Brunað að bjargbrúninni

Seinasta ríkisstjórn tók við brennandi húsi og skildi eftir sig brunarústir. Vont ástand varð miklu verra. Stefnan var sett fulla ferð að bjargbrúnni, og enn er haldið áfram. Íslenska ríkið stefnir í gjaldþrot, og ekkert hefur enn verið gert til að forðast það.

Ríkið þarf að semja um skuldir sínar við lánadrottna sína. Þær eru of háar. Skuldirnar þarf að greiða niður.

Ríkið þarf að skera á skuldbindingar sínar gagnvart lífeyri opinberra starfsmanna. Þetta má gera í þrepum. Fyrsta þrepið er að stöðva núna strax alla söfnun frekari "réttinda" opinberra starfsmanna og koma lífeyrisgreiðslum þeirra út á frjálsan markað. (Raunar ætti ríkið að afnema öll ákvæði um skyldusparnað í formi lífeyris. Eins og lífeyrissjóðskerfið er uppbyggt í dag getum við varla átt von á krónu út úr því í framtíðinni hvort eð er, fyrir utan forræðishyggjuna sem felst í því að afhenta sparnað okkar til örfárra vel tengdra lífeyrissjóða.)

Ríkið þarf að leggja niður Seðlabanka Íslands og koma sér algjörlega úr útgáfu peninga og afskiptasemi með peninganotkun Íslendinga.

Ríkið þarf að skera niður á öllum sviðum. Mörgum finnst nóg komið af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu sem vex og vex í kostnaði en rýrnar í sífellu í þjónustu. Það er réttmæt ábending. Ríkið þarf að einkavæða heilbrigðisþjónustuna eins og hún leggur sig svo hún þurfi ekki lengur að vera pólitískt bitbein og fórnarlamb fjársveltis og opinberrar afskiptasemi.

Hið sama gildir um menntakerfið eins og það leggur sig. 

Öll sendiráð má leggja niður og verkefnum þess má koma yfir á ódýrari skrifstofur. Til dæmis væri hægt að bjóða út móttöku vegabréfsumsókna fyrir Íslendinga til hvaða fyrirtækis sem er. Lendi Íslendingur í pólitískri klemmu erlendis má tækla það frá tilfelli til tilfellis, eða útnefna sérstaka ræðismenn á verktakagreiðslum fyrir hvert unnið verk. 

Ríkið þarf auðvitað að selja allt sem það á; allar byggingar, eignahluti í fyrirtækjum og aðrar eignir. Alþingishúsið gæti e.t.v. staðið sem tákn um ofríki hins opinbera, í eigu hins opinbera. Allt annað má fara.
 
Skatta þarf að afnema eða lækka niður í nánast ekki neitt. Mikið svigrúm skapast fyrir skattalækkanir þegar útgjöldin eru orðin brotabrot af því sem þau eru í dag.
 
Margt annað þarf að gera; umsókn að ESB þarf að draga formlega í land, alla tolla þarf að afnema, allan stuðning við landbúnað og aðra starfsemi þarf að koma af herðum skattgreiðenda, reglugerðafrumskóginn þarf að skera niður í stórum stíl, og svona mætti lengi telja. 
 
Ríkisstjórnin hefur ekki beinlínis byrjað af krafti. Það þarf að breytast sem allra fyrst. 

mbl.is Fyrirtæki í biðstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi pistill hljómar svolítið eins og þú haldir að ríkisstjórnin ætli sér að gera eitthvað af þessu! Þetta er engin anarkó-frjálshyggjustjórn; þetta er dæmigerð íslensk, hugsjónarlaus valdastjórn.

Magnús (IP-tala skráð) 15.8.2013 kl. 08:34

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sennilega er það rétt hjá þér, en menn verða þá bara að vera tilbúnir að taka afleiðingunum. Sá sem kastar sér fallhlífarlaus fram af bjargbrún má búast við því að brjóta hvert bein í líkama sínum.

Geir Ágústsson, 15.8.2013 kl. 08:45

3 identicon

Rétt. Ég flutti af landi brott fyrir 3,5 ári og hef reynt að fá nánustu ættingja til að nota löglegar leiðir (leyfilegar upphæðir og undanþágur frá gjaldeyrishöftum) til að koma sparifé sínu í öruggara skjól til mín.

Magnús (IP-tala skráð) 15.8.2013 kl. 10:43

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Vel gert. Sagan kennir okkur tvennt:

- Enginn ríkisgjaldmiðill hefur sloppið við misnotkun stjórnvalda sem hefur endað á hruni gjaldmiðilsins.

- Þú getur keypt sæmilega skraddasaumuð jakkaföt í vestrænni stórborg fyrir um únsu af gulli í dag. Það gastu líka árið 1920.

Geir Ágústsson, 15.8.2013 kl. 11:25

5 Smámynd: Starbuck

Mikið af því sem þú ert að segja er steypa sem er byggð á nýjustu trúarbrögðum mannkynsins - yfirleitt kölluð nýfrjálshyggja.  Trúarbrögð kalla ég það af því að þetta byggist hvorki á skynsemi né vísindum.  Ég nenni ekki að fara í rökræður um efni þessa pistils en mig langar samt, af því að þú talar um ofríki hins opinbera, að spyrja - telur þú að samfélagið yrði laust við ofríki ef það væri ekkert "hið opinbera"? Verður t.d. fólk aldrei fyrir ofríki af hendi stórfyrirtækja og banka?  Getur slíkt ofríki ekki verið jafn slæmt eða jafnvel verra en ofríki sem beitt er af opinberum aðilum? 

Starbuck, 15.8.2013 kl. 13:02

6 identicon

Nei, Starbuck; nýfrjálshyggja er eitthvað allt annað. Ég gæti nefnt Bandaríki nútímans sem dæmi um land þar sem einhvers konar nýfrjálshyggja er við lýði. Geir, að mér sýnist, hallast að svokölluðum anarkó-kapítalisma. (Þú leiðréttir mig, Geir, ef ég fer með rangt mál.)

Stórfyrirtæki sem komast upp með að beita fólk ofríki starfa yfirleitt í skjóli hins opinbera. Þetta sér maður um allan heim. Hvernig má best komast hjá því að fyrirtæki „kaupi” stjórnmálamenn og skriffinna?

Magnús (IP-tala skráð) 15.8.2013 kl. 16:22

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Starbuck og Magnús,

Takk fyrir innlegg ykkar. Magnús skilgreinir mig réttar en Starbuck. Þessi nýfrjálshyggja virðist vera afbökuð þýðing á annars ágætu ensku hugtaki, "crony capitalism", eða klíkukapítalismi (samstarf áhrifamikilla/stórra fyrirtækja og ríkisvaldsins).

Fyrir þá sem vilja dæmi um klíkukapítalisma get ég mælt með þessum pistli:

http://www.vb.is/skodun/94336/

Tilvitnun úr honum:

"[V]anheilagt bandalag banka- og stjórnmálamanna sem gengur út á að bankarnir fá að taka aukna áhættu með lægra eiginfjárhlutfalli og beinni eða óbeinni ríkisábyrgð en stjórnmálamennirnir fá aukinn beinan aðgang að fé með því að hygla ríkisskuldum og skuldum sveitarfélaga í Basel-reglunum og óbeinan aðgang að fé með því að geta lofað kjósendum sínum auknum lánum til húsnæðiskaupa með því að hygla þeim í Basel-reglunum."

Geir Ágústsson, 15.8.2013 kl. 19:46

8 Smámynd: Starbuck

Takk fyrir þessa athugasemd Magnús - kann að vera að þú hafir nokkuð til þíns máls.

Þessi spurning sem þú spyrð í lokin er geysilega mikilvæg.  Þetta er kannski eitt helsta meinið við vestrænt hagkerfi og stjórnarfar, þ.e. að kjörnir fulltrúar og ýmsir opinberir aðilar eru alls ekki að vinna fyrir fólkið heldur ýmis konar hagsmunaklíkur, stórfyrirtæki og aðra fjársterka aðila sem hafa eingöngu þrönga eiginhagsmuni að leiðarljósi (sést kannski best í BNA þar sem "lobbýisminn" heldur stjórnkerfinu í heljargreipum).

Starbuck, 15.8.2013 kl. 19:49

9 Smámynd: Starbuck

Vil bara bæta því við að ég held að ef þær, mjög svo, róttæku aðgerðir sem lagðar eru til í þessum pistli (tek fram að mér finnst ekki allar hugmyndirnar slæmar) yrðu framkvæmdar yrði afleiðingin meiri háttar glundroði og síðan tæki örugglega við einhvers konar fasismi.  

Ég legg til Geir að þú hallir þér frekar að hefðbundnum anarkisma sem gengur út á að valdið sé hjá fólkinu en ekki hjá þeim sem eiga mest af peningunum (því þannig hlýtur anarkó-kapítalismi að virka í reynd).

Starbuck, 16.8.2013 kl. 00:44

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Á frjálsum markaði eiga þeir peninga sem gengur best að fullnægja þörfum neytenda.

Í sósíalisma, fasisma og klíkukapítalisma eiga þeir pening sem eru mest í náðinni hjá stjórnmálamönnum.

Án stjórnmálamanna er ekki hægt að vera í náð hjá stjórnmálamanna. Með því að losna við þá er hægt að búa til frjálsan markað þar sem auðsköpun er keppni í að sinna neytendum.

Um þetta eru auðvitað til heilu bækurnar, og ekki allar einu sinni langar. Á ég að vísa í einhverja hentuga eða erum við fastir í sitthvorri skotgröfinni?

Geir Ágústsson, 16.8.2013 kl. 06:42

11 identicon

Starbuck, hvað er hefðbundinn anarkismi og hvað þýðir það að valdið sé hjá fólkinu?

Grunnstoð anarkó-kapítalismans er, að því er ég best veit, reglan um að beita ekki aðra ofbeldi að fyrra bragði (e. non-aggression principle) og gera sömu kröfur til hins opinbera og annarra fyrirbæra í samfélaginu. Frá blautu barnsbeini er okkur kennt að það sé rangt að stela eigum annarra og yfirhöfuð beita aðra ofbeldi; hvernig stendur á því að við látum yfir okkur ganga að ríkisvaldið geri nákvæmlega það nema bara kerfisbundið og í stórum stíl?

Food for thought.

Magnús (IP-tala skráð) 16.8.2013 kl. 08:03

12 Smámynd: Geir Ágústsson

"It is ironic that the loudest crusaders for a larger, more active federal government are often those who never tire of pointing out that Washington is bought and paid for by connected corporations. Their reasoning would make them libertarians but for the shackles that public schooling and the works of court intellectuals have placed upon critical thinking, while teaching reverence for the state."

http://mises.org/daily/6506/Rothbard-and-the-Libertarian-Populists

Geir Ágústsson, 16.8.2013 kl. 08:38

13 Smámynd: Starbuck

Líklega er þetta spurning um mannlegt eðli og hvað það er almennt sem mótiverar okkur í lífinu.  Mér finnst kapítalisminn ganga út frá því að fólk almennt sé fyrst og fremst mótiverað af því að hámarka sína eigin efnislegu velmegun.  Ég held að það eigi við um suma en flestir hugsi öðruvísi og vilji t.d. frekar vinna við störf sem þeim finnst áhugaverð heldur en að tekjurnar séu aðalmálið.  Svo held ég að almennt leiði samvinna til meiri lífsgæða heldur ens samkeppni - og þar er líklega grundvallarmunurinn á anarkó-kapítalisma og hefðbundins anarkisma (sem reyndar eru til margar útgáfur af).  Anarkismi byggir á því að fólk vinni saman og völdum, eignum og gæðum sé skipt sem jafnast. Þetta getur t.d. virkað þannig að starfsmenn fyrirtækja eiga þau sjálfir og dreifa völdum og afrakstri vinnunnar sem jafnast sín á milli.  Kapítalistinn svarar svona hugmyndum að sjálfsögðu þannig að þetta sé ósanngjarnt vegna þess að fólk uppskera fólks sé þá ekki í samræmi við dugnað og hæfileika.  Því er til að svara að hrár kapítalismi virkar ennþá síður þannig að fólk uppskeri í samræmi við dugnað og hæfileika.  Það er nóg að benda á þær milljónir manna sem vinna baki brotnu í ýmis konar þrælakistum um víða veröld en launin duga varla fyrir helstu nauðsynjum - og svona er þetta jafnvel þó kapítalisminn sé að einhverju leyti í böndum.  Hrár kapítalismi gengur ekki upp því hann leiðir alltaf að lokum til fákeppni og einokunar á flestum sviðum og síaukinnar misskiptingar auðsins.  Eignir og völd færast á færri og færri hendur þangað til á endanum er það tiltölulega fámenn elíta sem á og stjórnar flestu - hraða þróun í þá átt sjáum við klárlega í dag.  Í rauninni á það að vera þannig í nútímaþjóðfélögum að  hlutverk kjörinna fulltrúa fólksins (þ.e. stjórnmálamanna) sé að bremsa svona þróun af, t.d. með ýmis konar samkeppnislögum.  Þó að þetta gangi hafi gengið illa síðustu áratugi, m.a. vegna þess að margir þeirra "selja sig" auðmönnum þá er út í hött að halda að það muni bæta lífskjör fólks almennt að gefa auðvaldinu (þú kallar það víst frjálsan markað) lausan tauminn.

"Capitalism is the extraordinary belief that the nastiest of men for the nastiest of motives will somehow work for the benefit of all." (haft eftir John Maynard Keynes)

Starbuck, 21.8.2013 kl. 01:01

14 Smámynd: Starbuck

Magnús - ég er sammála því að það eigi að ekki eigi að beita ofbeldi að fyrra bragði og "gera sömu kröfur til hins opinbera og annarra fyrirbæra í samfélaginu" - og opinberir starfsmenn eiga að sjálfsögðu líka að hafa sambærilegar tekjur og einkageirinn býður upp á.  Þess vegna þarf almennt að hækka laun opinberra starfsmanna til jafns við einkageirann.

Ég er ekki alveg klár á hvað þú átt við með að ríkisvaldið (á Íslandi) beiti ofbeldi kerfisbundið og í stórum stíl.

Starbuck, 21.8.2013 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband