Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019

Sprengisandur: Daufur þáttur sem skilur lítið eftir

Ég er að hlusta á umræðuþáttinn Sprengisand á Bylgjunni núna. Þar eru mættir í settið Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB.

Miðað við mannvalið mætti ætla að nú væri í gangi leiftrandi umræða þar sem menn skiptast á rökum og því að mæla fyrir frjálsu markaðshagkerfi vs. sósíalisma, samruna við ESB vs. frjáls heimsviðskipti og opinbera spillingu vs. spillingu í samskiptum viðskiptalífs og hins opinbera.

En nei, þetta er ósköp rólegt kaffibollaspjall. Menn vísa í skoðanakannanir 20 ár aftur í tímann, nefna þjóðarvilja hægri og vinstri og tala um að það þurfi að gera ýmsar heildarúttektir. 

Menn eru að tala um að svipta fyrirtæki atvinnutækjum sínum sem voru þó greidd fullu verði, mikilvægi þess að fyrirtæki séu smá og veik og ósamkeppnishæf við mun stærri erlend fyrirtæki og að það sé gamaldags hugsun að ríki vilji ráða yfir eigin hagsmunum.

Meira að segja þeir gestir þáttarins sem eru ósammála hinum fara sér mjög hægt í sakirnar að svara fyrir sig. 

Þetta er allt frekar dauft og ég er ekki að heyra margt sem er nýtt í mínum eyrum. 

Mætti ekki krydda svona þætti með því að spyrja gesti með beinskeyttum hætti hvert lokatakmarkið sé með hinum og þessum vangaveltum? Að gestir geti ekki bara talað í loðnu máli um úttekt á hinu og endurskoðun á þessu heldur þurfi að segja hver raunveruleg skoðun viðkomandi er?

Menn þurfa þá kannski að hafa einhver rök fyrir máli sínu á hreinu.

En nei, menn skiptast á hálfkveðnum vísum og enginn þarf að fylgja hugsun sinni á endastöð.

Því miður.

En nú lauk þættinum og við tekur væntanlega eitthvað annað léttmeti. Ég ætla að setja á tónlist.


Fleira sem mætti banna

Áróður er nú rekinn fyrir því að banna flugelda. Ástæðurnar eru nokkrar:

  • Mengun
  • Peningasóun
  • Hávaði

En af hverju að láta staðar numið við flugelda? Listinn yfir hluti og iðju sem mengar, veitir skammtímagleði og myndar hávaða er mjög langur. 

Til dæmis mætti banna svifryk. Þetta þýðir auðvitað ekki að sveitarfélög þrífi götur sínar til að losna við það heldur banna uppsprettu þess: Bíldekk. Fólk getur bara labbað eða rennt sér á hjólabrettum.

Svo mætti banna partý í heimahúsum. Þau eru hávaðasöm.

Einnig mætti banna hverskyns hávaðasamar framkvæmdir. Það er hægt að reisa tréhús og leggja malarvegi á hljóðlausan hátt.

Í leiðinni mætti banna fjáröflun. Allt sem þarf að reka gæti verið rekið fyrir skattfé þar sem fé er mengunar- og hávaðalaust millifært frá launareikningum og yfir í ríkissjóð.

Það er sennilega til mikils að vinna að lækka desíbilin í 6 klukkutíma á ári til að koma björgunarsveitunum á fjárlög og sjálfboðaliðum þeirra á lista yfir ríkisstarfsmenn og eyða hinni tímabundnu mengun og tilheyrandi látum. Hljóðlát og ríkisrekin tilvera er lokatakmarkið og engin vandi að koma á slíku ástandi, með boðum og bönnum.


mbl.is Afstaða til flugelda neikvæðari en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ætlar sér enginn að þrífa almenningsklósett

Vændi er tilfinningaþrungið umræðuefni. Skiljanlega. Margir geta ekki hugsað sér að koma nálægt vændi, hvorki sem veitendur né kaupendur. Þeir hafa jafnvel sterkar skoðanir á bæði sölu og kaupum á vændi. Því er jafnvel haldið fram að vændi og mansal séu nátengd fyrirbæri - að þeir sem stundi vændi séu nánast undantekningalaust undir oki þriðja aðila sem þvingar, kúgar og rænir.

Þetta er óheppileg nálgun.

Menn hafa reynt að banna vændi á einn eða annan hátt: Sölu þess eða kaup eða bæði. Niðurstaðan er alltaf sú sama: Hinn svarti markaður herðir tök sín og fólk sem beitir engan ofbeldi er sett í gapastokkinn og svipt ærunni.

En á þá bara að gefa vændi frjálst og leyfa sölu þess og kaup? Já, auðvitað. 

Hvað með fórnarlömb mansals? Nú þegar er bannað að svipta fólk frelsi. Svo verður áfram. Það er bara allt annar hlutur.

Það ætlar sér enginn að gera þrif á almenningsklósetti að atvinnu sinni. Ekkert barn segir að það sé draumastarfið. Þó er fólk að þrífa almenningsklósett því það er besti valkostur þess. Aðrir möguleikar eru líf glæpa, atvinnuleysis eða örbirgðar. Kannski það sé líka tilfellið hjá mörgum sem selja vændi. Þó ekki öllum. En aftur er um að ræða allt annað fyrirbæri en mansal. Með því að banna er verið að hækka verð, verðlauna áhættu og hleypa glæpamönnum að þar sem gætu verið heiðarlegir verktakar. 

Það er allt í lagi að boða aðra valkosti en vændi. Þeir sem vilja stunda kynlíf geta farið á hefðbundin stefnumót og boðið vel í mat og vín og fengið út úr því kynlíf. Það eru til stefnumótasíður fyrir þá sem vilja skyndikynni án skuldbindinga.

Vændi á götuhornum er ekki heilsusamleg iðja en það er hægt að bjóða upp á auðvelt aðgengi að lögreglu fyrir þá sem telja brotið á sér. Það er hægt að koma upp vottunum og heilbrigðisskoðunum sem lágmarka hættuna á smitsjúkdómum. 

Hið opinbera í ríkjum eins og Hollandi og Danmörku bjóða fötluðum og öðrum sem eiga erfitt með að fóta sig á stefnumótamarkaðinum upp á niðurgreidda vændisþjónustu og væntanlega fylgja því vottanir á ástandi söluaðila vændisins og heilbrigðisskoðanir.

Það er engum til gagns að blanda saman vændi og mansali frekar en að blanda saman þrifum á almenningsklósettum og mansali. Það er ekki heppilegt að glæpamenn geti þénað vel í umhverfi boða og banna og áhættuálags af starfsemi. 

Vændi er, að mínu mati, ekki sérstaklega lystug leið til að verða sér úti um smávegis félagsskap en fílabeinsturn minn er ekki nógu hár til að ég geti leyft mér að fordæma þá sem hafa aðra skoðun. Um leið veit ég að þegar fílabeinsturnar fá að mynda múra þá ganga glæpamenn lausum hala og þeir ná alltaf að krækja í saklausa borgara sem vilja ekki gera neinum mein.


mbl.is Fimm ára stúlkur ætla sér ekki í vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn er sinn eigin örlagavaldur

Jólin eru góður tími til að hugleiða aðeins árið sem er að líða og jafnvel mörg seinustu ár. Í mínu tilviki er margt sem hægt er að þakka fyrir og sjá fram á að margt sem hefur verið erfitt sé að verða léttara. Fyrir það er ég þakklátur en um leið ætla ég ekki að missa einbeitinguna og halda áfram að gera allt sem í mínu valdi stendur til að bæta hag minn og minnar fjölskyldu með vinnu, skipulagi, aga og framsýni.

Við erum nefnilega okkar eigin örlagavaldar.

Jú, auðvitað geta slys komið upp eða sjúkdómar skotið upp kollinum en yfirleitt erum við mannfólkið duglegast í að reisa okkar eigin hindranir í lífinu. Því miður.

Vonandi nýtast jólin mörgum til að hugsa bæði til fortíðar og framtíðar og hugleiða hvernig gott getur batnað.

Gleðileg jól, þið sem þetta lesið.


mbl.is Misheppnuð jól hjá milljónum Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskrift að velgengni: Þrjóska og jákvæðni

Íþróttakennarinn og leiðsögumaðurinn Bryndís Björk Kristjánsdóttir datt ofan í djúpa sprungu haustið 2014. Hún slasaðist illa á höfði og glímir enn við eftirköst slyssins nú fimm árum síðar. Þrjóskan og jákvæðnin fleyta henni langt og lætur hún hverjum degi nægja sína þjáningu.

Frásögn Bryndísar er sennilega frásögn hinnar íslensku þjóðar: Þetta reddast og það allt saman. Höldum okkar striki. Þarna gaus eldfjall en látum það ekki angra okkur. Það er ekki til kjöt en við getum borðað slátur. Ég get ekki stigið í hægri fót en hef þó þann til vinstri til að hoppa á.

Þrjóska og jákvæðni.

Miðað við algengan fréttaflutning mætti ætla að Íslendingar hafi gleymt rótum sínum. Ísland er eldfjallaeyja á norðurhjara. Á hana herja eldgos, jarðskjálftar, óveður og önnur óværa. Engu að síður er fólk þar með því hamingjusamasta og ríkasta í heimi. Allskyns mælikvarðar setja Ísland yfirleitt í efstu sætin. Af hverju? Kannski sambland þrjósku og jákvæðni hafi eitthvað um það að segja.

Þó þarf að hafa varann á. Stjórnmálastéttin er að þenjast út. Reglunum fjölgar. Skattarnir hækka. Það þarf að vera ansi þrjóskur og jákvæður til að sætta sig við að sjá allt sitt erfiði sogast ofan í ríkishítina. Kannski er öryggisnetið gott en þegar það er orðið að kóngulóarvef sem festir móttakendur sína að eilífu er kannski betra að vera án netsins og geta flogið upp aftur.

Hvað sem því líður þá er gott og hollt að hugsa til þess að Íslendingar eru þrjóskir og jákvæðir og að það sé kannski helsti styrkur lítillar þjóðar á hrjóstrugum steini í miðju ballarhafi.


mbl.is Jörðin gleypti mig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkið mjólkað

Fiskeldi á Íslandi er taprekstur og jafnvel skattaskjól fyrir auðug norsk stórfyrirtæki. Þau kaupa hér leyfi fyrir brotabrot af norska verðinu og forða öllum arði úr landinu. Eftir stendur tapið, mengunin og nokkur láglaunastörf.

Þetta lík á nú að kreista ofan í ríkissjóð.

Nú þegar er sjávarútvegur skattlagður mun meira en aðrar atvinnugreinar.

Á meðan er samið um smíði á mengandi verksmiðjum með skattaafsláttum og undanþágum.

Hver er eiginlega atvinnustefna stjórnvalda? Að drepa allt sem vel gengur og niðurgreiða hitt? Alþingismenn hafa alltof mikið að segja um hvaða fyrirtæki lifa og hver deyja. Í stað þess að leggja á jafna, hóflega og einfalda skatta er gert allt mögulegt annað. Niðurstaðan er rýrara hagkerfi en annars gæti verið raunin og þar með verri skattheimtur ofan í botnlausa ríkishítina.

Ónefnt er svo réttmæti hins svonefnda auðlindagjalds sem nær þó ekki til krækiberjabænda, sauðfjárbænda, vatnsveita, hitaveita og annarra sem breyta náttúru í verðmæti. Það er eins og að menn geri ráð fyrir að hið opinbera eigi allt á milli himins og jarðar og þeim mun neðar og að landsmenn og fyrirtæki þeirra séu einfaldir leigutakar. Er það svo? Og ef það er svo hvaða hömlur eru þá á hinu opinbera að skattleggja andrúmsloftið, rigninguna og útsýnið yfir fjörðinn?


mbl.is Innheimta auðlindagjald af fiskeldi frá áramótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreyfanleiki er mikilvægari en jöfnuður

Margir sem tjá sig um stjórnmál hafa mjög mikinn áhuga á jöfnuði. Þeir telja að jöfnuður sé mikilvægur - að ljósmynd af samfélaginu í dag eiga að sýna lítið bil á milli þeirra fátækustu og ríkustu. Að Ísland sér þar með þriðja besta ríki í heimi á eftir Slóvakíu og Slóveníu.

Þetta er af mörgum ástæðum misskilin góðmennska.

Í fyrsta lagi tekur jöfnuður ekki til hreyfanleika. Fátæki námsmaðurinn á námslánum eða ungi búðarstarfsmaðurinn sem vinnur með námi eru kannski ekki efnaðir í dag en þeir eru að vinna, afla sér reynslu og þekkingar og munu rísa í tekjum og verða efnaðir seinna. Það þarf ekki að vorkenna fátæka læknanemanum því hann mun spjara sig. Það þarf ekki að missa svefn yfir auði fjárfestisins því hann fer upp og niður í tekjum og eignum eftir því hvernig vindar blása á markaðinum.

Í öðru lagi leiðir mikil áhersla á jöfnuð til of mikillar áherslu á að dæla fé í þá sem eru tímabundið tekjulágir. Það þýðir hærri skatta sem um leið hamla viðkomandi frá því að hækka í ráðstöfunartekjum því skattheimtan étur upp alla tekjuaukningu hans, og hirðir auðvitað stóran bita af tekjum lágt launaðra. Jöfnunartækin verða því einskonar frysting á núverandi aðstæðum þeirra sem hafa alla burði til að afla aukinna tekna en geta það ekki vegna jöfnunaráhrifa skattkerfisins.

Í þriðja lagi eru menn oftar en ekki að slá sig til riddara. Þeir sem hæst góla um jöfnuð eru yfirleitt tekjuháir spekingar - þingmenn, lögfræðingar og prófessorar - sem hafa komið sér svo vel fyrir að þeir munu aldrei finna mikið fyrir hærri álögum vegna stækkandi velferðarkerfis. Hræsnin í þessu kemur ágætlega fram í því að jafnaðarmenn svokallaðir hrópa alltaf á hærri skatta á aðra en leggja aldrei til að þeir lækki sjálfir í tekjum, og hvað þá að tekjum þeirra fátækustu í vanþróuðum ríkjum (heimsjöfnuður).

Það versta sem kemur fyrir samfélag er að fólk festist í sama farinu - að það verði háð bótum, geti ekki hækkað ráðstöfunartekjur sínar og geti ekki gengið að fjörugu atvinnulífi með mörgum tækifærum því skattkerfið hefur lamað allt til að jafna út lífskjörin. Þá er jöfnuðurinn orðinn að kerfi örvæntingar og örvæntingarfullt fólk gerir margt misjafnt til að reyna bæta stöðu sína í lífinu.

Hreyfanleikinn er mikilvægastur, þ.e. að fólk geti þefað uppi ný tækifæri til að bæta stöðu sína í lífinu innan öflugs hagkerfis þar sem menn geta efnast vel en þurfa líka að éta tapið ef áhættufjárfestingin mistekst.

Jöfnuður er ekki slæmur í sjálfu sér ef hann kemur til af eðlilegum ástæðum: Allir að verða ríkari og þeir fátækustu að efnast hraðar en þeir tekjuhæstu (sögulega alls ekki fjarstæð þróun í frjálsum hagkerfum). En að þvinga fram jöfnuð getur orðið banabiti sérhvers samfélags.


mbl.is Ójöfnuður lágur í evrópskum samanburði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svolítið barnaefni

Ég horfi stundum á teiknimyndir með bráðum 2ja ára dóttur minni og sé að þar er allskyns boðskap komið áleiðis sem á allt eins heima í eyrum fullorðinna. 

Hér er lítið dæmi:

Úr textanum:

If you want something,
You have got to try.
And work real hard,
For the thing you like.

Sem betur fer er ekki búið að nútímavæða barnaefnið of mikið með textum sem segja að það sé betra en heimta en þéna og að bætur eru betri en laun.


Sniðugar gjafir fyrir þá sem eiga allt

Uppskeruhátíð kapítalismans, afmælishátíð Jesú Krists, hátíð hækkandi sólar, hátíð ljóss og friðar en umfram allt jólin eru að ganga í garð.

Flestir í vestrænum samfélögum nota þennan árstíma til að drekkja sér í undirbúningsvinnu og gjafainnkaupum, samhliða vinnu og heimilisrekstri, og lyppast svo niður örmagna á aðfangadagskvöld til að borða flottan mat og skola niður með gosi eða víni á meðan krakkarnir stara á gjafafjallið undir jólatrénu og eru við það að springa úr eftirvæntingu ofan í sykurneysluna.

Ég elska jólin!

En það er þetta með gjafirnar sem vefst svolítið fyrir fólki.

Hér get ég boðið upp á skotheldar leiðbeiningar.

  • Spyrja: Já, í stað þess að kaupa eitthvað út í bláinn er einfaldlega hægt að spyrja fólk hvað því vantar eða hvað það vill.
  • Endurnýja: Gjafir má oft nota til að endurnýja slitna eða úr sér gengna hluti. Þú veist þá að viðkomandi notar viðkomandi hlut það mikið að hann er að hrynja undan álaginu og mun því pottþétt kunna vel að meta að viðkomandi hlutur er endurnýjaður eða uppfærður.
  • Staðalímyndin: Ég veit að það er ekki í tísku að tala um menn og konur, að eitthvað sé strákalegt eða stelpulegt og allt það, en lífið er einfaldlega kynjaskipt. Ef þú þekkir mann sem vinnur með höndunum þá mun eitthvað kröftugt verkfæri alltaf slá í gegn, t.d. sleggja eða járnkarl. Ef þú þekkir kvenmann sem málar sig þá mun enn einn burstinn eða maskinn eða varaliturinn alltaf hitta í mark.
  • Það sem má borða eða drekka: Amma mín heitin var í mörg ár búin að reyna stöðva jólagjafir til sín en þegar hún sá að það gekk ekki sagði hún að gjafirnar yrði að vera hægt að borða eða drekka. Það er sniðugt fyrir alla. Ég gaf einu sinni systur minni líter af vodka í jólagjöf þegar hún var orðin 18 ára og hann nýttist vel í bolluna í útskriftarpartýi hennar. Það sem má borða eða drekka er góð gjöf.
  • Eitthvað fyndið: Ég fékk einu sinni drullusokk í afmælisgjöf frá félaga mínum og hann sagði að það væri af því ég væri algjör drullusokkur. Það var góð gjöf sem ég passaði vel upp á. Frá mér fékk hann svo bók um hvar samkynhneigðir karlmenn hittast í laumi til að stunda skyndikynni í hinum ýmsu borgum heimsins. Það fannst kærustunni hans fyndið. Góður húmor er góð gjöf.

Gleðileg jólagjafainnkaup!


mbl.is Sniðugar gjafir fyrir þá sem eiga allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brenna rusl

Danir hafa nýlega opnað risavaxna ruslabrennslu og byggt ofan á hana skíðabrekku.

Á sama tíma eru Íslendingar að setja hömlur á sínar örfáu ruslabrennslur og neyða sveitarfélög til að keyra ruslinu sínu langar vegalengdir. Að hluta má skrifa þetta á hertar kröfur yfirvalda sem neyða sorpbrennslurnar út í dýrar fjárfestingar sem oftar en ekki buga rekstur þeirra. 

Auðvitað gerir fólk meiri kröfur en áður, og tölfræðin segir okkur hið augljósa: Því ríkari sem við verðum því kröfuharðari verðum við á umhverfisgæði okkar (þess vegna er auðsköpun ein besta leiðin til að bæta umhverfið).

En stundum má setjast niður og hugsa: Er núverandi ástand betra en ef kröfurnar eru hertar? Er ástandið svo slæmt í dag að það megi ekki gefa nýju kröfunum lengri tíma? 

Þetta er samt ekki tíðarandinn. Í Reykjavík skrifa menn ný lög og gefa út nýjar reglur og niðurstaðan er svo oft verri en áður þegar á heildina er litið. Danir hafa lært þessa lexíu að mörgu leyti og fela sveitarfélögunum mun meira vald yfir sinni umhverfisvernd en ég sé að eigi við á Íslandi. Kannski er það ein af ástæðum fyrir því að þeir geta núna skíðað ofan á ruslabrennslunni sinni á meðan Íslendingar senda það í flutningabílum á milli landshluta.


mbl.is Farðu á skíði í miðri Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband