Loftslagsbetlið sett á fullt (aftur)

Þeir sem moka til sín fé eða athygli (eða bæði) í nafni "loftslagsbreytinga" eru aftur komnir á fullt skrið eftir að málstaður þeirra hvarf í skuggann af fjármálakreppunni árið 2008. Núna vilja þeir fá sviðsljósið sitt aftur.

Málstaðurinn skiptir sífellt um nafn þótt hann sé í eðli sínu oftar en ekki annað en stjórnmálafræðibarátta gegn frjálsu markaðshagkerfi. Stundum hefur hræðslan snúist um meinta kólnun Jarðar. Svo var það hlýnun. Síðan var það aftur kólnun. Og hlýnun. Og svo framvegis. Menn ákváðu svo að hætta þessum nafnabreytingum og tala einfaldlega um hræðilegar afleiðingar loftslags"breytinga" (af mannavöldum). Sniðug aðferðafræði sem sparar uppfærslur á fyrirsögnum hræðsluáróðursins.

Auðvitað hefur maðurinn áhrif á loftslag sitt. Hversu mikið er samt ekki vitað. Maðurinn er bara einn af mörgum stórum áhrifavöldum, og meira að segja ekkert sérstaklega stór. Sólin, eldfjöll, náttúrulegar sveiflur og annað spilar allt stór hlutverk.

En mannanna verk, hversu mikið eða þau lítið sem þau vega í hinum eilífu loftslagsbreytingum, hafa gríðarlega jákvæð áhrif á: Manninn! Lífsgæði hans væru verri ef hann héldi sig fá ódýrustu orkugjöfunum. Milljarðar manna þurfa að drepast úr hungri eða kulda eða bæði til að það sé raunhæft fyrir þá sem eftir standa að lifa af án hagkvæmustu orkugjafanna. 

En munu ekki milljónir deyja úr flóðum og hungri ef loftslagsbreytingar "fá" að eiga sér stað? Jú, ef menn stöðva hinn frjálsa markað í lífskjarabætingu hans. Fátækt fólk getur ekki flutt eða klætt sig betur eða skipt um störf (t.d. ef ræktarland breytist í fjörð). En ríkt fólk er mun síður viðkvæmt fyrir breytingum á veðri og vindum og loftslagi. Snjóflóð eru tæknilegt úrlausnarefni á ríka Íslandi (fólk getur flutt eða byggt varnargarð). Aurflóð eru óleysanlegt vandamál og stöðug lífshætta í fátækri Indónesíu (fólk kemst hvergi og enginn hefur efni á varnargarði). 

Sósíalismi er miklu hættulegri en loftslagsbreytingar.


mbl.is Ólafur Ragnar og Al Gore til Suðurskautslandsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erum við ekki sáttir við sjálfbærni, sustainability?

Það á ekkert að fara eftir flokkum eða stefnu.

http://www.arch.wsu.edu/09%20publications/sustain/defnsust.htm 

Stefán (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 13:04

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Stefán,

Jújú þetta er mjög fínt orð. Sérstaklega líkar mér vel við eftirfarandi skilgreiningu:

"meet present needs without compromising the ability of future generations to meet their needs"

Í Vestur-Þýsklandi kapítalismans stækkuðu skógar og gæði vatns og lofts bötnuðu þótt iðnaður færi vaxandi. Í Austur-Þýskalandi drapst fólk úr mengun, skógar úr súru regni og iðnaður úr höftum. 

Í Suður-Kóreu eru götur upplýstar, rafmagn kemur úr hverri innstungu og iðnaður blómstrar. Í Norður-Kóreu er atvinnulífið horfið, ljósin eru slökkt og hungursneyð daglegt brauð.

Mér sýnist hinn frjálsi markaður vera leiðin til sjálfbærni.

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 13:16

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Geir, þú segir:

Auðvitað hefur maðurinn áhrif á loftslag sitt. Hversu mikið er samt ekki vitað. 

 Nýjustu rannsóknir benda til að þáttur manna sé nálægt 100 % síðastliðin 50 ár (sjá Gillet o.fl 2012 hér). Það er í góðu samræmi við fjöldann allan af mismunandi rannsóknum sem birst hafa undanfarið ár (sjá t.d. yfirlit hér).

Áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda er því í besta falli slæm tilraun og stórhættuleg, fyrir alla jarðarbúa.

Höskuldur Búi Jónsson, 30.1.2012 kl. 13:23

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Höskuldur,

Þú ert varla að halda því fram að ef mannkynið hefði gufað upp fyrir 50 árum síðan, þá hefði loftslagið einfaldlega verið stöðugt eins og blý á stöðuvatnsbotni?

Mér þætti vænt um skilgreiningu á orðinu "tilraun" eins og þú notar það hérna.

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 13:58

5 identicon

Geir, þetta gerðist ekki sjálfkrafa. Það er ekki langt síðan að stór hluti Rínar var líflaus.

Er Suður-Kórea að stunda sjálfbæran iðnað? Er áliðnaður sjálfbær? Hvað þarf hann að gera til að vera sjálfbær?

Hvernig getur þú sagt að Norður-Kórea sé ekki eins sjálfbært og Suður-Kórea? Komdu með heimildir fyrir mig:)

Stór hluti hagvaxtar í Þýskalandi er sjálfbær í dag. Það er vegna stefnu stjórnvalda sem var á móti stefnu iðnaðarins.

Er kjarnorkuver sjálfbært?

Stefán (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 13:59

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Stefán,

"meet present needs without compromising the ability of future generations to meet their needs"

Þetta er sjálfbærni. Fyrir 300 árum þurfti stóran skóg til að kynda mörg heimili. Núna þarf ekki eitt einasta tré. Fyrir 50 árum þurfti stóra járnnámu til að smíða nokkra bíla. Núna þarf mun minna járn og meira ál. Eftir nokkur ár þarf minna ál og meira af koltrefjum. 

Í Norður-Kóreu hefur stefna stjórnvalda gert almenningi ókleift að sinna grundvallarþörfum sínum, nokkuð sem átti ekki við fyrir nokkrum kynslóðum síðan. Í Suður-Kóreu er ennþá hægt að kaupa mat og neysluvarning, meira í dag en fyrir 10 árum og 20. 

Stundum ruglast menn á ofangreindri skilgreiningu á orðinu "sjálfbærni" og því að einhver ákveðin efnasambönd (t.d. olía, kol, tré) eigi að vera til í jafnmiklu magni í framtíðinni og í dag. 

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 14:09

7 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hvað kallarðu stöðugt?

Ef mannkynið hefði gufað upp fyrir 50 árum, þá má reikna með að loftslag væri "sambærilegt" og það var fyrir 50 árum  - en náttúrulegar sveiflur væru þá ráðandi. Lítilsháttar kólnun hefði því væntanlega orðið á þessum 50 árum hnattrænt - því sólvirkni hefur verið á niðurleið síðastliðin um það bil 50 ár.

Tilraunin lýsir sér í því að menn eru að losa CO2 út í andrúmsloftið - menn geta sagt sér með nokkurri vissu hverjar afleiðingarnar verða (lestu IPCC skýrslurnar), en heildaráhrif eru ekki endanlega ljós (t.d. varðandi sjávarstöðubreytingar og súrnun sjávar) og því er um hættulega tilraun að ræða. Hættuleg, því það er ekki hægt að hætta við þegar búið er að gera þessa tilraun - engin önnur jörð er í grenndinni sem hægt er að flýja til.

Höskuldur Búi Jónsson, 30.1.2012 kl. 14:22

8 identicon

Já, menn ruglast mikið á hugtökum.

Geturðu bent mér á íslenskt fyrirtæki sem er sjálfbært og getur sýnt fram á það af óháðum aðilum?

Stefán (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 14:23

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Höskuldur,

Athyglisvert. En nú er það svo að þessi meinta "tilraun" heldur lífinu í milljörðum manna, og meint "tilraun" er meira að segja að bæta lífskjör flestra þeirra. 

Skúli,

Mætti ég fyrst sjá þinn skilning á orðinu "sjálfbærni" áður en ég fer að reyna troða einhverju ákveðnu fyrirtæki inn í umræðuna. Kannski Ford bílafyrirtækið sé sjálfbært. Það hefur mætt þörfum manna í 100 ár og skilar hagnaði enn þann dag í dag. 

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 14:31

10 identicon

Minn skilningur er þessi:

We define sustainable developments as forms of progress that meet the needs of the present without compromising the ability of the future generations to meet their needs. Given the scale of poverty today, the challenge meeting present needs is urgent. Given the damage our past and present actions may visit upon our decendants, concern for the future needs for environmental, human, social, and other resources is also compelling.

Ég mæli með því að þú skoðir þessa heimasíðu, World Business Council for Sustainable Development.

http://www.wbcsd.org/home.aspx

Stefán (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 14:52

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég á hreinlega erfitt með að sjá fyrir mér hvar frjálst markaðshagkerfi glímir við ósjálfbærni. Hvað vantar í þau í dag sem eftirspurn er eftir (þar sem ríkisvaldið bannar ekki viðskipti)? Og skortur á hverju er fyrirséður?

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 15:06

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Athyglisvert. En nú er það svo að þessi meinta "tilraun" heldur lífinu í milljörðum manna, og meint "tilraun" er meira að segja að bæta lífskjör flestra þeirra.

Kannski og kannski ekki.

Hér er bruggdæmi, kannski ekki gott en sjáum til : Ég reikna með að þú kunnir að brugga, en þegar þú bruggar þitt vín þá veistu að það kemur að því að etanólið er orðið það mikil að gerjunin hættir - gerlarnir byrja að drepast í eigin úrgangi (etanóli).

Hugsaðu dæmið þannig að sykurinn sé jarðefnaeldnseytið, gerlarnir við og etanólið eru afleiðingar loftslagsbreytinga. 

Þegar gerjunin er sem mest þá er auðvitað allt í góðu ástandi hjá gerlunum - en afleiðingarnar koma í ljós fyrr en síðar.

Höskuldur Búi Jónsson, 30.1.2012 kl. 15:35

13 identicon

Skortur á hverju er fyrirséður? Orku, vatni, málmum, landi.....

Þetta hefur ekkert með peninga og hagnað að gera. Þú gætir byrjað á því að lesa John Locke. Hann skrifaði svolítið um þetta en þetta hefur þróast aðeins í dag.

Þess vegna benti ég þér á þessa heimasíðu.

Hér er kanski önnur sem getur aðstoðað þig.

Dow Jones Sustainability Index: http://www.sustainability-index.com/

Stefán (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 15:37

14 identicon

Hér er eitt Videó í viðbót frá Harvar Business Review Online.

Það er hægt að taka mark á því ef það er ekki hægt að taka mark á mér:)

http://www.youtube.com/watch?v=K_usAROt9bc

Stefán (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 15:43

15 Smámynd: Geir Ágústsson

Stefán,

Takk fyrir tenglana. 

En ef það er eftirspurn eftir einhverju (orku, vatni, svissneskum ostum), af hverju vantar framboðið?

Ef það er framboð, en bara ekki nóg framboð, hvernig stendur á því?

Menn hafa spáð fyrir ýmsu seinustu 3-4 aldir, þar með talið fæðuskorti og öðru sem fylgir stækkandi og sífellt neyslu- og orkufrekara mannkyni, en hvar eru efndirnar þar sem fólk hefur fengið frelsi og svigrúm til að skiptast á varningi og þjónustu?

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 18:08

16 Smámynd: Geir Ágústsson

Höskuldur,

Ég held að stærsti veikleiki málstaðar þeirra sem tala um að gerjunin sé að ná hámarki sé sá, að þeir hafa einfaldlega verið að spá því of lengi, og ennþá er orðalagið "á næsta leiti" og "handan við hornið" notað. Og að ef við gerum ekki eitthvað "núna" þá sé allt orðið "of seint", en vissulega er "hægt" að "snúa þróuninni við" ef við hefjum handa "núna" (finnst ég hafa lesið það í um 10 ár núna).

Þeir sem telja að gerjunin sé að ná hámarki (og bruggdæmið held ég að sé alveg ágætt til að lýsa þínum málflutningi) ættu e.t.v. að lesa söguna um Pétur og úlfinn, og spara stærstu yfirlýsingarnar, nú eða vera aðeins nákvæmari er varðar tímarammann (eru hamfarir að fara dynja yfir árið 2012, 2050 eða 2100? Og hvað klikkaði í heimsendaspádómunum á 7. áratug 20. aldar, eða þeim 8., eða 9. eða 10.? og hver er munurinn á spátækninni þá og nú, osfrv)

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 18:12

17 identicon

Ég rakst á þennan hitaferil fyrir skömmu. Hann sýnir breytingu á hitastigi alllrar jarðarinnar frá byrjun árs 2001 til loka síðastliðins árs, eða 11 ár alls.

Hitaferillinn er víst teiknaður samkvæmt mæligögnum frá virtri breskri veðurfræðistofnun.  Það er hægt að sjá hvernig það er gert hér.

Það sem mér þykir mjög merkilegt er að síðastliðin 11 ár hefur beinlínis kólnað í heiminum!

 

Gustur (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 18:56

18 Smámynd: Geir Ágústsson

Gustur,

Það er (sýnilega) hægt að teikna næstum því hvað sem er og fá nánst hvaða fersla sem maður óskar eftir í þessum blessuðu loftslagsvísindum. 

Svo virðist svo sem "rannsóknarfé" streymi til þeirra sem teikna ferla sem benda upp á við. Skal einhvern undra að fleiri slíkir ferlar finnist en ferlar sem benda niður á við?

Geir Ágústsson, 30.1.2012 kl. 19:29

19 identicon

Geir, fyrirgefðu en ég skil ekki spurningarnar til mín.

Eitt er víst og það eru víst flestir sammála um það í dag í hinum vestræna heimi (nema á Íslandi) að þau fyrirtæki sem stunda eða gera allt til að stunda sjálfbæra starfsemi og þróun munu vera með markaðsforskot á hin (Competitive Advantage).

Þú þekkir pokasjóð Bónuss? Manstu þegar Olís gaf okkur grasfræ þegar við keyptum bensín? Norðurál plantar trjám (Held að þeir geri það enn). Fyrirtæki eru að reyna að stunda þetta en algerlega ómarkvist og algerlega án þess að við tökum eftir því. En þetta er allt saman að koma.

Þetta er enginn sósíalismi eða þess háttar. Þetta er sá hugsanabreyting sem hefur átt sér stað síðastliðna áratugi erlendis en er ekki enn alveg komið til Íslands.

Þekkir kanski deilurnar með fyrirtækið á Suðurlandi sem er að nota erfðabreytt "korn" ekki langt frá matvælaframleiðslu. Þetta skilur enginn hér, en þetta myndi aldrei líðast annars staðar vegna þess að "mengun" gæti átt sér stað.

Allavega er ekki gott að þekkja ekki þetta hugtak ef þú ætlar að gera það gott í markaðshagkerfi framtíðarinnar.

Íslensk fiskiskip (Allavega togskip) settu fyrst tölvur til að reikna út og spara olíu sjálfkrafa þegar olían var orðin dýr. Það er gamli hugsunargangurinn. Nýi er að setja tölvuna áður en kostnaðurinn er orðinn of mikill.

Ég leyfi mér að vitna í grein sem heitir "Software tracks sustainability" frá maí 2011. Þar stendur eftirfarandi:

"Today, customers expect businesses to show respect for the environment by decreasing waste and greenhouse gases and saving electricity and water. But more importand to processors, sustainable management of resources means a better bottom line and more profitability."

Svo að lokum eitt vídeó í viðbót: http://www.youtube.com/watch?v=Z2oyDYf9tnE

Stefán (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 21:46

20 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Geir: sumir telja að gerjunin hafi nú þegar náð hámarki, enda er öfgaveður farið að trufla þjóðir heims ansi mikið (með gríðarlegum kostnaðarauka). Aðrir segja að enn nógur tími sé. Ætli við séum ekki mitt á milli - þ.e við erum byrjuð að verða vör við ýmsar afleiðingar - en vonandi er ekki orðið of seint að bregðast við áður en það skellur á af fullum þunga.

Gústur: Þú veist það jafn vel og ég að maður velur ekki svona stutt tímabil þegar skoðaðar eru sveiflur í loftslagskerfum. Á svona stuttum tíma þá yfirgnæfir suðið leitnina. Tímabil þarf að vera 20-30 ár til að vera tölfræðilega marktæk. Hér er góð mynd sem sýnir sérvalin tímabil og hvernig þau virka - en með þeim má finna ansi mörg tímabil kólnunar (þótt augljóst sé að það er að hlýna).

 http://www.skepticalscience.com/pics/SkepticsvRealistsv3.gif

Höskuldur Búi Jónsson, 30.1.2012 kl. 22:17

21 Smámynd: Geir Ágústsson

Höskuldur,

"en vonandi er ekki orðið of seint að bregðast við áður en það skellur á af fullum þunga"

En af hverju þá þessar öfgakenndu fyrirsagnir seinustu 10 ár að minnsta kosti?

Svo sýnist mér hallatalan á bláu strikunum verða flatari og flatari. Er kúrfan ekki að breytast í parabólu sem er að reyna komast niður á við aftur?

Brrrrr hvað var kalt í nótt.

Geir Ágústsson, 31.1.2012 kl. 07:23

22 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Geir

Það var hressandi að lesa greinina þína. Sjálfur er ég á þeirri skoðun að loftlag sé að hlýna og að lang líklegasta skýringin sé mengun af manna völdum. Ég hef fylgst með vísindum og umræðum á þessu sviði í marga áratugi, frá því áður en t.d. Ísland fór að hitna verulega um 1990.

En við lestur greinar þinnar fann ég að ég var ótrúlega sammála þér. Veðurfar sveiflast auðvitað til af náttúrulegum ástæðum og stærð þessarar hitasveiflu sem nú virðist í gangi verður trúlega í lélegu meðallagi ef litið er til jarðsögunnar.

Ég sé enga raunhæfa leið til að stöðva þessa þróun nema að taka upp einhvers konar umhverfiskommúnisma og það vil ég ekkert frekar en þú. Ég er viss um að tækniþróun ásamt aukinni velmegun muni finna þær lausnir sem til þarf til að mannkyn lifi af þessar breytingar með ekki meiri hörmungum en gengur og gerist í mannkynssögunni - já sjálfsagt verður aðlögun að hlýnun jarðar friðsamlegri en baráttan við fasisma og kommúnisma 20. aldar sem svo sannarlega var af "manna völdum".

Í Evrópu hefur á síðustu tveimur árum ný framleiðslugeta sólarorkuvera verið meiri en ný framleiðslugeta vindorkuvera og vita þó allir um gríðarlegan vöxt hins síðarnefnda. Kínverjar framleiða sólarorkusellur sem framleiða rafmagn vel undir dollar/kílóvattstund sem var talið ógerlegt að ná fyrir bara örfáum árum, þau mörk gera sólarorku samkeppnishæfa við aðrar orkulindir (að vísu njóta Kínversku framleiðendurnir ríkisstyrkja á ýmsu formi en megnið af verðfallinu er vegna gríðarlega hraðrar tækniþróunar).

Ekki að sólarorka leysi neinn vanda hér og nú, þetta var nú bara hugsað sem dæmi um hversu hratt tæknin þróast og lausnir koma fram.

Carl Sagan benti víst löngum á þá staðreynd að eina raunverulega "sjálfbærni" mannkyns í orkusamhengi krefðist þess að við notuðum eingöngu sólarorku. Hvort mannkyn muni nokkurn tíma ná "sjálfbærni" í orku- og hráefnanotkun efa ég stórlega, það er eðli okkar að nota náttúruna í kringum okkur og það breytist ekkert. Eitt af þeim notagildum sem náttúruan hefur er að vera falleg og spennandi sem nokkurs konar "villt" náttúra, þótt ekki þætti okkur gaman ef þessi "villta" náttúra skellti sér skyndilega inn í næsta jökulskeið. Það væru mestu hörmungar sem hugsast gætu, miklu alvarlegri en núverandi hlýnun.

Skemmtilegar pælingar sumra lofslagsvísindamanna ganga út á að mannkyn hafi, frá upphafi akuryrkju, haft sí vaxandi áhrif á hnattrænt hitastig. Þannig megi t.d. sjá hlýnun eftir að ræktun á hrísgrjónum hófst (metan losun) og einnig megi sjá visst samhengi milli uppgangssveiflna á fornöld og miðöldum (aukinn landbúnaður, aukið skógarhögg) og hlýnunarskeiða stuttu síðar. Öfugt fylgir kólnun miklum mannfellum, t.d. svartadauða á 14. öld og litla ísöldin stuttu síðar. Samkvæmt þessum pælingum þá er loftslag núna kannski einni til tveimur gráðum hlýrra en hefði annars verið og ef ekki hefði verið fyrir áhrif manna værum við á hraðri siglingu inn í næsta jökulskeið. (NB. þetta eru auðvitað engin "vísindi", bara svona skemmtilegar pælingar út frá óljósum gögnum)

Sem sagt: Jörðin fer hlýnandi, líklegast af manna völdum, við getum ekki stöðvað þá þróun og ættum í rauninni ekki að rembast of mikið við það!

Brynjólfur Þorvarðsson, 31.1.2012 kl. 07:32

23 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Svo sýnist mér hallatalan á bláu strikunum verða flatari og flatari. Er kúrfan ekki að breytast í parabólu sem er að reyna komast niður á við aftur?

Hugsaðu málið aðeins betur - flatari strik þýðir aðallega að erfiðara reynist fyrir "efasemdamenn" að finna niðursveiflu í gögnunum.

Höskuldur Búi Jónsson, 31.1.2012 kl. 09:06

24 Smámynd: Geir Ágústsson

Þau geta líka þýtt að ferillinn er að breyta um lögun.

Geir Ágústsson, 31.1.2012 kl. 10:43

25 identicon

Höskuldur, hugsaðu málið aðeins betur - hvað átti M. Mann við í Climategate e-mailinu þegar hann talaði um að "hide the decline"?  Eru menn eitthvað að massa gögnin?  Getur það skýrt "flatari" ferla?

Hvað átti Kevin Trenberth við þegar hann sagði það "travesty" að hann og samsærisseggir hans geti ekki fundið góðar pr línur til að skýra enga hlýnin?

Annars er grafið þitt, (með mössuðum gögnum?) bara rólegt miðað við hokkíkylfugröfin frægu, frá Michael "hide the decline" Mann.

Lestu skemmtilega grein Delingpole:

Climategate 2.0: the most damning email of them all

http://blogs.telegraph.co.uk/news/jamesdelingpole/100119442/climategate-2-0-the-most-damning-email-of-them-all/

Gullvagninn (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 11:00

26 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Loftslag.is hefur birt ýmislegt um Climategate hneykslið - sjá ýmsar færslur hér.

Þar kemur meðal annars fram (og takið eftir að Gullvagninn er ekki einu sinni með á hreinu hver segir hvað): 

Mest notaða tilvísunin og mistúlkunin var í tölvupósti frá Phil Jones, en þar er fræg setning: „að fela niðursveifluna“ (e. hide the decline). „Niðursveiflan“ vísaði í niðursveiflu í vexti trjáhringja eftir 1960. Trjáhringir sumra trjáa endurspegla nokkuð breytingar í hitastigi, en upp úr 1960 hverfur sú fylgni í einhverjum tegundum trjáa. Þetta vandamál hefur verið í umræðunni meðal vísindamanna í ritrýndum greinum allt aftur til ársins 1995 [63]. Þegar tölvupóstur Phil Jones er skoðaður í samhengi við þau vísindi sem til umfjöllunar voru, sést að þetta er tæknileg umræða um framsetningu gagna og víða aðgengileg í ritrýndum tímaritum, en ekki samsæri. [63]. Jacoby o.fl. 1995 (ágrip): Tree ring width and density evidence of climatic and potential forest change in Alaska.

Trenberth sagði aftur á móti:

...The fact is that we can’t account for the lack of warming at the moment and it is a travesty that we can’t. The CERES data published in the August BAMS 09 supplement on 2008 shows there should be even more warming: but the data are surely wrong. Our observing system is inadequate...

Á loftslag.is kemur fram:

Hér er Kevin Trenberth að lýsa vangetu vísindamannanna í að mæla heildar geislunarjafnvægið (e. radiation balance) í efri lögum lofthjúpsins með nægilegri nákvæmni til að geta lýst orkubúskap (e. energy budget) jarðarinnar nægilega vel á stuttum tímakvarða. Þ.e. þær athuganir og mælingar sem til eru, nægja ekki til þess. Hægt er að skoða þessar pælingar Trenberths í grein sem kom út fyrr á árinu (An imperative for climate change planning: tracking Earth’s global energy).

Sem sagt "hneyksli" þeirra sem stálu tölvupóstunum snérist um að snúa út úr texta í tölvupóstum vísindamanna sem voru að ræða það sem var þá þegar í ritrýndum greinum og opið öllum sem höfðu vit á að leita að því.

Mæli síðan með að þið lesið þetta: Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir.

Höskuldur Búi Jónsson, 31.1.2012 kl. 12:35

27 Smámynd: Geir Ágústsson

Höskuldur,

Það er gaman að sjá innvígða vísindamenn lýsa því yfir (innandyra að vísu) að mælitæki þeirra og mælingar og líkön séu ekki alltaf að tala saman tungumálið. 

Því það sýnir að einhvers staðar eru einhverjir að klóra sér í hausnum.

Stundum finnst mér eins og opinber umræða snúist aðallega um tvennt:

- Að engar rannsóknir eða mælingar segi neitt sem brjóti fullkomna vissu um hlýnun Jarðar og það af manna völdum ("þáttur manna sé nálægt 100 % síðastliðin 50 ár").

- Að enginn vísindamaður sjái neitt sem gefi vísbendingar um að meira þurfi að mæla og rannsaka og herma í líkönum. Umræðan er búin. Það er "consensus".

Þegar orðið "consensus" er farið að koma jafnoft upp og raunin er í allri umræðu um veðrið (já, veðrið!) og í sífellu reynt að koma því að að umræðan sé "búin", þá á almenningur fyrir alvöru að byrja efast!

Geir Ágústsson, 31.1.2012 kl. 13:13

28 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Geir:

Það er gaman að sjá innvígða vísindamenn lýsa því yfir (innandyra að vísu) að mælitæki þeirra og mælingar og líkön séu ekki alltaf að tala saman tungumálið. Því það sýnir að einhvers staðar eru einhverjir að klóra sér í hausnum.

Lestu það sem ég skrifaði. Þetta hafði allt komið fram í vísindagreinum - það eru "efasemdamenn" sem eru að halda öðru fram - þ.e. að halda því fram að vísindamenn séu ekki að beita (raunverulegum) efasemdum. Það er lélegur feluleikur að birta greinar um efasemdir sýnar og vonast eftir að enginn taki eftir því

- Að engar rannsóknir eða mælingar segi neitt sem brjóti fullkomna vissu um hlýnun Jarðar og það af manna völdum ("þáttur manna sé nálægt 100 % síðastliðin 50 ár").

Enginn heldur þessu fram. Þekkingin er góð, en ekki fullkomin.

Þú skilur síðan augljóslega ekki hvað ég á við þegar ég segi að samkvæmt fyrrnefndri grein sé þáttur manna í hlýnun jarðar nálægt 100 % síðastliðin 50 ár. Hvað veldur hitabreytingu? Samkvæmt greininni sem ég vísa í þá er talið að um 120 % af hlýnuninni síðastliðin 50 ár hafi verið af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum - á móti kemur kólnun vegna losunar manna á SO2 um 10 %. Samtals er hlýnunin af völdum manna samkvæmt þessari grein því 110 % (ekki nákvæmt). Náttúrulegir þættir á þessum tíma hafa valdið kólnun um 10 %. Þessi eina rannsókn segir þó ekki allt - ég er að vinna að yfirliti um þetta á íslensku sem mun birtast á lofslag.is á næstunni. Þar segir m.a.

Það var tímabil hlýnunar milli 1910 og 1940 sem er talið að mestu vegna aukinnar sólvirkni og lítillar eldvirkni - auk áhrifa frá mönnum. Frá miðri síðustu öld hefur sólvirknin hins vegar verið flöt og eldvirkni í meðaltali. ENSO hefur síðan engin heildaráhrif á hnattrænan hita til lengri tíma litið. Styrkur gróðurhúsalofttegunda vegna losunar manna á þeim út í andrúmsloftið hefur aukist með auknum þunga og er orðinn helsti áhrifaþátturinn í breytingum á hnattrænum hita....

Mismunandi aðferðir og nálganir sýna svipaða niðurstöðu: Menn eru helsti áhrifaþátturinn í breytingum á hnattrænum hita síðastliðna öld og sérstaklega síðastliðin 50 ár.

Óvissan er töluverð í hverri rannókn fyrir sig. En þegar búið er að beita margvíslegum og mismunandi aðferðum og niðurstaða þeirra er svipuð - þá verður vissan næg til að vísindamenn fara að úttala sig um hættulegar loftslagsbreytingar - því þeir sjá í hvað stefnir.

- Að enginn vísindamaður sjái neitt sem gefi vísbendingar um að meira þurfi að mæla og rannsaka og herma í líkönum. Umræðan er búin. Það er "consensus".
Vísindin halda áfram - þótt þú haldir öðru fram.

Höskuldur Búi Jónsson, 31.1.2012 kl. 13:42

29 identicon

Að ræða við þig Höskuldur um Climategate er einhvernveginn álíka því að ræða um ESB við Jón nokkurn Frímann... tilgangslaust :P

Sumir vilja bara ESB sama hvað það kostar, og aðrir vilja borga Al Gore og elítunni skatta svo þeir bjargi okkur frá veðrinu.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 13:58

30 identicon

Geir, finnst þér ekki að það ætti að leggja niður Hafró og leyfa útgerðum að veiða eins mikið og þeir afkasta?

Skipstjórarnir kunna að fiska og eftirspurnin er nóg eftir fiski.

Í raun og veru er þá rányrkja aðeins hugtak kommúnista.

Smá pæling.

Stefán (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 14:03

31 Smámynd: Geir Ágústsson

Höskuldur,

Þetta er skemmtilegur drullukökuleikur sem þú ert í hérna. Ég segist tortrygginn á vísindi þar sem orðið "consensus" skýtur uppi kollinum í hverri umræðu. Þú segir mig þar með boða stöðvun vísindanna.

Jæja hvað um það.

Ég vona að vísindamenn loftslagsvísindanna haldi áfram að vinna að kappi að því að kortleggja og líkanavæða loftslag Jarðar. Þekking er góð. Að vísu er viðbúið að fjárstreymi í slíka vinnu verði ekki eins mikið í framtíð og það hefur verið seinustu ár, en þá hljóta menn að finna leiðir til að aðlagast, líkt og vísindamenn í öðrum og ekki síður spennandi greinum vísindanna.

Geir Ágústsson, 31.1.2012 kl. 14:04

32 identicon

Geir Ágústsson, 31.1.2012 kl. 14:04: Sæll Geir og þakkir fyrir ágætar pælingar. Þú hittir naglann á höfuðið þegar þú minnist á drullukökuleik þeirra loftslagsfélaga Höska og Svatla. Báðir eru þeir innvígðir og innmúraðir fylgismenn kolefniskirkjunnar á Íslandi.

Til að taka af öll tvímæli þá eru þeirra "vísindi" trúarbrögð IPCC-klíkunnar og ekkert nema þeirra eigin "rétttrúnaður" er gjaldgengur. Þessir andans meistarar (annar eilífðarstúdent og hinn með BS-gráðuna í jarðfræði) hika ekki við að tala niður til "efasemdarmanna" úr háloftum eigin heimsku.

Í raun og sannleika eru félagarnir ekki svaraverðir. Læt hér fylgja með link á nýja frétt DailyMail um niðurstöður rannsókna bresku veðurstofunnar og loftslagsrannsóknarteymi East Anglia háskólans: New temperature data showing the planet has not warmed for the past 15 years.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 19:43

33 identicon

Sæll.

Hvernig ætla þeir sem telja mannkynið hafa 100% áhrif á veðurfar að skýra kalda tímabilið frá ca. 1550-1850? Hafði mannkynið áhrif þá? Hvað gerði mannkynið sem olli þessari kólnun? Kenning sem skýrir hugsanlega hitahækkun núna þarf að skýra þessa hitalækkun líka, ekki satt? Þar held ég að sólin sé besti kandídatinn.

Svo má ekki gleyma því að þó magn CO2 aukist í loftinu hefur það áhrif á t.d. þörunga og gróður, þau ljóstillífa meira.

Þetta er allt saman auðvitað mjög flókið mál. En í dag virðist það vera póltískt rétt að halda því fram að mannkynið hafi áhrif á hitastig jarðarinnar og menn hafa misst sín störf fyrir að halda öðru fram.  

Menn verða alltaf svo hátíðlegir þegar vísindi og vísindamenn ber á góma, vísindamenn eru fyrst menn áður en þeir eru vísindamenn og geta því augljóslega látið hafa áhrif á sig, ýmist af öðrum eða eigin gildismati. Margir gera það.

Helgi (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 21:59

34 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Helgi sjá mýtuna - Afsanna loftslagsbreytingar fyrri tíma, hlýnun jarðar af mannavöldum? og Orsakir fyrri loftslagsbreytinga

Það virðist stundum vera betra að kynna sér málin áður en fullyrðingar um orsök og afleiðingar eru settar fram. Þó að loftslag hafi breyst áður er ekki þar með sagt að núverandi loftslagsbreytingar geti ekki verið af völdum aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum, sem er reyndar staðfest með mælingum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 31.1.2012 kl. 22:05

35 identicon

Það vantar ekki belginginn í stórasta stúdent í heimi: "Það virðist stundum vera betra að kynna sér málin áður en fullyrðingar um orsök og afleiðingar eru settar fram."

Á þessum degi í Íslandssögunni, þegar bensínverð nær sögulegu hámarki - m.a. vegna tvöföldunar á kolefnisskatti sem annar jarðfræðingur en Höski dengdi yfir landsmenn, er rétt að kynna sér málin:

Human "Global Warming" from CO2 has disappeared

Experts see cooling for the decades ahead

Bitter Global Cooling

Forget Global Warming - it's Global Cooling we should worry about


Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 22:53

36 identicon

Forget Global Warming - it's Global Cooling we should worry about

Headlines over solar cycle 25 and potential Global Cooling

"The supposed ‘consensus’ on man-made global warming is facing an inconvenient challenge after the release of new temperature data showing the planet has not warmed for the past 15 years."

Allar vísbendingar hníga í sömu átt: Jörðin er að kólna. Bullvísindi gervivísindamanna og illa menntaðra talsmanna þeirra standast ekki vísindalega skoðun. Pólitísku trúboðarnir í fjórFLokknum hafa afrekað það að neyða landsmenn til að greiða skatta á bensín sem eru fullkomlega tilhæfulausir.

Þessu liði á að refsa - og verður refsað - fyrir heimskuna, barnaskapinn og uppskrúfaðan menntahroka sem nákvæmlega engin innistæða er fyrir.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 23:05

37 identicon

Ég fór að leita betur og viti menn. Finn ég ekki feril frá sömu stofnun í Englandi HadCRUT3. Það er greinilegt að eitthvað er veðurfarið farið að breytast.

Ég sé ekki betur en það hafi kólnað síðastliðinn áratug, eða frá 2002, og jafnvel hefur meðalhitinn meira og minna staðið í stað síðastliðinn fimmtán ár, en það er ekki sýnt með láréttu striki á myndinni. 

En hitastigið hefur greinilega fallið síðasta áratug svo merkilegt sem það er, á sama tíma og kolssýrustyrkurinn hefur hækkað !

Þetta þykir mér svei mér merkilegt. 

 

Gustur (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 07:26

38 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta eru hressandi umræður þótt menn séu komnir aðeins yfir á persónur þátttakenda.

En menn gleyma oft einu þegar ferlar sem sýna hitt og þetta eru teiknaðir til að sýna kólnun eða hlýnun eða hvað það nú er: Veðrið er alltaf að breytast, enginn vetur er eins og sá á undan, ekkert sumar er eins og það á undan. Enginn jökull er eins frá ári til árs.

(Hliðarathugasemd: Mun bráðnun Norðurheimskautsins "vegna hlýnunar vegna losunar CO2" spara svo mikið í olíukostnað vegna skipaflutninga, að CO2-losun vegna skipaflutninga fer lækkandi?)

Hvernig á að gera mannkyninu kleift að aðlagast síbreytilegu veðurfari, sjávarstöðu, loftslagi og hvað það nú heitir? Með því að gefa því efnahagslegt frelsi til að skiptast á vörum, þjónustu, varningi, hugmyndum og lausnum á hinu frjálsa markaðshagkerfi.

Menn nota þetta frelsi til að nýta hagkvæma orkugjafa til að kynda hús sín, knýja verksmiðjur og smíða skjól fyrir veðri og vindum.

Sumir þessara orkugjafa gefa frá sér sót og skít og á hinum frjálsa markaði á það að þýða lögsóknir gegn þeim sem sóta út (að ríkisvaldið hafi á sínum tíma gefið grænt ljós á sót og skít frá iðnaði í nafni framfara, og varnað því að fyrir það væri hægt að lögsækja hann fyrir það, voru ríkisafskipti af mjög slæmri gerð).

Sumir orkugjafanna gefa frá sér ósýnilegar sameindir sem hafa kannski og kannski ekki bein áhrif á einhvern, en ásakanir um slíkt þurfa að standast lágmarkskröfur í dómstól um að athafnir aðila A hafi áhrif á eign og líkama aðila B (eitthvað, sem mér sýnist loftslagsvísindin ekki geta staðið undir þegar kemur að áhrifum CO2 sameindarinnar á eignir).

Svo jú jú það er gaman að sjá ferla, og svolítið leiðinlegt að sjá að kærkomin hlýnun er að breytast í kólnun (finnst engum hérna veturinn vera kaldari í ár en í fyrra?), en það er aukaatriði. Aðalatriðið er að leyfa engum að siga ríkisvaldinu á hið frjálsa framtak í nafni veðurfarsbreytinga, breyttrar sjávarstöðu, annarrar jökulþekju, aukins aðgengis planta og þörunga að CO2, eða hvað það nú er sem menn hafa í vopnabúri sínu.

Geir Ágústsson, 1.2.2012 kl. 07:52

39 Smámynd: Geir Ágústsson

Stefán,

Afstaða mín til fiskveiðiheimilda er útskýrð í mjög stuttu máli hérna, en þetta er allt önnur umræða.

Geir Ágústsson, 1.2.2012 kl. 08:01

40 identicon

Geir, þakka þér fyrir. Þetta hefur allt með náttúruna að gera. Þakka þér fyrir.

Stefán (IP-tala skráð) 1.2.2012 kl. 08:21

41 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Bestu þakkir fyrir góðan pistil og skynsamleg skrif.

Ágúst H Bjarnason, 1.2.2012 kl. 09:42

42 Smámynd: Loftslag.is

Geir: Ég skil ekki þá sem vilja ráðast á mína persónu sérstaklega - því ég fer aldrei yfir í persónuníð sjálfur. Ég vil nálgast svona umræður á vísindalegum nótum og forðast ennfremur að taka afstöðu til mögulegra lausna (þ.e. þarf að skattleggja eða ræður markaðurinn við að draga sjálfur úr losun sem dæmi). 

Því verð ég alltaf jafn hissa þegar ég fæ í andlitið eitthvað svona:

Að ræða við þig Höskuldur um Climategate er einhvernveginn álíka því að ræða um ESB við Jón nokkurn Frímann... tilgangslaust :P

Sumir vilja bara ESB sama hvað það kostar, og aðrir vilja borga Al Gore og elítunni skatta svo þeir bjargi okkur frá veðrinu.

.

...drullukökuleik þeirra loftslagsfélaga Höska og Svatla. Báðir eru þeir innvígðir og innmúraðir fylgismenn kolefniskirkjunnar á Íslandi

...  m.a. vegna tvöföldunar á kolefnisskatti sem annar jarðfræðingur en Höski dengdi yfir landsmenn...

Þegar umræðan er ekki lengur á vísindalegum nótum þá er hún ekki skemmtileg lengur og því bið ég að heilsa ykkur. 

p.s.

(Á)gustur. Enn einu sinni er verið að handvelja þau gögn sem sýna minnsta hlýnun (gögn frá Phil Jones sbr. Climategate) - raða þeim undarlega upp í samhengi við einn þátt hnattrænnar hlýnunar (CO2), draga skáldaðar línur sem hafa engan vísindalegan tilgang og draga síðan kolrangar ályktanir út frá þeim. Vel gert hjá þér að vanda.

Loftslag.is, 1.2.2012 kl. 10:00

43 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Var að henda inn færslu á loftslagsbloggið og þar með vitlaust innskráður - síðasta athugasemd (loftslag.is) var sem sagt ég

Höskuldur Búi Jónsson, 1.2.2012 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband