Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Loftslagsbetlið sett á fullt (aftur)

Þeir sem moka til sín fé eða athygli (eða bæði) í nafni "loftslagsbreytinga" eru aftur komnir á fullt skrið eftir að málstaður þeirra hvarf í skuggann af fjármálakreppunni árið 2008. Núna vilja þeir fá sviðsljósið sitt aftur.

Málstaðurinn skiptir sífellt um nafn þótt hann sé í eðli sínu oftar en ekki annað en stjórnmálafræðibarátta gegn frjálsu markaðshagkerfi. Stundum hefur hræðslan snúist um meinta kólnun Jarðar. Svo var það hlýnun. Síðan var það aftur kólnun. Og hlýnun. Og svo framvegis. Menn ákváðu svo að hætta þessum nafnabreytingum og tala einfaldlega um hræðilegar afleiðingar loftslags"breytinga" (af mannavöldum). Sniðug aðferðafræði sem sparar uppfærslur á fyrirsögnum hræðsluáróðursins.

Auðvitað hefur maðurinn áhrif á loftslag sitt. Hversu mikið er samt ekki vitað. Maðurinn er bara einn af mörgum stórum áhrifavöldum, og meira að segja ekkert sérstaklega stór. Sólin, eldfjöll, náttúrulegar sveiflur og annað spilar allt stór hlutverk.

En mannanna verk, hversu mikið eða þau lítið sem þau vega í hinum eilífu loftslagsbreytingum, hafa gríðarlega jákvæð áhrif á: Manninn! Lífsgæði hans væru verri ef hann héldi sig fá ódýrustu orkugjöfunum. Milljarðar manna þurfa að drepast úr hungri eða kulda eða bæði til að það sé raunhæft fyrir þá sem eftir standa að lifa af án hagkvæmustu orkugjafanna. 

En munu ekki milljónir deyja úr flóðum og hungri ef loftslagsbreytingar "fá" að eiga sér stað? Jú, ef menn stöðva hinn frjálsa markað í lífskjarabætingu hans. Fátækt fólk getur ekki flutt eða klætt sig betur eða skipt um störf (t.d. ef ræktarland breytist í fjörð). En ríkt fólk er mun síður viðkvæmt fyrir breytingum á veðri og vindum og loftslagi. Snjóflóð eru tæknilegt úrlausnarefni á ríka Íslandi (fólk getur flutt eða byggt varnargarð). Aurflóð eru óleysanlegt vandamál og stöðug lífshætta í fátækri Indónesíu (fólk kemst hvergi og enginn hefur efni á varnargarði). 

Sósíalismi er miklu hættulegri en loftslagsbreytingar.


mbl.is Ólafur Ragnar og Al Gore til Suðurskautslandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama: Vonarstjarnan sem brást

Barack Obama er að skrifa sig rækilega inn í sögubækurnar.

Hann tók við umfangsmiklum hernaðaraðgerðum fyrirrennara síns og hélt þeim áfram. Bætir jafnvel í ef eitthvað er.

Hann tók við mikilli útþenslu "velferðar"ríkisins í Bandaríkjunum frá fyrirrennara sínum og hefur reynt að bæta mikið í hana.

Hann tók við mikilli skuldasöfnun og ætlar sér svo sannarlega ekki að stöðva hana.

Hann tók við seðlabanka sem prentaði peninga í miklu magni, og setti prentunina á mikið flug og er hvergi nærri hættur.

Hann tók við hagkerfi þar sem reglugerðarbáknið og skattbyrðin var fyrir löngu byrjuð að lama alla verðmætasköpun og senda alla framleiðslu á hraðan flótta út úr landinu. Obama virðist ekki ætla að stöðva þá þróun fyrr en allir Bandaríkjamenn eru skuldsettir upp í rjáfur og vinna við þjónustu og verslun og neyslu og útgáfu greiðslukorta.

Núna ætlar hann að berja hamri ríkisins á þá "ríkustu". Þeim mun því fækka hratt og örugglega.

Obama er vonarstjarna sem brást.  Hann er hinn svarti George W. Bush hagstjórnar og ríkisumsvifa, nema örlítið meiri sósíalisti, og auðvitað töluvert betri ræðumaður. En það er allt og sumt.


mbl.is Vill byggja upp réttlátt efnahagskerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd: 'Kaupmáttar'trygging í stað 'verð'tryggingar

"Verðtrygging" er hræðilegt fyrirbæri. Hún á að "tryggja" að ákveðin upphæð peninga geti keypt það sama í framtíðinni og hún getur keypt í dag, er sem sagt "leiðrétt" fyrir breytingum á verðlagi.

Þetta þýðir að þegar Steingrímur J. skrúfar alla skatta í loft upp þá hækkar verð á öllu og þeirri verðhækkun er svo rúllað út í lán og þau hækka sem nemur nokkurn veginn skattahækkunum fjármálaráðherra.

"Verðtryggingin" var upphaflega ætluð til að verja útlánendur fyrir skerðingu á kaupmætti peninga þeirra á tímum mikillar aukningar á peningamagni í umferð og þar með rýrnandi kaupmætti peninganna. 

Aðra og betri "tryggingu", sem kæmist nær því að leiðrétta fyrir aukningu á peningamagni í umferð, mætti kalla kaupmáttartryggingu. Hún væri þá reiknuð út frá verðlagi á t.d. gulli eða körfu stærstu gjaldmiðla hans fyrir alla skatta og opinberar álögur. Ef magn króna í umferð er aukið, þá hækkar vitaskuld gullverð og/eða erlendur gjaldmiðill í verði mælt í krónum. En ef Steingrímur J. ákveður að þyngja skattbyrðina enn frekar, þá kæmi það ekki til útreiknings á rýrnun í kaupmætti krónunnar.

Kaupmáttartrygging kemst nær kjarna málsins - leiðréttingu á rýrnandi kaupmætti krónunnar vegna aukningar á krónum í umferð. Það er sú trygging sem útlánendur þurfa á fé sínu, en ekki leiðrétting á útlánum fyrir t.d. hækkandi virðisaukaskatti á raftækjum (sem fólk er hvort eð er að kaupa í auknum mæli á svarta markaðinum, svo verðlag á þeim er þannig séð ekki orðið hærra hvort eð er).

"Verðtrygging" sem er tengd við verðlag er villandi. Núna er til dæmis mikil aukning á viðskiptum með reiðufé, oft kallað "svarti markaðurinn". Þar er verðlag nokkuð stöðugt miðað við hinn "hvíta" markað. Fólk er í auknum mæli byrjað að kaupa "undir borðið". Hvers vegna þá að hækka lán þess með "verðtryggingu" á "löglegum" varningi og þjónustu sem fólk er hvort eð er hætt að kaupa?


mbl.is Borgarafundur um verðtryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem Þráinn segir: Gera hið andstæða

Nú segi ég þetta aðeins í gríni, en samt ekki:
Ef Þráinn Bertelsson segir eitthvað, þá er hið eina rétta í stöðunni að gera hið andstæða.

Þráinn vill í þetta skipti að Ögmundur Jónasson segi af sér fyrir að vera á annarri skoðun en Þráinn þegar kemur að ákæru Alþingis á einum fyrrverandi ráðherra og þingmanni Alþingis. Ákæra, sem mörg rök hafa verið færð fyrir að sé í eðli sínu pólitísk.

Margir þingmenn hafa opinbera algjöra vanþekkingu sína á lagabókstafnum þegar kemur að ákærunni á Geir H. Haarde. Vanþekking blönduð saman við vænan skammt af heift og reiði er sjaldnast góð blanda.

Alþingi á að draga þessa ákæru til baka. Af hverju? Af því hún tengist hruninu ekki neitt; hrunið hefði átt sér stað sama hver sat í stól forsætisráðherra þegar það skall á, því íslenska ríkið hafði og hefur og ætlar sér að hafa einokun á útgáfu peninga á Íslandi og verðstýra verði á því í gegnum ríkisrekinn seðlabanka.

Eða eins og segir á einum stað (á bls. 155):

So long as an extra-market institution like government is in control of money, a permanent series of cyclical movements will mark the process of economic development. For through the creation of fraudulent credit, a government can engender a smooth and highly inconspicuous income and wealth redistribution in its own favor. There is no reason (short of angelic assumptions) to suppose that it would ever deliberately stop using this magic wand merely because credit expansion has the "unfortunate" side-effect of business cycles.

Ákæran kostar skattgreiðendur stórfé, dómur um "sekt" eða "sýknu" fyrrverandi forsætisráðherra mun ekki stöðva slæma hagstjórn núverandi stjórnmálamanna, ákæran tekur þungt á þann ákærða og sá ákærði braut í engu nein lög og "glæpur" hans var sá einn að hafa ekki bolmagn til að halda útþenslu ríkisins á eyðslu og ríkisábyrgðum niðri. Og pólitískur glæpur hans var að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Samfylkingunni (nokkuð sem leit snemma í ríkisstjórnarsamstarfinu út fyrir að verða hörmung fyrir land og þjóð). 

Bankarnir voru með ríkisábyrgð í farteskinu þegar þeir tóku á sig gríðarlegar og uppgíraðar skuldbindingar. Þeir tóku mikla áhættu og vissu vel að stjórnmálamennirnir kæmu færandi hendi með skattgreiðendur til að kasta á peningabálið ef allt færi til fjandans.

Er einhver að reyna vinda ofan af þessum samkvæmisdansi banka og ríkisvalds? Nei. Ákæra á fyrrverandi þingmann þarþarseinustu ríkisstjórnar hefur ekkert að segja. Að leggja niður Seðlabanka Íslands og koma ríkinu úr framleiðslu peninga hefur mikið að segja.


mbl.is Hart sótt að Ögmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið sér um sína

Enn og aftur reyna "aðilar vinnumarkaðarins" að kreista efndir úr ríkisstjórninni. Það er hægt, því ríkisstjórnarflokkarnir eru báðir komnir í kosningabaráttu (1, 2).

Leið "aðila vinnumarkaðarins" að tómum vösum skattgreiðenda og atvinnurekenda er í gegnum vonir og væntingar ríkisstjórnarflokkanna um atkvæði. Hvort borgar sig betur, að skuldsetja ríkissjóð á bólakaf núna með því að hækka atvinnuleysisbætur og koma á fót víðtækri atvinnubótavinnu, eða með því að skuldsetja ríkissjóð seinna með því að lofa stórauknum skuldbindingum hins opinbera við lífeyrissjóði?

Hin rétta stefna, að skera ríkisreksturinn niður sem nemur heilu afkimum hans, er auðvitað ekki á borðinu. Skammtímameðöl og atkvæðaveiði er dagskipanin í Stjórnarráðinu.

Þessu eiga "aðilar vinnumarkaðarins" að gera sér grein fyrir ef bónferðir þeirra eiga að bera ávöxt. En þá verður leið þeirra í vasa annarra líka greið. Í bili.


mbl.is Eiga í viðræðum við stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftaklúbbur hinna stjórnlyndu

Hin svokallaða "efnahagsráðstefna" í Davos er kjaftaklúbbur hinna stjórnlyndu. Þarna mæta stjórnmálamenn og forstjórar stórra fyrirtækja til að ræða sín á milli hvernig þeir sem hafa völdin í dag geti haldið þeim. Bæði völd í stjórnmálum og viðskiptalífinu eru til umræðu. Stórfyrirtækin sannfæra æðstu ráðamenn um að setja allskyns lög og reglur sem koma í veg fyrir nýliðun og endurnýjun á helstu mörkuðum. Stjórnmálamenn bíta á agnið. Þeir fara heim til sín og leggja til allskyns hertar reglur, í nafni "umhverfisverndar", "neytendaverndar" og "samkeppnismála".

Sem svar við þessum kjaftaklúbbi hinna stjórnlyndu og valdamiklu hefur frjálshuga fólk sett á fót aðra ráðstefnu, þar sem vandamálin eru rædd og þau réttilega skilgreind sem vandamál ríkisvaldsins og viðskiptaelítunnar sem hvílir í faðmi þess. Sú ráðstefna heitir Freedom Fest. Þarna hittist frjálshuga fólk. Líkurnar á því að frjálshuga fólk skilji lögmál hagkerfa eru miklu meiri en líkurnar á að stjórnlynt fólk skilji þau. 


mbl.is Merkel setur ráðstefnuna í Davos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræði Alþjóðabankans er gagnslaus

Sú hagfræði sem skín í gegnum yfirlýsingar Alþjóðabankans bera þess merki að þar á bæ hafi menn ekki lært eitt né neitt, og ætli sér það heldur ekki.

Samkvæmt þessari hagfræði er jákvætt að ríki prenti peninga í gríð og erg og auki þannig peningalega "veltu" í hagkerfum sínum. Það "mælist" sem "vöxtur" hagkerfis. 

Samkvæmt þessari hagfræði er það jákvætt að ríki keyri á bullandi hallarekstri sem stuðlar að mikilli "eyðslu" og "fjárfestingu". Það "mælist" sem "vöxtur". Ef ríki skera niður útgjöld sín, hætta að reka sig með halla og draga úr umsvifum sínum, þá mælist "samdráttur". Stöðvun skuldasöfnunar verður að vísu að plús á reikningum ríkissjóða, en mínus í Excel-yfirliti Alþjóðabankans.

Ef ríki hættir að prenta peninga, leyfir peningamagni jafnvel að dragast saman, og verði á alltof-hátt-verðlögðum eignum og gæðum að lækka að því marki að framboð og eftirspurn ná saman á ný, þá kvartar Alþjóðabankinn yfir "samdrætti".

Eða eins og segir á einum stað:

Contrary to the economic hocus pocus propagated on Wall Street, Washington and at American universities; economies grow not as a result of consumer spending, but as a result of savings. Under consumption is the true source of prosperity as it engenders capital formation, which lies at the root of sustainable economic growth.

Nákvæmlega!

Ef menn vilja rétta hagfræði, sem í raun og veru útskýrir orsakir og afleiðingar í hagkerfinu (bæði á hinum frjálsa og hinum ófrjálsa/opinbera markaði) þá get ég bent á þessa bók (t.d. kafla 22 og 23 ef menn vilja koma sér beint að efninu). Ef menn vilja "allan pakkann" í hagfræði, þá mæli ég hiklaust með þessari bók. Báðar bækur eru fríkeypis og hægt að sækja á PDF-formi. 


mbl.is Alþjóðabankinn varar við samdrætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjar hættir að puða fyrir pappír

Í Kína er gríðarlega mikið framleitt af eftirsóttum neytendavarningi fyrir umheiminn. Í Kína er líka orðin til stór millistétt, sem fer stækkandi. Þessari millistétt vantar gríðarlega mikið af neytendavarningi; ísskápa, síma, skó, leikföng og svona má lengi telja.

Fyrir mörgum mánuðum spáði maður nokkur því að Kínverjar færu bráðum að leggja meiri áherslu á að neyta eigin framleiðslu í stað þess að senda hana alla til útlanda (t.d. með því að leyfa gjaldmiðli sínum að styrkjast). Af hverju? Jú af því greiðslan, sem Kínverjar hafa verið að fá fyrir raunverulega verðmætasköpun sína og framleiðslu, er í dollurum og evrum, og báðir gjaldmiðlar eru nú prentaðir í svo miklu magni að kaupmáttur þeirra er í kapphlaupi niður á við. 

Evran og dollarinn eru á dauðalista sögubókanna. Kínverjar eru að gera sér grein fyrir þessu, smátt og smátt.


mbl.is Minnkandi hagvöxtur í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkunnir enn alltof háar

Hver ætli skilningur flesta sé á orðinu "lánshæfiseinkunn"? Minn skilningur er sá, að einkunnin eigi að endurspegla greiðslugetu skuldarans, og getu hans til að bæta á sig meiri skuldum. Hæsta lánshæfismatið á þá að vera sá sem skuldar lítið eða ekkert og getur auðveldlega bætt á sig skuldum, eða sá sem skuldar mikið en ætti ekki að vera í neinum vandræðum með að greiða þær skuldir til baka, að því gefnu að þær aukist ekki.

Sé "lánshæfiseinkunn" skilin á þennan hátt er ljóst að alltof mörg ríki eru með alltof háa einkunn. Bandaríkin eru með hæstu einkunn eða munu aldrei geta greitt skuldir sínar til baka. Til þess þarf einfaldlega annað hugarfar hjá stjórnmálamönnunum. Hið sama á við um flest evruríkin. Pólitískt andrúmsloft í þeim meinar stjórnmálamönnum að minnka hallareksturinn. Getur einhver ímyndað sér að honum megi eyða og snúa í afgang og niðurgreiðslu skulda?

Björgunaraðgerðir af ýmsu tagi eru veruleikaflótti. Þær fresta óumflýjanlegu gjaldþroti mjög margra ríkja og gefa stjórnmálamönnum tíma til að safna meiri skuldum og ýta vandanum á undan sér. Skiljanlegt hugarfar auðvitað í lýðræðisríkjum þar sem kjörnir fulltrúar vita að aðrir þurfa að taka við óráðsíu þeirra.


mbl.is Rehn gagnrýnir lánshæfislækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Már hinn 'trúverðugi'

Már Guðmundsson, kommúnisti, skafar nú af sér seinustu lög trúverðugleika. Það sem blasir við núna er maður sem er ekki starfi sínu vaxinn, keyrir Seðlabanka Íslands áfram á pólitískum markmiðum pólitískra samherja sinna í ríkisstjórninni, og ætlar sér greinilega að sjúga hverja krónu úr bankanum áður en hann verður rekinn, en það gerist fljótlega eftir næstu Alþingis-kosningar.

En allt þetta er ekki aðalatriðið, eins og Vefþjóðviljinn bendir á, heldur hitt: Til hvers er íslenska ríkið að gefa út svokallaðan gjaldmiðil og reka seðlabanka?


mbl.is Már hafnaði launahækkun sumarið 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband