Bloggfærslur mánaðarins, maí 2017

Eitt orð: Gæluverkefni

Þá á að skjóta enn einu gæluverkefninu í gang, og í þetta skipti verður það eilífðarverkefni með óendanlegum verðmiða.

En gott og vel, hluti má skoða og ræða og allt það. Í Álaborg var svipuð umræða í gangi á sínum tíma.

Í borginni búa um 112 þúsund manns, en í sveitarfélaginu öllu um 210 þúsund manns. Sem sagt, svipaðar tölur og gilda um höfuðborgarsvæðið.

Norðan við Álaborg er flugvöllur sem fer stækkandi.

Í Álaborg er þröngur miðbær sem krefst lagni að komast í, sérstaklega um helgar, en utan við miðbæinn er stærri verslunarkjarni. Í Álaborg er stór spítali en verið er að byggja annan. Í Álaborg er víðfeðmt og fjölmennt háskólasvæði.

Sem sagt, svipuð lýsing og gæti gilt um Reykjavík.

Umræða um léttlest (d. letbane) var komin á flug í Álaborg á sínum tíma. Menn gerðu áætlanir og fengu sérfræðinga til að reikna og teikna. Svo komu í ljós kostnaðartölur og sveitarfélagið fór á hnén við fætur ríkisvaldsins til að betla. Sem betur fer kom ekkert út úr því. Verkefnið var sett á ís.

Í kjölfarið gerðist... ekkert. Strætó keyrir ennþá. Enginn kvartar yfir því. Enginn. 

Kannski lærðu Danir af reynslu ríkisrekstursins á venjulegum lestum? Það hefur vægast sagt verið saga klúðurs, seinkana, ásakana og fjárútláta.

Það er mikilvægt að þetta léttlestartal á höfuðborgarsvæðinu verði slegið af borðinu sem fyrst. Það sem vantar er betri nýting á vegunum, en þeir eru troðfullir tvisvar á dag og greiðir á öðrum tímum. Það þarf að selja vegakerfið og leyfa einkaaðilum að búa til eðlilega hvata til vegalagningar og verðlagningar á veganotkun. Það þarf að afnema skatta á eldsneyti og farartæki og færa fé úr hirslum ríkis og sveitarfélaga og í hendur einstaklinga og fyrirtækja. 

Enn eitt meingallað kerfi, sem byrjar með lúðrablæstri en endar í niðurníðslu eins og vegakerfi Reykjavíkur, er engin lausn. Milljarður settur í lestarspor er milljarður tekinn af viðhaldi vega og öryggisráðstöfunum á þeim. Og strætó verður auðvitað vanræktur þótt enginn láti sjá sig í léttlestunum. 

En það er erfitt að drepa gæluverkefni. Í stað eins sem er drepið skjóta gjarnan þrjú önnur upp kollinum. Það þýðir samt að menn verða bara að berja þau niður þrisvar sinnum hraðar. 


mbl.is Milljarðatugir í borgarlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband