Allir eru glæpamenn nema þeir sem standast rannsókn

Svolítil tilvitnun sem Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í Góu, lét eftir sér í stuttu viðtali fyrir mörgum árum síðan situr oft í mér. Hann hafði þá nýlega fengið alla pappírana samþykkta hjá hinu opinbera eftirliti og gat byrjað að steikja kjúkling fyrir viðskiptavini á nýjum stað, en var (og er) með marga aðra slíka staði í fullum rekstri, og vissi væntanlega hvað hann var að fara út í.

Orð hans, í viðtali:

„Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.“

Ég velti því fyrir mér hvort þessi róttæka breyting í nálgun hins opinbera hafi nokkru skilað. En eitt er víst: Hún hefur drepið mörg fyrirtæki í fæðingu, eða dregið verulega úr þeim þróttinn, enda hafa ekki allir efni á því að bíða með stórar fjárfestingar svo mánuðum skiptir í von um að hið opinbera mæti og sinni pappírsvinnunni. Tvö nýleg dæmi má kynna sér hér og hér. Í báðum tilvikum draga yfirvöld lappirnar án afleiðinga á kostnað óbreyttra borgara.

Væri ekki nær að snúa aftur til fyrri tíma og heimila einstaklingum og fyrirtækjum að hefja starfsemi og þurfa svo að sæta úttekt? Sú úttekt gæti fylgt alveg nákvæmlega sömu lögum og gilda í dag, en í stað þess að setja úttektina fyrir framan stjórnarskrárvarinn rétt til að stunda atvinnu mætti setja hana - réttilega - fyrir aftan slíkan rétt. Framfylgni laga yrði nákvæmlega sú sama og í dag, og enginn munur á því hvernig kjúklingurinn er steiktur. Ekki þyrfti að bíða eftir því að tvö eftirlit verði sammála um hvar eigi að setja ræsi, eða hvort það megi leyfa handþvott á skurðstofu (bls. 12):

„Þannig var eitt skiptið gerð athugasemd við það að ekki væri vaskur inni á skurðstofunni, en það er einmitt óheimilt vegna hættu á að bakteríur geti þrifist í niðurfallinu.“

Okkur er sagt að allir séu saklausir nema sekt sé sönnuð. Ekki er það rétt, og sérstaklega ekki í þeim tilvikum þegar fólk vill opna fyrirtæki og bjóða neytendum, sjúklingum, fyrirtækjum og öðrum upp á nýjar nálganir. Við erum í dag glæpamenn nema sérstök rannsókn sýni fram á annað og opni á réttindi stjórnarskrár.

Þessu má auðvitað breyta, en þá þurfa kjósendur að velja aðra en hryggleysingja inn á löggjafarþingið og fylgja eftir með ýmsum aðferðum.

Sem gerist væntanlega ekki á meðan samfélag okkar hangir saman á málningunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Innfallnar tilvísanir - "Tvö nýleg dæmi má kynna sér hér og hér. Í báðum tilvikum draga yfirvöld lappirnar án afleiðinga á kostnað óbreyttra borgara." - eru fullkomin dæmi um hvernig vitringahjörð Marxismans (Intelligentsia) rústar heilbrigðum atvinnugreinum, á grundvelli flókinna texta með löngum orðum sem réttlæta tilgangslausar reglugerðir (og dulið valdarán), eða rangsnúning.

Guðjón E. Hreinberg, 24.9.2023 kl. 18:49

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Afsakið, innfallnar átti að vera innfelldar - það vantar "edit" hnappinn.

Guðjón E. Hreinberg, 24.9.2023 kl. 18:49

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðjón,

Þessi innflutta hugmyndafræði er að skaða íslenska frumkvöðla meira en lítið. Ég veit ekki einu sinni hvort marxismi sé nógu svæsinn titill fyrir þessa hugmyndafræði.

(Rétt að edit vantar hérna. Moggabloggið hefur ekki verið bætt tæknilega í áratug hið minnsta. En á móti kemur þá hefur það ritskoðað minna en margir, jafnvel á veirutímum.)

Geir Ágústsson, 24.9.2023 kl. 19:59

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Jú, hann er nógu svæsinn ef við rifjum upp hvað Dialectic er, og hversu gamalt það er, og hversu oft sú sálfræði hefur verið notuð til að rústa siðmenningu.

Ég er mjög hrifinn af þessu blogg kerfi og vona að þeir breyti því ekki neitt - agnúarnir venjast og víst er að verði því breytt mun þeim fjölga.

Bestu kveðjur.

Guðjón E. Hreinberg, 25.9.2023 kl. 01:56

5 Smámynd: Birgir Loftsson

Hvað varð um gulu myndina af þér Geir? Hún var mjðg fín, n.k. einkennismerki þitt :) Ég var smá stund að átta mig á nýju myndinni.

Birgir Loftsson, 25.9.2023 kl. 09:23

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Birgir, 

Góður punktur. Nú var einhver að nefna við mig að guli liturinn væri einhvers konar merkjasending sem ég kæri mig ekki um, en góðu einkennismerki á kannski ekki að fórna fyrir slíka bábilju!

Geir Ágústsson, 25.9.2023 kl. 09:42

7 Smámynd: Birgir Loftsson

Þetta er þitt lógó! Hahaha!

Birgir Loftsson, 25.9.2023 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband