Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Leiðbeiningar fyrir ringlaðan hagfræðing

... Það er erfitt að nefna einstakar skýringar á þessu, fyrir utan stöðu krónunnar, því það virðist vera nokkuð dreift hvað það er sem hækkar. Hvort um er að ræða innlend áhrif, eða óbein erlend áhrif; það er erfitt að segja,“ segir Ólafur Darri.

Já, þetta er erfitt.  En kannski get ég aðstoðað aðeins.

Á Íslandi vantar góða og gegnsæja yfirsýn yfir magn peninga í umferð. Þetta er raunar vandamál í fleiri ríkjum. Lítið mál er að afla þess konar upplýsinga fyrir Bandaríkin. Öllu verra er að gera það fyrir evruna og ég held alveg ómögulegt í tilviki íslensku krónunnar nema senda fyrirspurn á Seðlabanka Íslands.

En hvernig gætu svo upplýsingar um magn íslenskra króna í umferð nýst? Langtímaáhrifin á þróun verðlags verða augljós: Aukning á peningamagni í umferð rýrir kaupmátt hverrar krónu í umferð. Það er eitt. Skyndileg aukning er góð vísbending um minnkun kaupmáttar í framtíðinni. Auðvitað eru flækjustig í þessu, en að mínu mati er flóknara að greina stöðu efnahagsmála án upplýsinga en með upplýsingum. Rökhugsun þarf svo að fylgja með. Án hennar eru gögn gagnslaus. 

Upplýsingar um langtímaþróun peningamagns í umferð eru einnig góð vísbending um undirliggjandi "þenslu" í hagkerfinu. Stórar bólur verða sýnilegar áður en þær springa þegar rýnt er í gögn um peningamagn í umferð. Þegar bóla springur, og peningamagn í umferð á að öllu jöfnu að dragast saman, og þar með verðlag, er hægt að skoða upplýsingar um peningamagn í umferð til að leggja mat á batann í hagkerfinu. Ef peningamagn er hreinlega að aukast eftir hrun er það til marks um ákafa þrjósku peningayfirvalda og ríkisins til að taka til eftir hrun.

Eða hvernig er það, er hægt að nálgast "lifandi" tölur um magn íslenskra króna í umferð? 


mbl.is Hagfræðingur ASÍ: Mikil vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggja: Réttlát eða hagkvæm? Bæði!

Skemmtilegar "ritdeilur" eða rökræður eiga sér nú stað um frjálshyggju á milli frjálshyggjumannsins Gunnlaugs Jónssonar [1|2] og vinstrimannsins Jóns Steinssonar [1|2]. 

Skrif þeirra um frjálshyggjuna bera öll klassísk einkenni slíkrar umræðu: Þegar frjálshyggjumaðurinn talar um réttlæti hugsjóna sinna er hann ásakaður um að líta framhjá hagkvæmni hinna ýmsu ríkisafskipta (skattheimtu, lögskyldra trygginga og sitthvað fleira). Þegar frjálshyggjumaðurinn talar um hagkvæmni valfrelsisins og fjarveru hafta er hann ásakaður um að vera á veikum siðferðisgrundvelli og einblína um of á hagkvæmnisrökin.

Þegar frjálshyggjumaðurinn bendir á rannsóknir er honum gefið að einblína á tölfræði. Þegar hann beitir hreinum rökum er hann ásakaður um að líta fram hjá rannsóknum. Þegar hann talar um siðferðisleg gildi er hann ásakaður um að búa í skýjaborg. Þegar hann bendir á augljós dæmi úr hversdagsleikanum er hann ásakaður um að líta framhjá heildarmyndinni. Þegar hann fordæmir allt ofbeldi er hann ásakaður um að vera óraunsær. Þegar hann fordæmir forræðishyggju er það sagt að hann vilji að allir fari sér að voða. 

Frjálshyggjumaðurinn á auðvitað ekki í vandræðum með þetta. Hann getur sagt að frjálshyggjan sé bæði réttlát og hagkvæm. Hann getur rökstutt á ýmsa vegu. En vinstrimaðurinn lætur sér ekki segjast. Hann er þess fullviss að ofbeldi á réttum tíma og réttum stað sé bæði hagkvæmt og réttlátt. En þannig er það bara. Menn verða sammála um að vera ósammála. Sá fyrri segir "ofbeldi er slæmt" og sá síðar segir að ofbeldi sé hægt að flokka í "gott" eða "illnauðsynlegt" ofbeldi annars vegar, og "slæmt" ofbeldi hins vegar. Hver sér um að flokka? Það sér vinstrimaðurinn um.

Ég vona að þeir Jón og Gunnlaugur haldi áfram að skiptast á ágætlega skrifuðum pistlum sem eru í senn fræðandi og skemmtilegir.  


Hærri skattar OG skuldir = árangur?

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) keyrir á sömu hagfræði og leiddi til hruns hins alþjóðlega fjármálakerfis. Hann hefur ekki kastað þeirri hagfræði á bálið ennþá. Það sem hann segir er því sama spekin og leiddi til hrunsins. 

Á einum stað (hér á bls. 220) segir um AGS:

 Many people let themselves be deluded about the IMF and the World Bank because they tend to evaluate financial institutions in light of their (declared) intentions rather than in light of their true nature. They assimilate the IMF into some sort of collective charity, and chide it for not being generous enough whenever the management insists on granting additional credit only under certain conditions (usually a change of economic policy in the recipient country). But the fact is that both bureaucracies do not obtain their funds on the free market, but out of government budgets. They spend taxpayer money, not money that anybody has entrusted to them. They are therefore not “banks,” certainly not in the commercial sense of the word. And they are not charities in the sense in which private organizations administer charity.

Í stuttu máli: AGS er óþarfi. Þetta er batterí sem er rekið með pólitíska hagsmuni að leiðarljósi, fyrst og fremst. 


mbl.is Fjármagnshöftin verða áfram til 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vont hefur versnað

Á það er alltof sjaldan bent, en núverandi stjórnvöld bera ábyrgð á núverandi stjórn Íslands.

Nei, ekki þarseinasta eða þarþarseinasta ríkisstjórn heldur sú ríkisstjórn sem núna situr.

Til hvers að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa og gera svo ekki annað en benda hálfan áratug aftur í tímann til að finna blóraböggla fyrir eigin getuleysi?

Skuldasöfnun ríkisstjórnarinnar er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Skuldir frá þarseinustu og þarþarseinustu ríkisstjórn eru á ábyrgð þarseinustu og þarþarseinustu ríkisstjórnar.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bera ábyrgð á því að hafa haldið ríkisbólunni í vexti, t.d. í gegnum Íbúðarlánasjóð, á misserunum upp undir hrun. Hrunið varð því meira áfall en það hefði geta orðið. 

Fjármálakerfið hrundi, en vinnuvélar, verksmiðjur, tölvur, hæfileikar og menntun stóðu eftir sem áður í fullkomnu ásigkomulagi. Úthreinsun á vondum samningum og skuldum er hægur leikur ef stjórnvöld standa ekki í veginum.  

Samfylkingin og Vinstri-græn bera ábyrgð á skuldaklafanum sem hefur verið hengdur um háls íslenskra skattgreiðenda í stjórnartíð Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna. Stöðnun í fjárfestingu og mikið atvinnuleysi er sömuleiðis á ábyrgð þessara flokka.

Hagkerfið er bara 2-3 misseri að útrýma atvinnuleysi, koma fjárfestingu af stað og hefja niðurgreiðslu skulda ef ríkisvaldið fjarlægir nógu mikið af böndunum sem það leggur á verslun, viðskipti og samskipti.

Ég vona að stjórnarandstaðan fari nú að vakna. Betra er seint en aldrei! 


mbl.is Skuldir þjóðarbúsins hafa aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langar að sitja fundi með útlendingum

Í íslenskri stjórnsýslu virðist nú vera sprottinn upp mikill áhugi á að sitja fundi með vel launuðum útlendingum, aðallega ráðgjöfum. Um daginn var sagt frá því að íslensk stjórnvöld ætla að forðast að taka ákvarðanir í hinni svokölluðu makríl-deilu fyrr en eftir að rándýrir, erlendir ráðgjafar hafa sagt sína skoðun á málinu. 

Hvernig ætli standi á þessum áhuga á að borga útlendingum stórfé til að hugsa fyrir sig? Þykir það fínt? Líta opinberir starfsmenn með öfundaraugum á stjórnendur íslenskra fyrirtækja sitja fundi með útlendingum? Þykir "faglegt" að forðast alla ákvarðanatöku og senda þess í stað málið í "nefnd" eða til "erlendra ráðgjafa"?

Hérna er gott ráð fyrir hina íslensku stjórnsýslu: Það er ódýrara og jafnvel oft á tíðum betra að hugsa um málin sjálfur en að borga útlendingum til að setja sig inn í mál og taka fyrir þig ákvörðun. 


mbl.is Til greina kemur að afla erlendra álita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd: Fækka verkefnum hins opinbera

Ég vorkenni oft opinberum starfsmönnum. Það er svo mikið að gera hjá þeim! Fyrirspurnirnar eru svo margar! Eyðublöðin eru svo mörg! Álagið er svo mikið!

Tökum dæmi: Maður nokkur ætlar að stofna lítið fyrirtæki og flytja inn ost sem hann smakkaði á einhverju ferðalaginu og vill endilega geta boðið Íslendingum upp á.

Hvað ætli hann þurfi að ónáða marga opinbera starfsmenn?

Hann þarf að sækja um kennitölu. Hann þarf að útbúa pappíra fyrir skattinn. Hann þarf að tala við eftirlitsaðila vinnustaða og segja þeim frá skrifstofu- og vörugeymsluaðstöðu sinni. Hann þarf að sækja um leyfi fyrir ostinnflutningum, og þar sem útlendur ostur er ekki vel séður af íslenskum yfirvöldum þarf hann sennilega að sækja um mörg leyfi hjá mörgum aðilum. Hann þarf að gera skýrslu fyrir tollayfirvöld. Verslun ein samþykkir að setja ostinn í hillur sínar og þarf þá að fylla út allskyns blöð og gera skýrslur.

Hvað ætli ákvörðun mannsins um innflutning á osti hafi lent á borði margra opinberra starfsmanna? Ég giska á tugi. Hafa opinberir starfsmenn gott af þessu mikla áreiti? Ég held ekki. Hvernig væri að skera á reglugerðafrumskóginn, fækka sköttum, afnema tolla og gefa opinberum starfsmönnum meira svigrúm? Hvernig væri svo að fækka þessum opinberu starfsmönnum og gefa þeim sem eftir eru meira fótapláss á skrifstofunni?

Ég er hlynntur minna álagi og meira fótaplássi hjá opinberum starfsmönnum.

Þess vegna legg ég til að ríkisvaldið dragi umtalsvert úr umsvifum sínum og eyðublaðafjölda. Þeir sem eftir eru geta svo setið við tölvuskjáinn og svarað jafnóðum þeim örfáu spurningum sem berast þeim í tölvupósti. Tölvu- og samskiptatæknivandamál ríkisvaldsins leyst!

Ekkert að þakka.  


mbl.is Biðjum um byltingu og brunum af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónei! Nýr sjóður!

Enn á ný er eftirfarandi handrit spilað í íslenskri samfélagsumræðu:

Við höfum komið auga á mikið og alvarlegt vandamál. Við, sem sérfræðingar á þessu sviði, tökum þetta mjög alvarlega. Við erum áhyggjufullir. Við leggjum til að skattgreiðendur séu mjólkaðir ofan í sérstakan sjóð sem við fáum til ráðstöfunar.

Stjórnmálamenn bregðast vitaskuld hratt og vel við.

Við skiljum vandamál ykkar. Að vísu eru ekki til fjármunir í sjóð af þeirri stærð sem þið talið um, en við getum byrjað á helmingi minni sjóð og þið vitið svo vel að hann verður stækkaður á næsta ári ef þið fyllið fyrirsagnir fjölmiðla af auknum áhyggjum og talið um smæð sjóðsins. Enginn sjóður er nokkurn tímann lagður niður hjá hinu opinbera svo þetta ætti að teljast góð málamiðlun.

Málamiðlunin næst og niðurstaðan er enn einn sjóðurinn sem skattgreiðendur eru mjólkaðir ofan í, en fáir og útvaldir og hávaðasamir fá tið ráðstöfunar.

Sjóðurinn verður svo vitaskuld notaður í eitthvað allt annað en það sem virkar. Í stað þess að þessir áhyggjufullu setjist sveittir niður, í eigin frítíma, og semji góð og lipur íslensk orð fyrir ný fyrirbæri, þá fá þeir sjóð. Sá sjóður verður notaður í rándýrar hönnunarkeppnir og auglýsingaherferðir sem enginn tekur eftir.  


mbl.is Tungan heldur ekki í við tæknina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, skilar sér ekki til baka, hvað þá margfalt

Þannig að hver einasta króna sem þarna fer út hún skilar sér margfalt aftur til baka inn í ríkissjóð ...

segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Þetta er auðvitað ekki rétt. Katrín er hérna meðvitað eða ómeðvitað að tala í anda hagfræði Keynes. Sú hagfræði heyrir vonandi sögunni til þegar skulda- og peningaprentæðinu lýkur á Vesturlöndum með fjöldagjaldþrotum ríkissjóða. Ef þetta væri rétt lægi ljóst fyrir að ef ríkisvaldið skuldsetti sig um 1000 milljarða og pumpaði öllu fénu út í hagkerfið þá kæmu þessir milljarðar "margfalt" til baka og Íslendingar þyrftu ekki að vinna í langan tíma.

Frederic Bastiat (1801-1850) gaf okkur það heilræði að taka ummæli og yfirlýsingar stjórnmálamanna til hins rökrétta endapunkts þegar kemur að því að afrugla vitleysuna.

Again, would you judge of the two doctrines? Submit them to the test of exaggeration. 

(Úr The Bastiat Collection, bókin Economic Sophisms (First Series), kafli 11; bls. 246)

Þetta heilræði á vel við hérna.

Skuldsett fjárfesting hins opinbera er að öllum líkindum bara að fara auka skattbyrðar okkar í framtíðinni, og skola nokkrum stjórnmálamönnum inn í endurkjör á Alþingi næsta vor. 


mbl.is Krónurnar skila sér margfalt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ALLAR skattalækkanir 'milda áhrif' skattheimtu

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur að undanförnu verið rætt um að dregið verði úr þessum áformum um skattahækkanir á gistinguna [úr 7% í 25,5%] með upptöku þriðja skattþrepsins, sem verði milliþrep í virðisaukaskattskerfinu, til að milda áhrif skattahækkunarinnar á ferðaþjónustuna.

Stjórnmálamenn eru alveg ótrúlegar skepnur. Fyrst ræða þeir um að þre- eða fjórfalda skattheimtu á einhvern tiltekinn hóp eða tiltekna starfsemi. Fórnarlömb þeirrar skattahækkunar mótmæla, halda ráðstefnur og fá erlenda spekinga til að tjá sig um málið. Stjórnmálamennirnir, sem sjá að kosningar eru að nálgast, bjóðast þá til að gefa eftir. Nú skal skatturinn ekki þre- eða fjórfaldaður. Hann á bara að tvöfalda. Það jafnast á við ríflega skattalækkun miðað við fyrri áform. Eru þá ekki allir sáttir?

Allir skattar á allt eru hindranir á milli veitenda/seljenda og kaupenda. Snillingurinn Frederic Bastiat(1801-1850) líkti til dæmis tollum iðulega við manngerðar hindranir, sem jöfnuðust á við vegtálma, lélega vegi og þjóðvegaræningja. Af hverju að eyða fúlgum fjár í að leggja breiðan og greiðan veg til að lækka flutningskostnað og auðvelda samgöngur og vöruflutninga ef þú ætlar svo að tolla vörur sem fara um veginn? Hefði þá ekki verið betra að sleppa því að eyða í vegaumbæturnar og spara sér um leið að reisa tollahlið og hafa menn í vinnu við að smyrja ofan á kostnað vegna flutninga á varningi milli landamæra?

Um skatta má segja svipaða sögu. Af hverju að eyða fúlgum fjár í að reyna lokka ferðamenn til landsins ef þá á svo bara að gera fráhverfa Íslandi þegar þeir lesa verðskrár gistiheimila? 

Af hverju að reyna hvetja fyrirtæki til "nýsköpunar" og "fjárfestinga" og "atvinnusköpunar" ef hver ný króna í kassann feykir skattprósentunni upp í hæstu hæðir?

Af hverju að spara og leggja fé til hliðar fyrir börn sín og barnabörn ef erfðafjárskatturinn, "auðlegðar"skatturinn og fjármagnstekjuskatturinn hrifsar sífellt meira í hirslur ríkisins?

Af hverju að spara þegar maður getur fengið vaxtabætur fyrir að skulda?

Af hverju að fjárfesta, og lenda í hárri skattheimtu, þegar það er hægt að eyða og safna skuldum og fá "niðurfærslu" og aðstoð úr vösum skattgreiðenda?

Stjórnmálamenn skilja fæstir að allt sem þeir segja um eina tegund skattheimtu, sem á að "milda", gildir um allar aðrar tegundir skattheimtu.

Það er ekki flækjustigið sem truflar hið frjálsa hagkerfi mest. Það er þyngd hins opinbera og fjárþörf. Skattþrepin mega gjarnan vera þrjátíu talsins ef bara flestir geta fundið leiðir til að lenda í lægsta þrepinu. Skattur á uxamjólk frá Tíbet má gjarnan vera 300% í landi þar sem ekki er drukkinn dropi af henni.  

Skattgreiðendur mættu gjarnan láta í sér heyra, líka þegar skattheimtan beinist að öðrum en nákvæmlega þeim sjálfum í tilteknu tilviki.  


mbl.is Rætt um nýtt skattþrep
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott, en ekki nóg

Stjórn SUS telur sem fyrr að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins, án niðurskurðar í heilbrigðis-, velferðar- eða menntamálum ...

... segir í tilkynningu SUS. SUS gerir vel með því að benda á hið augljósa, sem virðist samt vera dulið mörgum. 

Hins vegar er óhætt að segja að hér sé ekki höggvið nógu djúpt. Þau "kerfi" sem á að hlífa við niðurskurði (og sem áfram á að fjármagna í gegnum skatta) eru einmitt þau sem þurfa hvað mest á því að halda að sleppa úr greipum ríkisvaldsins. Sóun hins opinbera er einmitt mest á sviðum mennta- og heilbrigðismála. Þar þarf að hleypa að samkeppni, frjálsu vali og frumkvöðlastarfsemi. Þar þarf að skila valdinu aftur til almennings. Þar er mest áríðandi að skera á tengsl ríkis og þjónustu.

SUS er auðvitað að reyna að mjaka umræðunni í ákveðna átt að því að benda á hið augljósa sem er samt mörgum dulið: Að mjög víða er hægt að spara í rekstri ríkisins án þess að hrófla við umdeildustu málaflokkunum. Þannig megi mjakast nær því að ná einhvers konar sátt um minnkandi opinber umsvif.

Rót vandans er hins vegar hinn dýri hluti ríkisrekstrarins, og þar sem ríkisvaldið er með einokunarstöðu í krafti lögþvingaðra yfirburða sinna og skattheimtuvalds.

Þar á að skera dýpst og einkavæða mest (og um leið má lækka skatta mikið).  


mbl.is SUS afhenti fjárlagatillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband