Stjórnendur, hagnaður og laun

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er starfsmannakostnaður á Íslandi hærri en meðaltal ESB. 

Fyrir hverja krónu sem endar í vasa launafólks á Íslandi þarf vinnuveitandinn að borga að minnsta kosti 1,74 krónur, samkvæmt útreikningi Viðskiptablaðsins.

Þetta gleymist oft að hafa í huga þegar laun á Íslandi eru borin saman við þau í öðrum löndum. Allskyns fríðindi, eins og ókeypis kaffi og framlög í lífeyrissjóði, eru hluti af kostnaði við starfsmenn. Til einföldunar mætti segja að starfsmaður kosti fyrirtæki ákveðna upphæð á ári, og starfsmaðurinn fær hluta hennar í formi launa en annan í formi einhvers annars. 

Hvað ætli yrði um meinta misskiptingu launa ef allt yrði sundurliðað? Hvað fær forstjórinn með milljón á mánuði í framlög í sjúkrasjóð, endurhæfingarsjóð og lífeyri? Kannski minna en hinn almenni starfsmaður, eða hvað? Ég hef ekki hugmynd.

Ég furða mig nú samt á því hvernig forstjórar sem reka fyrirtæki með bullandi tapi fá yfirleitt útborguð laun. Eru þeir ekki verktakar hjá hluthöfum? Af hverju borga íslenskir hluthafar há laun til forstjóra sem skilar engum hagnaði og þar með engum arði í vasa hluthafanna? 

(Forstjóri sem nær fram myndarlegum hagnaði á vitaskuld að fá góða umbun fyrir slíkt, hvað sem líður launum starfsmanna hans, töxtum verkalýðsfélaga og annað slíkt. Fyrirtæki gera ekki annað en að reyna kaupa ódýrt, þar á meðal starfsmenn, bæta við verðmæti aðfanganna með vinnu starfsmanna, og selja dýrar.) 


mbl.is Mæta misskiptingu með afli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Tökum einn mest umrædda forstjóra landsins, Finn hjá Högum.

Lífeyrisréttindi hanns eru 27%

Óskar Guðmundsson, 18.8.2014 kl. 07:53

2 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Það sem mun meira máli skiptir er.... Ef laun hækka um 10%, hvað þarf vöruverð þá að hækka um?

Ef laun hjá Högum t.d. hækkuðu um 10%, hvað þyrfti vöruverð að hækka um?

Raunin er <1,3%

Óskar Guðmundsson, 18.8.2014 kl. 08:11

3 Smámynd: Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir

Það þarf að gera gagngera breytingu á þessu öllu, þegar staðan er orðin þannig að hin venjulega vinnandi hendi er ekki að geta staðið blikk sitt vegna lélegra launa á sama tíma og stjórnendur eru að fá margföld mánaðarlaun starfsmanna í laun á mánuði þá er ansi stór pottur brotinn...

Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 18.8.2014 kl. 08:23

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta er einn stór frumskógur finnst mér, en ég tel að eftirfarandi gæti verið til bóta fyrir alla (nema e.t.v. ríkisvaldið):

- Enginn er skyldugur til að borga í eitt né neitt, hvorki lífeyrissjóð né til stéttarfélags. Fyrirtæki þurfa ekki að borga með starfsmanni að neinu leyti - hann fær öll sín laun útgreidd.

- Ríkisvaldið dregur massívt saman seglin og lækkar skatta niður í nánast ekki neitt.

- Ríkið afnemur svo gott sem allar reglur á fjármálafyrirtæki (banka, lífeyrissjóði) og leggur niður Seðlabanka Íslands.

Hvað gerist? Fyrirtæki sem vilja krækja í sparnað landsmanna þurfa að keppa um hann. Þau geta ekki reitt sig á innistæðutryggingar og brotaforðakerfi og þurfa að keppa í trausti. Launþegar geta valið að eyða í neyslu eða sparnað. Þeirra bíður ekkert kerfi til að framfleyta þeim í ellinni. Sparnaður er á ábyrgð hvers og eins. (Eitthvað tímabil þarf samt að brúa fyrir þá sem eiga lítið eftir af starfsævinni og reiða sig á núverandi kerfi.)

Launþegar fá svo til allan kostnað vegna sín útborgða í formi launa. Fyrirtæki þurfa áfram að keppa um starfsfólk, enda er alltaf meira að gera en hendur til að gera það. Það má því færa rök fyrir að útgjöld fyrirtækja vegna starfsmanna sinna haldist nokkuð óbreytt, en meira fer nú í laun og minna í allskyns "fríðindi" og falsmyndir eins og lífeyrissparnað (ríkið er að sjúga upp lífeyri okkar til að fjármagna skuldir sínar, og gjaldeyrishöft eru að beina meira og meira af lífeyri Íslendinga í nýjar húsnæðis- og hlutafjárbólur, sem sagt pappírshagnað sem þurrkast út).

Minnkandi ríkisvald einokunarstarfsemi mun opna á stækkandi einkaframtak samkeppnisstarfsemi. Eða eru það bara matvöruverslanir sem eiga að stunda samkeppni? Hvað með skóla og heilbrigðisþjónustu? Eða gleyma menn því að á Íslandi er keppst um að selja sjónlækningar á meðan Íslendingar standa í röð til að komast í ríkislækningarnar?

Ríkisvaldið er versti óvinur launafólks.

Geir Ágústsson, 18.8.2014 kl. 08:49

5 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég veit satt að segja ekki hvort þessi 74% þarf að vera svo hátt hlutfall. Launatengdur kosnaður er kringum 55 %, síðan er það hlutur fyrirtækisins í lífeyrissjóðnum 8% og svo þarf að borga skatta af endanlegum tekjum launamannsins. Eruð þið kunnug því hvernig þessi 74% eru fundin út? Varðandi lífeyrissjóðinn Geir þá er það kannski sjálfsagt að launþeginn ráði þessu sjálfur en það er hinsvegar staðreynd að hann getur ekki ávaxtað sitt fé sem hann ætlar í lífeyri á elliárunum með jafn góðum hætti og stór sjóður. Þessvegna hallast ég frekar að einum lífeyrissjóði með sameiningu við tryggingarkerfið. Og ég vil eindregið hafa lífeyrisréttindin þau sömu hjá öllum.

Jósef Smári Ásmundsson, 18.8.2014 kl. 13:57

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Jósef,

Takk fyrir athugasemd þína. Ég ætla ekki að skrifa langan pistil um hvata - það sem hvetur og það sem letur - en efast um að einhver sé hvattur til afreka ef hann er dreginn niður í meðaltalið, og enginn hvattur til að rísa upp úr lægðinni af sjálfsdáðum ef kerfið gerir það fyrir viðkomandi. En að hjálpa þeim sem þurfa hjálp - það er sjálfsagt mál (en einkamál hvers og eins og á ekki að koma ríkinu neitt við).

Í "gamla daga" sparaði fólk til efri áranna með því að safna í sjóði. Í dag er okkur sagt að peningarnir séu ávaxtaðir. Ég leyfi mér að efast um það. Ég þekki einn mann sem borgaði í tvo sjóði alla ævi og uppskar að lokum það sem nam ellilífeyri ríkisins. Víða um heim er gegnumstreymiskerfi í lífeyrisgreiðslum sem ætla að setja heilu ríkissjóðina á hausinn. Víða um heim lána ríkissjóðir stórfé úr lífeyrissjóðum og sólunda í vitleysu, sem endar svo á skattgreiðendum sem hafa þá minna úr að moða og þar með minna til spara.

Ríkisvaldið er hérna upphaf og endir alls sem er að.

Geir Ágústsson, 18.8.2014 kl. 18:49

7 identicon

Það er ekki alltaf forstjórum að kenna að fyrirtæki skili tapi.

Stundum er stefna eigenda mjög óskýr sem svo stuðlar að tapi.

Stefán (IP-tala skráð) 18.8.2014 kl. 22:41

8 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

"Ríkisvaldið er hérna upphaf og endir alls sem er að". En ríkið erum nú við þjóðin, Geir. Þurfum við rkki að byrja á því að líta í eigin barm og stjórna þessu apparati betur samkvæmt vilja þjóðarinnar?

Jósef Smári Ásmundsson, 19.8.2014 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband