Úr umsögn dönsku hótelsamtakanna

Dönsku hótelsamtökin létu á sínum tíma eftirfarandi frá sér fara:

“A site like Airbnb allows Denmark to attract tourists who otherwise would not have come,” Christoffer Susé, the relationship manager at Horesta, told Computerworld.

“Airbnb is contributing to making the pie bigger for everyone in the tourism industry.”

Með öðrum orðum: Airbnb gerir það að verkum að fleiri koma til Danmerkur en ella og það stækkar kökuna og af því njóta allir góðs.

Að vísu sýnist mér hljóðið í samtökunum eitthvað hafa breyst eitthvað síðan árið 2015. Nú vilja þau skatta og reglur og hvaðeina. Einu sinni hittu þau samt naglann á höfuðið.

Ímyndum okkur t.d. 10 manna hóp. 7 úr hópnum finna hótelherbergi á Íslandi. 3 hafa ekki efni á því eða finna ekkert herbergi. Á allur hópurinn nú að hætta við ferðina, fara annað eða má hann dreifa sér á hótel og heimili? Hvort kemur sér betur fyrir hótelbransann á Íslandi?

Vissulega er skiljanlegt að þeir sem eru skattlagðir vilja að samkeppnisaðilar sínir séu það líka. Rétta leiðin er samt ekki sú að hrúga auknum sköttum á alla heldur lækka skatta svo þeir sem minnst borga borgi jafnmikið og þeir sem mest borga. Helst ekkert.

Vissulega er skiljanlegt að þeir sem þurfa að starfa í þéttum reglugerðafrumskógi vilji að reglurnar flækist líka fyrir samkeppninni. Er rétta lausnin þá að flækja alla í skóginum eða losa alla úr honum?

Nú fyrir utan að ég get ekki séð hvernig ríkisvaldið hefur leyfi eða heimild í stjórnarskrá til að segja fólki hvað það megi hafa gesti marga daga á ári - borgandi eða ekki. Má ríkisvaldið banna allt? Er allt bannað sem ekki er sérstaklega leyft?


mbl.is Óvissa ríkir um vsk. á heimagistingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Í fullkomnum heimi mundu 7 úr hópnum finna hótelherbergi á Íslandi og þeir 3 sem hafa ekki efni á því nota Airbnb. Í raunveruleikanum mundu 2 úr hópnum finna hótelherbergi á Íslandi, þeir 5 sem vilja spara og þeir 3 sem hafa ekki efni á hóteli fara í Airbnb. Þarna fjölgar ferðamönnum en tekjur lækka. Það er nefnilega misskilningur að fjöldinn ráði tekjunum. Við Íslendingar erum að vakna upp við það að kostnaður við ferðamenn vex í réttu hlutfalli við fjöldan en tekjurnar hafa ekki fylgt þeirri þróun. Áherslan hefur verið á fjölgun, magn frekar en gæði. Fjölgun starfa við skattleysismörkin.

Rétta leiðin er því sú að hrúga auknum sköttum á alla og hámarka tekjur af hverjum ferðamanni ef markaðurinn er að bjóða vöruna ódýrt og starfar með lágmarks framleiðni.

Gústi (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 12:06

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Er það ekki frekar svoleiðis að ferðamenn hafa ákveðna eyðslu í huga og sú sem fer ekki í gistingu fer í eitthvað annað?

Eru svo ekki til þeir sem hefðu aldrei komið til Íslands ef ekki væri í boði ódýr gisting?

Mér sýnist hótelbransinn a.m.k. ekki kvarta undan skorti á bókunum og sum jafnvel allt árið. Eða hvað eru mörg hótelherbergi laus í Reykjavík á áramótunum?

Af hverju þarf svo alltaf að einblína á að auka tekjur ríkissjóðs af öllu? Af hverju mega þjónustuaðilar ekki fá eitthvað líka? Það eru jú þeir sem framkvæma vinnuna á meðan ríkisvaldið sér bara um að njóta ávaxtanna. 

Geir Ágústsson, 10.5.2016 kl. 12:26

3 identicon

Ferðamenn hafa ákveðna eyðslu í huga en til þess að standa undir heilbrigðiskerfi og menntun fyrir starfsfólkið, vegakerfi og löggæslu fyrir alla, þá þurfum við að hafa ákveðnar tekjur í huga. Verðin eiga ekki að miðast við hvað sá nýskasti er tilbúinn til að borga. Keppikeflið á að vera að fá sem mest ekki sem flesta.

Sæki þjónustuaðilar ekki þær tekjur sem við þurfum þá er ekki annað ráð en að leggja á hærri skatta. Tekjur þjónustuaðila verða að nægja fyrir þeirra hagnaði og þeirri þjónustu sem ríkið veitir þeim. Í dag er ekki svo. Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru ekki að selja þjónustu og greiða laun sem skila nægum skatttekjum. Og ef ferðaþjónustan er ekki matvinnungur þarf að hækka skatta eða minnnka þjónustu.

Það er ekki ríkisvaldið sem sér um að njóta ávaxtanna, það erum við.

Gústi (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 13:31

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Í hvað fer VSK af eplinu sem tútistinn kaupir? Eða hvalaskoðunarferðinni? Er hann ekki ferðatryggður t.d. vegna slysa sem krefjast læknisaðstoðar?

Hafa Íslendingar góða reynslu af gullgrafarviðhorfi þínu?

Geir Ágústsson, 10.5.2016 kl. 13:42

5 identicon

Það er  gullgrafaraæði í gangi. Allir ætla að græða. Yfirfylla markaðinn með undirboðum og skattsvikum. Fátækir túristar flykkjast hingað á útsöluverði. Hver ferðamaður eyðir minna með hverju árinu.

Íslendingar þekkja gullgrafarviðhorf frá síldarárunum, þeir bara lærðu ekkert. Síldarmjöl frekar en síldarrétti, magn frekar en gæði er ennþá mottóið.

Gústi (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 14:50

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Eitthvað er orðið "fátækt" notað á mismunandi hátt: 

http://www.vb.is/frettir/luxushotel-hljomalindarreitnum/127516/

Geir Ágústsson, 10.5.2016 kl. 17:29

7 identicon

Það segir sitt að þegar von er á 1.700.000 ferðamönnum skuli tilvonandi opnun 112 herbergja lúxushótels vera frétt.

Gústi (IP-tala skráð) 10.5.2016 kl. 18:11

8 Smámynd: Geir Ágústsson

En þú telur sem sagt að ef ríkið seilist dýpra í vasa ferðamanna og ferðaþjónustuaðila þá komi hingað ríkari ferðamenn og eyði meiru og að þessi aukna gjaldheimta af hálfu hins opinbera leiði til þess að hálaunastörf skapist í ferðamannaiðnaðinum?

Lengi má veski ferðamanna teygja!

Geir Ágústsson, 10.5.2016 kl. 18:44

9 identicon

Og þú villt ódýrar ferðir og niðurgreidda gistingu svo ferðamönnum sem borða Heinz dósamat úr Bónus og skíta þar sem þeir standa fjölgi mest.

Gústi (IP-tala skráð) 11.5.2016 kl. 00:34

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þetta dregur mikið úr framboði leigíbúða fyrir þær tugþúsundir sem hafa verið hraktar út á leigumarkaðinn í nauðungarsölublóðbaði undanfarinna ára að undirlagi kröfuhafa og sýslumanna landsins.

Það er því ekki rétt að allir njóti góðs af þessu ástandi.

Þeir sem hagnast eru eignafólk, en eignalausir tapa (meiru).

Guðmundur Ásgeirsson, 11.5.2016 kl. 00:45

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Það mætti alveg hugsa sér ástand þar sem fólki er bannað að leigja út eigið húsnæði, segjum til 91 dags á ári.

Í fyrsta lagi þurfum við að samþykkja að ríkisvaldið megi setja slíkar skorður. Um leið þarf að kyngja öllum öðrum skorðum sem ríkisvaldinu gæti dottið í hug að setja, t.d. litinn á litinn á baðhergisflísunum ef þannig lægi á því.

Í öðru lagi þurfum við að horfa upp á glottið á hóteleigendum þegar einokunarstaða þeirra er tryggð með lögum. Þetta er jú þeirra baráttumál og almenningur virðist ætla að sitja hjá á meðan Alþingismenn koma því fyrir í lögum.

Í þriðja lagi mun töluvert af væntanlegu gistirými standa autt. Tómu unglingaherbergin safna ryki. Aukaherbergið í kjallaranum breytist í geymslu. 

Í fjórða lagi verða til brostnar vonir. Fólk á leigumarkaði hefur hér fundið blóraböggul á meðan hinn rétti blóraböggull - hið opinbera - sleppur við allar ásakanir. Því hvers vegna er markaðurinn ekki að moka nýju og ódýru húsnæði út á markaðinn til að mæta brýnni þörf á slíku?

Í fimmta lagi verður til svartur markaður þar sem bara þeir sem brjóta lög án samviskubits fá þrifist. Heiðarlegt fólk sem vill ekki hafa neitt að fela (en ekki endilega þurfa að standa í þungri skriffinnsku og mikilli skattlagningu) dregur sig af markaðinum. 

Til að stemma stigu við skítandi ferðamönnum eru til aðrar leiðir en að hið opinbera læsi herbergjum í einkaeigu, t.d. gefa landeigendum aukið forræði til að aðgangsstýra landi sínu og rukka komugjöld sem mæta kostnaði. Bónus-ferðamennirnir hafa komið vel út úr andspyrnu Íslendinga sjálfra við að landeigendur geti stundað eðlilegan rekstur í tengslum við ferðamenn. 

Geir Ágústsson, 11.5.2016 kl. 04:05

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er ekkert sem bannar fólki að leigja út íbúðir sem það á, í þeim tilgangi að þær verði notaðar til íbúðar.

Rekstur gististaða fyrir ferðamenn er hinsvegar óheimill án tilskilinna leyfa. Fyrir liggur að langstærstur hluti þeirra sem leigja út íbúðir í þessum tilgangi hafa engin leyfi til slíks rekstrar.

Með öðrum orðum, þá er þetta bannað, í langflestum tilfellum.

1. Ríkisvaldið má setja slíkar skorður. Það hefur verið gert með lagasetningu, sem er fyrir löngu síðan búið að samþykkja.

2. Eigendum gististaða er ekki tryggð einokunarstaða með því að ætlast til þess að þeir fari eftir leikreglum á þeim markaði, heldur standa þeir allir jafnfætis gagnvart gildandi skilyrðum fyrir því að fá leyfi til að stunda slíka atvinnustarfsemi. Á þeim markaði starfa margir aðilar í samkeppni við hvern annan, svo það er fjarstæða að um einokun sé að ræða.

3. Aukaherbergi þurfa ekki að standa auð þó að ólögleg útleiga þeirra til ferðmanna yrði stöðvuð. Til dæmis geta slík herbergi verið mjög hentug fyrir námsmenn á meðan námi stendur, en mikill fjöldi þeirra er í miklum vandræðum með að fá slík herbergi leigð því þau eru full af ferðamönnum. Það vandamál myndi leysast sjálfkrafa ef lögbrotin yrðu stöðvuð. Lögmál framboðs og eftirspurnar myndu sjá til þess á frjálsum markaði, en sá svarti markaður sem nú er til staðar er ófrjáls því mönnum er ófrjálst að brjóta lög.

4. Vissulega er hið opinbera "rétti blóraböggullinn" því það er hið opinbera sem í þessu tilfelli vanrækir skyldu sína til að framfylgja lögum og stöðva þessa ólöglegu starfsemi. Það bitnar á fólki á löglegum leigumarkaði.

5. Núverandi starfsemi við skammtímaleigu íbúða til ferðamanna án tilskilinna leyfa er svartur markaður. Sá markaður mun ekkert verða til (í framtíð) því hann er nú þegar til (í nútíð).

Niðurstaðan er mjög einföld: Ferðamenn eiga að gista á gististöðum sem eru reknir með leyfi til slíks rekstrar, hvort sem það er á hótelum, gistiheimilum eða fyrrverandi íbúðarhúsnæði sem hefur verið breytt í gististaði og tilskilinna leyfa aflað. Íbúðarhúsnæði á hinsvegar að hýsa annaðhvort eigendur þess eða leigjendur á húsnæðismarkaði, sem eru eðli málsins samkvæmt ekki ferðamenn heldur fólk búsett á Íslandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.5.2016 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband