Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Velferðarnetið

Ég ætla að reyna venja mig af því að tala um velferðar"kerfið" og tala þess í stað um velferðar"netið". 

Velferðarnetið er kerfi sem flækir fólk í því.

Dæmi: Maður ætlar að fara í háskólanám. Ríkisvaldið niðurgreiðir það fyrir hann með sköttum á vinnandi fólk. Skattar eru háir til að fjármagna námið. Maðurinn veit að þegar námi lýkur þarf hann að finna sér vinnu og borga háa skatta til að niðurgreiða nám fyrir aðra. Hann veit að ef hann þarf bæði að borga niður lán vegna skólagjalda og hina háu skatta í framtíðinni þá gengur reikningsdæmið ekki upp. Ætli hann sér að vinna jafnóðum og samhliða skóla fyrir skólagjöldunum þarf hann að borga svo háa skatta að hann nær ekki að safna fyrir skólagjöldunum. Hann er því fastur. Hann fer í niðurgreidda námið og huggar sig við að hann muni borga fyrir það á endanum, í gegnum háa skatta, alla ævi. (Sem aukaafleiðing mun svo skólinn hans halda síður að sér höndum í útgjöldum því nemandinn hefur takmarkað möguleika til að krefja skólann um aðhald í rekstrinum, enda ekki með neina gíróseðla sem hann þarf að greiða beint úr eigin vasa.)

Dæmi: Maður stofnar til skulda og kaupir sér fasteign. Gjaldmiðillinn sem hann skuldsetur sig í er síðan fjöldaframleiddur af hinu opinbera, rýrnar í kaupmætti og leiðir til hækkandi verðlags. Lánið hans er reglulega "leiðrétt" með tilliti til hins fallandi kaupmáttar svo lánadrottnar hans tapi ekki fé sínu. Manninum er boðið að borga hærri skatta í skiptum fyrir niðurfellingu á hluta skuldanna. Hann hefur ekki efni á að borga bæði skuldirnar og hina eldri skattprósentu og tekur því við niðurfellingunni í skiptum fyrir hærri skattprósentu, í von um að hans reikningsdæmi komi aðeins betur út. Hann er fastur í umhverfi skulda og skatta sem hann kemst ekki út úr.

Dæmi: Maður eignast barn. Hann fær barnabætur. Hann þarf að borga háa skatta. Taki hann ekki við barnabótunum þarf hann samt að borga hina háu skatta. Hann þarf að nota barnabæturnar til að greiða ýmis útgjöld í tengslum við barnið. Hann borgar háa skatta því barnabætur allra eru stórar fjárhæðir. Hann er fastur í kerfi bóta og skatta.  

Fleiri dæmi mætti týna til. Ímynduð dæmi mætti einnig hugsa sér:

Ímyndað dæmi: Ríkisvaldið gefur það út að brauð, mjólk og kjöt verði núna niðurgreitt til að "tryggja aðgengi" að þessum mikilvægu fæðuflokkum. Skattar verða í staðinn hækkaðir um 10% á launatekjur. Allir munu þurfa borga hina hærri skatta. Allir leita í hinn niðurgreidda mat. Seljendur matvæla sjá fram á tryggða eftirspurn eftir hinum niðurgreiddu matvælum, enda er sambland skattheimtu og niðurgreiðslu jafngildi áskriftar að þeim (fólk telur sig hafa borgað fyrir þau með hinum hærri sköttum og vill því skiljanlega "fá sitt").

Síðan kemur einhver stjórnmálamaðurinn á vettvang og segir: Lækkun nú skatta um 10% og hættum niðurgreiðslum á matvælum. Uppþot verða í samfélaginu. Á að taka brauð, mjólk og kjöt af diskum hinna efnaminni? Sjáðu bara verðlagið á þessum fæðuflokkum, sem snarhækkaði eftir að niðurgreiðslum var komið á! Bara hinir efnameiri munu hafa efni á kjöti núna!

Velferðar"kerfið" er net. Ég ætla að venja mig á að tala um velferðarnetið núna. 


Niðurstaðan verður stríð

Í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar voru Þjóðverjar beittir ýmsum tegundum viðskiptaþvingana.

Í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar réttlættu Þjóðverjar ýmsar landtökur sínar og innrásir með því að þeir væru að safna Þjóðverjum innan eins þjóðríkis. Þeir væru beittir harðræði innan landamæra annarra ríkja. Oft voru atkvæðagreiðslur haldnar til að styrkja málstað Þjóðverja í innlimun þeirra á héröðum og heilu ríkjunum. 

Í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar þjöppuðu viðskiptaþvinganir Þjóðverjum saman á bak við yfirherra sína. Það voru "þeir" gegn "okkur".

Í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar var þýskum yfirvöldum gert auðvelt fyrir að réttlæta enn frekara hernaðarbrölt, meðal annars og smátt og smátt vegna efnahagslegrar nauðsynjar því viðskiptaþvingunum væri beitt á þá og þeir þyrftu því að sækja sínar auðlindir með valdi.  

Í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar töluðu Bandaríkin, Bretar og önnur ríki niður til Þjóðverja og jafnvel af yfirlæti þótt þeir sjálfir væru í allskyns brölti sjálfir (Bretar í Afríku og Indlandi, Bandaríkjamenn í karabíska hafinu, osfrv.).

"When goods don’t cross borders, soldiers will." /Bastiat (kannski)

Ekkert er óumflýjanlegt, en mikið svakalega er sorglegt að sjá þróun mála í Úkraínu og hafa um leið í huga söguna á bak við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. 


mbl.is Rússar finni fyrir þvingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gráður í hverju?

Vinnumarkaðurinn er ekki að skapa nógu mörg störf fyrir háskólamenntað fólk og er áfram útlit fyrir töluvert atvinnuleysi meðal þessa hóps. 

Þetta er furðuleg fullyrðing. Mér finnst líklegra að þessu sé öfugt farið: Of mikið af háskólamenntun felur ekki í sér neina verðmætaskapandi þjálfun og er því ekki eftirspurn eftir á vinnumarkaðinum.

Er einhvers staðar í boði sundurliðun á atvinnuleysi eftir tegund háskólamenntunar á Íslandi? Danir eru ekki feimnir við að flagga slíkri tölfræði og nota beinlínis til að vara fólk við ákveðnum tegundum menntunar fyrir fólk sem er að sækja um háskólanám (of mikið framboð eða engin eftirspurn og því takmarkaðir atvinnumöguleikar að loknu námi). Væri það ráð á Íslandi? Ég hef heyrt mikið talað um atvinnumöguleika lögfræðinga en hvað með allt hitt? Hvað með kynjafræðingana, bókmenntafræðingana og félagsvísindafólkið? Er einhver að biðja um vinnu þeirra aðrir en hið opinbera eða einkafyrirtæki í gegnum lagaþvinganir?

Svo getur verið rétt að fyrirtæki séu að halda að sér höndum og ekki að ráða þótt sumir tali um "eðlilegt árferði". Árferðið er allt annað en eðlilegt. Fyrirtæki eru að búa sig undir bæði efnahagslega og pólitíska óvissu og halda því að sér höndum. Ef hérna væri "eðlileg" ríkisstjórn sem léti verkin tala og væri byrjuð að skera heilu afkimana af ríkisrekstrinum og skattheimtunni og regluverkinu þá væri kannski hægt að tala um "eðlilegt árferði". En ekki í dag. 


mbl.is Gráður ekki ávísun á störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattalækkanir eru undanfari efnahagsbata

Ímyndum okkur hross. Á því eru þungir baggar. Eigandi hrossins vill gjarnan að það hlaupi hraðar. Takist það ætlar hann að fækka böggunum á því. Hann ætlar sér að gera það með því að láta hrossið venjast þyngslunum. Hrossið er látið gera æfingar sem gera því kleift að bera byrðarnar á baki sér. Hrossinu er kennt að létta tímabundið á böggunum, t.d. með því að beygja hnén svo neðstu baggarnir snerti jörðina, eða halla sér upp að húsvegg þegar þyngslin virðast óbærileg. Smátt og smátt tekst manninum að kenna hrossinu allskyns brögð til að umbera hlassið sem það ber. Hrossið nær að tölta hraðar og hraðar, en aldrei sérstaklega hratt.

Á svæðið kemur svo annar maður og spyr: Ef þú vilt að hrossið hlaupi hraðar af hverju fjarlægir þú ekki bara alla baggana af baki þess? Eigandi hrossins verður alveg hneykslaður. Hver á að bera hina þungu bagga ef hrossið gerir það ekki? Aðkomumaðurinn kann engin svör við þessu. Hann veit ekki að baggarnir eru fullir af sandi sem hafa þann eina tilgang að draga niður þá sem þá þurfa að bera.

Skatta á að lækka til að efnahagsbati geti átt sér stað. Það þýðir minna ríkisvald ofan á herðum skattgreiðenda og fyrirtækja. Þetta er svona einfalt.  


mbl.is Hollande boðar skattalækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sönnun fyrir glóruleysi hagvaxtarspádóma

Grein­ing Íslands­banka spá­ir 3,3% hag­vexti á næsta ári sem þýðir að vöxt­ur­inn verður áfram yfir lang­tíma­hag­vexti. Gangi spá­in eft­ir verður lands­fram­leiðslan á næsta ári - árið 2015 - á föstu verði kom­in yfir það sem hún var árið 2008.

Að teknu til­liti til fólks­fjölg­un­ar mun lands­fram­leiðslan á mann árið 2016 vera viðlíka því sem hún fór hvað hæst fyr­ir hrun bank­anna haustið 2008.

Þá er loksins komin endanleg sönnun fyrir því að hagvaxtarspár eru talnaleikfimi sem koma raunveruleikanum ekkert við. Með því að bera saman hagvaxtarspár, t.d. þessa hér að ofan, og raunveruleikann er sú sönnun komin fram.
 
Hagvaxtarspár geta að vísu verið afsakaðar með því að þeim var þannig séð aldrei ætlað að lýsa raunveruleikanum. Þær eru tæki fyrir stjórnmálamenn til að "stýra" hagkerfinu. Stjórnmálamenn vilja ekki heyra að fólk spari og fjárfesti. Stjórnmálamenn líta á það sem sitt hlutverk. Þeir vilja skattleggja "umframhagnað" á góðu árunum og skuldsetja ríkissjóð á mögru árunum. Þeim er því alveg sama um sparnað, sem er enginn á Íslandi, og vilja bara að einkaneysla sé há - sú neysla sem veitir kjósendum ánægju hér og nú og skilar atkvæðum í kjörkassann.  
 
Hagvöxtur á Íslandi er enginn og hagkerfið er að veikjast. Það er raunveruleikinn.  

mbl.is Spá 3,3% hagvexti á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílar eru mjólkurbeljur ríkisins

Framlög til vegamála námu aðeins um 54% af gjöldum sem lögð voru á bifreiðaeigendur á árinu 2012. 17 milljarðar fóru til vegamála en tæpir 15 milljarðar af gjöldunum fóru í annar rekstur á vegum ríkisins.

Þetta kemur vonandi engum á óvart. Ríkisvaldið veit að mjög mikið þarf að koma til svo fólk sleppi bílnum sínum. Margir leggja mjög mikið á sig til að hafa efni á bílnum - fararskjóta fjölskyldunnar. Sumir skera í matarinnkaupin og aðrir fórna áhugamálinu. Fólk safnar jafnvel skuldum, mánuð eftir mánuð, til að hafa efni á bílnum.

Að ríkisvaldið eyði svo ekki öllum bíla- og vegasköttunum í vegakerfið kemur ekkert á óvart. Ríkisvaldið veit að bílar eru mjólkurbeljur. Þá má skattleggja til að fjármagna ESB-umsókn, íþróttastúkur, spennandi sprotafyrirtæki þar sem kynjahlutfall stjórnenda er jafnt, og margt fleira sem býr til flottar fyrirsagnir (gjarnan nálægt kosningum).

Ríkisvaldið á fleiri mjólkurbeljur af þessu tagi. Ein er til dæmis orka. Orka hitar hús og lýsir þau upp. Fólk er tilbúið að fórna mörgu til að hafa aðgang að orku. Skatta á orku má hækka og hækka. Önnur mjólkurbelja er allskyns "lúxus" sem fólk leyfir sér - áfengi, tóbak, sælgæti og feitur matur. Víða um heim hefur ríkisvaldið uppgötvað matarholur fyrir sig í þessum hlutum. Um leið geta stjórnmálamenn slegið sig til riddara og predikað heilbrigða lífshætti yfir lúsugum og heimskum almúganum sem vogar sér að víkja af braut lýðheilsubiblíunnar. Þeir vilja samt innst inni að fólk haldi áfram að moka í sig hátt skattlögðum varningi því annars skreppur ríkissjóður saman og þar með möguleikar stjórnmálamanna til að slá um sig rétt fyrir kosningar.

Stjórnmálamenn geta leyft sér að skattpína í nafni viðhalds og uppbyggingar á einhverju því við almenningur erum trúgjörð hjörð. Það er okkur að kenna að stjórnmálamenn geta vaðið í vasa okkar og síðan litið á afraksturinn sem persónulegan sjóð sem megi eyða í kosningabaráttu sömu stjórnmálamanna (t.d. með því að byggja íþróttahús).

Er ekki kominn tími til að laga þetta viðhorf? 


mbl.is Helmingur gjalda til vega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband