Um leyfislausa lýtalækninn

Mikið kapp er nú lagt á að draga úr trúverðugleika læknis sem hefur vogað sér að gagnrýna aðgerðir sóttvarnaryfirvalda á Íslandi. Elísabet Guðmundsdóttir er nú kölluð leyfislausi lýtalæknirinn og reynt að mála hana sem einskonar skottulækni. Skítt með það að hún hafi starfað sem læknir í áratugi, nú seinast á Landspítalanum áður en henni var sagt upp án uppgefinnar ástæðu korteri eftir að hún hafði í viðtölum gagnrýnt yfirvöld. Skítt með það að hún hafi oft ferðast til Indlands til að hjálpa þar börnum með meðfædd lýti, endurgjaldslaust. Skítt með allt þetta! Hún gagnrýndi sóttvarnaraðgerðir!

Ýmsir hafa stigið fram á sjónarsviðið og reynt að verja ófrægingarherferð fjölmiðla og yfirvalda, meðal annars Pírati nokkur sem skrifar

Þetta er hlutinn sem skiptir máli. Ekki persónan, ekki hvers vegna hún var rekin hvar, hvenær eða hvaða leyfi hún er með, heldur þetta. Að það sem hún segir er efnislega rangt og á skjön við þá vísindalegu þekkingu sem við höfum og getum sýnt fram á.

Og hvaða þekking er það? Þetta fer Píratinn auðvitað ekkert út í því vísindin eru ekki einbreið einstefnugögn. Þau deila um marga mikilvæga þætti. Sem dæmi má nefna:

  • Smita einkennalausir eða ekki? Það má finna rannsóknir til að styðja við hvort tveggja.
  • Eru langtímaafleiðingar vegna COVID-19 verri en vegna inflúensu? Það má finna rannsóknir sem benda á langtímaafleiðingar af báðum veirum og of snemmt að fullyrða hvor er verri að þessu leyti.
  • Smita börn eitthvað að ráði? Smitast þau eitthvað að ráði? Íslendingar bentu á það í vor að það stafar sáralítil hætta af börnum og fyrir börn en víða um heim er þeim samt haldið í stofufangelsi af ótta við smit frá þeim og smit á þeim. 
  • Er verið að mæla smit á áreiðanlegan hátt eða eru prófin stillt svo næm að skaðlausar veiruleifar eru að greinast og flokkaðar sem smit? Hér eru vísindamenn ekki allir á einu máli um bestu nálgunina.
  • Af hverju virðast sumir vera næmari fyrir smiti en aðrir, og sum ríki eða samfélög að sleppa betur en önnur þrátt fyrir að beita hóflegum sóttvarnaraðgerðum? Genatengt? D-vítamínskortur? Ónæmi vegna fyrri veirusjúkdóma sem virkar gegn SARS-CoV-2? Loftslag? Aldursdreifing samfélagsins? Hérna eru vísindamenn svo sannarlega að ræða og rannsaka.
  • Hefur grímunotkun áhrif, og þá í átt til smithömlunar eða jafnvel smitdreifingar vegna rangrar notkunar? Vísindamenn eru margir hverjir lítið hrifnir af almennri grímunotkun á meðan aðrir hafa talað um grímur eins og töfralausn.
  • Hvað segja vísindin um óbein áhrif lokana, takmarkana, atvinnuleysis og einangrunar á samfélagið í heild sinni? Vísindamenn eru vissulega oft bundnir við fílabeinsturna sína en sumir þeirra hafa stigið niður úr þeim og sagt að það sé fleira sem skipti máli en einörð áhersla á smit. Fólk er að deyja of snemma úr mörgu öðru, meðal annars sjálfsvígum, vegna sóttvarnaraðgerða. 

Svo já, vísindin eru nú eitthvað fleira en orð hins íslenska sóttvarnarlæknis. Svo miklu meira. Að ætla sér að þagga niður í einhverjum í nafni vísinda er þvæla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband