Offitusjúklingurinn fær afslátt af hamborgaranum

Nú hafa Ríkiskaup samið við Icelandair og WOW air um afsláttarkjör á fargjöldum. Eru það góðar fréttir eða slæmar?

Vandamálið er að hið opinbera sendir alltof marga starfsmenn til útlanda. 

Dæmi 1:

Bjarni Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráðherra Íslands, verður einn tíu þjóðarleiðtoga í for­svari fyr­ir HeForS­he, kynn­ingar­átak UN Women þar sem karl­menn um all­an heim eru hvatt­ir til að taka þátt í bar­átt­unni fyr­ir jafn­rétti kynj­anna. (frétt)

Dæmi 2:

Á ráðstefnunni í Helsinki verður fjallað um snjallborgir eða Open cities og aðgerðir í þeim efnum.  Tíu manna hópur sækir ráðstefnuna fyrir hönd borgarinnar, fulltrúar frá hverjum flokki auk embættismanna. (frétt)

Tíu manna hópur, takk fyrir!

En úr því opinberir starfsmenn eru á ferð á flugi er þá ekki góð hugmynd að fá afslátt af fargjöldum þeirra?

Nei, af þremur ástæðum fyrst og fremst.

Í fyrsta lagi hvetja afslættir til aukinnar neyslu. Við þekkjum þetta sjálf. Kosta tveir tannburstar 500 kr. en einn tannbursti kostar 300 kr.? Best að kaupa tvo og spara. Heildareyðslan eykst. Munar litlu að senda þriðja manninn af stað? Sendum hann þá af stað!

Í öðru lagi eru opinberir starfsmenn að fylla sæti (á afsláttarkjörum) sem þrýstir verðinu á öðrum sætum upp. Samkeppnin um sætin bitnar því á farþegum sem um leið eru skattgreiðendur. Þeir tapa tvisvar.

Í þriðja lagi er opinber starfsmaður í útlöndum ekki bara að kosta skattgreiðendur flugmiðana. Hann kostar líka dagpeninga eða uppihald almennt. Hann er líka á leið eitthvert til að hitta aðra opinbera starfsmenn og þeir þurfa að hittast í húsnæði sem skattgreiðendur þurfa að standa undir. Frá því hinn opinberi starfsmaður yfirgefur heimili sitt og þar til hann snýr aftur heim er hann því stanslaus aukakostnaður fyrir skattgreiðendur (fyrir utan hefðbundin laun sín).

Ríkið eða hið opinbera hvar sem er ætti ekki að leita leiða til að lækka fargjaldakostnað og keppa um sæti við einstaklinga og fyrirtæki. Miklu frekar ætti það að leita leiða til að fækka ferðalögunum. Það má t.d. sækja Skype og fjárfesta í vefmyndavél. Nú eða senda tölvupósta og skiptast á skýrslum. 


mbl.is Spara 100 milljónir með útboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Góð grein og rétt til fundið. - Ég svara þér á korkinum með tölvupósti en gæti komið til þín með leigubíl sem ég væri þá nýbúinn að gara samning við um afsláttarferðir til bloggvina....En, nei. - Það er dulinn kostnaður víða sem vindur upp á sig eins og þú segir.

Már Elíson, 17.2.2017 kl. 15:13

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Já ég meina með þessi nýju afsláttarkjör fyrir bloggvina munar þér ekkert um að hoppa í flugvél og kíkja til Álaborgar í Danmörku. Það er enginn að spá í dagpeningunum hvort eð er og hvað þá vinnutapi þínu vegna ferðalagsins. 

Geir Ágústsson, 18.2.2017 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband