Bloggfærslur mánaðarins, október 2020

Lexíur frá 2008

Þegar allt keyrði um koll árið 2008 í hinum alþjóðlega fjármálaheimi þá fóru margir að hugsa stórar hugsanir um hvað gerðist. Núna hafa menn lært sína lexíu og ekkert hrun mun nokkurn tímann koma fyrir aftur.

Rangt.

Á ZeroHedge er sagt frá nýjustu hugmyndum spekinganna hjá seðlabanka Bandaríkjanna, og pistlahöfundur sér tilefni til að nefna að þetta sé ekki frétt frá The Onion eða The Babylon Bee!

Úr pistlinum:

After singlehandedly creating the biggest asset bubble in history, where the global economy has avoided collapse (so far) thanks to some $20 trillion in Fed liquidity conduits, monetary stimulus and helicopter money (the Fed is now openly monetizing all the debt the Treasury issues in order to avoid collapse), we seems to have moved into the Onion (or is Babylon Bee) zone, because as the FT reports, senior Fed official are now calling for "tougher financial regulation to prevent the US central bank’s low interest-rate policies from giving rise to excessive risk-taking and asset bubbles in the markets."

Þá vitum við það. Menn lærðu ekkert af hruninu 2008. Ekkert um áhrif þess að halda vaxtastigi niðri með nýjum peningum. Ekkert um áhrif nýprentaðra peninga á verðlag og verðbólgu. Ekkert um áhrif skuldsettrar neyslu og eyðslu og ekkert um áhrif þess að láta risastór og fjárfrek verkefni virðist arðbær vegna lágs vaxtastigs sem er ekki byggt á sparnaði.

Ekkert.

Dapurlegt er það og vissara að búa í haginn í ljósi þess. Og lesa Ábyrgðarkverið (aftur, ef því er að skipta).


Beta drottning veit hvað hún er að gera

Elísa­bet II Eng­lands­drottn­ing fór í sína fyrstu op­in­beru heim­sókn í lang­an tíma á fimmtu­dag­inn síðasta. At­hygli vakti að hvorki drottn­ing­inn né prins­inn báru and­lits­grímu en bresk stjórn­völd hafa gefið út þau til­mæli að bera skuli grímu inn­an­dyra þar sem erfitt er að halda nánd­ar­tak­mörk­un­um.

Elísabet II er enginn vitleysingur. Hún hlýtur að hafa vitað að grímuleysi hennar vekti athygli. Hún ráðfærði sig við einhverja og ákvað að mæta grímulaus. Hún tók upplýsta ákvörðun. Hún var grímulaus í heimsfaraldri!

Kannski er hérna um að ræða einhvers konar uppreisn frá toppnum? Drottningin veit að auðvitað er hún ósnertanleg. En hún gæti veitt innblástur. Víða í Englandi hefur fólk verið að mótmæla takmörkunum og jafnvel átt í útistöðum við lögregluna. Korteri seinna mætir drottningin grímulaus í fullkomlega tilgangslausan opinbera viðburð. Var hún að segja fokk-jú?

Lífið snýst ekki bara um að halda lífi. Það snýst um svo margt annað, svo sem að njóta félagsskapar nákominna og knúsa og kyssa. Þetta skilur eldra fólkið kannski betur en það yngra, og um leið finnst því mörgu sárt að sjá yfirvöld læsa afkomendur þess inni til að bjarga sjálfu því, óspurt. 

Þegar rollur á tilteknu svæði fá gin- og klaufaveiki er þeim slátrað því þær skilja ekki tveggja metra reglur og halda áfram að hlaupa í hjörðum óháð fyrirmælum bóndans. Núna erum við rollurnar.


mbl.is Drottningin grímulaus í fyrstu heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómstólaleiðin?

Dómstóll í Berlín hnekkti í dag reglum borgaryfirvalda sem bönnuðu börum og veitingastöðum að hafa opið á næturnar.

Þetta er ekki einsdæmi. Þegar yfirvöld í einu fátækasta ríki heims, Malawi, ætluðu að svelta íbúa sína inni með lokunum var mótmælt kröftuglega og lokunaráformin loks knésett fyrir dómstólum.

Ætli dómstólaleiðin til að hnekkja lokunum væri fær á Íslandi?

Það má efast. Stjórnarskráin er troðfull af bakdyrum þar sem ákvæðum stjórnarskrár má fleygja út af allskyns ástæðum. En kannski mætti reyna. Ef ekki núna þá seinna. Þegar næsta veira skýtur upp kollinum er sennilega búið að veita yfirvöldum svo mikið svigrúm til að gera hvað sem þeim sýnist að enginn mun láta sér bregða. Það er hættulegt. Fordæmalausir tímar? Kannski. Fordæmi komin? Tvímælalaust.

Nú fyrir utan að íslenskir dómarar standa sjaldan í lappirnar þegar á reynir. 

En hver veit?


mbl.is Dómstólar halda börum opnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lést úr elli

Maður á níræðisaldri sem fær einhverja veiru eða bakteríu og deyr í kjölfarið réttlætir ekki samkomubönn, stofufangelsi á ungu fólki og takmarkanir á ferðalögum og viðskiptum. Bara til að halda því til haga.


mbl.is Sá sem lést vegna veirunnar var á níræðisaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skál fyrir lækkandi kosningaaldri!

Andrés Ingi Jónsson, fyrrverandi VG-liði, er fyrsti flutningsmaður nýs frumvarps um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi.

Lækkun kosningaaldurs er freistandi fyrir vinstrisinnaða stjórnmálamenn því 16 ára einstaklingar mælast gjarnan yfirgnæfandi til vinstri. Með því að sópa þeim á kjörskrá eru vinstrimenn búnir að krækja í svolítið ókeypis fylgi.

Þetta er eina ástæðan, og raunar fer greinargerð frumvarpsins ekkert í felur með það:

"Ungt fólk hefur löngum þurft að þola lýðræðishalla hvað varðar aðkomu að vali á kjörnum fulltrúum og vægi á framboðslistum stjórnmálasamtaka."

Of fáir vinstrimenn á þingi miðað við vilja unglinganna, ekki satt?

Aðrar yfirlýstar ástæður eru bara yfirskyn. Til dæmis segir flutningsmaður að markmiðið sé að auka áhrif ungs fólks og að það styrki lýðræðið. En má þá ekki leyfa 16 ára einstaklingum að giftast? Kaupa áfengi? Keyra bíl? Verða fjárráða og sjálfráða? Ekki hef ég séð talað fyrir því að lækka aldurinn á öllu þessu, óháð því hvað skoðanakannanir meðal ungs fólks segja.

Svo nei, það er enginn að hlusta á unga fólkið. Það á bara að sópa til sín atkvæði þess og kveðja svo með bros á vör: Nei, ungi maður, þú þarft að láta einhvern annan kaupa fyrir þig áfengið, og nei þú mátt ekki flytja að heiman, og mamma þín ræður ennþá yfir peningunum þínum. En takk fyrir atkvæðið. Við vinstrimenn eru þakklátir fyrir það. Og nei þú færð ekkert í staðinn fyrir atkvæðið því þið unga fólkið kjósið áfram til vinstri, hvort sem greiðinn er launaður eða ekki.


Tvær hliðar, jafnvel þrjár

Loksins les ég umfjöllun um COVID-19 ástandið á Íslandi þar sem ekki er endalaust verið að tala um smit og greiningar heldur líka afleiðingar af harkalegum sóttvarnarráðstöfunum.

Venju samkvæmt er samt ekki hægt að sleppa því algjörlega að básúna ævintýralegar smittölur sem eru dregnar upp úr Excel-skjölum. En um leið er verið að benda á aðra hluti.

Umræðan snýst gjarnan um að þrengja að samfélaginu þar til það blánar í andlitinu, eða fylgja sænsku leiðinni sem margir skilja ranglega sem "gera ekkert". "Allt" eða "ekkert". Annaðhvort eða. En kannski eru fleiri en tvær hliðar.

Ein er sú sem menn kalla "focused protection" og er nálgun sem fjallað er um í hinni svokölluðu Great Barrington Decleration. Höfundar eru prófessorar við Harvard, Oxford og Standford-háskólana og þótt það eitt og sér eigi ekki að blinda okkur þá er ljóst að ekki er um einhverja viðvaninga að ræða.

Úr yfirlýsingunni (áhersla mín):

Adopting measures to protect the vulnerable should be the central aim of public health responses to COVID-19. ... A comprehensive and detailed list of measures, including approaches to multi-generational households, can be implemented, and is well within the scope and capability of public health professionals

Sóttvarnaryfirvöld, læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn: Þið hafið verk að vinna! Og það verk er ekki bara að læsa alla inni og henda lyklinum.


mbl.is 3 þúsund myndu greinast daglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlustum á vísindin!

Danskir vísindamenn hafa nú komist að því að fólk í blóðflokknum O er síður í smithættu vegna COVID-19 en annað fólk.

Frétt DR.

Ég bíð nú spenntur eftir því að "hlustum á vísindin"-fólkið krefjist þess umsvifalaust að þessari uppgötvun verði rúllað út í íslensk sóttvarnarlög, og að O-fólk fái á ný að endurheimta lífið sem yfirvöld hafa tekið af þeim.

Og um leið allir aðrir, nema þeir sem þurfa á sérstakri vernd að halda, því sóttvarnaraðgerðir eru hættulegri en veiran.


Fólk að berjast fyrir lífi sínu

Lögreglan þurfti að dreifa stórum hópi fólks í Liverpool í gærkvöldi en fólkið hafði hópast saman á torgi í miðborginni nokkrum klukkustundum áður en hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins tóku gildi.

Myndskeið af þessu má m.a. sjá hér.

Og hvað sýnir þetta myndskeið? Jú, fólk að berjast fyrir lífi sínu og gegn tilraunum yfirvalda til að eyðileggja líf þess.

Það er einfaldlega svo að mjög harðar sóttvarnaraðgerðir eru miklu frekar að eyðileggja líf en bjarga lífum. 25% atvinnuleysi á Suðurnesjum fyrir jól, einhver? Þetta er mannskemmandi, niðurdrepandi og bæði andlega og líkamlega stórhættulegt ástand fyrir fólk. Og má skrifa á sóttvarnaraðgerðir. Þannig er það.

Ég býst við miklu fleiri átökum milli óbreytts almennings og yfirvalda vegna hinna svokölluðu sóttvarnaraðgerða, og ekki bara í Englandi heldur mun víðar.

Ríkið gegn almenning.

Yfirvöld gegn óbreyttum borgurum.

Elítan í öruggu störfunum gegn atvinnulausum.

Stjórnmálamenn gegn starfandi fólki.


mbl.is Hópuðust saman í Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edward Snowden varar okkur við - aftur

Fyrir þá sem hafa áhuga á einkalífi, dulkóðun og opinberu eftirliti mæli ég með litlu 2,5 klst viðtali Joe Rogan við Edward Snowden, hér. Þar ræðir hann meðal annars um baráttu bandaríska alríkisins gegn dulkóðun á rafrænum samskiptum.

 


mbl.is Raunveruleg dulkóðun heyri sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólagjöfin í ár (í eintölu)

Í ljósi þess að yfirvöld eru að fletja út veiru, hagkerfi og samfélag blasir við að jólahaldið verður mörgum mjög erfitt í ár, jafnvel óbærilegt. Jól á bótum, atvinnuleysi, félagsleg einangrun og ekkert framundan. Skelfilegt, satt að segja.

Ég er því með hugmynd sem ég hef þannig séð ætlað mér að stinga upp á við mitt fólk (og hef lengi langað til):

Að fólk lýsi því yfir að það vilji bara eina jólagjöf. Og að hún sé þá eitthvað almennilegt.

Ef þú ert vanur eða vön að fá gjafir frá þremur einstaklingum, eða tíu, eða hvað það nú er, þá segir þú einfaldlega við þetta fólk: Þetta er gjöfin sem ég vil, eða þetta er óskalisti minn þar sem má bara velja einn hlut, og það verður þessi aðili sem kaupir gjöfina og pakkar inn fyrir mig, svo einföld millifærsla - frjálst framlag - á viðkomandi, og gleðileg jól.

Kannski einhver forritari geti búið til lítið app sem miðlar málum? Svona eins og "box"-lausn MobilePay í Danmörku?

Viljir þú enga hluti þá er auðvitað hægt að setja framlögin í eitthvað annað, svo sem góðgerðarmál. Nú eða bara að afþakka gjafir með öllu. Vantar þig eitthvað hvort eð er? Enn einn blómavasann, kannski? Eða ný heyrnatól í ræktina sem er búið að knésetja með sóttvarnaraðgerðum? Kannski ekki.

Ég er jafnvel á því að börn muni taka þátt í svona löguðu þótt auðvitað sé gaman að fá marga pakka. Betra er eitt gott reiðhjól eða voldugur fjarstýrður bíll en mýgrútur af ódýrum og eitruðum plastleikföngum.

Er þetta eitthvað sem gæti gert lífið léttara og um leið tryggt gleðileg jól án fjárútláta í allskonar húfur og hanska og plastglingur sem enda ofan í skúffu á jóladag?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband