Það er bannað að svíkja undan skatti en ...

Fjármálaráðherra mætir í ræðustól Alþingis til að minna þingmenn á að á Íslandi gilda lög um aflandsfélög sem tilgreina nákvæmlega hvað þarf að upplýsa um slík félög á Íslandi og hvernig skattheimtu á þeim er háttað.

Þetta er því miður nauðsynleg ábending því margir Íslendingar virðast halda að það sé bara með öllu bannað að eiga eitthvað utan Íslands. Svo er auðvitað ekki.

Íslensk fyrirtæki eiga fyrirtæki erlendis. Maður sem ákvað að loka ekki danska bankareikningi sínum eftir námið í Danmörku á erlendan gjaldeyri á aflandsreikningi. Þetta er allt fullkomlega í lagi og ef lögum er fylgt - löglegt - eins og gefur að skilja.

Menn undra sig á því af hverju Íslendingar hafi stofnað svo mörg aflandsfélög. En látum okkur sjá - á Íslandi gefur ríkisvaldið út gjaldmiðil og stendur sig ekkert sérstaklega vel í því verkefni frekar en önnur stjórnvöld sem gera hið sama. Pólitísk óvissa er mikil á Íslandi - á einu kjörtímabili má greinilega alveg búast við nálægt 200 skattahækkunum án þess að nokkur blikni. Viðskiptahöft geta fæðst á einni nóttu. Eignir rýrna í kaupmætti og að auki vegna skattheimtu.

Blasir ekki við að þeir sem ná að skrapa saman einhverjum verðmætum á Íslandi reyna að lágmarka a.m.k. að einhverju leyti skaðann af íslenskum stjórnvöldum? E.t.v. er ekki verið að flýja skattheimtu en verðbólgan flæmir ekki síður frá. Seðlabanki Íslands er beinlínis með það markmið að helminga kaupmátt krónunnar á um einnar kynslóðar fresti. Vinnandi manni er beinlínis lofað að kaupmáttur lífeyris hans verði orðinn helmingur af því sem rann inn í lífeyrissjóðinn.

Það eru margar leiðir til að vera mótsagnakenndur á Íslandi og skulu hér nokkrir möguleikar taldir upp.

Mótsögn felst í því að fordæma aflandsfélög og ...

- boða skattahækkanir

- mótmæla skattalækkunum

- verja flókið skattkerfi með öllum sínum jaðarsköttum

- verja skylduáskrift að lífeyrissjóðum

- verja ríkiseinokunarútgáfu peninga á Íslandi

- vilja kollsteypa stjórnkerfinu á einni nóttu

- atast í sífellu í þeim sem framleiða mikil verðmæti (löglega) og þéna vel á því

Það væri í mínum huga fréttnæmara ef Íslendingar hefðu komið sjaldan fyrir í Panamaskjölunum. Að þeir hafi marga fulltrúa þar finnst mér alveg skiljanlegt. Ég vildi óska að ég væri á þessum lista. Það hefði sennilega þýtt að mér hefði tekist að skrapa saman fleiru en skuldum á lífsleiðinni.  


mbl.is „Það er bannað að svíkja undan skatti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það er ekki eðlilegt að þeir sem þéna gegnum fyrirtæki og með ofurlaunum hafi forgjöf umfram þá sem rétt skrimta af sýnum launum eða ekki, samt skattlagðir upp í rjáfur.

Sigurður Haraldsson, 10.5.2016 kl. 19:45

2 Smámynd: Jón Óskarsson

Vel skrifað Geir.  Get tekið undir þennan lista sem þú setur upp varðandi mótsagnir. 

Jón Óskarsson, 10.5.2016 kl. 21:28

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Sigurður,

Ég hef fulla samúð með þeim sem þurfa að skrimta á sínum launum eftir að hafa þurft að sjá á eftir megninu af þeim í skatta. Kaupmáttur launa er stórkostlega skertur með skattheimtunni en að auki eru möguleikum allra til að þéna meira og leggja til hliðar skorður settar með reglum og hindrunum. 

Nú hef ég t.d. sjálfur reynt að auka tekjur mínar með ýmsum hætti en lendi þá bara á nýju skattþrepi eða töluverðum hindrunum.

Ríkisvaldið ætti að gaspra minna um að vilja öllum best og koma sér af veginum sem vegatálmi. 

Geir Ágústsson, 11.5.2016 kl. 03:53

4 identicon

Takk fyrir mjög góða grein, mætti kanski bæta við: verja skylduáskrift að fjölmiðli.

Jón Viðar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 07:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband