Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Bilun

Skólaárið 2014-2015 fengu 12.263 nemendur grunnskólans sérkennslu eða stuðning, eða 28,4% allra nemenda. Það er fjölgun um 60 nemendur frá fyrra skólaári. Fjöldinn hefur ekki verið meiri frá því að Hagstofan hóf innsöfnun um sérkennslu skólaárið 2004-2005. Yfir 60% af þeim sem fá stuðning eru drengir. 

Þessar tölur eru - svo ég noti dramatískt orð - bilun. 

Hvað ætli fólk segði ef eftirfarandi rataði í fréttir?

Veturinn 2014-2015 þurftu 28% viðskiptavina Kringlunnar að fara tvær ferðir til að kaupa sama hlutinn. Fyrsta ferðin dugði ekki til því þeir fengu ranga þjónustu, rangan varning eða ruglingslegar notkunarleiðbeiningar. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri og hefur aukist frá ári til árs síðan Kringlan hóf að taka saman þessa tölfræði.

Fólk þyrfti ekkert að segja því Kringlan væri farin á hausinn og allir viðskiptavinir hennar komnir annað, t.d. í Smáralindina eða Glæsibæ eða einhverja nýja verslunarmiðstöð sem hefði séð þessa þróun eiga sér stað og ákveðið að bregðast við með stofnun samkeppnisreksturs.

Ríkiseinokunin býður ekki upp á svona friðsæla aðlögun að óhentugum aðstæðum. Grunnskólarnir eru bara að sinna 70% skjólstæðinga sinna á fullnægjandi hátt innan hefðbundinnar starfsemi sinnar. Afgangurinn þarf að snúa aftur í aðra kennslustofu til að læra það sama. 

Hérna ætti hið opinbera bara að gefast upp og hleypa einkaaðilum að. Foreldrar fá í staðinn skattalækkun sem dugir fyrir skólagjöldunum og gott betur (enda fer kennslan þá fram á samkeppnismarkaði þar sem keppt er í bæði verði og gæðum en ekki bara í magni og tíma). 


mbl.is Rúmlega fjórðungur í sérkennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta má alveg skipta um skoðun

Birgitta Jónsdóttir er vinstrimaður og pólitískur vindhani en má eiga að hún segir skoðun sína umbúðalaust. Maður þarf ekki að vera í vafa um afstöðu hennar þegar hún tjáir sig. Að sú afstaða breytist í sífellu eða sé oft mótsagnarkennd er ekkert einstakt. Yfirleitt er slíkt til merkis um hugmyndafræðilegt flökt - skort á grunngildum og hugsjónum - en ekkert sem er einstakt við Birgittu og miklu frekar dæmigert fyrir stjórnmálamann. 

Og auðvitað á hún að fá að breyta um afstöðu hérna og bjóða sig fram aftur. Ef Píratar telja það vera sér til framdráttar þá þeir um það. 

Hún má eiga það að Píratar hennar hafa blásið nýju lífi í íslenska pólitík. Sumir af kjörnum fulltrúum Pírata virðast vera mjög vandaðir einstaklingar sem taka starf sitt alvarlega og bjóða jafnvel upp á hugsjónir og stefnufestu í einstaka málum. Þessir einstaklingar hefðu líklega aldrei fengið hljómgrunn í öðrum flokkum vegna sérvisku eða skorts á pólitísku uppeldi innan ungliðastarfs. Píratar eru eins konar tilraunastofa. Gallinn er svo að enginn veit hvað er í pokanum fyrr en búið er að telja öll atkvæði.

Nú ættu menn að hætta að hamast í Birgittu og byrja að undirbúa málefnalega kosningabaráttu. Það er mín ágiskun að þar standi hún mun verr en í svona stóryrðaslagsmálum. 


mbl.is „Óábyrgt að fara frá borði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raforkuframleiðsla er ekkert vandamál

Menn kunna nú orðið að framleiða rafmagn með mjög fjölbreyttum hætti. Í raun er offramboð á rafmagni. Olíuframleiðsla er í hæstu hæðum, menn reisa vindmyllur og sólarorkuver á kostnað skattgreiðenda, vatnsföll má víða virkja, strauma sjávar er hægt að virkja, kjarnorku er hægt að beisla og svona má lengi telja. Raforkuframleiðsla er ekkert vandamál.

Vandamálið er geymsla þess. Dreifikerfi þola ekki óheflaðar sveiflur. Ekki er víst að vindar blásir þegar fólk þarf á vindorkunni að halda eða að sólin skíni þegar sólarorkunnar er þörf. 

Hérna hefur olían enn sem komið er gríðarlega sérstöðu. Hana er auðvelt að geyma og flytja á milli. Orkuþéttleiki hennar er mikill svo ekki þarf mikið magn til að framleiða mikla orku og gera það þegar orkunnar er þörf. Olían er líka ódýr og verður það um ókomin ár. Enn eru nýjar lindir að finnast og tækninni fleygir fram svo nú sækja menn olíu á næstum því 3000 metra dýpi úr borholum sem eru a.m.k. jafnlangar undir sjávarbotninum. 

Olían hefur samt þann gríðarlega ókost að finnast í miklu magni undir landi þar sem ríkir pólitískur óstöðugleiki. Ef olíuna væri ekki að finna í svona miklu magni undir Miðausturlöndum vissum við sennilega varla að þessi heimshluti fyndist frekar en við höfum eyðimerkur Afríku í huga frá degi til dags. Olían er eldsneyti öfgamanna sem vilja leggja heiminn undir sig með vopnavaldi og trúarofstæki.

Það er af þeirri ástæðu sem ég vona að menn finni bráðum upp geymsluaðferð sem jafnast á við olíuna hvað varðar meðfærileika og orkuþéttleika. Kannski ættu menn ekki að leika sér með kjarnasamruna. Kannski má breyta vindorku í olíu með því að þjappa saman lífrænum úrgangi! Væri það ekki alveg frábært? 

Stjórnmálamenn eru hérna úti að aka eins og oft áður. Þeir hafa fundið nýtt gæluverkefni í baráttu gegn olíu og jafnvel gasi. Um leið gleymist að skítug kolin eru bæði vinsælli og verri en olían og gasið því þau eyðileggja allt umhverfi kolasótsins sem og heilsu manna og dýra og plantna. 

Stjórnmálamenn eiga ekki eftir að leysa orkuvandamál heimsins. Þeir flækjast fyrir slíkum lausnum. 


mbl.is Kjarnasamrunatilraun gekk að óskum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn og vandlæting

Íslenskir vinstrimenn eru alveg sérstakur flokkur einstaklinga. Þeir eru töluvert lengra til vinstri en vinstrimennirnir á hinum Norðurlöndunum, töluvert uppteknari en flestir af því hvað þeir sjálfir eru frábærir og með alveg einstaklega þrönga sýn á lífið og tilveruna. Séu menn ekki með nákvæmlega sömu áhyggjur og þeir, á nákvæmlega sama tíma, þá verða þeir alveg vitlausir.

vandlaetingSem dæmi má nefna Illuga Jökulsson, sem mætti kalla atvinnuvinstrimann (því hann predikar skoðanir sínar oftar en ekki yfir hábjartan daginn þegar flestir eru í vinnunni). Hann kemur víða við á Facebook-síðu sinni en í gær taldi hann vera tilefni til að úthúða lítilli grein eftir ritara Sjálfstæðisflokksins. 

Í fyrsta lagi gefur hann til kynna að öll vandamálin sem greinin telur upp séu hreinlega öll þau vandamál í samfélaginu sem greinarhöfundur getur komið auga á. Svo tæmandi held ég að fáar greinar séu!

Í öðru lagi gerir hann lítið úr vandamálunum sem talin eru upp - þau eru smávægileg óþægindi í besta falli sem taki því ekki að ræða. Þó er það svo að fá vandamál eru meira rædd af vinstrimönnum, t.d. á Alþingi, en einmitt þau sem talin eru upp. 

Í þriðja lagi er það vandlætingartónninn. Nú eru ekki margir sem þora að taka þátt í umræðunni á Íslandi af ótta við skítkast og sérstaklega virðist vera við hæfi hrauna yfir alla af kvenkyninu sem tjá sig. Hin unga kona sem greinina skrifar er ein af fáum kynsystrum hennar sem þora að taka slaginn. Fyrir vikið hefur hún uppskorið vænan skammt af uppnefnum og háði. Vinstrimenn virðast ekki þola að sjá ungar konur hægra megin við miðju tjá sig. Þeim skal komið frá sem fyrst!

Nú fjallar greinin ekki um heimsins stærstu vandamál eða verstu meinin í íslensku samfélagi, en það er einmitt ákveðinn punktur. Ef ríkisvaldið getur ekki hætt að skipta sér af öllu þessu litla og ómerkilega í daglegu lífi okkar hvernig er þá nokkur von til þess að það geti einbeitt sér að stærri vandamálunum og hvað þá leyst þau? 

Ríkisvaldið flækist fyrir svo mörgu að það framleiðir fleiri vandamál en það leysir. Þau vandræði sem ríkisvaldið skapar með því að angra friðsama borgara verða þeim mun stærri þegar það flækist einnig fyrir einstaklingum sem vilja láta til sín taka á sviði heilbrigðisþjónustu, fjölbreyttrar líkamsræktar og almennri bætingu lífskjara á Íslandi.

Íslenskir vinstrimenn telja gjarnan að þeir einir eigi að ráða því hvað sé rætt og hvenær og hversu lengi. Þannig má það aldrei verða. 


Eitthvað að síast inn

Það virðist vera að síast inn hjá einhverjum að ESB/EES er ekki hlaðborð þar sem má velja sumt en sleppa öðru. Nei, svo er ekki. 

Sama gildir raunar um ýmsa aðra sáttmála og aðild að ýmsu öðru. 

Nú bý ég t.d. í götu sem leyfir ekki kattahald. Þetta vissi ég þegar ég flutti í hana og hef ekkert út að það að setja. Að sumir íbúar reyni að fá þeim reglum breytt er þeirra mál. Ef það tekst þá þarf ég að sætta mig við það eða flytja í aðra götu. 

En það er gott að þetta er allt að síast inn hjá fleirum og fleirum. 


mbl.is EES framar íslenskum lögum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðleystur vandi

Nú liggur fyrir að enn eigi að skera niður í rekstri leikskóla í Reykjavík. Ekki sé ég að í staðinn sé opnað á aukinn einkarekstur eða aukna kostnaðarþátttöku foreldra þótt þannig með bæði sópa eitthvað af barnagæslunni ofan af opinberri framfærslu (svo meira fé sé eftir fyrir hina sem nýta sér opinberu þjónustuna) og draga fé inn í leikskólastarfið í heild sinni.

Hvað um það. Það verður enginn hægðarleikur að eiga við þennan niðurskurð en ég er með hugmynd: Allir leikskólakrakkar hittist á hverjum morgni fyrir framan tugmilljónkróna Erró-listaverkið í Breiðholti og dáist að því svo klukkutímum skiptir. Í næsta nágrenni er Bónus-verslun þar sem ódýrt er að versla mat og drykki ofan í krakkana og nóg af skjólsælum stöðum á milli háhýsanna ef veður er slæmt. 


mbl.is Gætu þurft að stytta opnunartíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendastofa leggi dagsektir á Siglufjörð

Það er með öllu ótækt að tvö götuheiti á Íslandi séu næstum því eins. Neytendastofa ætti hér að fylgja eftir baráttu sinni gegn því að eitthvað tvennt heiti svipuðum nöfnum og leggja dagsektir á Siglufjörð. 


mbl.is Þar munaði um r-ið!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir Ágústsson

Ég heiti Geir Ágústsson. Afi minn heitir líka Geir Ágústsson. Afi sagði mér einu sinni frá símtali sem hann fékk frá reiðum manni sem langaði að skamma mig fyrir einhverja blaðagrein mína. Afi útskýrði málið og það var úr sögunni hvað hann varðar og raunar mig líka því aldrei fékk ég símtalið. 

Mér til mikilla vonbrigða hefur Neytendastofa ekki sett sig í samband við mig og beðið mig um að breyta nafninu mínu. Það er því ennþá hætta á því að afi fái símtöl þegar ég skrifa blaðagreinar. 

Neytendastofa hefur samt og sem betur fer komið í veg fyrir að ölvaðir einstaklingar rölti óvart inn á Loftið þegar þeir voru á leiðinni á Loft Bar. Guði sé lof!


mbl.is Dagsektir lagðar á Loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband