Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023

Hamfarakólnun

Það gengur sífellt verr og verr að negla einhvers konar veðurfars- og loftslagsbreytingar á athafnir manna og bruna þeirra á jarðefnaeldsneyti.

Víða eru kuldamet núna að falla og snjómagnið að valda vandræðum. Á meðan fundar veruleikafirrt klíka á baðströndum og boðar hærri skatta á almenning. 

Ef ég væri fjárfestir þá myndi ég veðja á algjört hrun í öllum hlutabréfum og sjóðum sem reikna með áframhaldandi fjáraustri úr vösum skattgreiðenda í allskyns vindmylluævintýri og aðrar grænar aðgerðir. Við erum hænufeti frá því að sjá almenning spyrna við fótum og heimta að skatttekjur renni í raunverulega þjónustu, innviði og fjárfestingar. Almenningur víða er nú þegar byrjaður að mótmæla í gegnum kosningar með því að senda atkvæði til ýmissa óvinsælla stjórnmálaflokka sem á einn eða annan hátt boða jarðtengingu stjórnmálanna. Þetta er fyrsta sprungan í glerhjúpnum. Í náinni framtíð fara svo ríkisstjórnir að stíga fram og tala um breyttar áherslur: Frá hræðsluáróðri og að betri nýtingu takmarkaðra gæða, auk orkuöryggis auðvitað.

Kannski er ég óþarflega bjartsýnn hérna. Kannski tekst að halda úti þessu leikriti í mörg ár í viðbót. Kannski klofnar heimurinn í afstöðu sinni - annar heldur áfram vegferðinni til glötunar, fátæktar og orkuóöryggis á meðan hinn sækir í hagkvæma orku, auk annarra úrræða til að verja lífskjör almennings. Kannski sjálfumglöð Vesturlönd haldi áfram að grýta eigin höfn á meðan miðstéttin heldur áfram að stækka og eflast í öðrum heimshlutum. Erfitt að spá fyrir um slíkt auðvitað, en eitthvað mun gefa eftir, fyrr en síðar.

Vonum bara að það verði áður en Evrópubúar skattleggja sig til að frjósa úr kulda nú þegar loftslagið kólnar af ástæðum sem passa ekki við reiknilíkön vísindamanna sem fá borgað fyrir að komast að niðurstöðu stjórnmálanna.


mbl.is Kaldasti desember frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólahátíð

Þá eru jólin um það bil að bresta á. Pakkar þekja gólfið undir jólatrénu, önd og rjúpa eru matreidd og jakkafötin dregin fram. Jólin eru góð og um leið svo margt: Fögnuður kristinna manna, hátíð hækkandi sólar, hátíð barnanna og hátíð ljósa í skammdeginu. Jólin eru um leið uppskeruhátíð kapítalismans þar sem við leyfum okkur að taka svolítið frí og gleðja hvort annað með gjöfum. 

Jólin eru líka góður tími til að staldra við og hugleiða. Hefur árið verið gott ár? Hefur það boðið upp á góðar áskoranir og tækifæri? Er nauðsynlegt að endurskoða eitthvað fyrir næsta ár? Höfum við náð að eyða tíma með okkar nánustu eða fór öll orkan í að eltast við vinnu og heimilisrekstur? Náðum við að rækta okkur sjálf eða gengum við kannski frekar á forða heilsu og vellíðunar? 

Ég hef svo sannarlega tilefni til að hugleiða spurningar eins og þessar, en um leið kvarta ég ekki. Við erum að jafnaði okkar eigin gæfu smiðir og getum yfir lengri tíma gert þær breytingar sem færa okkur sjálf á betri stað. Ég þarf að minnka við mig vinnu og bæta við mig heimsóknum til vina og vandamanna. Ég þarf að vera duglegri að segja nei við suma og já við aðra. Litlar breytingar en nauðsynlegar.

Um leið brenn ég töluvert fyrir því að forða samfélagi okkar frá glötun í boði stjórnmálastéttarinnar og sérvitra milljarðamæringa og mun með ánægju halda áfram þeirri baráttu. 

Að lokum vil ég óska lesendum þessarar síðu gleðilegrar jólahátíðar og þakka fyrir áhugann á árinu sem leið.


Hvaða lög gilda? Hvaða lög gilda ekki?

Við erum að drukkna í lögum og reglum. Lögreglan getur ekki fylgt öllu eftir. Sum lög eru í reynd ekki í gildi því það ríkir ákveðinn sameiginlegur og óskrifaður skilningur meðal almennings og lögreglu á því að þau geri í engu samfélagið betra. 

Það mætti því segja að sum lög gildi en önnur ekki.

Að auki mætti segja að önnur lög gildi á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. 

Þetta er auðvitað ekki hollt ástand. Ef bara sum lög gilda en önnur ekki er hætta á því að virðingin fyrir lögunum í heild sinni sé í hættu. En það er enginn valkostur við þetta ástand. Þingmenn halda að með því að setja eitthvað í lög og reglur þá sé verið að leysa vandamál. Lagasetningin á þannig að lækna öll mein. Þeir gleyma því að ef framfylgja ætti öllum lögum þyrfti að margfalda stærð lögreglunnar og allskyns embættismanna og enginn hefur sérstakan áhuga á því, enda er það dýrt og kostar mannafla sem gæti þá ekki sinnt öðru.

Hvað um það. Ég rak upp stór augu þegar ég las frétt þess efnis að lögreglan sé mjög virk í því að velja hvaða lög gildi og hver ekki - jafnvel í tilviki mannræningja sem halda börnum í felum og á vergangi:

Samkvæmt heimildum Nútímans innan úr lögreglunni var mál drengjanna þriggja búið að skipta upp embættinu í tvö lið – þar voru starfsmenn sem láku upplýsingum til vina og vandamanna Eddu Bjarkar og höfðu mikla samúð með málstað hennar en svo hópur starfsmanna sem hélt leitinni linnulaust áfram en með mikilli leynd frá miðjum desember þar sem grunur um leka hafði ítrekað komið upp. Síðarnefndi hópurinn fann svo drengina í gær.

Hér er um að ræða mál þar sem forræðismaður barna leitar að þeim á meðan móðirin er búin að koma sér í fangelsi fyrir að ræna börnum og senda í felur, og lögreglan er að leka upplýsingum til lögbrjótanna!

Er þetta ekki gengið aðeins of langt hjá lögreglunni? Það er eitt að sjá í gegnum fingur sér þegar ungmenni eru að drekka landa eftir að útivistartíma ríkisins lýkur, eða að einhver ákveði að byggja skúr í garðinum hjá sér án þess að hafa eytt hálfri mannsævi í að fá teikningar samþykktar hjá sveitarfélaginu. Slík lögbrot eru smávægileg og raska ekki gangi samfélagsins. 

En þegar lögreglan er farin að aðstoða barnaræningja og gera börn föðurlaus - er það ekki alveg grafalvarlegt mál? Þarf ekki að rannsaka slíkt? Þarf ekki að reka lögreglumenn sem hegða sér svona? Og ekki bara reka þá heldur ákæra fyrir samráð við glæpamenn?

Eða viljum við virkilega að lögreglan taki að sér að ákveða með mjög djúpstæðum grundvallarhætti hvaða lög gilda og hvaða lög gilda hreinlega ekki? 


Prófsteinn á læsi

Miklu sorgarmáli er nú að ljúka með handtöku nokkurra einstaklinga og fullnustu dómsúrskurðar og sameiningar fjölskyldu. Ekkert í því máli hefur komið á óvart eftir að upprunalegir glæpir höfðu verið framkvæmdir og réttarríkið fór í gang. Hið óumflýjanlega hefur nú orðið. Við getum nú byrjað að tyggja á einhverri annarri fjölskyldu og börnum hennar.

Þetta mál hefur verið allt hið furðulegasta í meðförum fjölmiðla. Þeir hafa látið sér einhliða drottningarviðtöl duga til að afla efnis til að fjalla um. Ýmsar fullyrðingar hafa fengið stöðu sönnunargagna og staðreynda. Þetta breyttist um daginn þegar lítill miðill, Nútíminn, tók sig til og lét þýða dómsskjöl og fjallaði um undanfara þeirra. Miðillinn hefur fylgt málinu vel eftir, meðal annars með viðtali við einn aðila sem hefur í dag verið handtekinn og hreinlega laug blákalt að blaðamanni. Miðillinn segir í dag frá miklum fagnaðarfundum feðga og yngri og eldri bræðra. 

Morgunblaðið hefur aðeins reynt að bæta sig en of lítið, of seint. Sömu sögu má segja um DV

Hvað um það. Öll gögn liggja fyrir. Undanfarinn er vel skjalfestur. Dómsskjöl eru aðgengileg. Vilji barna og fullorðinna er á hreinu. Ekkert er dulið, hulið eða óljóst.

Það er því alveg ótrúlega furðulegt að lesa athugasemdir Íslendinga á samfélagsmiðlum þegar fréttir um þetta tiltekna mál eru settar þar inn. Það er greinilegt að fæstir hafa lagt á sig að kynna sér málin, lesa upplýsingar og afla sér gagna. Flestir vaða einfaldlega áfram með fullyrðingar hinna einhliða drottningarviðtala. Fullyrða fyrir hönd barna. Fullyrða um föður. Fullyrða um kerfið. Bölsóttast út í Noreg, af öllum ríkjum.

Það blasir við að Íslendingar nenna ekki að lesa. Nenna ekki að setja sig inn í mál. Neita að láta staðreyndir flækjast fyrir tilfinningarökum. Neita að mynda sér skoðun byggða á raunveruleikanum.

Í bæði þessu máli og mörgum öðrum, því miður.

Þetta afhjúpa Íslendingar einfaldlega á samfélagsmiðlum, trekk í trekk. 

Mér finnst orðið minna og minna skrýtið hvað þeir létu plata sig hressilega á veirutímum. Þeir láta plata sig á tímum þegar yfirvöldum vantar stuðning við eitthvað stríð og á tímum þegar þarf að féfletta þá aðeins meira. 

Íslendingar (og fleiri, auðvitað) falla einfaldlega í gildruna í hvert skipti og læra aldrei af reynslunni. 

Það er því með miklu stolti að ég þigg titla eins og samsæriskenningasmiður, mótþróaseggur og brjálæðingur þegar ég tjái mig opinberlega. Ekki af því ég læt aldrei plata mig - það kemur vissulega fyrir - heldur af því ég reyni að koma í veg fyrir það á meðan aðrir læmingjar hlaupa fram af björg eftir fyrsta útkall.


mbl.is Fjögur voru handtekin í gær vegna máls Eddu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er maður ársins?

Núna keppast allir fjölmiðlar við að safna atkvæðum í allskyns kjör sem maður, kona og manneskja ársins. Mögulega líka kvár ársins. Þetta er hið besta mál. Fólki finnst gaman að kjósa og finna einhverja til að halda með í keppni. Þetta er sárasaklaust allt saman. Oft kýs fólk einhvern sem ratar fyrir slysni í fréttatímana í lok ársins. Stundum einhvern sem er duglegur að auglýsa góðverk sín. Stundum raunverulega hversdagshetju. Það er allur gangur á þessu.

Það má samt láta sumar tilnefningarnar koma sér á óvart. 

Tökum tilnefningar Vísir.is sem dæmi.

Á þessum lista er einn einstaklingur í fangelsi núna og fær að dúsa þar áfram enda ekki talið óhætt að hleypa honum út vegna ítrekaðra lögbrota og brota á dómsúrskurðum. Svo er þarna annar sem er nýbúinn að tapa máli í dómssal þar sem öll vitni viðkomandi stönguðust hvert á annað og auðvelt að færa rök fyrir því að viðkomandi hafi logið blákalt í dómssal.

Á listanum eru tveir einstaklingar sem hafa unnið til samræmis við starfslýsingu sína og þá helst við að róa niður fólk sem er búið að reka á vergang.

Þarna er tónlistarmaður sem ég hef aldrei heyrt um, manneskja sem finnur týnd gæludýr og önnur sem finnur týnd hjól.

Ég veit ekki. Þetta er ansi þunnt, satt að segja. Mætti ég þá frekar biðja um að Haraldur og ramparnir komist aftur á blað. Nú eða að þeir tveir á listanum sem hafa staðið í kokinu á yfirvöldum fái einfaldlega sérstök verðlaun. 

En eins og ég segi, þetta er allt gott og blessað og frekar saklaust í eðli sínu og vonandi hefur fólk gaman að.


Í fréttum: Ekkert gos

Nú er það helst í fréttum á Íslandi að ekkert eldgos er lengur í gangi. Það getur að vísu breyst, en gæti haldist óbreytt.

Þetta finnst yfirvöldum vera ástæða til að banna fólki að snúa heim til sín, og banna því að leggja við bílastæði Bláa lónsins og labba frekar stuttan spöl að kólnandi hrauni. 

Yfirvöld loka líka vegum í nágrenni hins kólnandi hrauns.

Ákveðin tilhneiging hefur farið vaxandi í tengslum við ferðamannagosin undanfarin ár á Reykjanesi, samhliða því að enginn hefur meiðst vegna hrauns en þeim mun fleiri vegna langra og lélegra gönguleiða sem fólki er gert að nota. Sú tilhneiging er að treysta fólki sífellt minna. Um leið er áhætta þeirra sem vilja sjá gos eða kólnandi hraun aukin. Undanfarið hefur svo bæst við að gera fólk heimilislaust með stuttum fyrirvara en til lengri tíma.

Hér er ekki hægt að segja að menn séu að styðjast við vísindin því vísindamenn eru hreint ekki sammála. 

Hér er miklu fremur verið að innleiða yfirgengileg varfærnisjónarmið sem virka auðvitað öfugt. Þegar öllu er lokað og fólk skilur ekki af hverju þá reyna sumir að svindla og koma sér kannski í hættu þannig. Í stað vaktaðra göngustíga og útsýnissvæða er einfaldlega reist girðing. 

Þetta fer hreinlega að minna á veirutímana með límmiðunum á gólfinu til að sýna í hvaða átt á að labba, auk samkomubannsins auðvitað. Tímar þar sem var bannað að fara í kirkju, í klippingu eða í ræktina en í fínu lagi að troðast í áfengisverslun. Tímar þar sem var grímuskylda í flugvélum nema þegar matar og drykkjar var neytt.

Handahófskennt, tilgangslaust og íþyngjandi.

Það er sem sagt helst í fréttum að það er ekkert gos, fullt af lokunum og fólk á vergangi. Manngerðar hamfarir en ekki náttúrulegar.


mbl.is Of snemmt að lýsa yfir goslokum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir þessir upplýsingafulltrúar

Það blasir við að háskólar framleiða mikið af fólki sem ætlast til þess að geta fengið þægilega innivinnu að lokinni útskrift. Það blasir líka við að þetta er ekki raunin fyrir marga. Hvað er til ráða? Að hætta að hvetja fólk til að fara í háskóla? Að bæta aðeins við námið svo í því felist einhver verðmætaskapandi kunnátta?

Nei, auðvitað ekki.

Til ráða er að búa til fullt af störfum á vegum hins opinbera sem geta tekið við öllu þessu atvinnulausa, háskólamenntaða fólki.

Þetta er a.m.k. ein möguleg leið til að útskýra af hverju nánast hver einasta skrifstofa innan hins opinbera virðist þurfa á upplýsingafulltrúa að halda. Um leið er slíkt starf nokkuð sem þarfnast lítils rökstuðnings: Við erum með upplýsingar sem þarf að miðla, ýmist til umheimsins, eða innandyra, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða viltu að slíkt sé bara eitthvað aukastarf fyrir fólk sem ætti að vera sinna öðru?

Algjört getuleysi hins opinbera til að byggja og reka innviði og grunnþjónustu gerir röksemdafærsluna enn auðveldari: Við erum að fá margar fyrirspurning sem þarf að svara með upplýsingum, og vantar að sjálfsögðu upplýsingafulltrúa! Eða telur þú kannski að við eigum frekar að sinna hlutverki okkar svo allar þessar fyrirspurnir hverfi? Þá skilur þú ekki opinberan rekstur!

Í hvert skipti sem ég sé minnst á ráðningu á upplýsingafulltrúa innan hins opinbera þá sé ég tvennt krystallast á sama tíma:

  • Báknið er að klúðra málum og þarf einhvern til að fleygja undir rútuna
  • Báknið er að leita leiða til að stækka sig svo það fari nú ekki að missa af frekari fjárframlögum

Mér finnst nú líklegt að flestir hafi séð í gegnum þetta leikrit hins opinbera. En úr því svona er komið fyrir bákninu er kannski við hæfi að biðja það um fleiri upplýsingar. Nóg er af teppum til að kíkja undir og finna þar skít upplýsingaóreiðu. Geta upplýsingafulltrúarnir hjálpað okkur?


mbl.is Orkustofnun fær ráðgjöf við samskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti COP28 fjárfestir áfram í jarðefnaeldsneyti

Fyrirsögnin er er fengin frá frétt RÚV og vakti athygli mína. Ekki af því það kemur mér á nokkurn hátt á óvart að Arabarnir ætli sér að halda sínu striki og draga olíu og gas úr jörðu sem rennur svo út eins og heitar lummur til allra heimshorna, þar á meðal Evrópu. Ekki af því mér finnist skrýtið að forseti COP28, sem um leið er forstjóri olíufélags, tilheyri kjaftaklúbbi sem tali um eitt á meðan raunveruleikinn þýði eitthvað annað. Ekki af því ég sjái eitthvað óvænt í mótsögn í orðum og gjörðum.

Nei, fyrirsögnin vakti athygli mína af því hún er sett fram í hneykslunartón sem um leið bendir til veruleikafirringar blaðamanns og fjölmiðils.

Sjálf fréttin styður slíka túlkun:

Sultan al Jaber, stjórnandi ríkisolíufélags Sameinuðu arabísku furstadæmanna, ætlar að halda áfram að fjárfesta í olíu- og gasframleiðslu. Örfáir dagar eru síðan hann var forseti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28, þar sem hann fagnaði samningi um samdrátt í framleiðslu jarðefnaeldsneytis. ... 

Hann segir fyrirtæki sitt ætla að halda áfram að vera „ábyrgur og áreiðanlegur birgðasali lág-kolefnis orku,“ og heimurinn þurfi á slíkri orku að halda fyrir lægsta mögulega verð. Hann fullyrðir að kolvatnsefni ríkisolíufélagsins gefi frá sér minna kolefni þar sem það sé sótt á skilvirkari hátt og lekinn út frá því minni en annars staðar.

Það sem blaðamaður telur vera mótsögn forstjórans er í raun viðskiptavit. Hann sér að Evrópumenn og Bandaríkjamenn eru búnir að lofa því að opna ekki fleiri olíu- og gaslindir. Hvað þýðir það? Jú, að hans framleiðsla verður í aukinni eftirspurn. Hann veit alveg að olía og gas verður uppistaðan í orkuöflun mannskyns í einhverja áratugi í viðbót. Ef þessi hráefni fá að vera áfram í jörðinni í Evrópu þá þurfa þau að koma upp úr henni hjá honum.

Kannski RÚV hefði átt að orða fyrirsögnina öðruvísi en halda að öðru leyti texta fréttarinnar óbreyttum. Ein heppileg fyrirsögn gæti verið:

Við létum plata okkur! Núna þurfum við að fara með betlistafinn til Arabanna

Eða:

Vesturlönd skrifa enn og aftur undir lífskjaraskerðingu til styrktar arabískum prinsum

Nú fer reyndar að styttast í að Vesturlönd þurfi að snúa af þessari braut. Þetta tekur tíma. Nýir stjórnmálamenn þurfa að taka við af þeim sem hafa selt sálina til kolefniskirkjunnar. Forstjóraskipti þurfa að eiga sér stað hjá fyrirtæjum sem hafa eytt svimandi fjárhæðum í gagnlausar kolefnisaðgerðir. Almenningur má samt alveg fara að vakna og koma einhverju af stað: Hætta að borga fyrir svokallaða kolefnisjöfnun, byrja að kaupa plaströr á svarta markaðinum og mótmæla stighækkandi kostnaði við sorphirðu, til að byrja með.

Nema þér þyki svona vænt um arabísku prinsana. Þú um það.


Kennitöluflakk yfirvalda

Menntamál á Íslandi eru í molum, bæði þau á könnu ríkis og sveitarfélaga. Grunnskólanemendur hrapa í námskönnunum (á meðan einkunnir standa í stað eða hækka). Framhaldsskólar kvarta yfir ólæsum nemendum úr grunnskóla. Háskólar kvarta yfir illa undirbúnum nemendum úr framhaldsskóla. Háskólanám er hætt að skila sér í hærri launum enda eru margar námsleiðir frekar ómerkilegur pappír og ávísun á atvinnuleysi. 

Er eitthvað eftir sem er í lagi?

Ríkið ætlar að bregðast við þessu ástandi með kennitöluflakki. Í stað einnar stofnunnar kemur önnur. Trúir því einhver að þetta breyti einhverju? Menntaskólastofnun er hvað frægust fyrir að gefa út klámfengið efni fyrir ung börn. Á það að breytast? Auðvitað ekki. 

Vellíðan í skólum er talin mikilvægari en námið, og ætti þó bæði að geta hangið ágætlega saman. Börnum er kennt að líffræðin sé bara hugarburður feðraveldisins og að þau séu að tortíma veröldinni með tilvist sinni. Þeim er plantað fyrir framan skjá til að gleypa þar einhver forrit á meðan kennarinn getur slappað af með kaffibollann sinn. 

Kennitöluflakk yfirvalda mun engu breyta en mögulega veita svolítinn gálgafrest. Nú er hægt að bera því við í nokkur ár að ný stofnun sé ennþá að innleiða ýmsar góðar breytingar en það taki auðvitað tíma og hafi reynst flóknara en til stóð. Á meðan bíðum við þolinmóð eftir næstu Pisa-könnun, gefið auðvitað að niðurstöður hennar fáist birtar.

Ef ég væri foreldri á Íslandi myndi ég íhuga uppreisn gegn kerfinu og því að heimta að fá framlög til skóla beint í vasann og leita annarra leiða.


mbl.is Önnur nálgun hjá nýrri Menntamálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föðurleysið

Um daginn datt ég inn á alveg magnaða tölfræði um mögulegar afleiðingar þess fyrir börn að vera án föður eða föðurímyndar í lífi sínu. Svimandi hátt hlutfall allskyns glæpamanna eiga það sameiginlegt að hafa ekki haft föður í lífi sínu. 

Ég leyfi mér því að hafa miklar áhyggjur af nokkrum börnum sem eru falin frá föður sínum eftir að hafa verið heilaþvegin svo mánuðum skiptir til að vilja ekkert með hann hafa:

Drengirnir séu í umsjá vina og vandamanna ... og að ekki sé hægt að segja að þeir séu í felum – þeim líði vel.

Og þetta bara má, afleiðingalaust. Móðirin í grjótinu fyrir ítrekuð lögbrot og börnin á vergangi, haldið með andlegum og líkamlegum ráðum frá föður sem vill fá þau, og á rétt á því lögum samkvæmt, enda eini forráðamaður þeirra eftir að hafa prófað sameiginlega umgengni og uppskorið ekkert nema tálmun.

Hvað er langtímaplanið hérna? Jú, auðvitað að gera þessi börn föðurlaus. Í staðinn tekur við kærasti mömmunnar sem þekkir þau lítið sem ekkert. 

Nú er að vísu ekkert óalgengt að börn á Íslandi séu gerð föðurlaus. Oft er þetta gert með því að gera þá gjaldþrota og hrekja þá í sjálfsvíg þegar þeir sjá ekki fram á neinar leiðir til að taka við börnunum og sjá um þau, enda búið að hreinsa launin af þeim áður en þau svo mikið sem enda á bankabókinni. Önnur aðferð er að beita tálmun og ræða einstæðar mæður sín á milli um að slíkt sé afleiðingalaust. Foreldrafirringin - það að gera börn afhuga föður sínum með stanslausum heilaþvotti - er líka gott ráð. 

Kannski er hérna komin rótin af allskyns öðrum vandamálum barna á Íslandi og sérstaklega drengja: Versnandi námsárangur, brottfall ungmenna úr námi og ýmislegt fleira.

Kannski er hratt lækkandi fæðingartíðni á Íslandi ekki sprautunum að kenna heldur því að karlmenn þora hreinlega ekki að eignast börn með íslenskum konum lengur. Slíkt gæti verið ávísun á líf á hrakhólum með tómt veskið.

En sem sagt, einhvers staðar á Íslandi eru börn geymd í einhverju herbergi eða kjallara eða sveitabæ eða sumarbústað af því allt er betra en að þau séu með föður sínum.

Og lögreglan gerir ekkert.

Viðbjóður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband