Samsæriskenningar úr Stjórnarráðinu

Samsæriskenningar krydda tilveruna. Íslendingar eru sérstaklega duglegir við að semja slíkar kenningar, og alveg sérstaklega sérstaklega duglegir að blanda Sjálfstæðisflokknum í þær einhvern veginn (hver sem ástæðan fyrir því nú er).

Ég hef heyrt nokkrar kenningar um atburði líðandi stundar, sumar með og sumar án heimilda:

Ein kenning sem ég hef heyrt er sú að ástæða þess að Bjarni Ben., formaður Sjálfstæðisflokksins, gengur nú Icesave-máli Samfylkingar á hönd sé sú að þannig megi greiða fyrir stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Samfylkingin vill losna við VG úr stjórnarsamstarfi og sjálfstæðismenn eru auðmjúkir og forystulausir kjölturakkar sem gera hvað sem er til að komast til valda, eins og raunar allir flokkar.

Öllu langsóttari samsæriskenning segir að Icesave-samþykki Bjarna Ben. sé að koma í skiptum fyrir "friðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu" því þar hafi Bjarni persónulega mikinn hag af því að kerfið haldist óbreytt. 

Ástæða þess að Samfylkingin vill keyra Icesave-frumvarp í gegnum Alþingi er sú að það greiðir fyrir aðlögun og innlimun Íslands inn í ESB. Í Brussel fylgjast menn með því hversu auðmjúkir Íslendingar eru þegar stórveldi eins og Bretland krefjast einhvers. Sennilega eru menn í Brussel að fá forsmekkinn að því hvernig á að semja við Ísland í makríldeilunni, og hversu þægir Íslendingar verða þegar ESB-lög um sameiginlega fiskveiðistjórnun renna yfir hafsvæðið í kringum Ísland. 

En hvers vegna að greiða fyrir aðlögun Íslands að ESB? Fyrir því hafa yfirherrar okkar í stjórnarráðinu góðar ástæður. Brussel býður þægum og iðnum stjórnmála- og embættismönnum víðsvegar að mjög gjarnan að koma inn í hlýjuna og þiggja stöður með stórum titlum, litlu vinnuálagi og veglegum lífeyrisréttindum. Jóhanna Sigurðardóttir er sennilega á höttunum eftir einhverju slíku, ef ekki fyrir sjálfa sig þá fyrir skjólstæðinga sína í Samfylkingunni. Steingrímur J. hlýtur líka að hafa séð ljósið í þessum efnum, enda maðurinn duglegur að taka við fé skattgreiðenda þótt hann fordæmi slíkt í orði.

Orðið "sérhagsmunagæsla" er ekki vel liðið. Það gleymist samt stundum að við höfum öll hagsmuni, og að við reynum öll að standa vörð um þá. Stjórnmálastéttin reynir að styrkja stöðu sína og völd og sópar að sér öllu sem hún getur á meðan hún getur. Kvótaeigendur vilja skiljanlega ekki gefa rándýra og verðmæta eign frá sér baráttulaust. Svona er þetta bara. Samsæriskenningar eru oft skemmtilegar en það er óþarfi að setja sig á háan hest gagnvart þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband