Lífeyrissjóðirnir til bjargar! En á kostnað hvers?

Það vantar ekki hugmyndirnar til að koma fjármagni lífeyrissjóðanna í umferð.

Þeir eiga að fjármagna innviði. Þeir eiga að fjárfesta í hlutabréfum fyrirtækja. Þeir eiga að fjármagna skuldir hins opinbera - bæði ríkis og sveitarfélaga. Nú er lagt til að þeir fjármagni nýsköpun sem er vægast sagt áhættusamur rekstur.

Afsakið orðalagið en þetta er fáránlegt tal.

Það væri annað ef menn gætu hreinlega tekið út fé sitt í lífeyrissjóðunum og notað t.d. til að greiða niður skuldir eða fjárfesta eftir eigin höfði. Það er ekki hægt. Þetta er bundið fé frá sjónarhóli þeirra sem greiða í sjóðina. Þetta er skyldusparnaður sem ríkið beinir í ákveðinn farveg. Þetta er fé sem er tekið af fólki og því lofað að það verði endurgreitt - seinna. 

Lífeyrissjóðir eiga fyrst og fremst að reyna varðveita kaupmátt peninganna. Stundum er það best gert með því að fjárfesta í stöndugum fyrirtækjum eða kaupa opinberar skuldir en stundum með því að einfaldlega kaupa gullstangir sem standa óhreyfðar í öruggri geymslu.

Lífeyrissjóðina á að láta alveg í friði og sveigjanleika sjóðsfélaga gagnvart þeim á að auka. Þeir eiga að vera í samkeppni við allar aðrar mögulegar leiðir til að ávaxta eða varðveita sparnað fólks í stað þess að vera áskrifendur að peningum launþega. 

Vissulega munu sumir sleppa því að spara upp til efri áranna sé gefinn kostur á því, en hvað með það? 

Vissulega munu sumir keppast við að koma sér upp skuldlausu húsnæði og losna undan oki bankanna og eiga í staðinn lítinn sparnað, en er eitthvað að því?

Vissulega munu sumir fjárfesta á þann hátt að allt fé þurrkast upp. Aðrir munu svo fjárfesta þannig að sparnaðurinn margfaldast. Er ekki í lagi að leyfa slíka tilraunastarfsemi og gefa svo fólki kost á því að læra af reynslunni og finna nýjar leiðir til að ávaxta peninga?

Sumu munu einfaldlega fjárfesta í góðmálmum og treysta á að þeir varðveiti kaupmátt sparnaðarins eins og þeir hafa alltaf gert, alla tíð. 

Stjórnmálamenn: Látið lífeyrissjóðina í friði, og skerið í leiðinni á áskrifendastöðu launþega gagnvart þeim.


mbl.is Vill lífeyrissjóðina í nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála þessu Geir, raunar mætti ganga skrefinu lengria og krefjast þess að þeir séu geymdir á lokuðum reikningi, þá er búið að girða fyrir allt þetta brask og að menn séu að setja þessa peninga í hina og þessa hluti en láta launþega taka alla áhættuna af tapi eins og sást í hruninu, þegar þeir töpuðu stjarnfræðilegum upphæðum. Við megum bara taka við skerðingum og taka því þegjandi vesgú

Einar (IP-tala skráð) 15.10.2017 kl. 17:53

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Já, skerðingar sem munu líklega fara vaxandi eftir því sem lífeyrissjóðunum er þröngvað í sífellt meiri áhættu. Ef menn halda að það sé áhættusamt að kaupa hlutabréf í flugfélagi þá ættu menn bara að sjá hvað verður oft um fjárfestingar í nýsköpun!

Geir Ágústsson, 17.10.2017 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband