Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

'Hagsmunir ríkisins' eru pólitískir hagsmunir ráðherra

Að auki er nú gert ráð fyrir að ráðuneytið hafi heimildir til að grípa inn í framkvæmd samnings ef hún er að fara úr böndum eða slíta samningssambandi ef það þjónar ekki hagsmunum ríkisins.

Meint "endurskoðun" menntamálaráðuneytisins hefur pólitískt markmið: Að ríkisvæða það sem er núna í höndum annarra en ríkisins. Það þjónar, að mati ráðherra, "hagsmunum ríkisins".

Til að ná þessu markmiði er eftirfarandi gert:

  • Skilyrði þess að ríkið geti rift samningum við einkaaðila eru víkkuð (þau lempuð).
  • Skilyrði þess að fá að gera samning við ríkið eru hert.
  • Eftirlit er aukið, og skýrsluvinna þeirra sem ríkið semur við sömuleiðis.
  • Yfirbygging er aukin með tilheyrandi kostnaði.
  • Minna og minna þarf til að fá áminningar, og sífellt færri áminningar hafa sífellt alvarlegri afleiðingar í för með sér.
  • Engir nýir samningar eru gerðir, og það útskýrt með ýmsum tæknirökum, sbr. eitthvað af ofannefndu.

Með því að boða stefnubreytingar sem þessar geta ráðherrar náð pólitískum markmiðum sínum í gegnum skrifræði og tæknilegt yfirbragð. Í þessu tilviki er pólitískt markmið að útrýma einkaframtaki í menntakerfinu. Því verður náð ef ráðherra gefst nægur tími til að hrinda áformum sínum í framkvæmd.


mbl.is Ráðuneyti endurskoðar samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Svört' vinna er nauðsynleg

Þau störf sem oftast eru unnin "svört" eru yfirleitt lágtekjustörf, en engu að síður störf sem þarf að vinna. Á veitingastaðnum þarf að vaska upp, en sú vinna skilar veitingastaðnum takmörkuðum tekjum (þetta er útgjaldaliður sem viðskiptavinurinn tekur litla afstöðu til þegar hann horfir á verðmiðann). Verksmiðjugólfið þarf að skúra. Bílinn þarf að þvo. Þessi störf kosta svo mikið í opinberum gjöldum og skattheimtu, að ef þau væru öll unnin "löglega", þá hyrfu þau alveg.

Eða hversu margir hafa efni á því að nýta sér aðstoð starfsmanns á bensínstöðinni til að dæla bensíni á bílinn? "Dælukallinn" er starfsheiti í útrýmingarhættu. Núna þarf eldra fólk og heilsutæpt að voga sér út í öllum veðrum til að koma bensíni á bílinn. Þjónustustigið hefur verið skattlagt í burtu.

"Svört" vinna er líka algeng þar sem skattbyrðin er óbærileg. Iðnaðarmenn af ýmsu tagi þyrftu að rukka óheyrilegar fjárhæðir fyrir störf sín ef þau væru öll unnin "löglega".

Svört vinna er nauðsynleg til að halda mörgum tannhjólum hagkerfisins í gangi. Átak gegn svartri vinnu í skattaumhverfinu á Íslandi í dag er átak gegn allri vinnu.

Miklu raunhæfara væri að gera einfaldlega ráð fyrir því að 10-30% af vinnu hagkerfisins fari fram sem "svört" vinna, a.m.k. þar til skattheimta hins opinbera hefur verið helminguð hið minnsta. 


mbl.is 12% í svartri vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillaga að tiltekt

Hérna er tillaga að raunverulegri tiltekt. Litlu plástrarnir sem núna er verið að klína hér og þar hafa lítil áhrif á heildarmyndina. Þeir eru líka byrjaðir að fara í taugarnar á þeim sem skulda ekki og sjá fram á að þurfa að borga fyrir skuldsetningu annarra, t.d. í gegnum skattkerfið.
mbl.is Yfir 60 milljarðar í niðurfærslu lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pýramídi á Skaldbreið gæti líka "skilað tekjum"

Háskóli Íslands skrifar nú skýrslu til að rökstyðja fyrirfram pantaða niðurstöðu. Enginn skal láta koma sér á óvart að menn reikni sig fram til stórkostlegs hagnaðar vegna Hörpu. Pantaðar niðurstöður eru jú eðli málsins samkvæmt fyrirfram gefnar.

Samkvæmt reikniaðferðum háskólamanna væri vel þess virði að athuga að steypa íslenskum skattgreiðendum í 100 milljarða skuld og nota hana til að reisa pýramída á Skjalbreið. Fjöldi erlendra gesta mundi koma til að virða það furðuverk fyrir sér, og þeir mundu eyða 30 þúsund á sólarhring, og vera að jafnaði í 5 daga á landinu. Rannsóknir á áhrif lífríkis í kringum Skjaldbreið gætu skilað miklum "tekjum" vegna komu erlendra fræðimanna til landsins, sem eyða að jafnaði 50 þúsund á sólarhring, og dvelja að jafnaði í 2 vikur yfir sumartímann og 1 viku á veturna.

Vitaskuld verða menn að passa sig á að reikna ekki með hinu ósýnilega tapi vegna pýramídans (frekar en tapsins sem eigendur annarra ráðstefnuaðstaða verða nú fyrir vegna ríkissamkeppninnar). Skuldsetning skattgreiðenda mundi vissulega halda þeim frá því að kaupa sér ný föt eða ferskara kjöt, og tekjur í fataverslunum og kjötbúðum minnka sem því nemur. En pýramídinn - hann er stórkostleg viðskiptahugmynd sem þurfti ríkisaðstoð til að koma á laggirnar!


mbl.is Harpa skilar yfir milljarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grein: Gjaldeyrishöftin eru pólitísk brella

Þessi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag:

Gjaldeyrishöftin eru pólitísk brella

Samfylkingin vill hafa krónuna í höftum til að láta evruna líta þeim mun betur út. Gjaldeyrishöftin eru pólitísk brella sem er ætlað að kvelja Íslendinga til stuðnings við evruna.

Efnahagsleg rök fyrir höftunum eru ekki til staðar, nema að því leyti að ef menn vilja flótta frá efnahagslegum veruleikanum, þá eru höftin gott tæki til þess. Íslendingar þurftu að aðlaga sig að breyttum kaupmætti krónunnar árið 2001 þegar fastgengisstefnunni var sleppt. Þá tók krónan dýfu, allt innflutt hækkaði í verði, allt útflutt varð að miklu fleiri krónum en áður, og eftir tvö eða þrjú misseri hafði rykið sest.

Íslenska krónan hefði að öllu jöfnu átt að fá að taka út svipaða aðlögun eftir hrunið. En hún fékk það ekki. Það sem í upphafi var af mörgum talin vera efnahagsleg en jafnframt tímabundin nauðsyn varð að varanlegri pólitískri brellu og fullnægingarmeðali fyrir þá sem tilbiðja opinbera haftastefnu og ríkismiðstýringu.

Samfylkingarráðherrar munu halda áfram að tala krónuna niður og evruna upp á meðan fjölmiðlamenn halda áfram að reka hljóðnema upp að þeim, og þeir munu berjast hart fyrir því að haftastefnunni verði haldið áfram, sama hvað tautar og raular. Seðlabanki Íslands hefur að öllum líkindum fengið þau pólitísku fyrirmæli að viðhalda höftunum til a.m.k. ársins 2013 þegar Samfylkingin verður í seinasta lagi kosin út í hafsauga. Öllum árum er róið að því að sópa Íslandi sem lengst í átt að Brussel á meðan.

Þetta sáu margir fyrir, og þetta er að rætast. Höftin eru brella, og hafa markmið sem koma heilsu hins íslenska hagkerfis ekkert við.


Lánað fyrir betra veðri?

Ef það er pólitískur ásetningur borgarstjórnar að þröngva fólki úr bílum og á reiðhjól, þá þarf eftirfarandi að gerast:

  • Tollahlið: Með því að hækka verð á vegaaðgengi enn meira (meira en sem nemur sköttum á bíla og bensín), þá hefur venjulegt fólk ekki lengur efni á því að nota vegina. Þetta myndi bitna verst á barnafjölskyldum, en myndi pottþétt skila "árangri".
  • Betra veður: Ef verðið á Íslandi væri betra, þá væru eflaust miklu fleiri til í að hjóla. Slabb, rigning, rok og kuldi fæla marga frá hjólreiðum, sérstaklega þá sem eru heilsutæpir. Betra veður myndi hjálpa mikið.
  • Lokun gatna: Bílar komast ekki á götur sem eru lokaðar. Umferð flyst kannski til, t.d. á götur sem liggja framhjá leikskólum (eins og raunin varð þegar Suðurgötunni var lokað), en er a.m.k. ekki þar sem vegatálmar meina bílum aðgengi.
  • Ódýrari hjól: Borgarstjórn Reykjavíkur ætti að biðja fjármálaráðherra um niðurfellingu á tollum og virðisaukaskatti á reiðhjólum og reiðhjólatengdum búnaði. Það sem er ódýrt selst betur en það sem er dýrt.
  • Færri reglur: Menn hafa talað um að setja á hjálmaskyldu á Íslandi. Reynslan frá öðrum ríkjum er sú að hjálmaskylda fæli fólk frá hjólreiðum. Miklu frekar væri að fækka reglum sem tengjast hjólreiðum, t.d. að leyfa hjólreiðar hvar sem er án tillits til umferðar eða gangandi vegfarenda.
  • Loka bílastæðum: Þar sem eru engin bílastæði, þar eru mun færri bílar. Að vísu drepur bílastæðaskortur verslun, sérstaklega þar sem er ekki hægt að fá lán til að kaupa betra veður, en þeir sem vilja komast á ákveðin svæði yrðu þá að gera það á hjóli eða fæti.

Það er sem sagt margt hægt að gera til þröngva fleirum á reiðhjól, t.d. barnafjölskyldum og heilsutæpum einstaklingum, svo ekki sé minnst á þá tekjulágu sem hafa varla efni á því að reka bíl í dag. 


mbl.is Fjórir milljarðar í hjólreiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Excel-æfingar eru ekki raunveruleikinn

Starfsmenn fjármálaráðuneytisins eru undir miklum þrýstingi að finna leiðir til að fjármagna gegndarlausa eyðslu ríkisins á peningum sem eru ekki til. Oft læra menn vel undir pressu, og mér sýnist sömu starfsmenn vera búnir að læra ýmislegt í Excel og prósentureikningi.

Núna er sem sagt búið að skipta út einni prósentu fyrir aðra og lægri og þannig hefur tekist að hækka skatta, í laumi. Ráðherra skattamála hefur því hækkað skatta á lágtekjufólk. Það er hin rétta fyrirsögn.

Nú er að bíða í um eitt ár til að "árangurinn" af hinni nýju skattahækkun. Má eiga von á því að fjármálaráðherra fari aftur í fjölmiðla og skammist yfir allri svörtu atvinnustarfseminni í landinu, og fjölgi starfsmönnum skattstjóra um heilan helling? Má eiga von á því að Seðlabanki Íslands gefi bráðum út skýrslu þar sem sést að kortanotkun fari minnkandi (sérstaklega hjá hárgreiðslustofum, verkstæðum og hjá veitingastöðum) og seðlanotkun fari vaxandi?

Má svo eiga von á því að tilkynnt verði að skattkerfið "skili ekki tekjum eins og áætlanir gerðu ráð fyrir", og því þurfi að hækka skatta enn meira til að fjármagna gegndarlausa eyðslu hins opinbera?

Déjà vu, einhver?


mbl.is Hækkun fjárhæðarmarka skattþrepa skilar ríkissjóði auknum tekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri í strætó = dýrari strætó?

Úr afkomuskýrslu Strætó bs. (feitletrun mín):

Horfur fyrir seinni helming ársins eru hins vegar því miður ekki jákvæðar. Það skýrist að stærstum hluta af hækkun eldsneytisverðs, meiri verðbólgu en vonir stóðu til og nýlegum kjarasamningum, sem höfðu meiri kostnaðarauka í för með sér en ráð var fyrir gert. Auk þess hefur fjölgun strætisvagnafarþega, eins og verið hefur undanfarna mánuði, haft í för með sér aukinn kostnað og mun að öllum líkindum hafa neikvæð áhrif á afkomu Strætó við núverandi aðstæður.

Ólíkt hefðbundnum rekstri, þá hefur fjölgun viðskiptavina neikvæð áhrif á afkomu Strætó bs., og skýrist sennilega af því að hver einasti farmiði er niðurgreiddur, þ.e. reksturinn tapar pening í hvert skipti sem farþegi stígur inn í strætisvagn.

Fjölgun farþega hefur því annaðhvort eða hvoru tveggja í för með sér:

  • Farmiðaverð þarf að hækka.
  • Hið opinbera þarf að kreista meira fé úr vösum skattgreiðenda til að láta enda ná saman.

Hvort tveggja hlýtur að vera vont mál fyrir bæði farþega og útsvarsgreiðendur.

Ef menn vilja virkilega draga úr umferð á háannatímum og smala fleirum í hópferðarbíla er lausnin sú að einkavæða vegakerfið, helst í heild sinni, en til vara bara þar sem umferð er mikil. Eigendur veganna munu þá rukka fyrir aðgengi að þeim, og stilla verðlagið þannig af að umferð verði jöfn og þannig að hámarksfjöldi bíla komist áleiðis á sem stystum tíma. Aðgengi að vegum á álagstímum yrði dýrt, og það myndi hvetja fólk til að ferðast um í hópferðarbílum, sem yrðu reknir fyrir ágóða.


mbl.is Strætófarþegum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tapaður málstaður? Alls ekki.

Harpa mun kosta íslenska skattgreiðendur tugi milljarða á næstu árum. Ofan á fyrirfram áætlaðan rekstrarkostnað bætist tap vegna vanáætlaðra útgjalda og ofáætlaðrar miðasölu. Harpan er illa smíðuð og til að halda henni opinni þarf sennilega að spýta stórkostlega í viðhaldssjóð hennar (ef slíkur sjóður er þá til).

Það er ennþá til mikils að vinna að reyna koma húsinu á sölu (og fá eitthvað upp í byggingarkostnaðinn), segja upp öllum samningum ríkis og Reykjavíkur við alla sem tengjast húsinu, og stöðva þannig útgjaldastrauminn sem óumflýjanlega er að verða til vegna hússins.  


mbl.is Sakar unga sjálfstæðismenn um væl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höftin eru pólitísk brella

Samfylkingin vill hafa krónuna í höftum til að láta evruna líta þeim mun betur út.

Íslendingar þurftu að aðlaga sig að breyttum kaupmætti krónunnar rétt eftir árið 2000 þegar fastgengisstefnunni var sleppt. Þá tók krónan dýfu, allt innflutt hækkaði í verði, allt útflutt varð að miklu fleiri krónum en áður, og eftir tvö eða þrjú misseri hafði rykið sest. 

Íslenska krónan hefði að öllu jöfnu átt að fá að taka út svipaða aðlögun eftir hrunið. En hún fékk það ekki. Það sem í upphafi var talin (af mörgum) vera efnahagsleg en jafnframt tímabundin nauðsyn varð svo að pólitískri brellu og varanlegu fullnægingarmeðal fyrir þá sem tilbiðja opinbera haftastefnu og ríkismiðstýringu. 

Samfylkingarráðherrar munu halda áfram að tala krónuna niður og evruna upp og berjast hart fyrir því að haftastefnunni verði haldið áfram, sama hvað tautar og raular. Seðlabanki Íslands hefur fengið þau pólitísku fyrirmæli að viðhalda höftunum til a.m.k. ársins 2013 þegar Samfylkingin verður í seinasta lagi kosin út í hafsauga. Öllum árum er róið að því að sópa Íslandi sem lengst í átt að Brussel á meðan.

Þetta sáu margir fyrir, og þetta er að rætast.


mbl.is Raunsætt að horfa á krónu í höftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband