hafa þessir flokkar deilt. Jóhanna uppnefnir vinstri-græna í opinberum ræðum, og vinstri-grænir sundrast innbyrðis í því hvað þeim eigi að finnast um það. 

Ekki einu sinni vinstri-grænum hefur tekist að gera Samfylkinguna ánægða. 

Besta hækjan?

Besti flokkurinn telur sig vita hvar hann hefur Samfylkinguna. Samfylkingin mun ekki hika við að bjóða gull og græna skóga í skiptum fyrir pláss í hlýju valdanna. Skipulagsbreytingar þetta og einföldun hitt - Samfylkingin verður ekki lengi að kinka kolli við öllu þessu og meira til.

Besti flokkurinn situr núna við "samningaborðið" með Samfylkingunni. Mun Jóni Gnarr takast það sem engum hefur áður tekist í íslenskri pólitík, og vinna með Samfylkingunni í stað þess að vera í eilífum innherjaerjum við hana?


mbl.is Besti og Samfylking ræða saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er skaðinn af fíkniefnum lágmarkaður?

Ég geri mér grein fyrir því að ég tilheyri litlum minnihlutahópi sem virðir sjálfseignarrétt einstaklinga og vil ekki hafa nein afskipti af því hvað einstaklingar geri við eigin skrokk, hvort sem það er húðflúrun eða neysla hinna ýmsu efna (á meðan þeir beita ekki aðra beinu ofbeldi við iðju sína). Ég get reynt að sannfæra einstaklinga um að láta fíkniefnaneyslu eiga sig, en hef engan siðferðislegan rétt til að beita þá ofbeldi ef þeir kjósa að sprauta sig eða reykja ýmis efni.

Ég er hins vegar hluti af vaxandi hópi sem sér ekki bann við eiturlyfjum sem lausn á einu né neinu. Margir eru byrjaðir að spyrja sig spurningarinnar: Hvernig er hægt að lágmarka skaðann af fíkniefnum?

Sumir myndu svara með því að boða allsherjar bann við framleiðslu, kaupum og sölu á eiturlyfjum. Þessi hópur á fullt í fangi með að rökstyðja þá afstöðu sína, enda hafa áratugir af slíku fyrirkomulagi ekki gert annað en að gera eiturlyfjasala moldríka og algjörlega löglausa, og eiturlyfjaneytendur bláfátæka og líkamlega sjúka glæpamenn. 

Víða um heim finnst fyrirkomulagið sem Mick Jagger talar um, þar sem eiturlyfjasala og -neysla er umborin undir ströngu eftirliti, og það að stinga öllum sem koma nálægt efnunum í steininn sett mjög neðarlega á forgangslistann. Þar með er ekki sagt að eiturlyf hafi alls staðar verið "lögleidd" þar sem slíkt fyrirkomulag er við lýði, heldur eingöngu færð nær sólarljósinu þar sem hægt er að fylgjast með dreifingu þeirra, gæðum, sölu og neyslu.

Með því að umbera eiturlyfjasölu- og neyslu er hægt að:

  • Draga úr ofbeldi í fíkniefnaheiminum
  • Bæta heilsu fíklanna (efnin verða hreinni og síður blönduð aukaefnum í sveiflukenndu magni) og þannig auka líkur á vel heppnaðri meðferð þeirra
  • Draga úr ofboðslegum hagnaði af fíkniefnasölu
  • Bæta fjárhag fíklanna með lækkun á verði efnanna og þannig minnka líkur á ofurskuldsetningu þeirra á hinum svarta markaði
  • Hafa eftirlit með eiturlyfjaheiminum, og t.d. gera ungum krökkum erfiðar við að komast í tæri við þau
  • Eiga einhver fangelsisrými eftir handa ofbeldismönnum og þjófum

Umræðan um fíkniefni á alls ekki að snúast um hvað okkur finnst sjálfum um efnin sem hugsanlegum neytendum, heldur hvernig má lágmarka skaðann af þeim. Í mínum huga snýst þetta samt fyrst og fremst um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og ég hef þá bjargföstu skoðun að með því að virða hann, þá sé skaðinn af völdum fíkniefna lágmarkaður.


mbl.is Vill leyfa fíkniefni til reynslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri pappírspeningabandalög eða eitthvað traustara?

Vangaveltur ríkja "kennd við Persaflóa" um myntbandalag eru áhugaverðar. Hér má lesa örlítið tæknital um þessar vangaveltur. Texti þaðan:

 In the most profound financial change in recent Middle East history, Gulf Arabs are planning – along with China, Russia, Japan and France – to end dollar dealings for oil, moving instead to a basket of currencies including the Japanese yen and Chinese yuan, the euro, gold and a new, unified currency planned for nations in the Gulf Co-operation Council, including Saudi Arabia, Abu Dhabi, Kuwait and Qatar.

Í stuttu máli: Bandaríkjamenn prenta nú peninga eins og galnir, og draga þar með úr trúverðugleika á bandaríska dollaranum, sem olía er yfirleitt verðlögð í. Ríki sem kæra sig ekki um slíkt kæruleysi eru því byrjuð að íhuga flótta frá dollaranum yfir í eitthvað sem er ekki prentað eins mikið.

Því miður snúast slíkar vangaveltur bara um að steypa saman öðrum pappírspeningum í eina mynt, eins og átti sér stað með sköpun evrunnar. Krísa evrunnar og væntanlegt hrun hennar er nú að setja þessar myndbandalagspælingar á ís, væntanlega til frambúðar eins og þær líta út í dag.

Tími pappírspeninga er senn á enda. Hann hefur verið tími áhugaverðrar tilraunastarfsemi í 100 ár, þar sem trúin var sú að til að "jafna út" sveiflur á mörkuðum og "örva" hagkerfi væri einfaldlega nóg að prenta peninga. Nú er sú öld senn á enda. 

Því miður skilja fáir í dag eðli peninga. Hvorki fjölmiðlar né hagfræðideildir háskóla hafa mikið um eðli peninga að segja. Okkur er bara sagt að "ríkið gefur út peninga" og að "við þurfum að treysta peningum ríkisins". Þetta er firra sem er orsök og rót allra okkar peningavandræða í dag og raunar seinustu 100 ára. 

Hagstjórnarvísdómsorð dagsins eru í eigu Vefþjóðviljans:

Þegar allt kemur til alls er engin mynt þeirrar gerðar að hún geti til eilífðar falið að menn eyði meiru en þeir afla. 

Ekki satt?


mbl.is Fresta stofnun myntbandalags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið herðir tökin á bæði áhættu og afleiðingum

Bandaríska ríkið hefur, eins og hið íslenska, valið þá pólitísku leið að fjármagna tap vegna áhættusamra fjárfestinga einkaaðila seinustu ár. Þau skilaboð hafa verið send að bankar geti grætt á áhættunni, en tapið lendir á skattgreiðendum.

Til að lágmarka útgjöld vegna þessarar ríkisábyrgðar á taprekstri þá er brugðið á það ráð að herða eftirlit með þeim sem standa í áhættusömum fjármálaviðskiptum. Þannig geti ríkið blástimplað áhættutökuna á meðan á henni stendur, og skattgreiðendur hirða svo kostnaðinn ef sú blástimplun reyndist ekki á rökum reist. Eins og tilfellið er yfirleitt.

Allt þetta risavaxna kerfi ríkisábyrgða og eftirlits á einhvern veginn að skapa stöðugleika á fjármálamörkuðum. Sagan sýnir okkur hins vegar annað. Þegar hver og einn stóð eða féll með eigin áhættutöku þá hreinsaði markaðurinn jafnt og þétt út þá sem veðjuðu á ranga hesta, og verðlaunaði aðra. Regluleg úthreinsun í stað þess að ríkisábyrgja alla og horfa upp á allt kerfið hrynja. 

Þessi leið er ekki í tísku í dag. En bráðum verða yfirvöld að dusta rykið af henni aftur. Skattgreiðendur hafa einfaldlega ekki efni á núverandi kerfi í mikið lengri tíma í viðbót. 


mbl.is Reglur um markaði hertar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keynes er dauður – jörðum hann!

Frá Kreppunni miklu hefur Keynesismi og alls kyns útgáfur af honum tröllriðið hagfræðinni. Nokkurt bakslag varð þó á áttunda áratugnum, en samt var sömu stefnu haldið áfram í grundvallaratriðum. Nú hefur stefna Keynesverja beðið endanlegt skipbrot. Hagfræðingar verða að viðurkenna að grunnforsendur þeirra eru rangar. Hagfræðingar hins blandaða hagkerfis, Keynesverjar, verða að líta í eigin barm. Árið 1989 féll sósíalisminn. Árið 2008 féll hið blandaða hagkerfi. Ef við neitum að læra af því mun það falla aftur og aftur.

Allt fram að hruni fjármálakerfis heimsins haustið 2008 var almenningi talin trú um að allt væri í blóma. Bankarnir skiluðu miklum hagnaði, skatttekjur hins opinbera voru gríðarlegar og vaxandi, og neyslulán fengust án nokkurra veða eða ábyrgða. Hækkandi fasteigna- og hrávöruverð voru talin afleiðing bjartsýni, uppgangs, aukinnar eftirspurnar og jafnvel græðgi. Félagsmálaráðherra þá, sem í dag er forsætisráðherra, hvatti fólk til að fjárfesta í húsnæði á hámarkslánum allt fram að hruni. Allt þetta var blástimplað af eftirlitsstofnunum ríkisins, „óháðum" matsstofnunum, og vitaskuld eftirlætisálitsgjöfum fjölmiðlamanna. Viðvaranir voru fáar, og á þær blásið.

Síðan er liðinn nokkur tími. Skýrslur, rannsóknir, fréttaskýringar, heimildamyndir og ógrynni blaðagreina hafa fjallað um hrunið, ástæður og aðdraganda þess. Því miður ramba fáir á réttar skýringar. Hið eina sem upp úr stendur er að ríkisvaldið, sem blástimplaði gamla kerfið, hrifsar til sín enn meiri völd. Rétt skýring, í stuttu máli, er sú að hið opinbera kom á fót peningaprentun einkaaðila, sem gátu þar með hlaðið skuldum á skuldir ofar, hirt af þeim hagnaðinn og látið aðra um að greiða tapið. En því miður hafa fáir bent á þetta

Ekki batnar ástandið þegar rætt er um leiðir út úr kreppunni. Talið er að ríkið geti skuldsett hagkerfið út úr henni með erlendum lánum, opinberum framkvæmdum og þjóðnýtingu gjaldþrota fyrirtækja, þ.m.t. bankanna, svo ekki komi til margra og stórra gjaldþrota. Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum við London School of Economics, sagði t.d. í Silfri Egils á RÚV að vestræn ríki hefðu brugðist „hárrétt" við hruninu haustið 2008 með „stórauknu framboði á lausafé" og með því að koma í veg fyrir gjaldþrot helstu banka. Bætti hann því við að „afskiptaleysi" hins opinbera og peningamálayfirvalda hefði valdið Kreppunni miklu. Nú væri annað uppi á teningnum, og því væri niðursveiflan brátt að baki.

Við þetta er margt að athuga. Með því að stöðva úthreinsun á gjaldþrota fyrirtækjum og niðurfellingu á skuldum þeirra er hruninu breytt í kreppu. Í stað snöggrar tiltektar er boðuð langvarandi björgunaraðgerð. Skuldsetning og neysla fær ekki að dragast saman og verða að sparnaði og verðmætasköpun. Jón Daníelsson og fleiri af hans „skóla" hagfræðinnar hafa gert aðgerðaleysi hins opinbera að blóraböggli Kreppunnar miklu. Þá kenningu má hrekja og sýna fram á að hið gagnstæða er rétt.

Um aldamótin sprakk hin svokallaða „dot com" bóla á hlutabréfamarkaði og henni fylgt eftir með stóraukinni innspýtingu nýrra peninga í hagkerfið. Bólan sem þá varð til á fasteigna- og hlutabréfamarkaði sprakk haustið 2008, og henni hefur einnig verið mætt með stóraukinni peningaprentun. Hvernig getur það endað með öðrum hætti en nýrri bólu sem springur með enn stærri hvelli? Hvenær lærist okkur að Keynes hafði rangt fyrir sér og að meðöl hans voru lítið annað en aukinn skammtur af fíkniefnum fyrir fíkil að jafna sig á seinustu vímu? Keynes er dauður og kominn í gröfina, og kenningar hans eiga að fara sömu leið.  

Grein eftir mig úr Morgunblaðinu í dag.


Peningaprentvélarnar á fullt núna

750 milljarðar evra neyðarsjóður til að blása lífi í götótta evruna? Þvílík sturlun. Hvaðan á þessi peningur að koma?

Á einum stað er skrifað:

Germany has caved and the inflationists have prevailed. The moral hazard of the bailout will mean bigger deficits in more euro zone countries.  Eventually even Germany itself will succumb and join the party.  To defend the euro and sterilize their bond purchases the ECB will have to sell dollars. But to whom? The U.S. is certainly not buying.  

If Europe, like America, becomes a net foreign borrower, the industrialized West must expect emerging markets to pick up the tab for both America and Europe!  After all not every nation can ride the debt wagon; someone has to pull the cart.  This will mean that China in particular will have to buy even more foreign exchange to prevent a collapse of both the euro and the dollar. This may push them to the breaking point much sooner than many like to think.

Kínverjar, sem enn sem komið er hafa leyft umheiminum að njóta sparnaðar síns í formi lána til að aðrir geti keypt dót af þeim sjálfum, geta ekki staðið undir partýinu endalaust. Bráðum nenna þeir ekki að styðja við keðjubréfaútgáfu Bandaríkjanna og annarra sem reyna að selja þeim verðlaus skuldabréf og byrja að kaupa dótið sitt sjálfir, eða selja það til einhverra sem eiga pening.

Að lokum nokkur viðvörunarorð frá vestri:

When creditors ultimately decide to curtail loans to America, U.S. interest rates will finally spike, and we will be confronted with even more difficult choices than those now facing Greece. Given the short maturity of our national debt, a jump in short-term rates would either result in default or massive austerity. If we choose neither, and opt to print money instead, the run-a-way inflation that will ensue will produce an even greater austerity than the one our leaders lacked the courage to impose. Those who believe rates will never rise as long as the Fed remains accommodative, or that inflation will not flare up as long as unemployment remains high, are just as foolish as those who assured us that the mortgage market was sound because national real estate prices could never 


mbl.is Gleðinni lokið á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarti markaðurinn bætir um betur

Á Íslandi er vaxandi atvinnuleysi og kreppa. Heldur einhver heilvita maður að það dragi úr áfengisþorsta landsmanna? Ónei. Tölfræðin sem ÁTVR gefur út verður minna og minna nothæf sem vísbending um drykkju landsmanna. Áfengiskaup eru í vaxandi mæli að færast út á svarta markaðinn sem hvorki skilar inn sölutölum né virðisaukaskatti.

Svarti markaðurinn hélt íbúum Sovétríkjanna á lífi í 50 ár. Hann mun auðveldlega halda Íslendingum fullum.


mbl.is 7,8% samdráttur í áfengissölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig minnkar atvinnuleysið?

Þau eru mörg og flókin þessi reiknilíkön sem möppudýrin nota þegar þau setja saman spár um hitt og þetta. Það sem oft gleymist þegar reiknilíkönin ráða ferðinni eru grundvallaratriði og já - sjálfur raunveruleikinn!

Hvernig á atvinnuleysi að minnka á næstu misserum miðað við það sem nú er að gerast? Ríkið er að skuldsetja skattgreiðendur um 150 milljarða vegna ríkisrekstursins í fyrra, og má búast við einhverju minna í ár? Ríkið er að vísu að bæta við sig starfsfólki í gríð og erg, en þótt 50,000 nýir ríkisstarfsmenn hjálpi vissulega tölfræðinni um atvinnuleysi á Íslandi, þá segir hún ekkert um hvað er í raun að gerast: Hægfara kyrking hins íslenska hagkerfis.

Ríkið er að hækka skatta á allt og alla þessa mánuðina, og niðurskurður á ríkisrekstrinum mælist varla. Ríkisbeljan á herðum skattgreiðenda er að fitna á meðan þeir sem halda henni uppi eru að svelta. Hvernig getur það endað öðruvísi en með ósköpum?

Þótt atvinnuleysi "minnki" eitthvað á næstu misserum þá er það í besta falli falskt merki um batnandi hag. Á meðan ríkið heldur uppteknum hætti í skattlagningu á verðmætasköpun þá verður kreppa á Íslandi. Atvinnuleysi í verðmætaskapandi starfsemi minnkar ekki ef hið opinbera heldur áfram á núverandi braut skuldsetningar, viðskiptahafta og skattheimtu. 


mbl.is Svartsýni í atvinnuleysisspá Seðlabanka Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng greining lögfræðings á hagfræðimáli?

Nú getur vel verið að William K. Black sé bæði útlendingur og "sérfræðingur", en þýðir það að allt sem hann segir sé heilagur sannleikur og rétt greining á aðstæðum? Nei. Enda er það ekki tilfellið hér.

Spurningin sem enginn spyr sig að en skiptir samt öllu máli er eftirfarandi:

Bankarnir lánuðu og lánuðu fyrir nánast hverju sem er, án veða, og út um allar áttir (en ekki bara til "útrásarvíkinga" og styrkveitenda Samfylkingarinnar). En hvaðan kom allur sparnaðurinn sem bankarnir voru að lána áfram til vaxtagreiðandi kúnna?

Raunin er sú að enginn slíkur sparnaður var til staðar, hvorki á Íslandi né í öðrum löndum í hinum vestræna heimi.

Hið gríðarlega magn peninga sem allt í einu "var til ráðstöfunar" kom ferskur úr peningaprentunarvélum seðlabanka heimsins. Seðlabankar höfðu prentað sem galnir væru frá lokum "dot.com" bólunnar og 9/11 atburðanna og allt þetta nýja fé streymdi til bankanna sem voru að sjálfsögðu ólmir að koma því í "verð", þ.e. koma því til vaxtagreiðandi lántakenda. Og þá fóru hlutir eins og veðhæfi og lánstraust að skipta minna máli en ella.

Sjálfir bankarnir hölluðu sér svo rólegir að ríkisvaldinu sem sagði að bankakerfinu yrði aldrei "leyft" að fara á hausinn. Skattgreiðendur stæðu reiðubúnir á hliðarlínunni að bjarga því sem bjarga þyrfti, enda slíkt talið "auka traust" á bankakerfinu. Opinberar eftirlitsstofnanir og alþjóðleg matsfyrirtæki blástimpluðu svo allt heila klabbið.

En hvað segir svo hinn erlendi sérfræðingur? Að hrunið hafa orðið vegna skorts á "eftirliti"? Já, ekki skrýtin fullyrðing frá manni sem sennilega hefur lifibrauð af slíku.


mbl.is Bankar brutu lög en pólitíkusar áhugalitlir um eftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðin til hjálpar

1. maí er dagur slagorða og heimtinga. Krafist er "hærri launa", "hækkun lágmarkslauna", "betri kjara" og fleira í þeim dúr. Verkalýðsfélög vita nákvæmlega hvað þau vilja. Þau vita hins vegar minna um hvernig á að koma til móts við óskir þeirra.

Verkamaður á Íslandi þénar margfalt á við verkamann í t.d. Afríku eða Kína. Af hverju ætli það sé? Verkamaður sem býr til bursta á Íslandi er með margföld laun kínverska verkamannsins sem býr til samskonar bursta eða svipaða. Hvernig stendur á því? Verkamaður í fiskverkun á Íslandi þénar margfalt á við verkamann í fiskverkun í Víetnam. Hvernig stendur á því? Hvað útskýrir hinn mikla mun á launum verkamanna um víða veröld?

Munurinn liggur í þeim tækjum og tólum sem verkamenn hafa til afnota. Vegna sjálfvirkni og tækni þá getur verkamaður á Íslandi skapað margföld verðmæti miðað við verkamanninn sem vinnur við frumstæðari aðstæður. En sjálfvirkni og tækni er ekki ókeypis. Hana þarf að fjármagna, og þar kemur fjárfestirinn til sögunnar - sá sem hefur safnað fé eða tengt saman sparnað margra einstaklinga og fyrirtækja til að leggja fé til fjárfestingar í tækni. Það er því fjárfestirinn sem tryggir bætt kjör verkamannsins, með því að veita aðgang að tækni sem eykur verðmætasköpun verkamannsins.

En hvar finnast fjárfestar? Þeir finnast þar sem eignarétturinn er varinn, og stjórnvöld leyfa auðsöfnun og sparnað. Þeir finnast þar sem kapítalisminn er ekki álitinn óvinur verkamannsins, heldur vinur. 

Slagorð verkalýðsfélaganna, "bætt kjör hinna lægst launuðu", gæti því umorðast á eftirfarandi hátt á tungutaki hagfræðinnar: "Fleiri kapítalista - meiri verðmætasköpun verkamanna!"


mbl.is Hækkun lágmarkslauna í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband