Nokkur atriði vegna kosninganna næsta vor

Þessi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag. Vonandi hreyfir hún við einhverjum!

********

Nokkur atriði vegna kosninganna næsta vor

Eitthvað virðist flokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi ganga illa að púsla sér saman. Það er skiljanlegt. Ekki er hægt að mynda meirihlutastjórn nema einhver flokkur kasti einhverju stefnumáli sínu alveg fyrir borð og enn sem komið er hefur sá flokkur ekki gefið sig fram. Enginn vill vera svikari við kjósendur sína, a.m.k. í bili.

Það má því gefa sér að boðað verði til kosninga í vor. Slíkt hefði marga kosti í för með sér sem hér verða lauslega taldir upp.

Í fyrsta lagi færist kjörtímabilið aftur á skynsamlegan árstíma fyrir kosningar þegar eitt fyrsta verk nýkjörinna þingmanna verður að fara í langt og gott sumarfrí.

Í öðru lagi gefst flokkunum færi á því að skerpa á stefnumálum sínum. Ekki var mögulegt að aðgreina alla flokka að þessu sinni ef bara er miðað við kosningaloforð þeirra. Í grófum dráttum mátti samt greina flokka sem vildu hækka skatta eða lækka, rústa fiskveiðistjórnarkerfinu eða sleppa því og innlima Ísland í erlent ríkjasamband eða ekki.

Í þriðja lagi má með kosningum í vor tryggja að flokkarnir á þingi geri engin ósköp af sér þangað til. Þeir geta sammælst um höggva ekki gat á botn fleysins og sökkva því. Þeir geta myndað eins konar starfsstjórn sem sér um að stimpla eyðublöð og uppfæra ártöl á lagaköflum en breytir að öðru leyti litlu sem engu. Þar með er ekki sagt að núverandi ástand sé fullkomið og að allar breytingar séu slæmar. Hins vegar er betra að hugsa sig vel um áður en eldspýtan er tendruð við opinn gaskút og þá betra að sleppa því en taka áhættuna. Sumir flokkar tala nefnilega fyrir því að tendra eldspýtuna og skrúfa frá gasinu á sama tíma.

Í fjórða lagi hafa þingmenn gott af löngu fríi. Þingmenn í fríi eru oftar en ekki ódýrari fyrir skattgreiðendur en iðandi og uppteknir þingmenn í þingsal.

Í fimmta lagi má vona að með hækkandi sól renni það upp fyrir landsmönnum að það vantar sterkari frjálshyggjuáherslur í íslensk stjórnmál. Þeir sem lofa skattalækkunum eru ekki fyrr búnir að því fyrr en þeir eru líka búnir að lofa auknum ríkisútgjöldum sem á að fjármagna með „hagvextinum“. Þeir sem tala fyrir einföldun regluverksins leggja ekki í embættismannakerfið. Þeir sem vilja að Íslendingar geti keypt lambakjöt í gámaförmum frá Nýja-Sjálandi eru allt í einu búnir að samþykkja 10 ára frystingu á niðurgreiðslum til innlendrar framleiðslu sem þolir enga samkeppni þegar í þingsal er komið. Þeir sem vilja bjór í matvöruverslanir hafa yfirleitt efni á því að ferðast svo oft til útlanda að fríhafnarlagerinn sprengir skápaplássið og nenna því ekki að berjast fyrir frelsi annarra til að kaupa sér sopann hvar sem er.

Kosningar í vor verða vonandi settar á dagskrá sem fyrst svo óstarfhæf starfsstjórn geti hist og fengið sér kaffi og átt einn af þessum góðu fundum sem svo tíðrætt er um þessar vikurnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð grein í skemmtilegri framsetningu.

Einna neyðarlegastur (í gömlu merkingunni) verðurðu hér: "Þingmenn í fríi eru oftar en ekki ódýrari fyrir skattgreiðendur en iðandi og uppteknir þingmenn í þingsal.laughing

Jón Valur Jensson, 11.12.2016 kl. 00:24

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir það.

Þetta er samt dagsatt. Þingmaður í fríi getur ekki aukið útgjöld ríkisins eða skuldsett almenning eða sett íþyngjandi lagaákvæði á rekstur fyrirtækja. Vissulega getur hann líka gert gagn, t.d. boðað til aðhaldsaðgerða, einkavæðinga, niðurgreiðslu opinberra skulda og skattalækkana, en þetta eru því miður undantekningar frá reglunni. 

Geir Ágústsson, 11.12.2016 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband