Framboð minnkar, verð hækkar, framboð eykst

Lögreglan hefur nú fjarlægt tvö kíló af marijúana úr umferð og bætt við sakaskrá manns og tveggja sona hans svo þeir fái alveg örugglega ekki löglega atvinnu. Um leið og framboð marijúana er minnkað eykst þrýstingur á verð þess frá öðrum framleiðendum til hækkunar. Hækkandi verð dregur svo að sér aðra framleiðendur. Þegar þeir eru gómaðir bætist einnig á sakaskrá þeirra. Svona vindur málið upp á sig. Fangelsi byrja að fyllast, sakaskrár fleiri og fleiri verða blettóttar og stétt atvinnuglæpamanna styrkist í sessi - fólk sem fær ekki vinnu við annað en svarta og ólöglega starfsemi.

Sumum þykir þetta vera þess virði. Við þurfum jú að senda skilaboð um að marijúana sé skaðlegt og hættulegt, ekki satt? Skítt með fórnarkostnaðinn og afleiðingar þessara skilaboðasendinga! 

Á meðan fleiri og fleiri ríki eru byrjuð að skipta um stefnu í þessum málum og afglæpavæða fíkniefni (sérstaklega veik efni eins og marijúana) eru Íslendingar bara að bæta í. 

Þess má geta að ég trúi því ekki að marijúana sé skaðlaust frekar en áfengi, tóbak, sælgæti og smjörlíki. Langvarandi neysla marijúana er vafalaust skaðleg fyrir heilsuna og heilann. Fólk á samt að fá að reykja jónur og sprauta sig með heróíni án þess að enda í fangelsi, fara á sakaskrá eða verða fyrir sektargreiðslum því fólk á sinn eigin líkama. 


mbl.is Feðgar í fíkniefnaframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju er læknadópið ekki gert upptækt?  Af hverju er læknum ekki hent í fangelsi?  Er það menntasnobbið í lögreglunni sem spilar þarna inn í?  Eða minnimáttarkenndin?  Sprenglærður dópsali hlýtur að vera að gera góða hluti :)  Er það hlutverk lögreglunnar að losa læknana við samkeppnina?  Fá þeir prósentur af sölunni?  Er þetta góð tekjuleið? 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.2.2016 kl. 10:31

2 identicon

Ef menn eiga að hafa fullt frelsi til að gera það sem þeim sýnist við eigin líkama án refsinga þá ættu þeir einnig að taka öllum afleiðingum þess sjálfir án kostnaðar fyrir ríkið.

En því miður eru það fleiri sem taka afleiðingunum en einstaklingurinn sjálfur, sérstaklega maki og börn. Ég held að þess vegna sé full samstaða um að ríkið komi til bjargar.

Þess vegna er eðlilegt að minnka þennan kostnað með bönnum, sektum, minnkuðu aðgengi og sérgjöldum. Þannig er ekki bara heilsufar þjóðarinnar betur tryggt heldur fellur sá kostnaðarauki sem óhollur lifnaður hefur í för með sér að miklu leyti á þá sem valda honum. 

Ein af mörgum fráleitum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar var að fella niður sykurskattinn. Slíkur skattur dregur úr neyslu á óhollum mat og sér auk þess til þess að menn greiða sjálfir að miklu leyti fyrr þann kostnað sem óhollt líferni þeirra hefur leitt til.

Með fullu frelsi til að eyðileggja eigin heilsu er lýðheilsu þjóðarinnar stefnt í voða. Það er því frekar ástæða til að minnka þetta frelsi en að auka það.

Mér litist td vel á að sælgæti væri aðeins selt í sérverslunum en ekki í matvörubúðum. Svo róttæk breyting myndi þó væntanlega taka nokkur ár að ná fram að ganga.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.2.2016 kl. 17:22

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Ertu viss um að bönnin spari ríkinu fé? Eitthvað kostar að fangelsa fólk og halda því frá atvinnu. Eitthvað kostar einhvern að smygla. Eitthvað kostar það ríkið að sjá á eftir mikilli veltu á svarta markaðinum. Eitthvað kostar að lækna fólk af neyslu efna sem búin eru til við heilsuspillandi aðstæður eða eru þynnt með t.d. rottueitri. En þú kannski liggur á góðu lesefni hér.

Geir Ágústsson, 9.2.2016 kl. 19:19

4 identicon

Það er hrein heimska að halda að allir myndu breytast í dópista bara af því að fíkniefni væru ekki lengur ólögleg.

Refsarinn (IP-tala skráð) 9.2.2016 kl. 20:14

5 identicon

Geir, ég held að þegar upp er staðið sparist mikið fé. Kostnaðurinn vegna aukinnar ofneyslu yrði gífurlegur vegna aukinnar heilbrigðisþjónustu og vinnutaps.

Refsingar hafa ekki bara kostnað í för með sér heldur einnig tekjur í formi sekta og samfélagsþjónustu. Innflytjendur geta greitt mjög háar sektir enda tekjur þeirra miklar. Það er hægt að stilla dæminu þannig upp að kostnaðurinn verði í lágmarki.

Annars er þetta auðvitað ekki fyrst og fremst spurning um sparnað fyrir ríkið. Mikilvægara er að vernda einstaklinga fyrir þeirri hættu sem fylgir ofneyslu vímuefna.

Refsarinn, það hefur enginn haldið því fram að allir myndu breytast í dópista með því að lögleiða fíkniefni. Hins vegar hefur reynsla erlendis sýnt að aukið aðgengi eykur neyslu og gerir fleiri háða vímuefnum.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.2.2016 kl. 09:23

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Það má e.t.v. benda á að stríðið gegn fíkniefnum fer sennilega að fjara út frekar en magnast upp, m.a. vegna fordæma frá löndum sem hafa gefið það upp á bátinn. Hér er lítil dæmisaga, frá Portúgal:

http://www.spiegel.de/international/europe/evaluating-drug-decriminalization-in-portugal-12-years-later-a-891060.html

World Health Organization (WHO) er einnig byrjað að gefa til kynna að þetta stríð gegn fíkniefnum sé slæm hugmynd:

http://www.huffingtonpost.com/2014/07/23/who-drug-decriminalization_n_5606609.html

Íslendingar halda sínu striki engu að síður og ætla að apa upp stefnu Bandaríkjanna seinustu áratugi: Að fangelsa fleiri og fleiri og refsa og refsa þar til stór hluti íbúanna er kominn bak við lás og slá. 

Geir Ágústsson, 10.2.2016 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband