Rökin fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum

Mikið er rætt og skrifað um loftslagsmál og af hverju það þurfi að takmarka losun manna á koltvísýringi í andrúmsloftið til að koma í veg fyrir einhverja ákveðna hlýnun loftslagsins eftir einhverja áratugi. Hér verða færð nokkur rök fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum, þ.e. því að gera ekkert til að reyna minnka losun manna á koltvísýringi og njóta einfaldlega ávaxta slíkrar losunar.

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég útiloka auðvitað ekki að athafnir manna geti haft áhrif á loftslagið á einn eða annan hátt. Augljóslega getur þetta átt sér stað staðbundið með losun á ryki og sóti í loftið. En áhrif koltvísýrings eru orðum aukin.

Kostnaðurinn er óendanlegur

Loftslagsaðgerðir eru alveg svakalega dýrar. Þær sjúga fé úr innviðum, úr launaumslögum, úr sjóðum fyrirtækja, úr öllu. Þær kalla á að ódýr og hagkvæm tæki séu tekin úr umferð og að í staðinn komi dýr og óhagkvæm tæki. Þær kalla á að venjulegt fólk missi bílinn, flugferðalögin og kjötið. Í raun er þetta skrímsli óseðjandi í fjárþörf sinni. Á sama tíma lengjast biðlistar og innviðir grotna niður.

Ávinningurinn er enginn

Segjum sem svo að allar þessar loftslagsaðgerðir nái fram að ganga og samfélagið einhvern veginn ekki komið endanlega á hausinn í kjölfarið. Hver er ávinningurinn? Örlítið lægra hitastig? Öllu var eytt í að draga úr losun og ekki króna eftir til að byggja varnargarða, styrkja hafnir, reisa síki og fjárfesta í dælum. Ef allar svörtustu sviðsmyndir svokallaðrar hamfarahlýnunar rætast þá er auðsköpun í krafti notkunar á hagkvæmu jarðefnaeldsneyti (eða kjarnorku) alveg feykinóg til að aðlagast öllu sem náttúran hendir á okkur. En sú auðsköpun er vitaskuld horfin, og aðlögunarhæfnin sömuleiðis. Eftir situr fátækur, orkusnauður og varnarlaus almenningur.

Allir þræðir á hendi ríkisvaldsins

Loftslagsaðgerðir kalla á aukin völd hins opinbera til að banna, niðurgreiða, fresta og flýta. Í nafni loftslagsaðgerða er búið að gera fólki ómögulegt að losna við sorpið nema leggja undir sig hálft eldhúsið og sjá orma skríða upp úr ruslatunnunum. Rekstur bílsins er orðinn svíðandi dýr. Plastpokarnir þurftu af einhverjum ástæðum að fara, og plaströrin auðvitað líka svo mjólkurhristingur er ekki lengur í boði. Áform eru uppi um að mæla kolefnisfótspor okkar sem verður síðan að stjórntæki sem skammtar okkur kjötbita og flugmiða. Ríkisvaldið getur teygt og togað þessar loftslagsaðgerðir til að ná yfir allt og alla. Þær eru tæki til að ná tökum og stjórn á samfélaginu. Í nafni vísinda, auðvitað.

Dropi í hafið

Við í hinum auðugu ríkjum byggðum alla okkar velsæld á notkun hagkvæms eldsneytis. Núna viljum við segja heiminum að gera eitthvað annað. Heimurinn er ekki að hlusta. Kínverjar, Indverjar, Brasilíumenn og ótal önnur fjölmenn ríki eru ekki að fara hætta vegferð sinni að orkuvæðingu samfélagsins. Afríka mun líka fyrr eða síðar opna allar olíu- og gaslindir og kolanámur upp á gátt til að koma orku til fólks síns. Við hin rembumst á meðan við að reyna framleiða vetni með vindmyllum til að skipta út olíunni, og mun mistakast. En þótt allar okkar loftslagsaðgerðir séu eins og prump út í loftið þá valda þær venjulegu fólki raunverulegum þjáningum. Að þarflausu.

Skautun samfélagsins

Hræsnin er öllum ljós: Stjórnmálamenn og milljarðamæringar streyma á loftslagsráðstefnur á einkaþotum og snæða þar steikur og drekka kampavín á meðan almenningur sér rafmagnsreikninginn hækka enn einu sinni. Blóðsugur á framfæri skattgreiðenda baða sig í sviðsljósinu og rukka meira að segja almenning fyrir aflátsbréf sín - svokallaða kolefnisjöfnun á lífsstíl fína fólksins. Skattgreiðendur þurfa í staðinn að velja á milli þess að kynda húsið, kaupa bensín á bílinn eða versla í matinn. Þessi skautun á samfélaginu minnir á myrkar miðaldir aðalsfólks og smábænda, í ánauð.

Raunveruleg vandamál fá enga athygli

Það er til nóg af raunverulegum vandamálum í heiminum sem er hægt að leysa fyrir tiltölulega lítið fé, séð í stóra samhenginu. Við erum ekki að tala um þau og hvað þá fjármagna lausnirnar. Algengir sjúkdómar sem þjökuðu áður allan heiminn þjaka núna bara fátæka heimshluta, og fá litla athygli. Það er búið að líma andlitin á okkur föst við eitt svokallað vandamál og við sjáum ekkert annað. Sérstaklega er unga fólkið illa statt hérna.

Með því að hætta aðgerðum í loftslagsmálum mætti einnig auka stuðning við rannsóknir í valkostum við jarðefnaeldsneyti. Þar er eins og allt sé stopp. Eftir nokkra áratugi, þegar olíuna og gasið fer að þverra (en nóg eftir af kolum) þá væri fínt að hafa aðgang að háþróuðum kjarnorkuverum til að fylla í skarðið.

Niðurstaða: Gerum ekkert

Mér finnst blasa við að gera ekkert í loftslagsmálum. Íslendingar þurfa að segja sig frá öllum skuldbindingum í loftslagsmálum og spara sér milljarða í greiðslu aflátsbréfa - fé sem er tekið af skattgreiðendum og sent í erlendar hirslur. 

Það væri fínt að hefja aðgerðaleysi í loftslagsmálum sem fyrst. Biðlistarnir og innviðirnir þurfa athygli, strax.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Eins og ég get verið stundum sammála þér Geir er ég 100% ósammála í þessu.

Þú ert þvergirðingslegur, og lítur bara á aðra hliðina.

"Ávinningurinn er enginn" skrifar þú. Það er af því að þú ert sannfærður um að þetta sé vitleysa.

Ávinningurinn er björgun jarðarinnar og mannkynsins. Ekkert getur verið mikilvægara.

Gerir þú þér ekki grein fyrir því að þetta er leið til að bæta mannkynið í leiðinni, leggja niður deilur þjóða og kynþátta, leggja niður tilgangslaus stríð og leiðindi?

Þetta eru TÆKIFÆRI fyrir mannkynið.

Skautun samfélagsins er ekki síður vegna femínismans. Hvar er gagnrýni þín á hann og kynjafræðina? Kynjafræðin er jafn stopul fræðigrein og kynþáttahyggjan sem datt úr tízku eftir 1945.

"Innviðir grotna niður", skrifar þú. Hverju og hverjum er um að kenna með það? Er það ekki reynslan að þar sem ríkisbáknið blæs út svona þá koma inn lélegir stjórnendur sem hafa enga yfirsýn, hygla sér og sínum, ekki almenningi, og sinna ekki viðhaldi? Eggið og hænan. Með því að minnka ríkisafskipti lagast mörg vandamál.

Umhverfismál sem eru á hendi einkaaðila tel ég að komist betur til framkvæmda.

Það er ekki um neitt annað að ræða en að halda áfram á þessari vegferð umhverfisverndar. 

Ingólfur Sigurðsson, 29.12.2023 kl. 01:46

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ingólfur,

Kannski er ég búinn að lesa yfir mig af Bjorn Lomborg en vísindamenn Sameinuðu þjóðanna eru ekki að boða neinn heimsendi. Þeir eru að boða einhverja hækkun hitastigs, og einhverja hækkun sjávarmáls. Ekkert sem vaxandi auðsköpun, óskert vegna loftslagsaðgerða, ræður ekki við að aðlagast ef til þess kemur. Sama gildir um breytingar sem enginn vísindamaður hefur séð fyrir - af þeim er alltaf nóg.

En auðvitað er ég að spyrna við með báðum fótum hérna. Það þarf að koma á umræðu í stað einhliða áróðurs: Um kosti og galla þess að taka af okkur orkuna, bílinn, kjötið og flugmiðana. Persónulega vil ég halda í þetta allt saman, án þess að drepa beljurnar á Írlandi og í Hollandi.

Geir Ágústsson, 29.12.2023 kl. 07:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband