Bréf frá útlöndum

Mannréttindadómstóll Evrópu. Hljómar eins og mikilvæg stofnun hvers úrskurðir eru mjög mikilvægir. 

Eða voru það.

Þessi svokallaði dómstóll er auðvitað genginn af göflunum. Um daginn úrskurðaði hann að yfirvöld í Sviss hefðu ekki gert nóg til að koma í veg fyrir að hitabylgjur drepi eldri konu. Hann úrskurðaði einu sinni að dómarar á Íslandi eigi einir að fá að tilnefna fólk í stöðu dómara á Íslandi. Núna er hann að atast í fyrirkomulagi kosninga á Íslandi. 

Kannski er sumt af því sem kemur frá þessum dómstól gott og gilt og gott að hafa svona utanaðkomandi aðila til að skoða ýmis mál. Margir íslenskir borgarar hafa leitað á náðir dómstólsins og fengið eitthvað út úr því.

Um leið blasir við að hann er stjórnmálaafl til vinstri sem þarf hreinlega að byrja endurskoða með tilliti til notagildis, áhrifa og samsetningar. 

Íslendingar þurfa líka að venja sig af því að falla á hnén í lotningu þegar kemur bréf frá útlöndum. Gagnrýni er góðra gjalda verð en á stundum engan rétt á sér, satt að segja. Heldur ekki sú sem er skrifuð á útlensku.


mbl.is Spyr hvort að ekki þurfi að boða til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

MDE er kominn langt langt langt út fyrir sitt verksvið

Spillingin þar er líka ríkjandi, bankamenn á Íslandi keyptu niðurstöðu af einstakling sem skrifaði pantaðan dóm fyrir bæði stig dómsins - hverngi getur slíkt viðgengist?
Bankamennirnir  fengu útlagðan kostnað margfalt til baka í skaðabótamálum gegn ríkinu og að sjálfsögðu sakaruppgjöf

Grímur Kjartansson, 16.4.2024 kl. 15:30

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Með þessum dómi er ekkert atast í fyrirkomulagi kosninga á Íslandi. Þvert á móti er verið að standa vörð um réttmæti þess.

Dómurinn snýst fyrst og fremst um að Alþingismenn eigi ekki að úrskurða um það hvort þeir hafi sjálfir verið löglega kosnir.

Enda skal enginn dæma í eigin máli. Er einhver ósammála því?

Guðmundur Ásgeirsson, 16.4.2024 kl. 21:30

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ojæja! At eða hvað? Þótt ég muni ekki texta í fréttinni rímar hún efnislega eins og aðrar sem Ruv vill endilega lesa; einskonar fyrirmæli frá útlöndum hreint frat!

Helga Kristjánsdóttir, 16.4.2024 kl. 23:36

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem er hreint frat er að fólk úrskurði sjálft um hvort það sé löglega kosið til að fara með löggjafarvald.

Þarf einhver fyrirmæli til að vera sammála því?

Guðmundur Ásgeirsson, 16.4.2024 kl. 23:51

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

MDE er bland í poka: Réttmætar ábendingar og stjarnfræðileg þvæla. 

Mér sýnist staðfesting kosningaúrslita fari fram samkvæmt fyrirmælum í reglugerð frekar en löggjöf sbr. 59. gr. laga nr. 112/2021. Það kom mér satt að segja á óvart.

112/2021: Kosningalög | Lög | Alþingi (althingi.is)

Geir Ágústsson, 17.4.2024 kl. 07:19

6 identicon

Takk fyrir bréfið. Hvernig hefur þú það þarna í útlöndum?

Vagn (IP-tala skráð) 17.4.2024 kl. 11:09

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Geir.

Þetta er einhver reginmisskilningur hjá þér. Ákvæðið sem þú vísar til fjallar um stöðu umboðsmanna framboða við staðfestingu kosninga en ekki þá staðfestingu sjálfa.

Ákveðið sem var fjallað um í dómi MDE er í stjórnarskránni:

46. gr.
Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.

Það er svo nánar útfært í 127. og 132. gr. kosningalaganna.

127. gr. Kærur vegna alþingiskosninga.
Alþingi sker úr hvort þingmenn séu löglega kosnir og hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.

...

132. gr. Rannsókn alþingiskosninga og ógilding.
Alþingi úrskurðar um gildi alþingiskosninga, kjörgengi þingmanna og kosningu þeirra að eigin frumkvæði eða á grundvelli framkominnar kæru. Þá sker Alþingi enn fremur úr um gildi ágreiningsseðla.

...

Þetta fyrirkomulag taldi MDE ekki tryggja hlutlausa úrlausn um lögmæti kosninga og bryti þar með í bága við rétt til frjálsra kosninga og aðgangs að viðeigandi réttarúrræðum, enda er engin önnur kæruleið.

Ég er algjörlega sammála þeirri niðurstöðu og það hljóta flestir að vera sem er annt um öryggi lýðræðis og réttarríkisins. Reyndar kom niðurstaðan ekkert sérstaklega á óvart því áður hafði verið komist að samskonar niðurstöðu um sambærilegt fyrirkomulag sem var við lýði í Belgíu.

Þó að ekkert bendi til annars en að Alþingi hafi vandað sig í þessu tilviki er hættan sú að í höndum spilltra valdhafa væri auðveldlega hægt að misbeita þessu valdi til að úrskurða ólöglegar kosningar sem "gildar". Þess vegna þarf að breyta þessu fyrirkomulagi þannig að Alþingi úrskurði ekki sjálft um lögmæti Alþingiskosninga heldur óháður aðili t.d. dómstólar.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.4.2024 kl. 21:16

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Guðmundur,

Takk fyrir ítarlegt svar. Þetta er mjög upplýsandi. Bréfið frá útlöndum var að þessu sinni kannski nothæft þótt ég líti ekki á það sem bindandi. Traust á lýðræði fer hríðlækkandi og mikilvægt að gera eitthvað í því. Þetta á nú ekki að vera flókið held ég að fá fólk til að setja miða í kassa og passa þá kassa vel, og í versta falli endurtaka atkvæðagreiðslu ef skuggi fellur á traustið. Ein lexía frá Bandaríkjunum er til dæmis sú að hætta að dreifa atkvæðaseðlum í pósti - mér finnst augljóst að það sé auðveld leið til að svindla hressilega.

En eins og ég segi, MDE er stundum að vinna vinnu sína og stundum að stunda pólitík og yfir það heila orðinn vafasamur og erfitt að sía út þvæluna frá viskunni.

Geir Ágústsson, 18.4.2024 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband