Samanburður: Fréttaskýring vs. þvæla dulbúin sem fréttaskýring

Ég les reglulega fréttir og fréttaskýringar á Oilprice.com sem fjallar fyrst og fremst um orkumál, en með breiða skírskotun. Þessi miðill fer yfir víðan völl og er að mér finnst oftast raunsær í nálgun sinni. Rétt í þessu las ég þar fréttaskýringu um sameiginlega ákvörðun hinna svokölluðu G7-ríkja (einu sinni sjö stærstu hagkerfi í heimi en í dag bara kjaftaklúbbur lítils hóps ríkja) um að draga úr og að lokum hætta notkun á kolum til orkuframleiðslu. Eins og kemur fram í pistlinum þá er slíkt markmið vægast sagt langsótt, af mörgum ástæðum, svo sem:

  • Orkunotkun er sífellt á uppleið, meðal annars vegna aukinnar notkunar á gervigreind sem krefst mun meiri orku en hefðbundin tölvustarfsemi
  • Orkuöflun með sól og vind er óstöðug, og tekið dæmi um að í Þýskalandi hafi vindorkuver nýlega verið fjarlægt til að stækka kolanámu til að tryggja orkuframleiðslu
  • Það tekur of langan tíma að byggja upp kjarnorku til að hún dugi til skemmri tíma til að leysa af kol

Einnig er bent á að minnkandi kaup Vesturlanda á kolum muni bara lækka verð á þeim og ríki eins og Kína munu njóta hins lækkandi verðlags og einfaldlega kaupa meira, og hið sama gildir um afgang heimsins sem er að iðnvæðast með notkun kola.

Niðurstaðan var því sú að þetta væri nokkuð óraunsætt markmið og jafnvel ef það næst að hluta eða í heild þá munu kolin einfaldlega renna í aðrar áttir, á afslætti.

Berum þessa umfjöllun saman við fréttaskýringu um sama mál hjá einum af þessum hefðbundnu, gagnslausu, innantómu áróðursmiðlum og tökum CNN sem dæmi.

Þar er aðallega vitnað í glópa sem telja að yfirlýsingin sé of metnaðarlaus og að meira þurfi til að breyta veðrinu, að það sé galli að jarðgas hafi ekki líka mætt dauðadómi sínum, og að orðalag yfirlýsingarinnar hafi ekki verið nógu sterkt og gefi möguleika á að nota kol lengur gegn ákveðnum skilyrðum. 

Með öðrum orðum alveg gjörsamlega ónothæf fréttaskýring sem skilur lesandann eftir með þá villutrú í höfðinu að stjórnmálamenn séu raunsæir og að heimurinn sé að fara bráðna því Japan er ekki búin að dagsetja endalok kolanotkunar.

Að lokum:

Blaðamenn hafa mikil áhrif á það hvernig þeir fjalla um viðfangsefni og jafnvel þótt þeir telji sig allir sem einn vera að skrifa á hlutlausan og yfirvegaðan hátt, og í anda nýjustu vísinda og rannsókna, þá velja þeir sína viðmælendur og sínar heimildir á þann veg að búa til frásögn frekar er frétt. Fæstir blaðamenn sleppa úr þeirri gildru að troða eigin hugmyndafræði inn í fréttir sínar. Við hin þurfum því að hafa varann á til að missa ekki jarðtenginguna og helst að tileinka okkur fjölbreytni í vali á fréttamiðlum, eða sleppa því bara alveg að neyta frétta. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband