Tilboð: Læknar hætti að vera ríkisstarfsmenn

Nú stendur yfir enn ein kjaradeila ríkisstarfsmanna við ríkið. Hún mun þróast á fyrirsjáanlegan hátt. Ríkisstarfsmennirnir krefjast himinhárra launahækkana úr tómum ríkissjóði. Því er hafnað. Mjög lítil launahækkun býðst. Henni er hafnað. Á endanum setur ríkisvaldið lögbann á verkfallið og einhver hófleg launahækkun verður raunin.

Ríkisstarfsmannastéttirnar (læknar, kennarar, hjúkrunarfræðingar osfrv.) ættu að fara þekkja þetta ferli. Þær vilja samt engu breyta. Þær vilja vera algjörlega upp á einn atvinnurekanda komnar. Þær vilja ekki út á hinn kalda og miskunnarlausa frjálsa markað þar sem framboð og eftirspurn stilla af verð á launum og þjónustu. Þær óttast um starfsöryggi sitt, lífeyrisréttindi og önnur fríðindi sem bjóðast ekki nema hjá þeim sem fær ráðstöfunarfé sitt með valdi úr vösum skattgreiðenda.

Það er skrýtið því engin stétt sem í dag starfar á hinum frjálsa markaði vill inn í faðm ríkisvaldsins, eða hvað? Hafa augnlæknar, lýtalæknar, apótekarar og aðrar frjálsar stéttir heilbrigðisstarfsmanna óskað eftir því? Að vísu kæmi mér ekki á óvart að þær biðji um niðurgreiðslur til sjúklinga sinna úr vösum skattgreiðenda, en ekki vilja þær fá launaseðlana sína frá hinu opinbera, eða hvað?

Það kæmi mér á óvart. Að starfa á frjálsa markaðinum hefur nefnilega mjög marga kosti sem að mínu mati vega mjög upp á móti kæfandi faðmi ríkisvaldsins. Á honum er sveigjanleiki til að gera betur og vinna sig upp og auka verðmætasköpun sína og þar með umbunina fyrir þjónustu sína. Á honum er hægt að semja, hver fyrir sig. Á honum er hægt að markaðssetja sig. Og fleira mætti telja til. Nú fyrir utan að hinar frjálsu stéttir treysta ekki á nauðung til að fjármagna laun sín, sem ætti nú að vera nægjanleg röksemdarfærsla fyrir stækkandi einkaframtaki allstaðar. 

Ég legg til að ríkisvaldið bjóði læknum að verða frjálsir og að þingmenn leggi um leið til að heilbrigðiskerfið verði einkavætt frá toppi til táar, með einhverjum tímabundnum ráðstöfunum vegna þeirra sem hafa nú þegar greitt skatta í kerfið og gera ráð fyrir að fá eitthvað í staðinn fyrir þá. 


mbl.is Enn ekkert tilboð á borðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já af því að einkarekna heilbrigðiskefið í bandaríkjunum er svo gott.

Gagntilboð: Borgiði bara læknum mannsæmandi laun!!

Rúnar (IP-tala skráð) 4.11.2014 kl. 08:15

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Bandaríska ríkið er ríkisvæddara en margir halda. Hér er örstutt grein sem ætti að sópa eitthvað af goðsögnunum um það kerfi af borðinu:

http://www.visir.is/hid-dyra-heilbrigdiskerfi-i-bandarikjunum/article/2014709129995

Það væri slæmt að herma eftir bandaríska kerfinu ef markmiðið er einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Þá kysi ég heldur hið svissneska.

Geir Ágústsson, 4.11.2014 kl. 08:28

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það er nú orðið spurning hvort læknar séu ekki hreinlega á almennum og alþjóðlegum vinnumarkaði.  Ef þeir eru svo færanlegir að geta selt sig hæstbjóðanda hvar sem í heimi er, þá eru læknar a.m.k. ekki jafnsettir öðrum íslenskum ríkisstarfsmönnum.

Ef til vill þyrfti að gera einhvern greinarmun á ríkisstarfsmönnum og ríkisstarfsmönnum?

Kolbrún Hilmars, 4.11.2014 kl. 16:17

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er athyglisverður punktur.

Læknar, verkfræðingar, hjúkrungarfræðingar, ljósmæður, flugmenn, viðskiptafræðingar og margir fleiri eru nokkuð sveigjanlegir á meðan þeir geta kynnt sér tungumál landsins sem þeir starfa í.

Heilbrigðisstarfsmennirnir eru svo nánast þeir einu sem láta einskorða sig við einn atvinnurekanda á Íslandi. Þeir gera ekkert til að breyta því fyrirkomulagi. Með því steypa þeir sér í sama mót og kennarar, kynjafræðingar, félagsfræðingar, stjórnsýslufræðingar og aðrir sem mennta sig beinlínis til að vinna fyrir hið íslenska ríkisvald og enga aðra. 

Geir Ágústsson, 5.11.2014 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband