Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Af hverju ekki að bannað auglýsingar?

Leyfi mér að leggja eitt mjög svo ómálefnalegt innlegg í "umræðuna" hér:

Ríkisvaldið ákvað fyrir löngu síðan að gera alla þá sem auglýstu hinn löglega neysluvarning, áfengi, að glæpamönnum. Í núverandi kreppuumhverfi er slík löggjöf alveg frábær fyrir fjárþyrst ríkisvald. Fleiri og fleiri leita í flöskuna eftir flótta frá raunveruleikanum. Allir sem hafa treyst á auglýsingatekjur eru að sjá þann tekjustofn þurrkast út. Áfengisframleiðendur eru ólmir að koma sínu vörumerki á framfæri.

Niðurstaðan er sú að aukin pressa er á birtingaraðila auglýsinga að grípa til þess ráðs að versla við þá auglýsendur sem enn eiga fé á milli handanna, og þar á meðal áfengisframleiðendur (eða -innflytjendur). 

Með því að refsa harkalega fyrir að birta áfengisauglýsingar, t.d. með sektum, hefur ríkið orðið sér úti um góða tekjulind.

Hví ekki það? Er ekki fjárhagslegt heilbrigði hins opinbera mikilvægara en fjárhagslegt heilbrigði áfengisneytendanna skítugu og ómerkilegu?


mbl.is Dæmdur fyrir áfengisauglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppumeðal dagsins: Lifa í myrkri

Leyfi mér að leggja eitt mjög svo ómálefnalegt innlegg í "umræðuna" hér:

Hin íslenska ríkisstjórn ætlar, að því er virðist, að beita kreppumeðali hér sem heitir: "Hættu að eyða peningum þínum í rafmagn - lifðu í myrkri og eigðu fyrir skattinum."

Ein leið til að ná fram slíku markmiði er að setja dýr og þvingandi lagaákvæði á framleiðendur rafmagns, sem þurfa þá að hækka verð til neytenda, sem munu þá sumir hverjir ekki hafa efni á að kaupa rafmagnið, og þurfa því að lifa í myrkri, nú eða afla sér ódýrra kerta.

Umdeilanleg hugmynd get ég ímyndað mér, en hví ekki að prófa þegar hin svokallaða umhverfissinnaða elíta fær áheyrn yfirvalda?


mbl.is Losunarmörk á jarðvarmavirkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna neitar að sjá sig á ensku

Leyfi mér að leggja eitt mjög svo ómálefnalegt innlegg í "umræðuna" hér:

Jóhanna svarar ekki neinu nema í samskiptum sem fara fram á íslensku. Hún fer hvorki á mikilvæga ráðherrafundi erlendis á vegum stofnana sem Ísland er aðili að, eða svarar erlendum blaðamönnum.

Hinir hollensku sparifjáreigendur vita þetta kannski ekki. Kannski það útskýri bæði ákafa þeirra til lögsóknar í dag, og opinská ummæli þeirra um hugsanlega lögsókn.


mbl.is Kæra Ísland vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Völvuspá Geirs: Fyrsti hluti

Úr seinustu færslu minni:

  • Flokkarnir sættast á að vera sammála um að verða að dæmigerðri vinstristjórn, og um að vera ósammála um ESB

Hér skjátlaðist mér ef til vill. Kannski VG muni standa í hárinu á Samfylkingunni þrátt fyrir allt! Ef svo er, þá gleðst ég mikið yfir því að hafa lesið vitlaust í spilin.

VG eru fullkomlega sátt við að fresta ákvörðun um afstöðu til annars vegar ESB og hins vegar svokallaðrar "stóriðju". Enginn stjórnarsáttmáli mun fæðast á næstunni, jafnvel ekki fyrr en að loknu sumarfríi þingmanna, nú eða bara aldrei eins og raunin var með 100 daga borgarstjórn Dag B. Eggertssonar - borgarstjórn þar sem djúpstæður ágreiningur var um ýmis mál og því auðveldara að sleppa því að ræða þau fremur en að setja eitthvað formlegt og skriflegt niður á blað.

Sjálfum er mér alveg sama. Í raun fagna ég því að vinstriflokkarnir dragi lappirnar og taki sér sem lengsta tíma til að "ræða saman", og það í "starfshópum". Líkur aukast þá á því að eitthvað smámál verði til að sprengja stjórnina, enda þarf ekki stóra öldu til að ýta vélarvana og stefnuleysi skipi á hliðina.

Steingrímur, gangi þér sem allra best við að standa í hárinu á ESB-stefnu Samfylkingarinnar! 


mbl.is Ekkert liggur á stjórnarsáttmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG kyngir, Samfó frestar

Einhverjar undarlegustu stjórnarmyndunarviðræður seinni tíma eiga sér núna stað. VG hefur alltaf og eindregið lýst yfir andstöðu við aðild Íslands að ESB, og hefur ekki látið skoðanakannanir hreyfa sér í því máli. Samfylkingin er nánast orðin að eins-málsefnis-flokki með alla áherslu á að Íslandi gangi inn í ESB - að aðildarviðræður séu bara formsatriði og aðild aðalatriði.

Núna mætast þessir flokkar í stjórnarmyndunarviðræðum, án þriðja hjóls til að krefjast málamiðlunar í skiptum fyrir stuðning sinn.

Núna sest ég í spámannsstólinn, þótt valtur sé, og spái eftirfarandi röð atburða:

  • Flokkarnir sættast á að vera sammála um að verða að dæmigerðri vinstristjórn, og um að vera ósammála um ESB
  • Þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin, fljótlega, um "aðildarviðræður að ESB" (með feitletrun á "viðræður" og að hvergi sé talað um "umsókn")
  • Öllu púðri verður eytt til að ýta niðurstöðu þeirrar kosningar yfir 50% markið. Sjóðir Samfylkingar tæmast, öll ESB-hlynnt samtök og allir fjölmiðlar virkjaðir. Andstæðingar ESB-aðildar reyna að koma sínum málstað að líka, auðvitað, en hafa ekki allar stóru fréttastofurnar á sínu bandi, svo það verður á brattann að sækja
  • Ef 50% markinu verður náð, þá hefst "undirbúningur að aðildarviðræðum", sem VG mun reyna að tefja, og það mun takast fram að næstu kosningum
  • ESB-talið fellur niður, og báðir flokkar geta róað sig við það, en á gjörólíkum forsendum (VG vill frestun og fær hana, Samfylking getur sagt sínu fólki að allt sé í vinnslu)
  • Ef 50% markinu verður ekki náð, þá geta báðir stjórnarflokkar sagt, af Samfylkingu, að málinu sé "frestað" en að "enn sé unnið" að breytingum í samskiptum Íslands og ESB, og að aðild sé "ekki útilokuð", en þá bara "í framtíðinni", jafnvel "í náinni framtíð". VG þegir yfir slíku tali
  • Sama hvort það verður: Vinstristjórnin samhent og án ágreinings brennir Ísland til kaldra kola
  • Kosningar á ný

Ætla ekki að leggja neitt fé undir þetta, en held þetta, og raunar vona. Sjáum hvað setur.


mbl.is Ekki víst að langt sé í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB fékk 30% atkvæða

Einn áhugaverður punktur um kosningarnar (tekinn héðan):

Í kosningunum í gær náði Samfylkingin ekki einu sinni 30% atkvæða, þrátt fyrir lamaðan Sjálfstæðisflokk og látlausa baráttu Morgunblaðsins og hóps sjálfstæðismanna fyrir eina kosningamáli Samfylkingarinnar. Það er allt „Evrópuákallið“ sem Samfylkingarmenn innan og utan fjölmiðla reyna nú að segjast hafa heyrt.Samfylkingin fær beinlínis minna fylgi árið 2009 en árið 2003. Ætli skýringin sé nokkuð sú, að árið 2009 talaði hún meira um Evrópusambandið?

Nú er það auðvitað svo að ESB-blöðin (Mogginn og Fréttablaðið) og ESB-útvarpsmiðlarnir (RÚV og Stöð 2) láta umræðuna hljóma þannig að mikill og gríðarlegur áhugi sé hjá "þjóðinni" á ESB-aðildarumsókn, og því að ganga í ESB. Ögmundur segir samt kokhraustur frá því að hann vilji varpa ákvörðuninni frá kjörnum fulltrúum og út til atkvæðagreiðslu, með VG eindregið andsnúið aðildinni í eigin herbúðum.

Hvernig stendur á því? Af því hann veit að hinn meinti ESB-áhugi þjóðarinnar er ekki meiri en svo að eini "göngum í ESB, helst í gær!" flokkurinn fékk næstverstu kosningu sína frá upphafi. Það er mín túlkun á orðum Ögmundar, sama hvað minni persónulegu og eindregnu andstöðu við aðild Íslands að ESB líður.


mbl.is Þjóðin verður að ráða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Henni verður komið inn á þing einhvern veginn

Ég trúi nú ekki svo mikið á lýðræðisást Vinstri-grænna að ég haldi að Kolbrún Halldórsdóttir verði utan þings lengi. Hún fær einfaldlega ráðherrastól úthlutuðum og kemst þannig inn á þing aftur. Enda ekki til betra efni í umhverfisráðherra en sprenglærður leikari, því það þarf leiklistarhæfileika til að segja - án þess að gefa nokkuð upp með svipbrigðum sínum - að náttúra Íslands sé að fara til fjandans við hverja skólfustungu.

Rammasta vinstristjórn Íslandssögunnar er nú svo gott sem fædd. Vonandi byrjar hún á að fara í langt og mikið sumarfrí. Það er ódýrara fyrir skattgreiðendur að borga þingmönnum fyrir að sitja heima en að halda þeim við vinnu við að eyða seinustu krónum þjóðarbúsins, og skuldsetja það 100 ár fram í tímann.

Þeir sem vilja læra meira um hvernig á að lækna kreppur ættu að hlusta á eftirfarandi fyrirlestur, sem ber kreppuna 1920-1921 í Bandaríkjunum saman við Kreppuna miklu sem hófst formlega árið 1929:

Why You've Never Heard of the Great Depression of 1920 (MP3-skrá)


mbl.is Ráðherra féll af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bless, Ísland

Enn einu sinni ætlar vinstristjórn að reyna halda út í heilt kjörtímabil. Vonandi mistekst það, eins og fyrri tilraunir til slíks.

Íslendingar mega búast við að eftirfarandi kosningaloforð þessarar stjórnar komist til framkvæmda, en önnur ekki:

  • Hærri skattar á meðaltekjur og háar tekjur
  • Hærri skattar á fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja (sem er að vísu varla til staðar neins staðar í dag)
  • Aukin ríkisútgjöld til hinna ýmsu afkima ríkisvaldsins
  • Báðir flokkar eru óhræddir við að skuldsetja ríkisvaldið (skattgreiðendur)
  • Alls kyns boð og bönn, t.d. á fækkun fata gegn greiðslu, eru mjög ofarlega á lista þessara flokka, meira að segja á tímum efnahagskreppu þar sem margt gæti talist mikilvægara
  • Auðlindir Íslands séu færðar úr eigu einstaklinga og í hendur ráðherra, sem hafa vitaskuld tröllatrú á stjórnunarhæfileikum sínum, þótt þeir hafi ekki látið reyna á þá í atvinnulífinu

Ég vona að stjórnin springi út af ágreiningu um álver, Drekasvæðið, ESB og almennt um allt sem situr eins og gjá á milli tveggja flokka sem eiga það eitt sameiginlegt að vilja hækka skatta, og jú halda völdum.

Bless, Ísland. Í bili.


mbl.is Jóhanna: Get brosað breitt ef þetta er niðurstaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin fyrirsjáanlega ríkisstjórn að fæðast

Ríkisstjórn Samfylkingar og VG verður athyglisverð - nánast eins og knattspyrnuleikur þar sem allt getur gerst, en þar sem allir vita í raun að búið er að ákveða leikkerfin fyrirfram.

Mun hún sækja um samruna inn í Evrópusambandið? Vinstri-grænir væru vísir til að fórna einarðri andstöðu við slíkt til að halda völdum.

Mun hún beita löggjafarvaldinu til að stöðva "stóriðju"framkvæmdir sem nú þegar er búið að ganga frá og samþykkja?  Vinstri-grænir væru vísir til að fórna einarðri andstöðu við þær til að halda völdum.

Mun hún stöðva alla umræðu og vinnu hins opinbera vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu sem gæti hafist innan eins eða tveggja áratuga? Samfylkingin væri vís til að fórna miklum áhuga sínum á þessu máli til að halda völdum.

Það er eitt og annað sem þessir flokkar eru ósammála um. Þó er margt sem báðir flokkar hafa talað um á jákvæðum nótum, og þar munu þeir láta hendur standa fram úr ermum, enda enginn ágreiningur á ferð.

Dæmi:

  • Hærri skattar á meðaltekjur og háar tekjur
  • Hærri skattar á fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja (sem er að vísu varla til staðar neins staðar í dag)
  • Aukin ríkisútgjöld til hinna ýmsu afkima ríkisvaldsins
  • Báðir flokkar eru óhræddir við að skuldsetja ríkisvaldið (skattgreiðendur)
  • Alls kyns boð og bönn, t.d. á fækkun fata gegn greiðslu, eru mjög ofarlega á lista þessara flokka, meira að segja á tímum efnahagskreppu þar sem margt gæti talist mikilvægara
  • Auðlindir Íslands séu færðar úr eigu einstaklinga og í hendur ráðherra, sem hafa vitaskuld tröllatrú á stjórnunarhæfileikum sínum, þótt þeir hafi ekki látið reyna á þá í atvinnulífinu

Eitthvað fleira má sjálfsagt týna til. 

Ofantalin eru í sjálfu sér ekki atriði til að deila um. Komandi vinstristjórn mun haga sér eins og skattheimtandi brjálæðingar sem sekkur Íslandi í skuldafen og gerir ekkert sem mun byggja upp hagkerfið, þótt ásetningurinn sé annar.

Deilan snýst ekki um hvort það verði raunin eða ekki. Hún snýst bara um það hvort fólk vilji það eða ekki. Ef þú, kæri lesandi, vilt hærri skatta og sökkvandi hagkerfi, þá kýstu auðvitað til vinstri, og ég get lítið sett út á það, enda þú frjáls þinnar skoðunar, og þitt atkvæði er þitt atkvæði, og það er lýðræði á Íslandi. Sjálfur er ég ekki þannig þenkjandi. Gölluð peningamálastefna, sem allir flokkar voru sammála um en Sjálfstæðisflokkur og Samfylking leiddu á meðan hún brotlenti.  sendi Ísland 10 ár aftur í lífskjörum. Enginn flokkur hefur boðað aðra peningamálastefnu. Hagstjórnina myndi ég samt vilja sjá færast í hendur Sjálfstæðismanna. Sú verður ólíklega raunin. Þá það.

Vinstristjórn á Íslandi hefur aldrei setið út heilt kjörtímabil án Framsóknarmanna sem nú eru svo gott sem horfnir af sjónarsviðinu. Ég vona að sú viðleitni haldi áfram þótt svartsýni sé sennilega við hæfi. Jafnvel biturð, svo ég játi það nú.

Góðar kosningar!


mbl.is Sögulegar kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýr Skattmann aftur eftir kosningar?

Er fólk kannski búið að gleyma seinustu vinstristjórn? Það skyldi þó aldrei vera!


mbl.is Þvermóðska Jóhönnu gerði hana að forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband