Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

ÁTVR í dauðateygjunum

Stjórnendur ÁTVR vita að þessi stofnun og það fyrirkomulag sem hún stendur fyrir er í dauðateygjunum.

Fólk er orðið þreytt á því að fara í sérstaka verslun til að kaupa áfengi. Fólk er orðið þreytt á því að geta ekki bara kippt með einni kippu eða flösku þegar það verslar inn og þarf þess í stað að kaupa gríðarmiklar birgðir sem taka upp pláss svo það sé nú örugglega til nóg.

Fólk vill hafa lítinn kaupmann eða hverfisverslun í göngufæri sem væri hægt ef áfengi fengi að fara í matvöruverslanir. Fólk er farið að sjá í gegnum það hvernig stóru verslunarkeðjurnar lokka ÁTVR til að opna verslun sem deilir bílastæði með þeim sjálfum og geta þannig krækt í viðskiptavini áreynslulaust.

Verjendur núverandi fyrirkomulags - íhaldsmennirnir sem vilja aldrei breyta neinu í frjálsræðisátt - óttast það versta ef fyrirkomulag áfengisverslunar fer að líkjast meira því sem gengur og gerist í Evrópu. Íhaldsmennirnir hafa samt engar áhyggjur af sjálfum sér þegar þeir ferðast til útlanda, eða hvað? Þeir segja væntanlega börnum sínum að ferðast helst ekki til annarra landa en Svíþjóðar með sína ÁTVR, eða hvað? 

Íslandi átti að fara lóðbeint til helvítis þegar bjórinn var leyfður. Svo fór ekki. Áfengi í matvöruverslanir er heldur enginn aðgangsmiði í helvíti.

Hættum nú þessari vitleysu. Bjórinn í búðir, takk!


mbl.is Benedikt gagnrýnir fjáraustur ÁTVR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk getur fengið sér fyllingar á meðan það bíður

Stór hópur Íslendinga bíður nú eftir stöðluðum skurðaðgerðum sem hægt er að framkvæma tiltölulega hratt ef aðstaða er fyrir hendi. Hvernig stendur á því?

Einu sinni þurftu Íslendingar að bíða lengi eftir heyrnamælingu og síðan eftir því að fá heyrnatæki. En ekki lengur.

Þeir sem vilja fara í sjónleiðréttingu af einhverju tagi þurfa heldur ekki að bíða. Skiptir engu máli hvort um sé að ræða gleraugu, linsur eða skurðaðgerð með laser. 

Þeir sem vilja brjóstastækkun, fyllingar í varir, bótox undir húðina eða lyftingu á augnlokum þurfa heldur ekki að bíða.

Kannski væri ráð fyrir þá sem bíða á biðlistum hins opinbera að skella sér í heyrnamælingu, sjónmælingu og varafyllingu til að láta tímann líða. 


mbl.is Saxast hægt á biðlistana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott og slæmt

Þegar opinberir starfsmenn eru sendir í frí eða fá að sleppa því að vinna í vinnutíma (t.d. í verkföllum þeirra) upplifi ég alltaf blendnar tilfinningar.

Að hluta fagna ég. Þegar opinberir starfsmenn eru í fríi þá hægist örlítið á gangverki hins opinbera. Færri útgjöld eru samþykkt. Minna er notað af klósettpappír á kostnað skattgreiðenda. Um leið myndast ákveðin pressa frá almenningi sem neyðist til að leita til hins opinbera eftir þjónustu í ríkiseinokun. Raðir lengjast og biðtímar og það hlýtur að valda aukni álagi sem um leið fær einhverja til að íhuga hvernig má lágmarka skaðann af svifaseinu ríkisvaldinu. Kannski breytist eyðublað á pappír í eyðublað á netinu. Kannski fækkar eyðublöðunum. Kannski er rýmkað fyrir einhverju sem var áður leyfisskylt. Allt eru þetta jákvæðar afleiðingar þess að senda opinbera starfsmenn í frí.

Að hluta fagna ég samt ekki. Ríkið hefur sogað til sín ýmsa þjónustu og heldur henni þar í fyrirkomulagi ríkiseinokunar. Ríkið hefur líka fundið upp allskonar gagnslausa pappírsvinnu sem almenningur þarf að flækjast í. Fólk getur ekki leitað neitt annað eða sagt upp þjónustunni. Ríkið skyldar fyrirtæki til að sækja um ákveðin leyfi en tekur sér svo rosalega langan tíma að gefa þau leyfi út. Ríkið heimtar að fyrirtæki og einstaklingar sendi sér allskyns pappíra sem fá svo að safna ryki.

Opinberir starfsmenn ættu að sjá sér leik á borði hér. Þeir ættu að biðja yfirvöld um að almennt þurfi færri leyfi fyrir einhverju frekar en fleiri. Þeir ættu að reyna straumlínulaga alla ferla og sameina á sem fæstar hendur svo almennir borgarar þurfi síður að keyra um allan bæ og standa í biðröðum. 

Slík þróun gæti minnkað vinnuálag á opinbera starfsmenn til muna. Um leið er vitað að þeim verður aldrei fækkað. Það yrði miklu meira svigrúm fyrir sólarfrí, kaffipásur og almennt hangs. Almennir borgarar þurfa síður að fara í raðir hins opinbera, og opinberir starfsmenn síður að sinna beiðnum þeirra. Allir vinna!

Er eftir einhverju að bíða?


mbl.is Starfsmenn stofnana fengu sólarfrí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

9/11 á hverjum degi í 15 ár

Ég lærði áhugaverða tölfræði um helgina.

Síðan "stríðið gegn hryðjuverkum" hófst hefur hryðjuverkum fjölgað. Ríkisafskipti af hryðjuverkum hafa greinilega sömu afleiðingar og ríkisafskipti af öllu öðru - vandamálin stækka bara!

Hvað um það. Síðan þetta stríð hófst hafa mjög margir almennir borgarar í Írak fallið í hryðjuverkaárásum. Væri sá fjöldi heimfærður á Bandaríkin og skalaður með heildarfjölda íbúa og það reiknað út hversu margar 9/11 árásir þyrfti til svo hlutfallslega jafnmargir Bandaríkjamenn hafi fallið og Írakar kemur eftirfarandi ljós:

Það þyrfti eina 9/11 árás á dag í 15 ár samfleytt.

Írakar hafa sem sagt upplifað það sem svarar hlutfallslega til eina 9/11 árás á dag, í 15 ár!

Svo spurja menn sig af hverju hryðjuverkasamtökum gengur svona vel að afla liðsmanna og tryggja sér stuðning í sífellt fleiri ríkjum?

Obama sendi sprengjur á íbúa fjölmargra ríkja í forsetatíð sinni og er búinn að vera í stanslausum stríðsrekstri síðan hann tók við embætti.

Því miður var það meðal fyrstu verka Donald Trump að varpa sprengjum á erlent ríki svo hann virðist ætla að fylgja hefðinni. Vonandi verður hann samt ekki eins árásargjarn og fyrirrennari hans. 

Það sem menn kalla "welfare/warfare state" er ekkert á förum frá Bandaríkjunum.


mbl.is Fagnar sigrinum í Mósúl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má nota skipulagsvaldið til að gera hvað sem er?

Skipulagsvald sveitarfélaga er miklu, miklu meira en það ætti að vera. Stundum finnst mér það jaðra við valdmisbeitingu. Það virðist ná miklu lengra en lögin frá sjálfu Alþingi. Það skiptir engu máli hvort eitthvað sé löglegt eða ekki. Ef eitthvað skipulagsráð færir línur til á pappír er eins og það nái yfir öll önnur lög. 

Þarf ekki að fara setja sveitarfélögum einhver mörk hérna? Getur Alþingi ekki stöðvað þessa valdmisbeitingu? 


mbl.is Mun takmarka útleigu íbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunblaðið berst gegn framboði og eftirspurn

Maður leigir út tjald fyrir yfir tíu þúsund á nóttina.

Morgunblaðið gerir þetta að frétt.

Hver er fréttin?

Aðili A býður eitthvað til sölu. Aðili B velur að kaupa. Aðili C velur að sleppa því.

Hver er fréttin? Val aðila B eða C?

Nú auðvitað val aðila B.

Á hvaða vegferð er Morgunblaðið eiginlega? Á að skamma aðila B? Á að taka aðila A út úr myndinni svo að enginn aðili B eða C geti tekið afstöðu?

Afsakið orðbragðið, en það á ekki að skipta neinu andskotans máli hvað eitthvað kostar eða hvaða kjör eru almennt í boði á meðan allir geta valið af fúsum og frjálsum vilja að taka tilboði eða sleppa því. Eini fyrirvarinn er að enginn hafi verið beittur ofbeldi eða að skattgreiðendur séu látnir fjármagna kostina, eða séu notaðir til að halda kostum fjarri.

Það er orðið erfiðara og erfiðara að finna áhugaverðar fréttir á mbl.is - þetta er fley sem er að sökkva sjálfu sér. 

Kæra Morgunblað, líttu í spegil!


mbl.is Tjöld til leigu á Airbnb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum hjólreiðar

Það er alveg ljóst að þingmenn þurfa að byrja ræða með markvissum hætti hvernig væri hægt að banna hjólreiðar á Íslandi.

Mörg rök hníga að slíku banni. Verða þau helstu talin upp hér.

Lýðheilsa

Lýðheilsu Íslendinga stafar hætta af hjólreiðum. Ökumenn bifreiða eru í stöðugu ástandi andlegs álags af því að þurfa fylgjast með hjólum sem þeytast framhjá þeim og fram fyrir bifreiðar þeirra. Það jafna sig fáir á því að hafa kramið líkama hjólareiðarmanns í malbikið. Hjólreiðar hafa líka slæm áhrif á blóðflæði í kynfæri karlmanna og hjólreiðaslys geta molbrotið beint og sprengt líffæri. Ekki dugir að vega meinta kosti hjólreiða á móti þessum þáttum til að réttlæta skemmandi áhrif hjólreiða á lýðheilsuna. 

Þjóðhagsleg óhagkvæmni

Slys draga fólk af vinnumarkaðinum og gera það að byrði á skattgreiðendum og aðstandendum. Sjúklingar eru jú byrði, ekki satt? Hjólreiðaslys eru engin undantekning. Með því að útrýma hjólreiðaslysum er hægt að halda fólki við vinnu lengur og mjólka verðmætasköpun þess ofan í opinbera sjóði. Með því að leyfa fólki að ferðast um á hjólum er dregið úr þjóðhagslegri nýtingu fólks.

Umhverfið

Fólk sem brennir miklu, eins og hjólreiðafólk, borðar líka meira. Allan þennan mat þarf að framleiða. Til þess þarf orku, tæki og tól og auðvitað landrými sem er hrifsað af náttúrunni. Miklu einfalda er að knýja bíla áfram. Þeir þurfa bara eldsneyti sem er borað eftir og kemur flæðandi upp á yfirborðið. Hjólreiðarmenn stuðla að hlýnun jarðar, ofnýtingu lands og gróðabraski spákaupmanna í matvælum.

Fjölskyldutengsl

Fólk sem hjólar er yfirleitt ekki í stöðu til að eiga samskipti við aðra. Hjólreiðar krefjast mikillar orku og einbeitingar. Fjölskyldur sem ferðast saman í bíl geta talað saman og notið nærveru hvers annars. Hjólreiðar rjúfa þetta fjölskyldumunstur og gera fólk að einstaklingum sem ferðast á eigin forsendum, sem er slæmt. Hjólreiðar eru andfélagslegar og grafa undan fjölskyldunni.

Eða hvað?

Nei, kannski er ekki hyggilegt að banna hjólreiðar, né nokkuð annað sem rökin hér á ofan hafa verið notuð um. 

 

 


mbl.is Slysum fjölgað með auknum vinsældum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið í haginn fyrir næstu vinstristjórn

Núverandi ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á að lækka skuldir ríkisins. Það er gott. Um leið hefur hún ekki gert neitt að ráði til að minnka ríkisbáknið sjálft. Það er slæmt. Niðurstaðan er sú að ríkissjóður er rekinn með afgangi en bara af því það er uppsveifla í hagkerfinu. Allar áætlanir stjórnvalda gera beinlínis ráð fyrir áframhaldandi uppsveiflu sem getur fjármagnað bæði útþenslu ríkisrekstursins og niðurgreiðslu skulda.

Afleiðingin verður slæm fyrir íslenskan almenning.

Það er auðvelt að auka útgjöld til risavaxins ríkisreksturs. Bara örfá prósent í aukin ríkisútgjöld þýðir margir milljarðar af fé skattgreiðenda. 

Það er erfitt að draga saman útgjöld ríkisvaldsins. Bara með því að hægja á hækkun ríkisútgjalda þýðir að sumir byrja að tala um niðurskurð. Já, ríkisútgjöld jukust ekki nóg! Það er verið að skera niður að beini!

Íslenskir kjósendur sjá ekki muninn á vinstrimanni sem lofar öllu fögru og hægrimanni sem uppfyllir loforð vinstrimannsins. Af hverju að kjósa hægrimanninn til að framkvæma loforð vinstrimannsins þegar það er hægt að kjósa vinstrimanninn?

Það sem gerist er að þegar næsta vinstristjórn nær völdum þá tekur hún við skuldlausu búi. Hún hefst handa við að hækka skatta og auka ríkisútgjöldin ennþá meira. Það mun samt ekki duga til. Þá taka við lántökurnar. Ríkissjóðir með sitt góða lánstraust og lágu skuldir verður skuldsettur á bólakaf. Þegar vinstristjórnin springur eða er kosin frá völdum taka svo vægari vinstrimenn við völdum til að taka til.

Kæra ríkisstjórn, það er ekki nóg að lækka skuldir. Það þarf líka að minnka ríkisvaldið svo það sé erfiðara að réttlæta skuldsetningu ríkissjóðs með tilvísun í rekstrarvandræði opinberra eininga.


mbl.is Ríkið heldur sömu lánshæfiseinkunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband