Vinstrimenn og vandlæting

Íslenskir vinstrimenn eru alveg sérstakur flokkur einstaklinga. Þeir eru töluvert lengra til vinstri en vinstrimennirnir á hinum Norðurlöndunum, töluvert uppteknari en flestir af því hvað þeir sjálfir eru frábærir og með alveg einstaklega þrönga sýn á lífið og tilveruna. Séu menn ekki með nákvæmlega sömu áhyggjur og þeir, á nákvæmlega sama tíma, þá verða þeir alveg vitlausir.

vandlaetingSem dæmi má nefna Illuga Jökulsson, sem mætti kalla atvinnuvinstrimann (því hann predikar skoðanir sínar oftar en ekki yfir hábjartan daginn þegar flestir eru í vinnunni). Hann kemur víða við á Facebook-síðu sinni en í gær taldi hann vera tilefni til að úthúða lítilli grein eftir ritara Sjálfstæðisflokksins. 

Í fyrsta lagi gefur hann til kynna að öll vandamálin sem greinin telur upp séu hreinlega öll þau vandamál í samfélaginu sem greinarhöfundur getur komið auga á. Svo tæmandi held ég að fáar greinar séu!

Í öðru lagi gerir hann lítið úr vandamálunum sem talin eru upp - þau eru smávægileg óþægindi í besta falli sem taki því ekki að ræða. Þó er það svo að fá vandamál eru meira rædd af vinstrimönnum, t.d. á Alþingi, en einmitt þau sem talin eru upp. 

Í þriðja lagi er það vandlætingartónninn. Nú eru ekki margir sem þora að taka þátt í umræðunni á Íslandi af ótta við skítkast og sérstaklega virðist vera við hæfi hrauna yfir alla af kvenkyninu sem tjá sig. Hin unga kona sem greinina skrifar er ein af fáum kynsystrum hennar sem þora að taka slaginn. Fyrir vikið hefur hún uppskorið vænan skammt af uppnefnum og háði. Vinstrimenn virðast ekki þola að sjá ungar konur hægra megin við miðju tjá sig. Þeim skal komið frá sem fyrst!

Nú fjallar greinin ekki um heimsins stærstu vandamál eða verstu meinin í íslensku samfélagi, en það er einmitt ákveðinn punktur. Ef ríkisvaldið getur ekki hætt að skipta sér af öllu þessu litla og ómerkilega í daglegu lífi okkar hvernig er þá nokkur von til þess að það geti einbeitt sér að stærri vandamálunum og hvað þá leyst þau? 

Ríkisvaldið flækist fyrir svo mörgu að það framleiðir fleiri vandamál en það leysir. Þau vandræði sem ríkisvaldið skapar með því að angra friðsama borgara verða þeim mun stærri þegar það flækist einnig fyrir einstaklingum sem vilja láta til sín taka á sviði heilbrigðisþjónustu, fjölbreyttrar líkamsræktar og almennri bætingu lífskjara á Íslandi.

Íslenskir vinstrimenn telja gjarnan að þeir einir eigi að ráða því hvað sé rætt og hvenær og hversu lengi. Þannig má það aldrei verða. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er hjarðeðlið og eineltismenningin sem mengar allt hjá þeim.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.2.2016 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband