Snýr Skattmann aftur í dag?

Í áramótaskaupinu 1989 var atriði sem margir muna eftir enn þann dag í dag. Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi fjármálaráðherra, birtist þar áhorfendum í hlutverki Skattmanns, klæddur í búning Leðurblökumannsins (Batman) og söng um skattlagningu sína á meðan hann lokaði fyrirtækjum, rændi veski af ekkju og innsiglaði vinnuvél.

Á þessum árum var vinstristjórn við völd á Íslandi undir forystu Framsóknarflokksins. Hún var dæmigerð vinstristjórn skattahækkana og óráðsíu í fjármálastjórn hins opinbera, svipuð þeirri sem nýverið lét af völdum í Reykjavík. Sjálfur Skattmann hafði verið duglegur við að „skattleggja alla, konur og kalla“ og orðinn frægur fyrir. Hlutverk hans sem fjárhirðir ríkisins var ekki öfundsvert, enda erfitt að kreista fé út úr hagkerfi í niðursveiflu. Hann gerði samt sitt besta.

Nú eru 16 ár liðin síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við forystuhlutverki sínu í ríkisstjórn á Íslandi. Langlífasta góðæri í sögu íslenska lýðveldsisins hófst skömmu síðar og varir enn. Nú er svo komið að margir hafa vanist því, álíta það sem sjálfsagðan hlut og finnst jafnvel nóg um! Þar af leiðandi eru sumir byrjaðir að hugleiða vinstristjórn sem getur hægt á hjólum hagkerfisins og skapað neyðarástand fyrri tíma.

Hið íslenska vinstri nú á dögum er í engum aðalatriðum frábrugðið því sem leiddi til fæðingar Skattmanns í skaupinu 1989. Ef Íslendingar vilja breyta til er þeim í lófa lagt að krefjast þess að skattalækkanir og einkavæðingar hins opinbera gangi enn hraðar fyrir sig. Þannig fá allir, bæði launþegar og hið opinbera, meira fé til ráðstöfunar. Eitt er ljóst: Áramótaskaupið er ekki orðið það leiðinlegt að við þurfum að umbylta öllu þjóðfélaginu til að skapa góðan efnivið í það næsta!

Ólafur Ragnar Grímsson er e.t.v. fluttur á Bessastaði, en hið íslenska vinstri mun ekki eiga í neinum vandræðum með að fylla stöðu Skattmanns, fái það kost á því. Ég vona að íslenskir kjósendur búi yfir nægilegri skynsemi til að koma í veg fyrir það.

Þessa grein, auk fleira góðgætis, er einnig að finna á Ósýnilegu höndinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband