Danskir vinstrimenn eru óðir

Þeir sem á einn eða annan hátt eru hrifnir af gríðarlegum ríkisafskiptum eru fámennur en hávær hópur í Danmörku. Götubardagar Ungdomshuset-fólksins - hinna dæmigerðu sósíalista - eru frægir um alla Evrópu. Þjóðernissósíalistarnir eru engu skárri - og litlu síður herskárri! Munurinn liggur samt í almenningsálitinu. Þeir sem vilja sósíalískt ríki í skilningi Marx og Lenín njóta samúðar. Þeir sem vilja sósíalískt ríki í anda Hitlers og Mussolini eru fyrirlitnir. 

Ég skil þessa mismunun að vissu leyti. Þjóðernissósíalistarnir eru að mörgu leyti ósveigjanlegri og tvímælalaust fordómafyllri. En hvað eðlið og kjarna málsins varðar ættu þessir tveir hópar sósíalista að hljóta sömu meðhöndlun í augum almennings. Boðskapurinn er annar, en bara á yfirborðinu. Annar hópurinn vill afnema eignarrétt og ríkidæmi allra, og standa uppi með fámenna klíku ríkra og spilltra embættismanna. Hinn hópurinn vill afnema lífsviðurværi ákveðinna hópa og tryggja þannig ríkidæmi réttra hópa (þeirra "hreinu"), undir valdboði eins Foringja.  

Danir eru duglegir að fyrirlíta hið frjálsa fyrirkomulag á skrifstofutímum. Að þeim loknum eru þeir samt meira en lítið til í að njóta ávaxta þess.


mbl.is Danskur nýnasistaleiðtogi í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til þess að koma því á hreint þá eru langfæstir þeirra sem staðið hafa að götubardögum og mótmælum vegna ungdomshússins ríkissinnar. fæstir vilja yfir höfuð ríki sem gefur embættismönnum möguleika á að verða spilltir. þeir eru anarkistar. nýnasistar eru hins vegar fylgjandi alsherjarríki sem hampar „hreinum“ kynþáttum.

Sindri Freyr (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 15:34

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er ekki hægt að orða stefnu Sjálfstæðisflokksins betur í fáum orðum en pistilhöfundur gerir: ,,Hinn hópurinn (Sjálfstæðisflokksmenn, innsk JR) vill afnema lífsviðuæri ákveðinna hópa og tryggja þannig ríkidæmi réttra hópa (þeirra ,,réttu), undir valdboði eins Foringja. 

Jóhannes Ragnarsson, 19.8.2007 kl. 15:34

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Sindri,

Þú túlkun á boðskap meintra anarkista er sérstök í ljósi þess að það eru stjórnmálaflokkarnir lengst til vinstri í dönskum stjórnmálum sem sýna málstað Ungdomshuset-fólksins mestan skilning, og þeir flokkar eru klassískir sósíalískir vinstriflokkar.

Jóhannes,

Það getur vel verið að einkavæðing og afnám ríkisafskipta hafi ekki skaffað þér neinn pening í vasann, og þú látir það fara í taugarnar á þér, en einkavæðing þýðir yfirleitt að stjórnmálaflokkarnir koma sér út úr rekstri og afskiptum, en ekki inn í. 

Geir Ágústsson, 19.8.2007 kl. 15:41

4 Smámynd: Jens Guð

  Þetta er ansi gott grín hjá fullorðnum manni;  að nasistar séu vinstrisinnaðir jafnaðarmenn!   Mega ekkert aumt sjá og berjast gegn hverskonar mismunun fólks,  hvort sem er á grundvelli kynþáttar,  litarhátts,  trúar,  kynhneigðar eða kyns!  Hehehe!  Þú ert nú meiri spaugarinn!

Jens Guð, 19.8.2007 kl. 15:58

5 Smámynd: Geir Ágústsson

"Við erum sósíalistar, óvinir, svarnir óvinir þess kapitalíska hagkerfis sem við lýði er og felur í sér arðrán gagnvart þeim sem hafa minnst á milli handanna, óréttlæti í launamálum, siðlaust mat á einstaklingum á grundvelli ríkidæmis í stað ábyrgðar og afreka, og við erum staðráðnir í því að afnema þetta kerfi."

Hver sagði þetta í ræðu 1. maí 1927?

Svarið er að finna hérna

Geir Ágústsson, 19.8.2007 kl. 16:26

6 Smámynd: Jens Guð

  Snjallt að vitna í áróðurskónginn Hitler.  Þú sem sagt kaupir áróðurinn eins og ekkert sé.  Hehehe!  Sko,  Hitler kallinn.  Maður hefur stundum undrast að þessi brjálæðingur skuli hafa platað þýsku þjóðina upp úr skónum.  En fyrst að fullorðinn Íslendingur árið 2007 sér ekki í gegnum trix kallsins þá verður þetta skiljanlegra með Þjóðverjana á fjórða áratug síðustu aldar.  Hehehe!   Þið Hitler eruð nokkuð góðir saman,  grínararnir. 

Jens Guð, 19.8.2007 kl. 16:37

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Fullt af "hehe" er því miður ekki nóg til að kljúfa boðskap þjóðernissósíalismans frá boðskap sósíalismans. Ég bíð spenntur eftir annarri nálgun á þá klofningstilraun.

Geir Ágústsson, 19.8.2007 kl. 16:43

8 Smámynd: Jens Guð

  Þú hlýtur að vera í Sjálfstæðisflokknum.  Þar hafa með óreglulegu millibili orðið til lítil klofningsbrot sem stofna og/eða reyna að stofna nasistaflokk.  Bestum árangri náðu þeir á fjórða áratug síðustu aldar.  Buðu meira að segja fram sameiginlegan lista með stóra bróður,  Sjálfstæðisflokknum.

  Þegar nasistaflokkurinn var lagður niður gekk hann í heilu lagi aftur inn í móðurflokkinn,  Sjálfstæðisflokkinn.  Enda ágreiningur enginn umfram þessa venjulegu óþolinmæði ungliða til samanburðar við íhaldssemi hinna eldri. 

  Á sjöunda áratugnum urðu ungir Sjálfstæðisflokksmenn aftur órólegir og endurreistu nasistaflokkinn.  Þar fór bróðir Geirs Haarde fremstur í flokki.  En þeir rötuðu að sjálfsögðu síðar aftur heim til móðurflokksins,  Sjálfstæðisflokksins.

  Á áttunda áratugnum gerðu ungliðar Sjálfstæðisflokksins enn eina tilraun til að stofna nasistaflokk.  Þeir gáfu út blað og auglýstu stofnun flokksins.  Svörun varð svo dræm að ekkert varð úr áformum.  Þannig að aftur var skriðið heim í hlýjan faðm móðurflokksins,  Sjálfstæðisflokksins.

  Þetta eru helstu klofningstilraunir þjóðernissósíalista.  Hehehe! 

  Ertu ekki örugglega viss um að Vinstri flokkurinn í Danmörku sé vinstri flokkur?   Ég segi bara si svona,  fyrst þú ert í þessu grallarastuði,  fullorðinn maðurinn.  Og það á sunnudegi.   

Jens Guð, 19.8.2007 kl. 17:17

9 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Svo má bæta því við að Pétur Þríhross sagðist vera sósíalisti þegar hann var í góðu stuði !!!

Jóhannes Ragnarsson, 19.8.2007 kl. 17:32

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Jens,

Það sem þú segir hefur ekki komið fram í einu né neinu sem ég hef lesið í Íslandssögu 20. aldar, en það er í sjálfu sér engin ástæða til að vantreysta orðum þínum. Ég geri það samt.

Þeir sem finna rými fyrir þjóðernissósíalisma innan lítið breyttrar málefnaskrár Sjálfstæðisflokksins frá stofnun eru svo sannarlega með fjörugt ímyndunarafl. En kannski það sé nóg til að réttlæta skráningu í flokkinn og kalla sig svo klofningsmann frá honum.

Og nei, ég er ekki meðlimur Sjálfstæðisflokksins. Í mínum huga er hann bara það illskársta af mörgu illu þegar kemur að kosningum. Að minnsta kosti eini flokkurinn sem mætir loforðum um einkavæðingar og skattalækkanir með aðgerðum. Sá eini.

Geir Ágústsson, 19.8.2007 kl. 17:52

11 Smámynd: Jens Guð

  Það hefði komið verulega á óvart ef þú kannaðist við sögu íslenskra nasista.  Það hefði stangast á við brandarann um að nasistar séu jafnaðarmenn.  -  Enda er stöðugt verið að rifja upp í blöðum og bókum þennan órólega hluta Sjálfstæðisflokksins.  Meðal annars er til yfirgripsmikil bók sem heitir Íslenskir nasistar.  Fyrr á þessu ári (fremur en í fyrra) var tímaritið Mannlíf með ítarlega upprifjun á því þegar ungir Sjálfstæðisflokksmenn endurreistu nasistaflokkinn á sjöunda áratugnum.  Sú upprifjun vakti upp umræðu í fleiri fjölmiðlum.

  Regla númer 1 í skoðun á stjórnmálaflokkum:  Stefnuskrár,  málefnaskrár og stjórnarskrár eru einhverjir ómarktækustu áróðurpésar sem til eru.  

  Stjórnmálafræðingar þreytast seint á að benda á þetta.  Ómar Ragnarsson kynnti sér svona plögg þegar hann nam stjórnmálafræði (hann lauk ekki prófi).  Hann segir stjórnarskrá Sovétríkjanna hafa verið þá fallegustu í heimi þrátt fyrir að Sovétríkin hafi verið eitt versta þjóðfélag þess tíma 

  Maður mér nátengdur,  sem er dáinn fyrir löngu,  var í íslenska nasistaflokknum á fjórða áratugnum.  Þeir hittust alltaf reglulega nokkrir félagarnir.  Rifjuðu upp gamla tíma og hörmuðu klaufaskapinn í Hitler fyrir að hafa farið of bratt í hlutina.  Þessir menn voru allir í Sjálfstæðisflokknum þó að þeim þætti hann "hálfgerður kommaflokkur".  En sögðu eins og þú:  "Hann er það illskársta af mörgu illu."

  Við í Frjálslynda flokknum myndum svo gott sem afnema beina skatta og lækka óbeina skatta langt umfram það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert.  Okkur þykir Sjálfstæðisflokkurinn draga lappirnar um of í einkavæðingaferlinu.  Nasistaarmur Sjálfstæðisflokksins stendur kannski á bremsunum?

  Nei,  ég segi nú bara si svona.  Íslenskir nasistar eru fámennir í dag og láta fara lítið fyrir sér.  Enda þjóðfélagið og fjölmiðlar með neikvæða afstöðu til nasisma.  Öldin var önnur þegar málgögn Sjálfstæðisflokksins skrifuðu aldrei styggðaryrði né neitt neikvætt um nasista fyrir stríð.  Formaður flokksins kallaði nasistaflokkinn "unga menn með hreinar hugsanir".  Spáði því líka sem varð raunin;  að þeir myndu skila sér aftur í Sjálfstæðisflokkinn.

  Þegar vinstri menn fóru að skrifa illa um nasista brugðust Sjálfstæðisflokksmenn hinir verstu við.  Þeir meira að segja kærðu Þórberg Þórðarson þegar hann gagnrýndi Hitler.  Og fengu hann dæmdan fyrir "níðskrif um þjóðhöfðingja vinaþjóðar".   

Jens Guð, 19.8.2007 kl. 20:18

12 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

"Okkur þykir Sjálfstæðisflokkurinn draga lappirnar um of í einkavæðingaferlinu"

Hmmm, eftirfarandi frétt fengin af vef x-f

ÓTÍMABÆR EINKAVÆÐING Í ORKUGEIRANUM 

9. júlí 2007.

Þingflokkur Frjálslynda flokksins  leggst gegn áformum  um einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja að svo stöddu. Skorar þingflokkurinn  á ríkisstjórnina að hætta við sölu á hlut ríkisins og sveitarfélögin að eiga áfram sinn hlut.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 19.8.2007 kl. 20:41

13 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður,  þarna tókstu mig á hælkrók.    Ég sem ætlaði að plata Geir til að kjósa okkur í FF í næstu kosningum.  Nú ertu búinn að skemma það. 

  Reyndar er það svo í stórum flokki að viðhorf í einsökum málum skarast.  Við í FF sameinumst í andstöðu við kvótakerfið.  Það er ekki algjör samhugur um mörg önnur mál.  Ég vil einkavæða Fiskistofu og orkuveitur.  Grétar Mar er svo innvílaður í málefni Hitaveitu Suðurnesja að hann fær að ráða afstöðu þingflokksins í því dæmi. 

Jens Guð, 19.8.2007 kl. 22:15

14 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Jáhá, sama skörun og getur orðið í sjálfstæðisflokknum (sbr nasistar í flokknum), og öllum öðrum flokkum. Þetta auðvitað veldur ruglingi, mótsögnum og flækjum. Það er nú ástæða fyrir því að ég og Geir erum frjálshyggjumenn. Það verður alltaf sorgleg útkoma þegar löndum er stjórnað af geðklofa, villuráfandi flokkum þegar alltaf er verið að reyna að sætta saman einkahagsmuni allra. Þetta leysir frjálshyggjan alveg.

En annars lýst mér ágætlega á FF í ýmsum málum, og illa í öðrum (t.d þegar þið stöðvuðuð stofnfrumufrumvarpið og svo laug Kristinn H. Gunnarsson um það í Kastljósinu). Sama um x-D, kemst til dæmis ekki yfir það að þeir dragi svona lappirnar við að aðskilja ríki og kirkju. Þetta var nú utan efnisins, en smá hugleiðing  

Sigurður Karl Lúðvíksson, 19.8.2007 kl. 23:28

15 Smámynd: AK-72

Aðeins að bæta smátteri við fróðleikinn um nasista og hægri mennsku hér á Íslandi sem og annars staðar þarerð bloggari hefur greinlega ekki mikla þekkingu á sögunni.

Fyrst varðandi Dolla. Bloggarhöfurndur notar þarna brot úr áróðursræðu Hitlers þar sem hann var að fá fólk til fylgis við sig og beitti öllum orðum til þess. Eftir valdatöku þá voru þessi orð hjómin ein því Hitler rauk af stað í það að berja á kommúnistum, gyðinga-Bolsevíkunum, og verkalýðsfélögunum sem voru auðvitað allt sama óvinir fyrirtækja þar að auki. Hann ýtti undir uppgang fyrirtækja og gerði miklar efnahagsumbætur, gott ef hann lækkaði ekki skatta líka ásamt því að skaffa fyrirtækjunum ódýrt vinnuafl seinna meir í formi fanga og óæðri kynþátta. Ýmsar ræður má einnig finna frá þessum tíma þar sem Hitler lofar drifkraft einstaklingsins og markaðrins ásamt lofi um frelsi fyrirtækja o.sv.frv. Man sérstaklega eftir einni ræðu sem ég las í bók Albert Speers, Inside the Third Reich, þar sem Dolli stappar stálinu í þýska forstjóra 44(eða 43) og hefði mátt galdra fram úr hvaða frjálshyggjuriti sem er.

Allavega tóku hægri menn hér og þar um heiminn Hitler í guðaölu út af efnahagsaðgerðum hans sem og aðgerðum hans gegn kommúnistum og verkalýðsfélögum að ógleymdum þessum gyðingum sem voru bévítans kommar, Karl Marx var jú gyðingur og því hlaut kommúnisimi að vera alheimssamsæri gyðinga. Í Bandaríkjunum voru sérstaklega Repúblikanar hrifnir af Hitler og töldu hann mikinn leiðtoga í baráttunni gegn Bolsevikkum og mærðu hann mikið. Þeir sem mærðu hann sem mest, börðust líka hart gegn því að BNA færi í stríðið en þögnuðu þó þegar Pearl Harbour var bombuð og Hitler lýsti striði við BNA, sumir fyrr samt við samkomulagið við Sovét 1939. Það sem er kannski áhugavert við þessa menn, er að margir af þeim sömu höfðu mikla aðdáun á McCarthy og þetta er nú einnig flokkurinn sem hatar heiminn svo mikið að hann kom Bush-stjórninni til valda. Smá útúrdúr, berið saman tilvitnainir í Hitler og Bush, stundum skemmtilega eins orðalag um guð, föðurland og slíkt(klassískur stríðsáróður). Sumir hægri öfgaflokkar í dag eru einnig sprottnir upp úr rótum eldri nasistaflokka og nægir að benda á stjórnmálaflokk í Belgíu sem berst mikið gegn innflytjendum þar, skiptu bara út gyðingum fyrir múslima vegna skiljanlegra óvinsælda þar sem fólk er nú ekki enn búið að gleyma Helförinni. 

Hér heima þá voru eins og Jens benti á, hægrimenn afskaplega hrifnir af honum og leyndu því ekkert. Samkvæmt grein sem ég las einhvers staðar tóku Mogginn og Vísir undir þetta af fullum krafti og töldu aðgerðir Hitlers gegn gyðingum réttmætar og skiljanlegar því þetta var óþjóðalýður sem alls staðar væri til vandræða og allt týnt til. Hef nú ekki lesið Íslenska nasista en þó var þokkalegur kafli um þetta í Óvinir ríkisins þar sem rennt var í gegnum sögu þeirra. Sérstaklega er það áhugavert þar að einn af þessum íslensku nasistum varð síðar meir lögreglustjórinn í Reykjavík og ötull í hlerunarmálum fyrir Bjarna Benediktsson.  Einnig sýnist mér nú að Jens hafii tæpt ágætlega á þessu og ætti ekki að vera mikið mál að nálgast bækur um þetta, Öldin okkar kannski?

Svo í lokin þá rifjaðist upp fyrir mér það að 1980 og eitthvað, þá var sýnd heimildarmynd í bíó hér, man ekki hvað hún heitir en þar var einmitt minnst á tengsl Sjálfstæðismanna við nasista. Mig minnir að blessaðir Sjallarnir hafi orðið eitthvað súrir og viljað helst láta banna hana og voru argir yfir því að einvher skuli tala um fortíð þeirra, það má viíst ekki.

AK-72, 20.8.2007 kl. 00:00

16 Smámynd: Jens Guð

  AK-72,  Sigurjón lögregluforingi og hlerari var einmitt einn af þessum gömlu nasistum í Sjálfstæðisflokknum sem hittust reglulega.  Blessaður kallinn kippti mér nú eitt sinn úr fangelsi vegna vinskapar við flokksfélaga sinn sem áður er nefndur.  Mér var hlýtt til hans eftir það. 

  Sigurður,  ég var ósáttur við Magnús flokksbróðir minn fyrir að bregða fæti fyrir stofnfrumufrumvarpið.  Fyrir það fékk hann gott klapp á bakið frá mörgum Sjálfstæðisflokksmanninum.  Ekki síst Jóni Vali,  blessuðum,  sem fer mikinn í bloggheimum og víðar.

  Einhugur ríkir hjá okkur í FF að einkavæða þetta risabákn sem ríkiskirkjan er.  Ég bara skil ekki upp niður í því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um ríkiskirkjuna.  

   Til gamans getur verið skemmtilegt að máta sig við www. politicalcompass.org.  Í því prófi reyndist ég vinstra megin við miðju og nánast neðst á litrófinu yfir frjálslyndi.  Að óreyndu hélt ég að ég væri aðeins nær miðjunni.  En á það ber að líta að íslensk stjórnmál,  líka Sjálfstæðisflokkurinn,  eru til vinstri í samanburði við pólitík nágrannalanda. 

Jens Guð, 20.8.2007 kl. 00:38

17 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Ég lenti vel til hægri og alveg neðst á því ágæta prófi. Þetta er mjög athyglivert próf. Allir sem ég þekki hafa lent vel fyrir neðan ás, í frjálslynda hlutanum, sumir vinstra og aðrir hægra. Svo þegar maður skoðar ýmsar ríkistjórnir í Evrópu kemur í ljós að allar með tölu (að mig minnir) lenda ofan áss, fasistamegin, og til hægri. Svo hafa þeir félagar einnig tekið saman hvernig einstaka stjórnir hafa breyst með tímanum, og trendið er meira til hægri og upp. Ég held að þetta sé bara eðli ríkisvaldsins, það tekur sér meira vald (upp) og vill græða meiri pening (hægri).

Sigurður Karl Lúðvíksson, 20.8.2007 kl. 01:42

18 Smámynd: Jens Guð

  Ég fagna öllum sem lenda sem neðst  á skala í átt að  frjálslyndi.  Það er mín pólitík. Að vísu set ég fyrirvara við orðinu fasisma.  Vil frekar nota orðið stjórnlyndi ofan frá.  En samt.  Stjórnlyndi,  miðstýring ofan frá, er í humátt að fasisma. 

  Það er áreiðanlega rétt hjá þér,  Sigurður,  að ríkisvald hefur tilhneigingu til að fikra sig upp á við.  Þess vegna er svo gott að kollvarpa ráðandi öflum sem oftast.  Þetta á líka við um smærri einingar eins og borgarstjórn.  Og bæjarstjórnir.   

Jens Guð, 20.8.2007 kl. 02:01

19 Smámynd: Geir Ágústsson

Sem betur fer eru draugar nasistanna nú nærri því með öllu afhjúpaðir og stuðningur við stjórn Þriðja ríkisins bundinn við örfáa reiða unga hvíta menn á Vesturlöndum.

Sem betur fer eru draugar Ráðstjórnarríkjanna nú að dúkka upp á yfirborðið hver af öðrum (meira og meira eftir því sem fleiri leyniskjöl koma upp á yfirborðið) til viðbótar við þá sem hafa verið öllum kunnugir í áraraðir, en því miður eru stuðningsmenn sósíalismans enn til í stórum stíl - fólk sem heldur virkilega að sósíalismi þýði eitthvað annað en alræði og algjör kúgun ríkisvaldsins.

Þess má geta að það er vel hægt að stjórna hagkerfinu eins og frjálshyggjumaður en reyna að hafa hemil á þegunum eins og fasisti/kommúnisti. Pinochet gerði það í Chile, en var á endanum látinn fara frá völdum. Chile er nú eitt af fáum sæmilega velmegandi löndum í Mið- og Suður-Ameríku, og fátækt svo að segja horfin þar, m.a. þökk sé nokkrum af aðgerðum Pinochet á sínum tíma. Meira um Pino hér. Meira um Chile hér.

Geir Ágústsson, 20.8.2007 kl. 11:33

20 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Ég er með aðra sýn á þetta. Ég lít frekar á frjálshyggjumann sem bæði markaðshyggjumann og "anti-fasista", verður að vera bæði. Að mínu mati er Pinochet markaðshyggjumaður, en ekki frjálshyggjumaður þar sem hann uppfyllir ekki síðari kröfuna. Þetta er kannski leikur að orðum, en mér finnst þetta mun gagnlegri skilgreining.

Já það er skemmtilegt að benda vinstrimönnum á þá vin sem hefur myndast í eyðimörk fátæktar í Suður-Ameríku sökum innleiðingar markaðshyggjunnar í Chile. Engum sönnum frjálshyggjumanni hugnast þó þær aðferðir samanber kröfuna um algert frelsi frá ofbeldi. Það kannski kristallast í því að maður myndi sennilega aldrei rekast á neinn frjálshyggjumann í Pinochet-bolum, en það er dagleg sýn að sjá unga vinstrimenn flagga Che Guevara á bringunni með stolti. Sýnir herskátt hugarfar vinstristefnunnar.

Þá finnst mér alltaf dáldið mótsagnarkennt hjá vinstrimönnum að segjast vera frjálslyndir. Margir vinstrimenn kalla sig anti-ríkistjórn, þ.e vilja hafa ríkistjórnir litlar og valdalausar og persónufrelsið mikið, en samt stórt og öflugt félagsmálakerfi, stjórnað af sterku ríkisbatterý. Þetta fer bara ekki saman að mínu mati. 

Sigurður Karl Lúðvíksson, 20.8.2007 kl. 18:16

21 identicon

Merkilegt að til sé fólk sem telur nazisma eiga skylt við hægristefnu. Það er öllum ljóst sem lesa sögu og hafa grunnþekkingu í hagfræði og stjórnmálastefnum að nazismi er ein ákveðin stefna jafnaðarmensku. 

Hitler var fyrst og fremst tækifæra sinni og beitti réttilega mörgum aðferðum til að ná til ólíkra hópa en eitt var hann og það er hægrimaður. Nazismi er mein af fasisma sem byggir á sterku ríki sem hefur töki á einstaklingum og  mikil inngrip í markaði m.ö.o. jafnaðarmennska. Það má til gamans geta að FF er líklega næst öllum flokkum á Íslandi að vera nasistaflokkur.

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 22:25

22 Smámynd: Jens Guð

  Pinochet á sér hóp aðdáanda sem elska hann og dýrka.  Ég hef grun um að það séu frjálshyggjumenn.  Veit það þó ekki.  Og ekki eru þeir í Pinochet-bolum eða bolum af öðru tagi heldur dýrum jakkafötum. 

  Ofbeldið sem Pinochet var ábyrgur fyrir var ekki svo mikill fórnarkostnaður miðað við þá Paradís sem hann skapaði.  Rétt um 30.000 manns fengu að gista pyntingabúðirnar.  Sumir þeirra sluppu við ævilanga örkuml af völdum pyntinganna.  Rétt um 3000 höfðu ekki heilsu í svona trakteringar og hrukku upp af.  Hefðu sennilega dáið úr einhverju öðru fyrr eða seinna.  Önnur 30.000 náðu að flýja land áður en pyntingameistararnir náðu þeim.

  Það er til vinstri hugmyndafræði sem kallast anarkismi.  Það er líka til hægri anarkismi.  Ég hef ekki kynnt mér hvernig hugmyndafræðin nákvæmlega er en ég tel mig hafa rekist á að vinstri anarkismi geri ráð fyrir félagsmálakerfi án aðkomu ríkis eða annarra opinberra aðila.  Siggi Pönk gefur út blöð um þetta og ég held að hann hafi líka annað hvort skrifað bók sjálfur eða þýtt um þetta.

    Til gamans má geta að samkvæmt uppskrift Leníns,  sem hann útlistaði í bók,  þá átti ríkisvald og miðstýring að vera í lágmarki.  Þess í stað áttu ótal svokölluð fulltrúaráð (sovét) að sjá um gang mála í hverri sveit eða borg fyrir sig.  Strax í upphafi byltingarinnar í Rússlandi snérist þetta alveg í andstæðu uppskriftarinnar.  Enda líklegt að þetta hafi verið áróðursbragð hjá Lenín en ekki eitthvað sem vakti fyrir honum í raun.  

Jens Guð, 20.8.2007 kl. 22:35

23 Smámynd: Jens Guð

  Vilhjálmur,  þú telur nasista vera jafnaðarhugsjónamenn.  Allir eigi að vera jafnir,  óháð kynþætti,  húðlit,  trúarbrögðum,  kyni,  líkamlegu og andlegu heilbrigði. 

  Þetta hljómar ekki illa.  Ekki heldur að við í FF komist næst því á Íslandi að vera jafnaðarhugsjónamenn.  

Jens Guð, 21.8.2007 kl. 00:18

24 identicon

Jens þú er fljótur að setja andstæðinga þína í pólitík í flokk með Pinochet og Hitler en neitar að sjá líkingu við eiginn flokk. Pinochet var ekki frjálshyggjumaður heldur harðstjóri, hann kom á ýmsum efnahagsbótum en stjórn hans var ekkert í anda frjálshyggju. Hitler var rasisti en um leið fasisti, lík hugtök en ekki það sama. FF getur talað fyrir jöfnuði, ekki jafnrétti helur jöfnuði, en um leið verið rasistaflokkur. Málflutningur flokksins fór ekki fram hjá neinum sem fylgist með pólitík og þið settuð ykkur rækilega á kortið með útlendingapólitíkinni ykkar.

Ég legg til að þú kynnir þér hugmyndafræði  bakvið stjórnmálastefnur áður en þú ferð að tjá þig um þær. Kommúnismi Lenísn snérist til dæmis fyrst og fremst um afnám eignaréttar og hvað er það annað en ofur ríkisvald? 

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 21.8.2007 kl. 02:27

25 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Það er ekki hægt að kalla sig frjálshyggjumann, að mínu mati, og aðhyllast einræðisstjórn. Þeir sem hylla Pinochet eru því ekki frjálshyggjumenn heldur markaðshyggjumenn með einræðisáherslur. Veit ekki hvað á að kalla það, kannski Pinochetista.

Og það er alls ekki svo að nokkur hér afsakar dauða Chilebúa með góðu efnahagsástandi núna, alls ekki. Einfaldlega verið að benda á kosti frjálshyggjunnar og ekkert annað.

Ég bara skil ekki hvað vinstri anarkismi er. Vinstri er samkvæmt öllum þeim skilgreiningum sem við notum hér á landi, stefna sem aðhyllist stórt og öflugt ríkisvald. Hvernig er hægt að segja þá að til sé vinstri anarkismi.  Þessi tvö orð vinstri og anarkismi, hafa öfuga þýðingu, eins og að segja að einhver sé stór lítill. Ef einhverjir sjálfskipaðir vinstrimenn hafa sagt að þeir vilji félagsmálakerfi án aðkomu ríkisins, þarf að benda þeim pent á að þeir séu frjálshyggjumenn (að því uppfylltu að þeir uppfylli öll hin skilyrðin).

Veit ekki alveg með Sigga Pönk, en hann virðist vera anarkisti sem vill að ríkið hafi einhverskonar hemil á einkafyrirtækjum. Er það hægt?

Sigurður Karl Lúðvíksson, 21.8.2007 kl. 17:06

26 Smámynd: Jens Guð

  Vilhjálmur,  ég set engan í flokk með Pinochet eða Hitler.  Hinsvegar setja aðdáendur Pinochets og Hitlers sig sjálfkrafa í flokk með pólitískum andstæðingum mínum. 

   Hvaða kynþætti ofsækir FF?  Ásakanir um að FF sé rasistaflokkur er bara glamur án innistæðu. 

  Það sem ég átti við með að Lenin hafi mælt fyrir áhrifalitlu ríkisvaldi er að valdið átti að liggja hjá hinum dreifðu ráðum (sovétum).  Það kemur afnámi eignaréttar ekki við.  Ég geri samt enga athugasemd við það að Lenin hafi barist fyrir afnámi eignarréttar. 

  Ég las nú einhvertímann bók um Lenínismann.  Ég hef lesið margar bækur um pólitík og fylgist vel með stjórnmálum.  Fæddist og ólst upp á mjög pólitísku heimili.  Faðir minn var formaður Sjálfstæðisflokks Skagafjarðar,  fulltrúi flokksins í sveitastjórn og oddviti áratugum saman.  Um fátt var meira rætt á heimilinu en pólitík.  Pabbi átti stórt og mikið bókasafn með góðu úrvali af pólitískum bókum.

  Ég er á sextugsaldri og hef alla tíð lesið mikið um pólitík og verið virkur í pólitík.  Mér hefur alltaf þótt skemmtilegra að ræða við fólk sem aðhyllist aðra pólitíska póla en ég.   

  Minn skilningur á pólitískri hugmyndafræði og stjórnmálastefnum fara alveg saman við það sem er almennt viðurkennt í stjórnmálaumræðu,  hvort sem er í heimspressunni eða hér heima.       

Jens Guð, 21.8.2007 kl. 21:10

27 Smámynd: Jens Guð

   Sigurður,  ég byrjaði að lesa bók um anarkisma fyrir margt löngu.  En komst aldrei langt í þeim lestri.  Mér virtist uppskriftin vera í óraunhæfum óskhyggjustíl um að fólk væri svo gott að ef ríkisbákn hyrfi þá myndu allir hjálpast að.  Ég get ekki svarað fyrir nafna þinn.  Með þeim fyrirvara að ég þekki ekki hugmyndafræði hans þá held ég samt að hún gangi út á ekkert ríkisvald.  Hvorki til að hafa hemil á fyrirtækjum eða öðru. 

  Hann hlýtur að vera með bloggsíðu.  Ég þarf að leita hana uppi,  svo ég sé ekki að gera honum upp skoðanir.    

Jens Guð, 21.8.2007 kl. 21:19

28 Smámynd: Geir Ágústsson

Þeir sem vilja kynna sér hinn svo mjög ágæta anarkó-kapítalisma ("hægri anarkisma") ættu að drífa sig á mises.org og leita að mönnum eins og Rothbard, Walter Block, Robert Murphy og Hans-Herman Hoppe.

Dæmi:

The Idea of a Private Law Society

But Wouldn't Warlords Take Over?

The Possibility of Private Law

The Case for Radical Idealism

Þess má geta að anarkó-kapítalismi og vinstri-anarkismi eru eins ólíkar stefnur og hægt er að ímynda sér jafnvel þótt hugsunin "ekkert ríkisvald" komi fyrir í þeim báðum. Sá fyrrnefndi gerir ráð fyrir algjörri sjálfseign einstaklinga á eigin líkama. Sá síðarnefndi gerir ráð fyrir algjörri uppgjöf einstaklinga á yfirráðum yfir eigin líkama.

Geir Ágústsson, 22.8.2007 kl. 09:05

29 Smámynd: Jens Guð

  Þarna held ég að þú hittir naglann á höfuðið í grófum dráttum.  Í grófum dráttum,  vel að merkja. 

Jens Guð, 23.8.2007 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband