ALLAR skattalækkanir 'milda áhrif' skattheimtu

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur að undanförnu verið rætt um að dregið verði úr þessum áformum um skattahækkanir á gistinguna [úr 7% í 25,5%] með upptöku þriðja skattþrepsins, sem verði milliþrep í virðisaukaskattskerfinu, til að milda áhrif skattahækkunarinnar á ferðaþjónustuna.

Stjórnmálamenn eru alveg ótrúlegar skepnur. Fyrst ræða þeir um að þre- eða fjórfalda skattheimtu á einhvern tiltekinn hóp eða tiltekna starfsemi. Fórnarlömb þeirrar skattahækkunar mótmæla, halda ráðstefnur og fá erlenda spekinga til að tjá sig um málið. Stjórnmálamennirnir, sem sjá að kosningar eru að nálgast, bjóðast þá til að gefa eftir. Nú skal skatturinn ekki þre- eða fjórfaldaður. Hann á bara að tvöfalda. Það jafnast á við ríflega skattalækkun miðað við fyrri áform. Eru þá ekki allir sáttir?

Allir skattar á allt eru hindranir á milli veitenda/seljenda og kaupenda. Snillingurinn Frederic Bastiat(1801-1850) líkti til dæmis tollum iðulega við manngerðar hindranir, sem jöfnuðust á við vegtálma, lélega vegi og þjóðvegaræningja. Af hverju að eyða fúlgum fjár í að leggja breiðan og greiðan veg til að lækka flutningskostnað og auðvelda samgöngur og vöruflutninga ef þú ætlar svo að tolla vörur sem fara um veginn? Hefði þá ekki verið betra að sleppa því að eyða í vegaumbæturnar og spara sér um leið að reisa tollahlið og hafa menn í vinnu við að smyrja ofan á kostnað vegna flutninga á varningi milli landamæra?

Um skatta má segja svipaða sögu. Af hverju að eyða fúlgum fjár í að reyna lokka ferðamenn til landsins ef þá á svo bara að gera fráhverfa Íslandi þegar þeir lesa verðskrár gistiheimila? 

Af hverju að reyna hvetja fyrirtæki til "nýsköpunar" og "fjárfestinga" og "atvinnusköpunar" ef hver ný króna í kassann feykir skattprósentunni upp í hæstu hæðir?

Af hverju að spara og leggja fé til hliðar fyrir börn sín og barnabörn ef erfðafjárskatturinn, "auðlegðar"skatturinn og fjármagnstekjuskatturinn hrifsar sífellt meira í hirslur ríkisins?

Af hverju að spara þegar maður getur fengið vaxtabætur fyrir að skulda?

Af hverju að fjárfesta, og lenda í hárri skattheimtu, þegar það er hægt að eyða og safna skuldum og fá "niðurfærslu" og aðstoð úr vösum skattgreiðenda?

Stjórnmálamenn skilja fæstir að allt sem þeir segja um eina tegund skattheimtu, sem á að "milda", gildir um allar aðrar tegundir skattheimtu.

Það er ekki flækjustigið sem truflar hið frjálsa hagkerfi mest. Það er þyngd hins opinbera og fjárþörf. Skattþrepin mega gjarnan vera þrjátíu talsins ef bara flestir geta fundið leiðir til að lenda í lægsta þrepinu. Skattur á uxamjólk frá Tíbet má gjarnan vera 300% í landi þar sem ekki er drukkinn dropi af henni.  

Skattgreiðendur mættu gjarnan láta í sér heyra, líka þegar skattheimtan beinist að öðrum en nákvæmlega þeim sjálfum í tilteknu tilviki.  


mbl.is Rætt um nýtt skattþrep
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband