Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Sigmundur góður!

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er öflugasti stjórnarandstöðuþingmaðurinn, sýnist mér. Hann talar tæpitungulaust, og eftir því er tekið, a.m.k. utan Alþingis.

Stundum er samt erfitt að skilja hvað hann á við, og upphaf fréttarinnar gefur dæmi um slíkt, en þar er vitnað í Sigmund:

Hrunið var afleiðing af misnotkun gallaðrar frjálshyggju en núna erum við stödd í sósíalistakreppu.

Þetta má skilja á ýmsa vegu. Það sem gerðist á Íslandi frá því Davíð Oddsson tók við og þar til Samfylkingin rifti stjórnarsáttmálanum við Geir H. Haarde var að Ísland tók upp regluverk Evrópusambandsins á ýmsum sviðum. Meiri var "frjálshyggjan" ekki að neinu ráði. Menn geta kallað Davíð Oddsson ýmsum nöfnum (sjálfur kalla ég hann sterkan leiðtoga sem fylgir hugsjónum sínum), en frjálshyggjumaður er hann varla. 

Hin "gallaða frjálshyggja" er því sennilega ágætt heiti á regluverki Evrópusambandsins, og vonandi á Sigmundur við það.

Um orðið "sósíalistakreppu" er allt gott að segja, enda réttnefni. Raunar byrjaði sósíalistakreppan miklu fyrr. Um leið og menn setja eitthvað í ríkisábyrgð (t.d. skuldbindingar banka), þá er það sama orðið sósíalískt, og óumflýjanleg kreppan sem fylgir slíkri ábyrgð verður því að skrifast á sósíalisma.

Ég vona að Sigmundur haldi uppteknum hætti og veiti stjórnarandstöðunni þann innblástur sem hún þarf til að gagnrýna þessa ríkisstjórn frá. Baklandið er til staðar meðal almennings. Núna vantar herskáa (í ofbeldislausum skilningi orðisins) stjórnarandstöðu inni á þingi , og þótt fyrr hefði verið!


mbl.is „Erum stödd í sósíalistakreppu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smygl á smjöri?

Ég bý í Danmörku og verð því greiðandi að hinum nýja skatti því ég vil hafa smjörið mitt feitt og pitsan á að vera löðrandi í osti og fitu úr safaríku kjötáleggi. 

Verslanir munu taka eitthvað af álagninu sinni á smjöri og osti og leggja á eitthvað annað, t.d. það sem er í tísku og selst vel sama hvað það kostar (t.d. lífrænt ræktað morgunkorn).

Smyglarar byrja líka að reikna núna til að athuga hvort smjör-smygl getur farið að borga sig. Ég efast samt um að svo verði, en hver veit.

Almennt er það svo viðurkennt í Danmörku að neyslustýring með skattkerfinu hefur engin áhrif, en sé engu að síður góð til að "senda skilaboð". Sem sagt, það borgar sig að öskra, þótt enginn sé að hlusta. Á endanum verða svona aukaskattar samt bara að tekjulind sem ríkið eyðir, t.d. í eitthvað allt annað en var upphaflega gert ráð fyrir. Ríkið verður háð tekjunum og heldur því í skattheimtuna, skattheimtunnar vegna.


mbl.is Danir leggja á fituskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SJS kominn í björgunarbátinn en skipið sekkur enn

Enn og aftur lofa ráðherrar vinstristjórnarinnar því að núna sé batnandi tíð framundan með fjárfestingum, störfum og niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs.

Margir kannast við söguna um Pétur og úlfinn. Trúir því einhver lengur þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar segja "Störf! Störf!"?

Í hvert einasta skipti sem ríkið hækkar skattprósentu eða leggur á nýjan skatt (annaðhvort á hagkerfið hér og nú, eða til framtíðar með skuldsetningu núna) þá veikist heilsa hagkerfisins. Núna hefur grimmasta skattastjórn Íslandssögunnar enn og aftur lofað skattahækkunum og aukinni skuldsetningu ríkissjóðs, og ástand hagkerfisins er miklu, miklu verra en haustið 2008 þegar tugir milljarða hurfu í bankahrun og úr skattstofnum ríkisins (eitthvað sem hefði bara átt að valda því að ríkið drægi útgjöld saman niður að tekjum úr óbreyttum eða lækkandi skatthlutföllum).

Ég endurtek: Ríkisstjórnin er að gera vont ástand verra, dag eftir dag.

Og þess vegna þarf hún að víkja, sem fyrst, og í staðinn þarf að koma einhver önnur ríkisstjórn, því engin önnur ríkisstjórn getur staðið sig verr en sú sem nú situr. 


mbl.is Hefðum að óbreyttu farið á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Játningar menntskælingsins

Ég fór óvart inn á Eyjan.is og sá þar frétt um "játningar menntskælings" og verð að segja að mér finnst þær játningar vera mjög athyglisverðar.

Þar segir meðal annars:

Albert Einstein sagði einu sinni að við ættum aldrei að leggja á minnið upplýsingar sem við höfum aðgengi að… og við höfum aðgengi að þessu öllu og hikum ekki við að nýta okkur hana, hvað mynduð þið gera ? Ritstuldur er orðinn landlægur í menntaskólum, jafnvel háskólum því að wikipedia veit allt nú þegar. Af hverju erum við að rembast við að koma þessum skólalærdómi í okkur þegar við höfum aðgengi að honum nú þegar? Ég styð grunnmenntun og allt það en svona án gríns, skólinn er farinn að hamla mér í því að læra, skyldulærdómur á borð við þýsku, jarðfræði, eðlisfræði og fleiri fög sem ég er þvingaður af skólakerfinu eru farin að hamla fróðleiksfýsi minni. [...]

Menntun á að hafa þann tilgang að þjálfa fólk upp svo það geti fundið sér verðmætaskapandi vinnu við eitthvað sem því finnst athyglisvert eða skemmtilegt eða getur sinnt án þess að drepast úr leiðindum. 

Menntakerfið er samt ekki hannað til að ná þessum tilgangi menntunar. Menntakerfið er að mörgu leyti hannað til að geyma fólk, halda því frá atvinnumarkaðinum eins lengi og hægt er til að fullorðið fólk þurfi ekki að keppa við það um störf.

Þeir sem hanna menntastefnu ríkisins hafa ákveðnar hugmyndir um hvað á að predika fyrir börnum og unglingum landsins, og hvað ekki. 

Skólar fá svo það vonlausa verkefni að mata nemendur með námsefni hins opinbera, og afraksturinn er hugsunarháttur eins og lýst er í pistil mennskælingsins. 

Menntaskólar eru í fæstum tilvikum í beinni samkeppni um nemendur (og enn síður eftir að hverfaskipulag þeirra var tekið upp aftur). Þeir þylja upp námsefnið, og stundum síast það inn og stundum ekki. Sumir menntaskólar (eins og MR) segja við nemendur sína að þeir séu í þjálfun fyrir háskólanám, og aðrir ekki. Háskólinn þarf svo að lækka sínar kröfur til að fá nemendur inn. Háskólanám er líka í minnkandi mæli þjálfun fyrir atvinnumarkaðinn - flest nám væri hægt að setja í flokk áhugamála - eitthvað sem mörgum finnst gaman að lesa og stúdera, en nýtist ekki einum né neinum.

Afraksturinn er svo auðvitað sá sem mennskælingurinn lýsir: Menn sofa í tímum, endurnýta vinnu annarra til að skrifa skýrslur og ritgerðir, og frumleg hugsun í námi snýst fyrst og fremst um frumlegar leiðir til að eyða sem minnstum tíma í námið.

Menntun er yfirleitt góð, en ekki allt námsefni er menntun.

Fyrirtæki þurfa oftar en ekki að eyða miklum tíma til að þjálfa nýútskrifaða starfsmenn sína þannig að þeir nýtist í eitthvað. Ég veit um mörg dæmi þess í því fyrirtæki þar sem ég starfa. Nýútskrifaðir verkfræðingar koma inn í fyrirtækið og kunna ekki á Excel eða Word; hafa fengið sína þjálfun í hugbúnaði sem er of dýr eða óaðgengilegur til að nokkurt fyrirtæki geti keypt hann. 

Kannski hristir grein mennskælingsins upp í einhverjum. Kannski getum við minnst þess tíma þar sem menntun var greidd af þeim sem fengu hana, og varð því að nýtast í eitthvað verðmætaskapandi. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband