Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Aðeins um að vinna á alvöruvinnustað

Ríkisstjórnarmeirihlutinn er fallinn og framundan eru líklega kosningar. Það er eins og það er. Þingmenn, ráðherrar og aðrir hafa keppst við að tjá sig með mótsagnarkenndum hætti við öll tækifæri og blaðamenn útvarpa gjarnan hverju sem er til að fá sem flestar fyrirsagnir. Flest er fyrirsjáanlegt og til merkis um að enginn vilji taka ábyrgð á neinu frekar en skólabarn sem brýtur rúðu í steinakasti en þrætir svo fyrir það. 

Ein ummæli vöktu samt athygli mína.

Óttarr Proppé lét hafa eftirfarandi eftir sér:

„Það er einhver strúktur í þessum flokki sem byggir á því að leiðtoginn ræður öllu og allt stjórnast af hans hagsmunum, svo dansa allir eftir því. Það er ekki andi nútímans að það sé bara „pabbi“ sem ráði öllu.“

Ég spyr mig núna: Hefur Óttarr aldrei unnið á alvöruvinnustað? 

Það er ekki svo að þegar menn vinna saman þá ráði einhver einn öllu. Hins vegar eru flest fyrirtæki rekin þannig að þar er einn forstjóri og hann leggur línurnar. Hann sendir skilaboð til yfirmanna sem senda þau áfram til undirmanna. Hann ákveður hvar þarf að forgangsraða og hvað má bíða. Hann stillir saman mannskapinn þannig að tími hans og orka nýtist sem best til að ná sameiginlegum markmiðum skipulagsheildarinnar. 

Um leið hlustar þessi leiðtogi á sína undirmenn. Hann tekur við rökum með og á móti tilteknum ákvörðunum. Stundum verður það til þess að hann skiptir um skoðun og forgangsraðar upp á nýtt. Stundum ekki.

Yfirmaðurinn getur ákveðið að halda opna fundi þar sem allir eru með eða smærri fundi þar sem hlutir eru ræddir dýpra. Stundum velur hann blöndu af báðu.

Yfirmaðurinn á að vera í stöðu til að sjá ef eitthvað er að fara úrskeiðis en um leið ekki að vera með puttana í öllum smáatriðum. Ef einhver ætlar að fara sér að voða (t.d. láta ljósmynda sig í auglýsingaskyni í sölum Alþingis) er yfirmaðurinn ekki alltaf í stöðu til að koma í veg fyrir það. Með því að horfa vítt og breitt yfir völlinn og láta aðra um smáatriðin á hann að fá yfirsýn sem nýtist öllum til lengri tíma. 

En hvað kemur þetta forsætisráðherra við og fyrrum samstarfsráðherra hans?

Jú, ef menn ætla að vinna saman svo vel fari þarf að skipta verkum. Menn fá sín ábyrgðarsvið sem þeir sinna í samræmi við markmið sem skipulagsheildin hefur sett sér.

Sumir, sem hafa e.t.v. litla reynslu af því að vinna í skipulagsheildum, kalla þetta kannski einræði eða föðurveldi eða sjúkan kúltúr. Aðrir, sem vita betur, skilja kosti þeirrar verkaskiptingar sem flestir (en ekki allir) vinnustaðir tileinka sér. 

Ég veit ekki hvernig Bjarni Benediktsson er sem yfirmaður. Ég veit heldur ekki hvernig Óttarr er sem undirmaður. Kannski þurfa báðir að hverfa af þingi og fá sér alvöruvinnu í einhvern tíma til að læra að vinna með öðrum, en kannski bara annar þeirra. 

Vonum að næsta ríkisstjórn starfi betur saman. Ísland þarf á því að halda. 


Kosningar, og hvað svo?

Ríkisstjórnin, sem hefur aldrei verið sérstaklega vinsæl, riðar nú til falls. Það tók margar vikur að púsla þessari ríkisstjórn saman. Það er því sennilega hreinlegast að kjósa aftur og fá skýrari línur. 

Viðreisn og Björt framtíð eru orðnir örflokkar. Það er þeim sjálfum að kenna. Viðreisn verður sennilega þekktust fyrir jafnlaunavottunina sem enginn brann sérstaklega fyrir en þurfti að knýja á engu að síður. Björt framtíð er sennilega þekktust fyrir umhverfisráðherrann sinn sem fer í sögubækurnar fyrir að nota sal Alþingis í auglýsingaskyni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið sínu nokkurn veginn og jafnvel bætt við sig fylgi en má líka líta í eigin barm og hugleiða af hverju hann er ekki með vel yfir 30% fylgi.

Djúpt til vinstri er fátt um fína drætti. Vinstri-grænir eru þar langstærstir. Í kringum þá sveimar svo hópur smáflokka. Hinn svokallaði Flokkur fólksins mun aldrei fá nein atkvæði þegar á hólminn er komið - þar er bara um enn eitt vinstriframboðið að ræða. Píratar eru athvarf heimilislausra í stjórnmálum og verða það áfram en minnka sennilega enn frekar. Framsóknarflokkurinn er frosinn fastur og verður það áfram.

Munu kosningar skýra línurnar og leiða til þess að sterk meirihlutastjórn getur myndast? Það er ekkert víst. Best væri sennilega að lýsa yfir ríkisstjórnarfríi. Kannski er hægt að slá met Belgíumanna sem voru án ríkisstjórnar í nálægt því 600 daga

Hvernig eiga hægrimenn eða frjálshyggjumenn að bera sig að núna? Þeir eru heimilislausir í stjórnmálum en vilja ekki vera í Pírötum undir stjórn kommúnistans Smára McCarthy. Sumir þeirra eru í Sjálfstæðisflokknum þar sem er litið á þá sem óþæga krakka (ef þingmennirnir Óli Björn Kárason og Sigríður Andersen eru undanskilin). 

Kannski er raunhæfasta áætlun frjálshyggjumanna sú að hvetja Sjálfstæðisflokkinn til dáða, en ekki án skilyrða. Þar á bæ þurfa menn alvarlega að fara hugsa sinn gang og byrja að hugleiða að berjast fyrir minna ríkisvaldi, lægri sköttum, afnámi viðskiptahindrana og smærra regluverki. Hænuskrefin sem þessi ríkisstjórn hefur tekið eru nánast ósýnileg. Launafólk þarf að fá umtalsverðar skattalækkanir. Enga aðra skatta má hækka á móti. Ríkisútgjöld þarf bara að minnka. Ríkisfyrirtæki þarf að selja. Ríkisstofnanir þarf að leggja niður. Einkavæðing þarf að eiga sér stað sem víðast. Opinberum starfsmönnum þarf að fækka og koma lífeyrismálum þeirra á hinn frjálsa markað. Daður við femínisma og umhverfistrúboð þarf að stöðva. 

Kannski muna einhverjir eftir því þegar Davíð Oddsson bauð sig fram til borgarstjóra Reykjavíkur og lofaði því meðal annars að fækka borgarfulltrúum. Fækka borgarfulltrúum! Já, svona þorði hann að tala. Svona þurfa fleiri að byrja tala. 

Íslendingar eru flestir í anda sínum sjálfstæðir einstaklingar sem vilja fá að ráða sem mestu um líf sitt (og launatékka) og láta gott af sér leiða þegar einhver þarf á aðstoð að halda, án aðkomu hins opinbera. Í dag er enginn stjórnmálaflokkur sem höfðar til þessara eiginleika kjósenda. Enginn! 


mbl.is Boðað verði til kosninga hið fyrsta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar vinstrimaður sér afleiðingar skattahækkana ...

Þegar vinstrimaður getur í yfirveguðu og skýru máli bent á slæmar afleiðingar skattahækkunar er þá ekki alveg á hreinu að sú skattahækkun er alveg óvenjulega eitruð?

Yfirleitt sjá vinstrimenn ekkert athugavert við að blóðmjólka skattgreiðendur en á þessu finnast undantekningar.

Meira að segja Steingrímur J. Sigfússon gerðist á sínum tíma svo frægur að sjá að himinháir skattar á vinnu iðnaðarmanna hafa slæmar afleiðingar fyrir þá. 

Núna bendir þingmaður Vinstri-grænna á að hærri skattar á eldsneyti og bifreiðar muni bitna á þeim sem nota mikið eldsneyti og keyra mikið. Ekki þarf doktorspróf í hagfræði til að átta sig á þessu en það að vinstrimaður hafi áttað sig á þessu ætti að vekja alla svokallaða hægri- og miðjumenn til umhugsunar.

Hér er sem sagt vinstrimaður að gagnrýna svokallaða hægristjórn fyrir skattahækkanir.

Þarf frekari staðfestingu á því að stjórnin sem nú situr er alls engin hægristjórn?

Ætli stjórnin sér að halda velli þarf hún að hugsa sinn gang, alvarlega. Mín meðmæli til hennar eru:

  • Lækka alla skatta verulega svo fólk sjái umtalsverða búbót í þeim skattalækkunum. Um leið má fækka undanþágum og einfalda skattkerfið og í leiðinni velferðarkerfið svo menn hætti að verða varir við áhrif jaðarskatta. 
  • Koma ríkisvaldinu úr sem mestum rekstri svo það þurfi ekki að leika forstjóra lengur (með slæmum árangri). Ríkið á ekki að þurfa stunda neinn rekstur. Sumt þarf kannski að niðurgreiða af pólitískum ástæðum en það er allt annar hlutur. 
  • Hleypa bændum á hinn frjálsa markað, þar sem menn þurfa að standa á eigin fótum en hafa um leið miklu meiri áhrif á eigin örlög.
  • Fella niður það sem eftir er af tollum og öðrum höftum á inn- og útflutning.
  • Koma brennivíni í búðir (hér mætti hafa danskt eða þýskt fyrirkomulag áfengissölu í huga).
  • Hætta þessu máttlausa tali um loftslagsbreytingar og hvernig almenningur þarf að skerða lífskjör sín í nafni þeirra.
  • Hætta daðri við femínisma og annan póstmódernisma sem þrífst á því að gera úlfalda úr mýflugu og tortryggja alla sem sinna verðmætaskapandi vinnu.
  • Byrja að svara vinstrimönnunum, bæði á þingi og í fjölmiðlum. Það er alveg leyfilegt að hafa hugsjónir sem snúast um trú á frjálst framtak og frelsi einstaklinga og bera stækt vantraust til opinbers ríkiseinokunarreksturs.
  • Aðskilja ríkisvald og efnahag: Vinna að því að koma á gjaldmiðlafrelsi á Íslandi, losa sjávarútveginn undan opinberum afskiptum og fækka í reglugerðarsafninu. 

Kjósendur byrja þá kannski að sjá mun á "hægri" og "vinstri" og hafa þá raunverulega valkosti við næstu kosningar. 


mbl.is Bitnar einkum á landsbyggðarfólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimatilbúið vandamál: Ríkisafskipti

Tekur einhver eftir því að við heyrum sjaldan eða aldrei um óseldar birgðir af kjúkling og svínakjöti?

Það er af því að ríkisvaldið leikur mjög litlu hlutverki í framleiðslu, dreifingu og sölu á slíku kjöti. 

Kindakjötsfjallið er krónískt vandamál sem má rekja til ríkisafskipta. Bændur eru hlekkjaðir við kerfi sem sinnir þeim seint og illa. 

Það skrýtna er að bændur virðast kjósa þetta fyrirkomulag. Kannski óttast þeir markaðslögmálin. Kannski vita þeir ekki betur. Kannski er stöðugleiki og fátækt betri í þeirra augum en svigrúm, frelsi og hætta á tapi.

Framleiðsla hefur aldrei verið sérsvið ríkisvaldsins. Eina undantekningin er kannski framleiðsla á pappír, en pappír er ekki hægt að borða eða klæðast.

Ef íslenska lambakjötið er jafngott og af er látið (og það finnst mér það vera) er auðvelt að ímynda sér að íslenskir bændur geti orðið ein ríkasta stétt landsins sem selur grimmt á heimsmarkaði. 

Kæra ríkisvald, hættu að flækjast fyrir.


mbl.is Minni kindakjötsbirgðir en í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV farið á stjá með betlistafinn

RÚV ber að leggja niður og allt sem RÚV gerir sem einhverjum stjórnmálamanni finnst eitthvað virði á að fara í opinbert útboð. 

Í iðandi varnarbaráttu reynir RÚV vitaskuld að gera meira úr mikilvægi sínu en tilefni er til. Nú skal herjað á skattgreiðendur til að fjármagna framleiðslu íslenskra þátta. Eftirspurn eftir þeim er jú svo mikil!

Skattgreiðendur þurfa greinilega að vonast til að íslenskir þættir hætti að seljast í útlöndum. Of mikil sala mun greinilega bitna á skattgreiðendum!

Lokum RÚV. 


mbl.is Þarf meira fé til sjónvarpsframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga allir að vera eins?

Jafnrétti er göfugt markmið og sjálfsagt að hafa. Stjórnarskráin bannar mismunun á grundvelli kynferðis, meðal annars. Allt í góðu með það.

Getur samt verið að þessi jafnréttisumræða snúist um það eitt að konur verði eins og karlar? Að það sé ekki nógu gott að vera kona? Að allir þurfi að verða karlmenn?

Því höfum eitt á hreinu: Konur og karlar eru frábrugðin að mörgu leyti frá náttúrunnar hendi.

Fyrir því eru ástæður sem skipta máli. Börn þarf til dæmis að fæða og ala upp. Það þarf að afla lífsviðurværisins. Stundum þarf að taka áhættu. Sumir sækja í titla, völd og peninga en aðrir í félagslíf, nærveru og kærleika. 

Karlar deyja fyrr. Þeir eru stressaðri. Þeir taka stærri áhættur og stundum skilar sú áhættutaka sér ekki. Þeir eru oft dæmdir út frá stöðu sinni, fjárhag og völdum. 

Er þetta veruleikinn sem á að þröngva upp á konur? Af hverju?

Lífið á að geta snúist um miklu meira en að sitja í stjórn fyrirtækis og vinna langa vinnudaga. Konur eiga það ekki skilið að vera dæmdar út frá þeirri almennu tilhneigingu sinni að velja jafnvægi á milli einkalífs og vinnu. Börn eiga það ekki skilið að alast upp á opinberum stofnunum meira og minna allt sitt líf því báðir foreldrar eru að keppast um stöðu, laun og völd á vinnustaðnum. 

Auðvitað eru til margar konur sem vilja frekar vinna en versla, og karlmenn sem vilja frekar elda en vinna yfirvinnu. 

Menn eru samt að gleyma því að konur og karlar eru, að jafnaði, frábrugðin að mörgu leyti. Og það er ósanngjarnt að ætlast til þess að jafnrétti snúist um það eitt að gera valkosti karlmannanna að því eina sem stuðlar að jafnrétti fyrir konur.


mbl.is Vandasamt að ná fram jafnrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagt við mig: "Þú sérð fyrir þér sjálfur"

Þegar ég flutti til Danmerkur á sínum tíma var ég án atvinnu, talaði ekki tungumálið og gat ekki gengið að neinu húsnæði vísu.

Ég var vissulega með háskólagráðu og íslenskt vegabréf en það voru ónothæfir pappírar á þeim tíma.

Skilaboðin frá hinu opinbera voru skýr: Þú sérð fyrir þér sjálfur eða snýrð aftur til Íslands.

Uppbyggilegri skilaboð er varla hægt að hugsa sér. 

Innan nokkurra daga var ég kominn með íhlaupavinnu við hreingerningar. Nokkrum vikum seinna gerðist ég bréfberi og hjólaði mig í gegnum veturinn til að bera út bréf, pakka og auglýsingar.

Tungumálið kom smátt og smátt í dönsku vinnustaðarumhverfi. Ég fékk einhver atvinnuviðtöl sem tengdust minni menntun og loksins landaði ég starfi - starf sem ég hef enn þann dag í dag, rúmlega 12 árum seinna. Þá hafði ég verið búsettur í Danmörku í um 8-9 mánuði. 

Hefði ég fengið að sitja á rassgatinu á opinberri framfærslu hefði sá tími líklega bara farið í að sitja á rassgatinu. Ég hefði ekki þurft að byrja "einhvers staðar" og koma mér inn í danskt umhverfi. Því ferli hefði ég geta frestað. 

Þessi vetur þar sem ég notaði háskólagráðuna mína til að þurrka upp skít og drullu við hreingerningar og halda rassinum heitum á hjólum danska póstsins nýttist mér til að læra tungumálið, fóta mig í kerfinu, læra á húsnæðisfrumskóg Kaupmannahafnar og fínpússa atvinnuumsóknir mínar. Fjárhagurinn var þröngur en eyðslan líka í lágmarki. Þetta var að mörgu leyti lærdómsríkasta tímabil ævi minnar. 

Aðstæður mínar voru ekki sambærilegar við aðstæður flóttamanna frá stríðsátökum eða pólitískra flóttamanna á flótta frá dauðahótunum. Samanburðurinn er hins vegar gildur fyrir alla sem flytja (en ekki flýja) frá einu ríki til annars í leit að tækifærum. 

Það besta sem íslenskt samfélag getur gert fyrir þá sem vilja byggja upp líf á Íslandi, tímabundið eða til langframa, er að segja fólki að standa á eigin fótum, læra að tala við innfædda og leggja á sig það sem þarf til. 


mbl.is Framfærslan talin aðdráttarafl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, Benedikt!

Svo virðist sem fjármálaráðherra hafi misst eitthvað út úr sér sem opinberir starfsmenn telja vera vísbendingu um að þeir fái bráðum launahækkanir.

Fjármálaráðherra gleymir því kannski að á ríkinu hvíla nú þegar þungar byrgðar í formi lífeyrisskuldbindinga.

Fjármálaráðherra gleymir því kannski líka að skattar eru í hæstu hæðum og að allar áætlanir ríkissjóðs byggjast á því að lengsta góðæri í sögu Íslands verði miklu lengra. Það má ekkert út af bregða.

Fjármálaráðherra gleymist því svo kannski líka að fordæmið sem ríkisvaldið sýndi við seinustu samningaviðræður við opinbera starfsmenn sendi reiðibylgju í gegnum allt samfélagið. Samkeppnishæfni Íslands var hreinlega lögð að veði til að tryggja pólitískar vinsældir.

Núna þarf fjármálaráðherra að hugsa sinn gang.

Í stað þess að moka enn meira fé í vasa opinberra starfsmanna með sín gulltryggðu lífeyrisréttindi þarf að fækka opinberum starfsmönnum. Ríkið getur alveg borgað fyrir menntun án þess að hafa kennara á launaskrá sinni. Ríkið getur alveg borgað fyrir gifs á brotinn handlegg án þess að hafa lækna og hjúkrunarfræðinga á launaskrá sinni. Einkaaðilar eiga að sinna öllu sem þarf að sinna, fyrir utan að kjafta allan daginn í sölum Alþingis. Helst ætti ríkið svo ekki að skipta sér af neinu er viðkemur þjónustu, framleiðslu eða neyslu almennt. Ríkið á ekki að framleiða kjöt, menntun, spurningaþætti, listir og heilbrigðisþjónustu. Sé pólitísk samstaða um að ríkið gerist milliliður um að borga eitthvað með fé skattgreiðenda þá verður það að vera svo, en ríkið á ekki að standa í starfsmannamálum, rekstri og kjaraviðræðum við þrýstihópa. 

Svo nei, Benedikt! Ekki láta háværan þrýstihóp misskilja þig! Skýrðu mál þitt. Dragðu í land. Sýndu ábyrgð. Það er lágmarkskrafa á mann í þinni stöðu. 


mbl.is Í orðunum felist fyr­ir­heit um kjara­bæt­ur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítill plástur á blæðandi svöðusár

Ríkisvaldið hefur haft mikil afskipti af sauðfjárrækt og raunar flestum landbúnaði undanfarna áratugi. Hver er niðurstaðan? Fátækir bændur, bundnir í vef verðlagsstýringar, takmarkana og regluverks. 

Bændur þarf að frelsa algjörlega úr tælandi klóm ríkisvaldins. Þeir þurfa að gerast sjálfstæðir atvinnurekendur sem starfa á forsendum markaðslögmálanna.

Ekkert slíkt er á döfinni. Þess í stað á að "fínstilla" kerfið með einn einu útspili yfirvalda. 

Jú, vissulega þýða markaðslögmálin að sumir fara á hausinn. En er það ekki betra en að heil atvinnugrein sé sífellt við sultarmörkin? 

Sennilega líður stjórnmálamönnum vel í svona vandræðum. Þeir fá að ríða inn á hvítum hesti og bjarga deginum með fé annarra. Þeir fá fjölmiðlafundi. Þeim líður eins og þeir skipti miklu máli. 

Veruleikafirringin er mikil og bændur verða fórnarlömbin í framtíð eins og í fortíð.


mbl.is Þeir sem hætta strax fá greitt í fimm ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og svo kvarta háskólamenntaðir yfir of miklum jöfnuði!

Bandalag háskólamanna, sem eru einskonar hagsmunasamtök háskólamenntaðs fólks, hefur kvartað mikið undanfarin ár yfir of miklum launajöfnuði á Íslandi. Samtökin orða kvörtun sína á þann hátt að "ávinningur af háskólanámi" sé ekki nægjanlegur. Þetta lið sem fer aldrei í háskóla er næstum því með jafnhá laun og háskólamenntaðir!

BHM og kvartið yfir jöfnuði

Já, það er ekki auðvelt að vera háskólamenntaður á Íslandi í dag. Háskólamenntað fólk hefur það þó alveg ágætt. Það vinnur stutta vinnudaga og er í þægilegri innivinnu. Hið opinbera ræður þetta fólk oft - svo gott sem til lífstíðar - og tryggir því öruggan lífeyri á kostnað skattgreiðenda. Oft fær háskólamenntað fólk að eyða deginum í eitthvað algjörlega gagnslaust en um leið líða eins og það sé í farabroddi hugsunar í samfélaginu. Háskólafólkið er víðsýnt, fordómalaust, kynlaust og faglegt. Af hverju eru þessir eiginleikar ekki verðlaunaðir? 

En höfum eitt á hreinu: Ekki er vit í öllu háskólanámi. Sumt af því er bara kjaftagangur - lestur á einhverjum bókum og umræða um þær sem endar á skilaverkefnum og lokaritgerðum - þekking sem engin eftirspurn er eftir í atvinnulífinu og þarf því að koma fyrir í tilgangslausum störfum innan hins opinbera. 

Af hverju eru vinstrimenn ekki brjálaðir yfir þessu kvarti BHM yfir jöfnuði á Íslandi?

Af hverju eru siðferðispostular ekki að benda á að laun og peningar eru ekki það eina sem skiptir máli í starfi? 

Af hverju eru talsmenn atvinnulífsins ekki að benda á að þótt sum menntun háskólamenntaðra sé gagnslaus pappír þá er mörg önnur það alls ekki og borgar mjög vel? 

Af hverju eru menn innan hagsmunasamtaka þar sem skortur er á fólki ekki að benda á að sum menntun er beinlínis ávísun á atvinnuleysi eða starfsframa í einhverju allt öðru en menntunin segir til um? (Til innblásturs er hægt að skoða þetta yfirlit frá Danmörku.)

Umræðan er á villigötum. Alltof mikil áhersla er lögð á háskólanám og alltof lítil á ýmislegt annað, svo sem iðnnám eða tækninám sem opnar mörg tækifæri. BHM má aldrei fá vilja sínum framgengt. 


mbl.is Beyoncé í Kaupmannahafnarháskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband