Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2024

Unga fólkið og loftslagið

Í mjög fróðlegri yfirferð fer blaðamaður í þessu myndbandi yfir þrjátíu spádóma um framtíð loftslagsins undanfarna áratugi. Það er búið að spá því óteljandi sinnum að jöklarnir séu að hverfa, að snjór heyri sögunni til, að eyjur fari undir sjó og svona mætti lengi telja. En líka að jörðin sé að frjósa og ísöld væntanleg. 

Við þekkjum öll þessa spádóma sem endurnýja sig eins og gömul tíska. Nema kannski unga fólkið. Blaðamaður er með áhugaverða tilgátu:

Kannski það útskýri af hverju það er aðallega ungt fólk á þessum loftslagsmótmælum. Af því það hefur ekki lifað undanfarin 50 ár af þessum spádómum þá gerir það kannski ráð fyrir að seinasta spáin sé sú eina og þar með að hún sé rétt.

Þetta er ágæt útskýring. Ungt fólk veit skiljanlega ekki að það er búið spá hamförum mjög oft og hefur engan áhuga á einhverri leiðinlegri fortíð.

Ætli þetta gildi um fleira en bara loftslagsspádóma? 

Þegar ég var ungur maður þá lét ég lokka mig til að styðja við innrás Bandaríkjanna í Írak. Ég vissi lítið um sögu Bandaríkjanna, Breta og fleiri Vesturlanda í Miðausturlöndum og hvernig þetta svæði hefur verið undir stanslausum afskiptum vestrænna hermanna svo áratugum skiptir. Núna veit ég betur. Það getur verið gagnlegt að kynna sé aðeins söguna og gleyma sér ekki í hávaðamáli dagsins.

En kannski þarf fyrst að vera ungur og vitlaus og láta plata sig í nokkur mótmæli. Þá það.


Glasið er fullt, elskan

Ég er faðir orkumikillar og hugmyndaríkrar 6 ára stúlku. Hún vill gera allt sjálf og skammar mig jafnvel fyrir að hjálpa henni þegar hún þarf í raun og veru hjálp. Þetta er svo sannarlega lúxusvandamál sem ég ber ánægður á herðum mínum.

Um daginn vildi hún hella appelsínusafa í glas. Fernan var ný og því nokkuð þung. Að lyfta henni upp og og halla og hitta í glasið og hella rólega og allt þetta krefst samhæfingar og ákveðins styrks. Hún hellti í glasið og þegar það var við það að fyllast þá varaði ég við að hella ekki of miklu í það því þá gæti glasið yfirfyllst. Hún hætti ekki við það og vildi fylla það alveg að brúninni. Það tókst næstum því, en ekki alveg. Eitthvað af safa lak út fyrir og á borðið. Við þurrkuðum það í sameiningu og urðum sammála um að hella ekki alveg svona miklu í glasið næst.

Núna er Ísland fullt. Innviðir eru sprungnir fyrir löngu. Það er orkuskortur. Ríkissjóður er rekinn á yfirdrætti. Biðtímar eftir þjónustu, leikskólaplássi og læknisaðgerðum eru alltof langir. Húsnæðismarkaðurinn er sprunginn og ræður ekki einu sinni við innlenda flóttamenn og hvað þá erlenda. 

Hvað gera yfirvöld þá? 

Taka þau til sín varnarorð um að það sé að flæða úr glasinu og á borðið og jafnvel gólfið?

Nei, auðvitað ekki.

Þau skilja ekki það sem 6 ára krakkar skilja. 

Hvers vegna ekki?

Því get ég ekki svarað.


mbl.is Spítalinn ekki upplýstur um ástand flóttafólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlaupabóla var það víst

Ég gær skrifaði ég af miklum eldmóð lítinn pistil um mislinga, óþarfa ótta við mislinga og hvernig nýjar tegundir af sprautum hræra saman fjölmörgum efnum í eina blöndu til að tryggja að fólk geti ekki valið að sleppa sumum efnum.

Á meðan ég stend við margt af því sem ég skrifaði (sjá mynd) þá ætla ég að leiðrétta sjálfan mig í tveimur veigamiklum atriðum:blauta

  • Mislingar eru stórhættulegir og ég fagna því að það sé til sannprófað bóluefni sem veitir raunverulega vörn
  • Ég fékk ekki mislinga heldur hlaupabólu, og það var hún sem ég hristi af mér

Ég hljóp sem sagt aðeins á mig og biðst velvirðingar á því.

Eftir stendur nú samt að sífellt er verið að sprauta gegn fleiri og fleiri sjúkdómum. Sumir þeirra eru meira að segja kallaðir hættulausir:

Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum.

Hérna er sem sagt verið að lýsa hettusótt. Ég fékk enga sprautu gegn henni, og heldur ekki hlaupabólu (fékk bara sjúkdóminn), streptókokkum og ýmsu fleira. Samanburð á bólusetningakorti mínu og lista yfir bólusetningar barna í dag má sjá hér að neðan (smella þarf á mynd til að stækka hana).

barnasprautur

Ég er ekki að mæla á móti bólusetningum né því að börn séu bólusett né því að bóluefnum fjölgi eitthvað þegar menn hafa fundið örugg og góð efni sem svo sannarlega fela í sér minni áhættu en veiran sem þau eiga að stöðva.

En þetta er allt að þróast í ranga átt. Það er látið eins og sprautum fylgi engin áhætta bara af því þær eru á lista einhverra embætta - embætta sem eru ennþá að drepa fólk með nýjasta glundrinu sem að auki er gagnslaust. Sjúkdómar sem fólk fékk einfaldlega og jafnaði sig á eru komnir á par við pláguna miklu. 

Í Danmörku, þar sem ég bý, er sprautað til 5 ára aldurs og síðan er ekki sprautað aftur fyrr en við 12 ára aldur og þá er þessi HPV-sprauta sett í krakka. Í Danmörku í bæði stráka og stelpur (á Íslandi bara í stelpur). Ég hafnaði þessari sprautu fyrir son minn og uppskar skammir fyrir en það verður bara að hafa það. Þetta er orðið fínt.


Hvað er skynsöm skoðun? Þumalputtaregla

Ég er að þróa með mér þumalputtareglu til að komast að því, með fljótlegum hætti, hvaða afstaða í málum er sennilega sú skynsamlega. 

Hún er eitthvað á þessa leið:

Þegar Íslendingar hópa sig saman með skilti og eru með skrílslæti eða af því yfirvöld segja þeim að gera það þá er sennilega skynsama skoðunin sú að vera á öndverðum meiði við þann hóp.

Ýmis mál ræsa þessa reglu og þótt ég reyni nú að mynda mér mína eigin skoðun þá virðist hún oft afhjúpa sig sjálf - sem andstæð skoðun við hópinn. Sem dæmi má nefna:

  • Mál Eddu Bjarkar og barnanna
  • Málefni Palestínu-Araba á Íslandi
  • Sprautuveislurnar í íþróttasölunum
  • Kvennafrídagurinn
  • Búsáhaldabyltingin

Lesendur mega gjarnan bæta við þennan lista.

Á þessu eru auðvitað veigamiklar undantekningar, svo sem þegar Íslendingar þjappa sér saman til að aðstoða landsmenn sína þegar náttúruöflin minna á sig og þegar fólk hittist til að veifa fána á 17. júní.

En skrílslætin afhjúpa oftast einhvers konar hjarðhegðun og skort á jarðtengingu sem á augabragði breytir friðsömu úthverfaliði sem býr í húsi með bílskúr í Gyðingahatara, fasista, strengjabrúður erlendra stofnana og já, skríl.

Ekki fyrir mig, takk.


Friðsamleg mótmæli friðelskandi fólks með geislabaug yfir höfðinu

Þegar yfirvöld í hinum vestræna heimi, þar á meðal Íslandi, lokuðu fólk inni hjá sér, tóku félagslífið úr sambandi, keyrðu fyrirtæki í þrot, hlóðu skuldum á skattgreiðendur framtíðarinnar, sprautuðu stórhættulegu glundri í börn og fullorðna, flæmdu ungmenni úr námi og létu fólk ganga um með gagnslausar grímur þá sögðu fáir nokkuð. Íslendingar létu leiða sig inn í sprautuhallir eins og sauðfé í sláturhús. Íslensk ungmenni sögðu ekkert þótt verið væri að taka af þeim bestu árin.

En þegar spurningamerki eru sett við að troða nokkur hundruð flóttamönnum inn í kerfi sem nú þegar er sprungið (vegna fólks sem er einfaldlega að flýja úr fátækt í bætur) þá verður allt vitlaust. 

Þá má tjalda fyrir framan Alþingi, kasta eggjum í Alþingishúsið, ógna lögreglumönnum og auðvitað ráðast að þingmönnum sem þurfa að mæta á óróasvæðið til að sinna starfi sínu sem kjörnir fulltrúar.

Karlmaður sem var þátttakandi í Palestínumótmælum fyrir utan Alþingi fyrr í dag kastaði hlut í bíl Diljár Mist Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Sagði hann henni að „fokka sér“ ítrekað og lét önnur fúkyrði fylgja.

Í 74. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir:

Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.

Er ballið ekki búið, samkvæmt stjórnarskrá? Ég veit að atvinnu- og félagafrelsisákvæði hennar, auk ýmissa annarra ákvæða, eru dauður bókstafur eins og veirutímar sönnuðu svo rækilega, en hvað með grein 74? Er hún það líka?


mbl.is Mótmælandi réðst að Diljá Mist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútin-viðtalið sem allir (og enginn) eru að tala um

Um daginn var tekið viðtal við forseta Rússlands. Það var tekið af vestrænum blaðamanni, Tucker Carlson, og fyrsta viðtalið af þeirri tegund síðan Pútin sendi rússneska hermenn yfir landamæri Úkraínu í febrúar 2022. Viðtalið teygði sig í yfir 2 klukkustundir og fór um víðan völl. Blaðamaður spurði meðal annars hvernig kristinn maður gæti fyrirskipað dráp á fólki og hvers vegna hann héldi ungum, bandarískum blaðamanni í fangelsi. Blaðamaður hló hátt þegar Pútin sagðist ekki muna hvenær hann talaði seinast við Bandaríkjaforseta. Ákveðin vanvirðing, en hafði engar afleiðingar.

Þetta var athyglisvert viðtal. Það byrjaði á hefðbundinn hátt. Blaðamaður spurði spurningar er snéri að líðandi stundu. Forsetinn stoppaði þá blaðamann í sporunum og spurði:

Erum við í spjallþætti eða að í alvarlegum samræðum?

**********

Are we having a talkshow or a serious conversation?

Eftir þessa spurningu byrjaði viðtalið smátt og smátt að breyta um eðli. Svör forsetans voru löng þótt hann hafi ítrekað sagst vera að forðast smáatriðin. Smátt og smátt gaf blaðamaður leyfi fyrir löng svör án þess að trufla. Hann fékk líka að spyrja að vild, jafnvel eftir tvær klukkustundir af viðtalstíma.

Menn geta haft allar heimsins skoðanir á forseta Rússlands, blaðamanninum bandaríska eða því sem fór fram. En þarna fór fram langt viðtal þar sem margt kom fram. Flest kannski endurtekning fyrir þá sem hafa fylgt málum eftir, en kannski mikið af nýju efni fyrir aðra (viðtalið hefur fengið tugmilljónir áhorfa og ekkert lát þar á).

Það var auðvitað viðbúið að CNN, BBC og aðrir miðlar (sem sögðu eitthvað, frekar en ekkert) reyndu að afskrifa viðtalið strax sem drottningarviðtal (viðtal sem forðaðist óþægilegar spurningar) eða viðtal fullt af sögufölsunum

En hvað fundu margir að viðtalinu?

Jú, það var svo langt!

Í mjög litlu fréttainnslagi á BBC (innan við 5 mín.) er kvartað yfir þessu í nokkur skipti. Um leið kvartar blaðamaður BBC yfir því að hafa ekki fengið að taka viðtal við Pútin, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. 

Setjum okkur aðeins í spor Rússlandsforseta: Blaðamaður vill taka við hann viðtal, en það þarf að vera stutt. Bara spurningar og svör. Engar langar ræður um söguna, eins og forsetinn sér hana, eða aðdraganda að einu né neinu. Viðtal þar sem er þjarmað að og öll frávik frá beinu svari meðhöndluð sem útúrsnúningur eða leið til að afvegaleiða umræðuna. 

Skiljanlega hafnar maður sem hefur frá mörgu að segja, rétt eða rangt, slíkri viðtalsbeiðni.

Blaðamenn eru vitaskuld ekki með á nótunum. Svokallað "long-form interview", sem mætti einfaldlega þýða sem viðtal sem tekur langan tíma, eru undirstaðan að velgengni margra vinsælla hlaðvarpsþátta, og þarf þá fyrst og fremst að nefna Joe Rogan í því samhengi. Það er einfaldlega eftirspurn eftir dýpri samtölum, kæru blaðamenn!

Blaðamenn eru ekki komnir á þennan stað. Þeir vilja hraða vinnslu af spurningum og svörum og grípa fyrirsagnir úr slíku spjalli. Þeir eru ekki að hlusta. Þeir eru ekki að eiga í alvarlegum samræðum. Þeir eru að reka spjallþætti. Og kannski kæra sig ekki allir um að setjast í slíka gryfju.

Við blaðamenn vil ég því segja: Prófið að taka löng viðtöl, og ef þið þurfið að taka með ykkur vatnsbrúsa þá verður bara að hafa það. Margir mögulegir viðmælendur láta ekki bjóða sér annað.

Tel ég það vera lærdóminn af viðtali Tucker Carlson við Vladimír Pútin.


Fullir vinahópar

Stór áskorun þeirra sem flytjast í nýtt land er að eignast vini. Þó er þetta mismunandi eftir löndum. Á Íslandi og í Danmörku eiga vinahópar það til að fyllast á námsárunum. Það er ekki skrýtið. Þetta eru árin þar sem heilinn er að mótast. Stórir hópar ungs fólks sitja saman í kennslustofum, fara í bekkjapartý og á böll, fara saman á viðburði og þess háttar og þefar uppi skyldar sálir eða þá með svipuð áhugamál eða kímnigáfu. Þeir sem hafa metnað fyrir náminu leita mögulega í aðra slíka, og öfugt. Námsárin eru eitt stórt stefnumót mikils fjölda og flestir finna í þeim fjölda góða vini, oft til æviloka.

Að námi loknu rennum við vissulega flest inn á stóra vinnustaði en árshátíðin er bara einu sinni á ári og spjallið við kaffivélina kemur alls ekki í staðinn fyrir hangsið á göngum skólanna.

Ég tengi vel við þetta og það gerir mig um leið sorgmæddan því íslensk yfirvöld, og raunar fleiri, völdu að henda sprengju í þetta ferli vináttumyndunar hjá ungu fólki. Þau töldu að náminu mætti bjarga með fjarkennslu og kannski reddaðist það - sjálft námið - að einhverju leyti þótt skólar væru lokaðir og félagslífið í banni. En stór hópur krakka missti af því gríðarlega mikilvæga veganesti í lífið sem heitir tengsla- og vinanet.

Kannski þetta þýði að útlendingar sem flytjast til Íslands geti fundið einhverja með laus pláss í vinahópum. Einhverja úr týndri kynslóð íslenskra ungmenna með skaddað tengsla- og vinanet.


mbl.is Sögðu frá stærstu áskorununum við að flytja til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíminn er afstæður

Hvað tekur mörg ár að reisa virkjun á Íslandi? Leggja rafmagnslínu? Byggja brú eða mislæg gatnamót?

Kaldhæðinn maður gæti sagt áratug, eða áratugi, eða jafnvel heila eilífð.

Það þarf jú að fá öll leyfi, fara í umhverfismat sem rennur svo út af því einhver tilskipun frá Evrópusambandinu var innleidd á meðan það lá ofan í skúffu, fara í það aftur, komast í gegnum kæruferlin, fá öll leyfin aftur og svona mætti lengi telja.

En hvað tekur langan tíma að reisa varnargarð til að verja svæði gegn hrauni? Eða sjóða saman hitaveitulínu til að bjarga þúsundum manna frá því að krókna?

Það tekur bara nokkrar vikur, jafnvel bara einhverja daga.

Þó er um að ræða alveg eins framkvæmdir og þær sem taka heila eilífð: Mosa þarf að færa og innviði þarf að leggja með tilheyrandi, tímabundnu raski.

Eldsumbrotin á Reykjanesi ættu að minna Íslendinga á að þeir geta alveg ennþá. Þeir eru ekki orðnir að gagnslausum möppudýrum - ekki allir. Þeir kunna ennþá að bretta upp ermar og framkvæma stórvirki. 

Þeir mega það bara ekki.


Þegar menn ráða ekki við náttúruna

Innviðaráðherra Íslands lét í dag eftir sér þessi orð:

„En svo er alltaf til plan, B og C því við ráðum ekki við nátt­úr­una,“

Þetta eru frábær orð. Þau minna okkur á að náttúran fær sínu fram. Hún framkallar storma, fellibyli, ísaldir, jarðskjálfta og eldgos. Við ráðum ekki við neitt af þessu. Það sem við getum gert er að hafa plan, B og C.

Ég var nýlega í Hollandi og saug í mig frásagnir heimamanna um síki þeirra og varnargarða sem gera það að verkum að eitt þéttbýlasta land í heimi getur starfrækt alþjóðaflugvöll undir sjávarmáli og einn afkastamesta landbúnað í heiminum sömuleiðis. 

Þeir eru með plan, B og C. 

Svipaða sögu má segja um mörg önnur svæði. Bangladess kemur þar til hugar. Ég man eftir fréttum sem ég heyrði sem krakki um fellibyli sem réðust á landið og drápu hundruð þúsunda. Slíkar fréttir berast ekki lengur enda hefur íbúum tekist að byggja upp varnir og viðvörunarkerfi til að forðast slíka tortímingu á mannslífum. 

En bíðum nú við. Losun manna á koltvísýring er að steikja heiminn! Eða frysta - það fer aðeins eftir því hvenær menn lesa fyrirsagnirnar. Veðrið breytist! Loftslagið! Hvað er til ráða?

Í dag er okkur sagt að ráðið sé að reyna breyta veðrinu. Breyta loftslaginu. Sitji menn á rassgatinu þegar sjávarmálið hækkar þá drukkna þeir. Ekkert plan, B eða C. Notkun á hagkvæmum orkugjöfum mun vissulega halda áfram að gera okkur ríkari og betur undirbúin undir áföll en við veljum að sitja á rassgatinu. Ekkert plan, B eða C.

Auðvitað mun almenningur fyrr eða síðar átta sig á því að mannkynið stjórnar ekki veðrinu og loftslaginu. Hefur í besta falli sömu áhrif og eldfjöll - þekkt eða óþekkt - ofansjávar eða neðansjávar - eða breytir því ekki. Ekki með því að gera sig fátækara og verr undirbúið undir náttúruna.

Mannkynið þarf bara plan, B og C. Og getur búið þau til frekar auðveldlega.

Takk, innviðaráðherra, fyrir að segja óvart eitthvað vitrænt.


mbl.is Atburðir dagsins kalla á endurskoðað hættumat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er betra að tæta pappír en endurskoða

Svo virðist sem allir ráðherrar séu sammála því að Ísland sé að drukkna í hælisleitendum og að þetta sé að valda hruni á ýmsum innviðum á Íslandi og auðvitað að tæma nú þegar tóman ríkissjóð.

Þá er talað um að endurskoða eitthvað. Það hljómar tímafrekt.

Er ekki betra að henda einfaldlega öllum pappírunum í tætarann og byrja upp á nýtt? Rifja upp að Ísland er sjálfstætt ríki með fulla stjórn á eigin landamærum? Svona eins og á veirutímum, þegar mismunun gagnvart þjóðerni var talin vera hið besta mál.

Þegar ég flutti til Danmerkur fyrir 20 árum var að vaxa stjórnmálaflokkur sem varaði við vandamálum stjórnlauss innflutnings á fólki sem lagðist meira og minna á bótakerfið. Íslenskir fjölmiðlar kölluðu þennan flokk hægri-öfgaflokk og annað slíkt.

Í dag hefur stefnuskrá þess flokks í innflytjendamálum ratað inn í stefnuskrár allra annarra flokka, þar á meðal jafnaðarmannaflokkanna og jafnvel flokka lengra til vinstri. Enginn minnist lengur á Danska þjóðarflokkinn (Dansk Folkeparti). Vinsældir hans urðu jú til þess að útrýma séreinkennum hans. Í dag eru meira og minna allir flokkar í Danmörku danskir þjóðarflokkar.

Þetta gerðist ekki af því menn fóru að hugsa sig aðeins um. Nei, kjósendur töluðu. Þeir kusu þá sem vildu stíga á bremsuna. Aðrir flokkar sáu sig tilneydda til að snúa við blaðinu.

Þar með er ekki sagt að Danir séu einhverjir rasistar. Þvert á móti. Þeim vantar duglegt fólk. Þeir hleypa inn flóttamönnum samkvæmt samningum sem í gildi eru (ólíkt Íslendingum sem hleypa bara inn öllum sem banka á dyrnar). Ég er að vinna með konu sem flúði frá Úkraínu með börn sín og til að fá að sjá eiginmann sinn þarf hún að ferðast til Úkraínu því hann er þar í ánauð ríkisins. Það gerir hún reglulega (og tekur alltaf með sér sælgæti). 

Ég vinn í tæplega 20 manna deild og þar erum við með 9 móðurmál. Fjölbreytileikinn er víða. En skynsemin fær að fylgja með.

Því miður þurfa Íslendingar alltaf að apa upp vitleysuna eftir öðrum og finna á eigin skinni hvað það er heimskulegt. Ég áætla lauslega að Íslendingar séu 20 árum á eftir hinum Norðurlöndunum, ef Svíar eru undanskildir (þeir vöknuðu ekki úr rotinu fyrr en fyrir tæpum 2 árum síðan og kusu þar til áhrifa sinn sænska þjóðarflokk, sem við köllum rasistaflokk í bili).

Viltu hjálpa flóttamönnum í Gasa? Frábært! Ég líka! En nærtækast er að hvetja nágrannaríkin til að gera eitthvað og fá jafnvel einhvern stuðning til þess. Fiskveiðiþjóðin Íslandi gæti þá sent peninga til olíuríkisins Sádi-Arabíu ef menn eru þannig stemmdir. Núverandi kerfi er meira glapræði en að íslenskir skattgreiðendur létti undir með arabískum prinsum. 

Vantar íslenskan þjóðarflokk eða ætlar einhver núverandi flokka að verða flokkur Íslendinga (og heiðarlegra útlendinga)? Kemur í ljós.


mbl.is Aukinn þrýstingur á flutning dvalarleyfishafa til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband