Bílar eru mjólkurbeljur ríkisins

Framlög til vegamála námu aðeins um 54% af gjöldum sem lögð voru á bifreiðaeigendur á árinu 2012. 17 milljarðar fóru til vegamála en tæpir 15 milljarðar af gjöldunum fóru í annar rekstur á vegum ríkisins.

Þetta kemur vonandi engum á óvart. Ríkisvaldið veit að mjög mikið þarf að koma til svo fólk sleppi bílnum sínum. Margir leggja mjög mikið á sig til að hafa efni á bílnum - fararskjóta fjölskyldunnar. Sumir skera í matarinnkaupin og aðrir fórna áhugamálinu. Fólk safnar jafnvel skuldum, mánuð eftir mánuð, til að hafa efni á bílnum.

Að ríkisvaldið eyði svo ekki öllum bíla- og vegasköttunum í vegakerfið kemur ekkert á óvart. Ríkisvaldið veit að bílar eru mjólkurbeljur. Þá má skattleggja til að fjármagna ESB-umsókn, íþróttastúkur, spennandi sprotafyrirtæki þar sem kynjahlutfall stjórnenda er jafnt, og margt fleira sem býr til flottar fyrirsagnir (gjarnan nálægt kosningum).

Ríkisvaldið á fleiri mjólkurbeljur af þessu tagi. Ein er til dæmis orka. Orka hitar hús og lýsir þau upp. Fólk er tilbúið að fórna mörgu til að hafa aðgang að orku. Skatta á orku má hækka og hækka. Önnur mjólkurbelja er allskyns "lúxus" sem fólk leyfir sér - áfengi, tóbak, sælgæti og feitur matur. Víða um heim hefur ríkisvaldið uppgötvað matarholur fyrir sig í þessum hlutum. Um leið geta stjórnmálamenn slegið sig til riddara og predikað heilbrigða lífshætti yfir lúsugum og heimskum almúganum sem vogar sér að víkja af braut lýðheilsubiblíunnar. Þeir vilja samt innst inni að fólk haldi áfram að moka í sig hátt skattlögðum varningi því annars skreppur ríkissjóður saman og þar með möguleikar stjórnmálamanna til að slá um sig rétt fyrir kosningar.

Stjórnmálamenn geta leyft sér að skattpína í nafni viðhalds og uppbyggingar á einhverju því við almenningur erum trúgjörð hjörð. Það er okkur að kenna að stjórnmálamenn geta vaðið í vasa okkar og síðan litið á afraksturinn sem persónulegan sjóð sem megi eyða í kosningabaráttu sömu stjórnmálamanna (t.d. með því að byggja íþróttahús).

Er ekki kominn tími til að laga þetta viðhorf? 


mbl.is Helmingur gjalda til vega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og hefurðu nokkuð íhugað hvaða flokkar á Alþingi í framtíðinni muni lækka bifreiðaálögur? Bjarni Ben neitar að lækka benzínskattinn og þessir fáránlegu grænu skattar þorir enginn að hreyfa við vegna pólítískrar rétthugsunar.

Fyrir 40 árum, þegar ég var ungur maður, var innheimt sérstaklega fyrir heilbrigðiskerfið. Ég man ekki hvað almenna skattaprósentan var, sennilega um 30%, en síðan var lagður á 10% sjúkrasamlagsskattur. Þungaskattur hafði verið settur á bifreiðar, en eftir mörg ár fóru bílaeigendur að furða sig á því, hvers vegna vegirnir voru áfram eins og þvottabretti um allt land. Þá kom í ljós, að enginn hluti þungaskattsins hafði verið notaður til viðhalds vega, 0%. Þungaskatturinn fór allur í heilbrigðisþjónustuna, því að 10 prósentin nægðu ekki.

Þetta var ekki vegna þess að heilbrigðisþjónustan var óhófleg dýr, í dag fer meira en það í spítalana og almannatryggingar, en á þeim árum hafði ríkið frekar litlar tekjur. Hér var stöðnun, einokun, haftastefna og spilling í stórum stíl, eiginlegt bann við erlendum fjárfestingum og engin atvinnuuppbygging, allt saman í boði Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Allt saman pólítískir hálfvitar sem tróðu alþýðuna niður í svaðið.

Nú virðist ríkið vera komið á sama ról, bifreiðagjaldið fer ekki í viðhald vega, heldur í eitthvað annað í bezta VG-stíl, sem hatar öll einkarekin farartæki (og einkarekin fyrirtæki). Alveg eins og hækkað veiðigjald átti að fjármagna algjöran óþarfa, sem hafði ekkert með sjávarútveg að gera.

Ætli það sé ekki góð hugmynd að breyta skattakerfinu þannig, að hver málaflokkur fái fyrirfram ákveðnar prósentur af skattinum, sem síðan verður breytt innbyrðis í hverjum fjárlögum. Eða ætli það endi eins og sérgreiðslurnar í framkvæmdasjóð aldraðra, sem aldraðir sjá aldrei neitt af?

Pétur D. (IP-tala skráð) 1.5.2014 kl. 19:44

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Best er auðvitað að borga jafnóðum fyrir sem flest, og fá sundurliðaða kvittun eftir afstaðin viðskipti. Það heldur kaupanda á varðbergi og gerir seljanda erfitt fyrir að rukka fyrir eitthvað sem aldrei var veitt.

Vegi mætti t.d. einkavæða, skatta á eldsneyti og bifreiðar (umfram skatta á allt annað) afnema og leyfa síðan ökumönnum og vegaeigendum eftir að finna góða leið til að eiga viðskipti sín á milli (áskrift, skynjarar, tollahlið, GPS-tækni, hátt verð á álagstímum og lágt á öðrum eða fast verðlag, osfrv.)

Þá yrði a.m.k. þetta vafstur hins opinbera með vegakerfið á enda.

Geir Ágústsson, 3.5.2014 kl. 20:00

3 identicon

Og heldurðu, að ríkið myndi þá lækka skattana? Ég tel svo ekki vera. Ríkisstjórnin myndi einfaldlega fá ráðrúm til að fá skatttekjur til einhvers annars. Og eins og þú veizt, að þá er ekkert eins varanlegt og tímabundnir skattar (Murphy's Law).

Notendagreiðslur eru auðvitað pólítískt þrætuepli eins og svo margt annað. Eitt af athyglisverðum hlutum í því sambandi er franska vegakerfið, sem er þríþætt: Annars vegar mjóu þjóðvegirnir og breiðu flutningsvegirnir sem er í ríkiseigu og ókeypis að aka á og hins vegar hraðbrautirnar sem voru lagðar af mismunandi einkaaðilum og þar sem eru vegatollar. Það athyglisverða er að þessi þrennu vegakerfi eru fléttuð saman milli allra stórborga, eins og sjá má á korti af Frakklandi. Þannig hafa ökumenn val milli annars vegar að greiða og komast fljótt á leiðarenda og hins vegar að greiða ekki og komast á leiðarenda síðar.

Ef teknir yrðu almennir vegatollar á Íslandi á öllum vegum, þá er þetta ekki hægt nema lagðar yrðu hraðbrautir samhliða þjóðvegunum (sem eru yfirleitt 1+1 eða 1+2 vegir), en ekki bara það að Til Allra Átta Ehf. malbiki ofan í holurnar á aðalþjóðvegunum og reisi tollskýli við öll vegamót. Ef ökumenn þurfa að fara að borga vegatoll á annað borð, þá munu þeir heimta almennilega vegi með fjórum akreinum. Kannski er það óraunhæft að ætla, að hægt sé að einkavæða allt vegakerfið, kannski vilja verktakar bara beztu bitana (Þjóðveg 1).

Ekki er heldur hægt að bera Ísland saman við Þýzkaland, þar sem umræðan um að setja vegatoll á allar hraðbrautirnar (sem hingað til hafa verið ókeypis) stafar af þeirri staðreynd, að ökumenn frá allri Evrópu hafa notað þýzku hraðbrautirnar sl. 70 ár og þær eru þannig orðnar mjög slitnar. A.m.k. í samanburði við hollenzku hraðbrautirnar, sem eru spegilsléttar vegna notkunarskorts. Spegilsléttar og slímugar eftir skógarsniglana sem þvera þær reglulega.

Pétur D. (IP-tala skráð) 3.5.2014 kl. 23:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband