Búið spil?

Stórfelld raforkuframleiðsla með notkun vindmylla hefur lengi verið draumur þeirra sem af einhverjum ástæðum vilja minnka notkun jarðefnaeldsneytis (t.d. af ótta við að slíkt eldsneyti sé bráðum á þrotum, eða telja að brennsla slíks eldsneytis sé skaðleg umhverfinu). Vindmyllur hafa notið mikils ríkisstuðnings, bæði beins (í formi "fjárfestinga" með notkun skattfjár eða beinna ríkisstyrkja), og óbeins (í gegnum kaup ríkisfyrirtækja á vindmyllum).

Þrátt fyrir allt þetta styrkjabatterí og mikinn pólitískan velvilja í garð vindmylla hefur iðnaðurinn ekki náð sér almennilega á strik. Heimurinn er þyrstur í raforku og er tilbúinn að borga hátt verð fyrir hana, en vindmyllur hafa á í erfiðleikum með að hasla sér völl sem framleiðendur hennar. Af ýmsum ástæðum.

Geymsla raforku er dýr og erfið og raunar ekki talin fýsileg nema í mjög sérstökum aðstæðum (t.d. þar sem er hægt að nota raforku á nóttunni til að dæla vatni upp, og það síðan látið falla niður að degi til og framleiða raforku á meðan eftirspurnin er mest). Vindmyllur framleiða bara þegar vindar blása rétt, og það er mjög erfitt að nýta hina miklu og dýru fjárfestingu nægilega vel.

Vindmyllur taka mikið pláss og þeim fækkar, ef eitthvað, sem nenna að horfa á þessi ferlíki. Menn hafa því brugðið á það ráð að ýta þeim út á sjó, en það gerir fjárfestinguna bara enn dýrari. Það hefur líka gerst að vængirnir brotni af vindmyllunum, og það er ekkert spaug. Vængirnir eru fleiri tugir metra á lengd og níðþungir.

Svo er það kostnaðurinn. Þetta eru dýrar græjur, þrátt fyrir ríkisniðurgreiðslurnar. Það tekur mjög langan tíma fyrir fjárfestinguna að borga sig upp, og það er þá bara að því gefnu að hún endist nægilega lengi. Viðhald er dýrt og stöðugleiki í rekstri ekki með því besta sem gerist.

Margir halda samt ennþá í vonina. Aðeins meiri niðurgreiðslu, aðeins lengur, og þá kemur þetta! "Núna" er tæknin orðin það góð að vindmyllur eru orðnar samkeppnishæfar, segja margir, og hafa sagt í mörg ár. En ekkert gerist. Um leið og stjórnmálamenn stíga á útgjaldabremsuna rúlla stórar taptölur yfir allan iðnaðinn. 

Kannski er þetta vindmylluævintýri búið spil. Kjarnorkan hefur legið nánast ónýtt í nokkra áratugi og komin aftur á borðið. Fallvötn, með öllum sínum uppistöðulónum, eru líka orðin álitlegri eftir því sem raforkuverð klifrar hærra og olían hækkar í verði (í dollurum, ekki gulli og silfri). Svo má ekki gleyma gömlu góðu olíunni, sem býður upp á auðvelda "geymslu" á orku og flæðir enn í stríðum straumum upp úr borholum, sem fjölgar hratt. 


mbl.is Gríðarlegt tap hjá Vestas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband