Fleira kemur til en einkunnir

Margt er ritað og rætt um heimanám grunnskólabarna en ég vil engu að síður leggja nokkur orð í belg.

Heimanám hefur, að mínu mati, mjög marga kosti sem oft gleymist að nefna og byggjast bæði á minni eigin reynslu og reynslu minni sem föður grunnskólabarns.

Heimanám styrkir tengsl foreldra og skóla (og barns): Þegar barn kemur heim með heimanám og biður um aðstoð þá eru foreldrarnir um leið gerðir hluti af náminu og það er gott. Þeir geta séð hvar barnið sitt stendur, hvað það er að læra og hversu vel námsefnið er að síast inn. Þetta er allt í senn félagsleg samverustund foreldra og barns og upplýsingagjöf.

Ég hef prófað löng tímabil án heimanáms hjá skólastráknum mínum og missti fyrir vikið algjörlega sjónar á því hvað hann ætti að vera læra í skólanum og hvað hann var í raun og veru búinn að læra, en gjáin þar á milli var orðin ansi stór því miður.

Heimanám brýtur upp hangsið: Heimanám er góð tilbreyting frá tölvuleikjum og öðru hangsi. Krakkar þurfa líka oftar en ekki að nota blað og blýant, en fyrir þá sem ekki vita þá er sú færni í útrýmingarhættu. 

Heimanám kennir ábyrgðartilfinningu: Barn sem vinnur samviskusamlega heimanám sitt er um leið að þróa með sér ábyrgðartilfinningu sem á eftir að gagnast því mun víðar en í skólastarfi. Barnið fær verkefni, tímaramma og kröfulýsingu og á að bera ábyrgð á vinnunni og skilunum og það er ómetanlegt veganesti (gefið að barnið taki heimanámið alvarlega, en á því er allur gangur).

Heimanám getur dýpkað skilning: Skólastofan er ekki endilega besti staðurinn fyrir öll börn til að taka inn nýja þekkingu. Sumum hentar betur að setjast yfir námsefnið í ró og næði heima hjá sér og læra að setja sig inn í það (með eða án aðstoðar foreldra). Þetta á þó alls ekki við um alla krakka, en suma. Heimanám getur því orðið að hinu eina sanna námi á meðan skólastofan er meira nýtt til félagslífs og sem geymslustaður fyrir börnin á meðan foreldrarnir eru í vinnu/skóla. 

Heimanámið hefur sem sagt marga kosti í mínum huga þótt auðvitað megi deila um hversu mikið eða erfitt það eigi að vera, í hvaða fögum það hentar best og hvað hentar hverjum aldurshóp best.

Danskir grunnskólar eru meira og minna hættir að senda krakkana heim með verkefni en ég hef tekið heimanám upp á okkar heimili einhliða og kenni þar barninu það sem mér sýnist og ætla að halda því áfram. 


mbl.is Er heimavinna bara tímaeyðsla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki búið að lengja skóladaginn frá því að þú varst í skóla?  Mig minnir að þetta hafi verð hluti af einhverju kjaradæmi kennara á sínum tíma, að fjölga kennslustundunum.  Síðasta stundin var þá kölluð leikstund eða viðverustund eða eitthvað álíka.  Þetta var bölvað vesen.  Allir krakkarnir orðnir dauðþreyttir og í þessum blessaða leiktíma sem var síðastur á dagskrá komu upp flestir árekstrarnir.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 09:02

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það hefur margt breyst síðan ég var í skóla og raunar hefur margt breyst fyrir grunnskólastrákinn minn síðan hann byrjaði í skóla.

Ég var í tvísetnum grunnskóla svo stundum byrjaði dagurinn snemma og stundum seint. En maður mætti alltaf. 

Jú dagurinn var styttir: Engin lífsleikni eða sérstakir stuðningstímar nema fyrir tvo krakka í mínum 20-25 krakka bekk. 

Leikifimi var tekin alvarlega - ég átti að fara í sturtu eftir hana. Það hefur breyst. 

Manni var alltaf sagt að fara út í frímínútum. Sérstakur gangavörður sá um að halda göngunum auðum í þeim. Núna sitja krakkarnir í stofunum og spila tölvuleiki og gleyma að borða nestið sitt. 

Heimanám var nánast daglega og það var á eigin ábyrgð. Ekki var alltaf hægt að fá hjálp heima svo þetta var slagur. Núna er börnum lyft mjúklega í gegnum allar hindranir og ef þau flaska á heimanáminu þá eru engar afleiðingar. 

Geir Ágústsson, 16.2.2016 kl. 09:41

3 identicon

Svo er líka að líta til þess að menn eru farinir að gera tilraunir með breytingar á kennslu, þannig að nú er kennslan á miklu leiti byggð á heimalærdómi. Kennslustundirnar eru síðan ekki fólgnar í því að kennarinn tyggi allt eftið upp fyrir nemendur heldur er farið í kennslustundunum yfir þau atriði sem eru að flækjast fyrir nemendum í hæmalærdómnum. Þannig læra þá börnin sjálf það sem er innan skilnarsviðs þeirra en fá svo aðstoð við að skilja það sem flóknara er hjá kennurum. Eftir því sem ég hef helst fregnað þá gengur þessi tilraun vel og hafa menn verið þeirrar skoðunar að þetta gefi mjög góða raun.

Þess vegna er ég ekki alveg að kaupa það að krakkarnir eigi bara að læra hjá kennaranum og ekkert heima. Slíkt er eftir því sem ég hef reynslu af sko alls ekki líklegt til að auka samverustundir barna og foreldra, heldur þvert á móti draga úr þeim.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 11:10

4 identicon

Ég er alveg sammála þér, Geir. Sem margra barna faðir hef ég árum saman barizt gegn niðurfellingu heimanáms af sömu ástæðum sem þú nefnir. Á sama tíma hvatti ég aðra foreldra að láta ekki kennarana taka af þeim völdin, því að mín reynsla af þekkingarsviði grunnskólakennara bæði hér á landi og öðrum Norðurlöndum er ekki góð. Síðan þegar börnin hafa lokið grunnskólanum án þess að foreldrarnir hafa geta fylgzt með hvað börnin hafa lært, kemur í ljós að börnin vita nánast ekki neitt og verða fyrir áfalli þegar þeir byrja í framhaldsskóla. Margir foreldrar hafa mikið meiri þekkingu og reynslu en grunnskólakennarar, sérstaklega þeir kennarar sem eru blautir á bak við eyrun (nýútskrifaðir), enda er grunnskólakennaranámið sérstaklega yfirborðskennt hvað varðar námsefni, þ.e. engin sérhæfing, allir kennarar eiga að geta kennt allt.

Heimanám gerir það að verkum að foreldrar, sem jú bera alla ábyrgð á uppeldi barna sinna (skólarnir eru EKKI uppeldisstofnanir, þótt grunnskólakennarar virðast álíta það), geta hjálpað börnum sínum með það sem kennararnir vissu ekkert um eða gátu ekki skilað til nemendanna.

Í Bretlandi á áttunda áratugnum heimtuðu skólayfirvöld, að foreldrarnir kenndu ekki börnunum að lesa áður en þau byrjuðu í skóla, því að það myndi eyðileggja fyrir þeim. Kennararnir hefðu svo mikið betri aðferðir. Afleiðingarnar urðu skelfilegar: Stórir hópar unglinga sem kunnu ekki að lesa og skrifa þegar þeir mörgum árum síðar byrjuðu junior secondary.

Í Danmörku á níunda og tíunda áratugnum var það viðtekin regla í grunnskólum hins opinbera að öll kennsla skyldi miðast við lélegustu nemendurna, enginn mátti fara fram úr öðrum. Í tveimum samhliða bekkjum þar sem ég þekkti til, hafði það þær afleiðingar að þegar nemendurnir áttu að geta lesið nokkurn veginn reiprennanandi, þá kunnu þeir varla stafrófið eftir heilt á af kennslu, því að lélegasti nemandinn var ófær um að læra að lesa vegna andlegrar fötlunar. Undantekningin voru þeir nemendur þar sem foreldrarnir höfðu kennt þeim að lesa áður en þeir byrjuðu í fyrsta bekk. Mörguym árum síðar gáfust kennararnir upp og fóru að íhuga einstaklingsbundna kennslu sem jú breytti kennslunni til betri vegar.

Pétur D. (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 11:47

5 identicon

Liðrétting á fljótfærnisvillum: "Í tveimum samhliða bekkjum þar sem ég þekkti til, hafði það þær afleiðingar að þegar nemendurnir áttu að geta lesið nokkurn veginn reiprennandi, þá kunnu þeir varla stafrófið eftir heilt ár af kennslu, ..."

Pétur D. (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 11:50

6 identicon

Ég get ekki fallist á það að börnum sé lyft mjúklega í gegnum allar hindranir í skólakerfinu.  Menn verða að fara að taka lyfjaneyslu barna alvarlega og gera sér grein fyrir afleiðingunum.  Ég get heldur ekki tekið undir það að börnin spili bara tölvuleiki og læri ekki neitt í skólunum.  Við náum ekki utanum það hvað tölvurnar eru mikil bylting.  Einu sinni þótti mikið ævintýri að fara í Interrail ferðalag um Evrópu.  Núna fara börnin út um allan heim og þykir ekki merkilegt.  Við erum öll meira og minna að rembast við að halda í einhvern heim sem við þekkjum, eða þekktum, hvort sem það er heimanám eða ESB.  Við munum þó seint stjórna gangi himintunglanna :)  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 12:34

8 identicon

Gat nú verið að sjálfumglöðum fulltrúa hippakynslóðarinnar þyki börnin í dag alast upp í átakalausum og ofvernduðum heimi.  Hann er af eldhúsmellukynslóðinni sem gaf skít í störf húsmæðra, hæddi þær og spottaði.  Núna er hann að uppskera.  Hann kann ekki að skammast sín þessi ræfill.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 15:29

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Elín,

Það er greinilegt að þú ert með sterkar taugar til þessarar umræðu og það er auðvitað frábært. Sitt sýnist hverjum en mér finnst gott að fá menn eins og Óttar til að flæma moldvörpurnar úr holunum sínum og taka þátt í umræðunni (og tek fram að ég er ekki að öllu leyti sammála greiningu hans, en að hluta til samt).

Ég gæti flutt langa tölu um grunnskólastrákinn minn - tölvunotkun hans, áhuga á námi, þátttöku skólans eða skort þar á, heimanámi eða skort þar á, þeim leikreglum sem honum er gert að fylgja í skólanum, því sem skólinn lætur viðgangast eða ekki viðgangast og svona mætti lengi telja, en ég læt það bíða í bili. Mín skoðun er sú að skólinn sé fyrst og fremst geymslustaður fyrir barnið og rammi fyrir félagslíf og að náminu verði ég að fylgja stíft eftir, með eða án heimanáms af hálfu skólans. 

Geir Ágústsson, 16.2.2016 kl. 19:31

10 identicon

Strákurinn þinn á örugglega eftir að kenna þér eitt og annað.  Hann mun ekki fylgja stífri dagskrá en þú munt læra engu að síður - skulum við vona.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.2.2016 kl. 20:26

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Hann er góður strákur en grunnskólinn er ekki hans kjörlendi þegar kemur að því að ögra huganum. Það hlýtur að breytast eftir skólaskylduna. 

Geir Ágústsson, 17.2.2016 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband