Lánað fyrir betra veðri?

Ef það er pólitískur ásetningur borgarstjórnar að þröngva fólki úr bílum og á reiðhjól, þá þarf eftirfarandi að gerast:

  • Tollahlið: Með því að hækka verð á vegaaðgengi enn meira (meira en sem nemur sköttum á bíla og bensín), þá hefur venjulegt fólk ekki lengur efni á því að nota vegina. Þetta myndi bitna verst á barnafjölskyldum, en myndi pottþétt skila "árangri".
  • Betra veður: Ef verðið á Íslandi væri betra, þá væru eflaust miklu fleiri til í að hjóla. Slabb, rigning, rok og kuldi fæla marga frá hjólreiðum, sérstaklega þá sem eru heilsutæpir. Betra veður myndi hjálpa mikið.
  • Lokun gatna: Bílar komast ekki á götur sem eru lokaðar. Umferð flyst kannski til, t.d. á götur sem liggja framhjá leikskólum (eins og raunin varð þegar Suðurgötunni var lokað), en er a.m.k. ekki þar sem vegatálmar meina bílum aðgengi.
  • Ódýrari hjól: Borgarstjórn Reykjavíkur ætti að biðja fjármálaráðherra um niðurfellingu á tollum og virðisaukaskatti á reiðhjólum og reiðhjólatengdum búnaði. Það sem er ódýrt selst betur en það sem er dýrt.
  • Færri reglur: Menn hafa talað um að setja á hjálmaskyldu á Íslandi. Reynslan frá öðrum ríkjum er sú að hjálmaskylda fæli fólk frá hjólreiðum. Miklu frekar væri að fækka reglum sem tengjast hjólreiðum, t.d. að leyfa hjólreiðar hvar sem er án tillits til umferðar eða gangandi vegfarenda.
  • Loka bílastæðum: Þar sem eru engin bílastæði, þar eru mun færri bílar. Að vísu drepur bílastæðaskortur verslun, sérstaklega þar sem er ekki hægt að fá lán til að kaupa betra veður, en þeir sem vilja komast á ákveðin svæði yrðu þá að gera það á hjóli eða fæti.

Það er sem sagt margt hægt að gera til þröngva fleirum á reiðhjól, t.d. barnafjölskyldum og heilsutæpum einstaklingum, svo ekki sé minnst á þá tekjulágu sem hafa varla efni á því að reka bíl í dag. 


mbl.is Fjórir milljarðar í hjólreiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er ekki bara verið að tala um að gera hjólreiðastíga? Það væri hið besta mál.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2011 kl. 09:16

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þá notar fólk bara ef,

  • þeir eru upplýstir
  • eru fjarri götum og þar með fljúgandi slabbi
  • liggja ekki í mikið af brekkum

Og helst ættu þeir að uppfylla eftirfarandi kröfur,

  • að þeir skuldsetji ekki skattgreiðendur um marga milljarða
  • þvingi ekki bíla inn á götur meðfram leikskólum og grunnskólum (eins og ónotaða hjólaakgreinin á Suðurgötunni)
  • veðrið á þeim er betra en almennt gengur og gerist á Íslandi 
  • fjarlægð milli vinnu fólks á heimilis styttist en frá því sem almennt gengur og gerist í dag

Sjálfur hjólaði ég í vinnuna frá þáverandi aðsetri mínu í póstnúmeri 101 og í þáverandi vinnuaðstöðu mína í sama póstnúmeri. Ég er sæmilega hraustur og þoli alveg rigningu og rok og spottinn var rétt rúmlega 1 kílómeter. Ég var í hópi mjög fárra. Sá einu sinni Árna Þór Sigurðsson, þingmann VG, á hjóli, og undraðist þá sjón mjög, en komst svo að því að þetta var á einhverjum "degi hjólsins". Sá hann aldrei fyrr né síðar. Samt býr hann í Högunum og er með vinnu niðri í bæ, og talar mikið.

Geir Ágústsson, 10.10.2011 kl. 09:34

3 Smámynd: Landssamtök hjólreiðamanna

Einn svolítið pirraður og ómálefnalegur  :-) 
-ML

Landssamtök hjólreiðamanna, 10.10.2011 kl. 10:01

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta var dæmigert innlegg frá hagsmunasamtökum sem sjá ekki sólina fyrir eigin þrönga sjónsviði. Til fjandans með skattgreiðendur og aðra sem malda í móinn þegar milljörðum er mokað ofan í okkar baráttumál.

Það vantar nákvæmlega ekkert upp á "aðstæður" til hjólreiða í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Þeir sem vilja geta alveg komist hvert sem er hvenær sem er á hjóli, frá Breiðholts til Baldursgötu, á hjólreiðarstígum, gangstéttum og vegköntum. Að kinka hugsunarlaust kolli við skuldsetningu sveitarfélags til að malbika yfir meira af grasi og mold í von um að fólk leggi bílnum er ósvífni í besta falli og frekja af verstu gerð. 

Sjálfur hjólaði ég mikið í Reykjavík, einfaldlega af því að á heimilinu var bara einn bíll og vegalengdin sem ég þurfti að fara var nógu stutt til að ég kæmist án þess að vera rennblautur af rigningu og/eða svita. Það var ekkert mál að hjóla, og auðveldara en að finna bílastæði, og ég þurfti hvorki að koma við í búð eða á barnastofnun á leiðinni. Ég er pirraður út í þá sem kvarta og kveina og heimta og heimta. Ég missi stundum af málefnalegu nálguninni þegar ég yrði á þá sem heimta og sníkja og væla og kveina, í stað þess að taka sig saman í andlitinu og stíga á pedalinn.

Ég fullyrði að þeir sem tala um að fólk eigi að hjóla meira eigi að byrja á því að hjóla meira sjálfir, og hætta að kvarta undan öllu utanaðkomandi.

Prinsessan á bauninni var komin á 20 dýnur og var ennþá að kvarta undan bauninni. Þeir sem tala fyrir hönd hjólreiða eru farnir að minna svolítið á þessa sömu prinsessu.

Geir Ágústsson, 10.10.2011 kl. 10:15

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú ert ekki að sjá þetta í réttu ljósi, Geir.

Ef aðstæður hjólreiðamanna verða bættar, þannig að bílaumferð minnki, þá getur það verið sparnaður þegar á heildina er litið.

 Þú ofmetur einnig vont veður og brekkur.

 Það er ekki verið að "þvinga" bíleigendur, heldur að gera hjólreiðar að raunhæfum valkosti, líkt og gert er í Groningen, sjá: http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/1181765/

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2011 kl. 10:24

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvað heldur manni frá því að hjóla á milli t.d. heimilis í Hlíðarhverfinu og vinnustaðar niðri í bæ? Það er hægt að ganga á milli. Það er hægt að hægt að hjóla á milli. Göngustígarnir eru til staðar. Þeir eru að jafnaði auðir.

Ef menn vilja að akstur í bíl verði minnkaður niður í það sem má telja "nauðsynlegt" (kaupa í matinn fyrir fjölskylduna, skutla börnum í skóla og á æfingar, sækja ömmu og afa í matarboðið), þá geta menn alveg eins sætt sig við að eina lausnin er sú að hækka verðið á vegaaðgenginu.

Og svo að þessum borgum sem oft er talað um sem hjólareiðarborgir og notað sem "innblástur" til að eyða fé skattgreiðenda: Var þar mikil hjólreiðamenning, sem var mætt með fjölgun hjólastíga, eða voru hjólastígarnir lagðir og þá kom hjólreiðafólki?

Geir Ágústsson, 10.10.2011 kl. 10:30

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Nauðsynlegur" akstur er einnig ofmetinn.

  • Það er ekkert mál að kaupa í matinn á reiðhjóli.
  • Börnin geta hjólað í skólann
  • Amma og afi geta líka hjólað, ef ekki, þá strætó eða sótt á bíl

Það er enginn að tala um að útrýma bílaumferð, einungis að hvetja fólk til hollrar og umhverfisvænnrar hreyfingar.

Eins og þú bendir á er vel hægt að hjóla víða í dag, en bara ekki nógu víða, með góðu móti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2011 kl. 11:05

8 Smámynd: Kári Harðarson

Fyrst ætla ég að vera sammála þér:

Aðstæður til hjólreiða í Reykjavík hafa batnað rosalega mikið síðan ég byrjaði að pirra mig á aðstöðuleysinu.

Það er flestum nauðsynlegt að eiga bíl, því veðrið er oft snælduvitlaust og barnmargar fjölskyldur fara ekki með ómegðina á einu hjóli.

Það eru frekar fáir á hjóli miðað við hjólastígaflæmið, bílvegir eru miklu þjappaðri að staðaldri.

Hins vegar:

Það er hægt að bæta aðstæður til hjólreiða heilmikið.

Nokkrir milljarðar eru ekkert mikill peningur í málaflokkinn, það voru 12 milljarðar fluttir inn bara af olíu í síðasta mánuði.

Veðrið er yfirleitt gott fyrir hjólreiðar. Það er ekki of heitt, og það eru engar brekkur í Reykjavík.

Ekki setja dæmið upp sem "Hjólreiðamenn vs. skattgreiðendur", ég er líka skattgreiðandi og ég hjóla.

Borgir sem bjóða ekki upp á innviði eins og hjólastíga, íþróttavelli og samkomustaði eru eins og háhýsi án lyftu, það vill enginn búa í þeim.

Kári Harðarson, 10.10.2011 kl. 11:46

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Kári,

Það fer enginn út að hjóla af því það er núna búið að leggja hjólreiðarstíg við hliðina á gangstígunum, sem eru úti um allt. Enginn. 

Það er hægt að bæta aðstæður til hjólreiða, en það er ekki hægt að eyða sömu krónunni í bæði viðhald á vegi og lagningu á hjólastíg, eða sömu krónunni í sérkeyrslu fyrir fatlaðan einstakling (sem mun aldrei hjóla), og lagningu á hjólastíg.

Með tóman borgarsjóð og tóma vasa skattgreiðenda þarf einfaldlega að forgangsraða, og lagning hjólastíga fyrir háværan minnihlutahóp (=hluti hjólreiðarmanna, því ekki allir hjólreiðamenn væla yfir skorti á hjólreiðastígum)  er einfaldlega óverjanleg eyðsla á fé skattgreiðenda.

Geir Ágústsson, 10.10.2011 kl. 14:16

10 identicon

@Kári Harðarson.

Þú ert kanski til í að benda mér á þetta hjólastígaflæmi sem þú talar um. Ég get ekki með nokkru móti fundið meira en 3,5 km af hjólastígum í Reykjavík.

Baldur Örn Óskarsson (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 14:27

11 identicon

@ Baldur Örn, það er vel hægt að hjóla á göngustígum þó þeir séu ekki merktir sem sér hjólastígar og göngustígar eru vítt og breytt um allt höfuðborgarsvæðið.

Og ef krafan um sér hjólastíga er svo mikil er þá ekki bara hægt að mála línu á alla göngustíga sem skiptir þeim upp helming fyrir gangandi vegfarendur og helmingur fyrir hjólandi?

Bjarki Þór Hauksson (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 14:50

12 identicon

Það hefur nú verið reynt að taka ca 1m af göngustígum undir hjólreiðastíg og er vægt til orða tekið að segja að það hafi verið klúður.

Það gerir það að verkum að hjólreiðamenn geta ekki mæst á stígnum né tekið framúr nema fara yfir óbrotna línu og auk þess öfugu megin. Og svo er stór hluti gangandi vegfarenda sem tekur ekkert tillit til þessara merkinga. Á göngustígum á að vera hægriumferð en það virðist öllum bara vera sama.

Síðan til að toppa ástandið sendir umferðarstofa frá sér fréttatilkynningu í ágúst til að árétta fyrir hjólreiðamönnum að það megi ekki hóla yfir gangbrautir heldur verði að teyma hjólið yfir. Það sé of truflandi fyrir ökumenn þegar farið er yfir gangbraut á meira en gönguhraða.

Þeir sem halda því fram að það sé alveg nóg að nota göngustígana til hjólreiða þekkja það greinilega ekki að eigin raun.

Baldur Örn Óskarsson (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 15:08

13 identicon

Ég hef hjólað um allt höfuðborgarsvæðið oft og mörgum sinnum á göngustígum, slóðum og götum og aldrei hef ég átt stökustu vandræðum algjer vitleysa að það þurfi að eyða miljörðum í að leggja hjólreiðastíga við hlið gatna á kostnað bílastæða sem nú þegar eru alltof fá.

Einnig þarf fólk að átta sig á að við búum ekki á flötu landi með hlýju veðurfari, við búum á hólóttri eldfjallaeyju, með roki, rigningu og ís stóran hluta ársins og því ekki stórt hlutfall einstaklinga sem hér búa sem myndu nýta sér hjólreiðar.

Þetta er týpískt fyrir litla hagsmunahópa sem þykjast tala fyrir hönd allra til að koma, á kostnað annarra, sínum sérhagsmunum fram.

Ef það vanntar svona mikið hjólreiðastíga, þá er best að vinda sér bara í söfnun og ganga í framkvæmdir sjálfur í staðinn fyrir að ná því fram í gegnum ofbeldi ríkisins.

Bjarki Þór Hauksson (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 15:36

14 identicon

Geir,

Ef þú mundir prófa að nota hjólið sem samgöngutæki, og þá er ég að tala um að hjóla lengra en 1km til og frá vinnu, myndirðu átta þig á því að aðstæður til hjólreiða í Reykjavík/Höfuðborgarsvæðinu eru til skammar.

Göngustígakerfið er ágætt fyrir þá sem fara út að hjóla á sunnudögum með krakkana sína, en að ætla að nota það til að hjóla 20-30km á dag til og frá vinnu er ekki boðlegt.

Svo er viðhorf ökumanna á Íslandi gagnvart hjólreiðamönnum ekki til að bæta ástandið og gerir það að verkum að það er stór hættulegt að hjóla innan um umferð, jafnvel þar sem hámarkshraðinn er 30km/h.

Ef ég keyri í vinnuna þarf ég að taka 4 vinkil beygjur eftir að ég kem út úr götunni hjá mér og umferðarljósin eru oftast samstillt þannig að ég þarf nánast ekkert að stoppa alla leiðina.

Ef ég hjóla og ætla að nota stígana, þarf ég að taka að minnsta kosti 25 vinkil beygjur og fara yfir ég veit ekki hvað margar gangbrautir sem ég þarf að stíga af hjólinu og ganga yfir skv Umferðarstofu. Auk þess eru ekkert af gangbrautarljósunum sem ég þarf að nota samstillt fyrir hjólreiðamenn. Það getur tekið allt upp í 4 mínútur að komast yfir ein ljós þar sem búið er að skera gangbrautir í tvennt og setja upp girðingar í miðjunni.

Síðan má ekki gleyma því að þegar snjóar er fyrsta verk borgarstarfsmanna að moka snjónum af götunum upp á gangstéttir til að gera þær alveg örugglega ófærar.

Ef það væri gert ráð fyrir hjólinu sem samgöngutæki í borginni myndu MIKLU fleiri hjóla. Svo einfalt er það.

Að halda öðru fram er vægast sagt kjánalegt.

Baldur Örn Óskarsson (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 15:37

15 identicon

Sæll.

"Where there is a will there is a way" segir erlent orðatiltæki. Ég hjólaði árum saman í vinnu á sumrin og oft ansi langa leið, 6-8 km eða svo aðra leiðina og svo aftur til baka. Þá var ekki komið í tísku að hjóla í vinnuna og ekki datt mér í hug að fara að væla í einhverjum og snýta mér í jakkaboðunga hjá borgarfulltrúum og biðja þá um að setja borgarsjóð enn meira á hliðina svo ég gæti hjólað í vinnu á sérstökum stíg.

Ég held að hjólareiðastígar muni ekki meika eða breika það hvort fólk hjólar í vinnuna eða ekki. Ef ég vil hjóla í vinnu leysi ég það hvaða leið ég ætla að fara, mér er nokk sama um hjólreiðastíga eða ekki, þeir hafa ekki áhrif á það hvort ég hjóla í vinnu eður ei. Eru sumir hjólreiðamenn of góðir fyrir gangstéttar? Þessir hjólareiðastígar eru bara gerviþörf. Hjólaði enginn í vinnu fyrr en í tísku komst að leggja hjólreiðastíga víða? Ætla sumir allt í einu hætt að hjóla í vinnu núna vegna þess að borgin er ekki undirlögð af hjólastígum?

Svo gleymist auðvitað að þegar einstaklingar eða hið opinbera gerir eitthvað verður að vera til aur. Hann er ekki til í dag. Ég er alfarið á móti þeim fjáraustri sem við sjáum hjá hinu opinbera í dag enda engir peningar til í opinberum sjóðum. Betra væri að nota þessa fjármuni í að greiða niður skuldir sem eru nægar.

Svo er auðvitað hætt við því að sú fjárfesting sem fer í hjólareiðastíga nýtist ansi illa um helming ársins (um vetrartímann). Hinn helming árins getur fólk með nokkuð góðu móti notað hjól ef það kýs að gera svo en fólk er líka í sumarfríum (erlendis og á landsbyggðinni) og hjólar því ekki mikið í borginni á meðan. Hver ætli sé þá nýtingin á þessum veðsettu mannvirkjum sé litið yfir árið? Hvað þurfa margir að nota hjólreiðastíg á dag svo réttlætanlegt sé að búa slíkan til? 3-5 eða 8-10? 

@Landssamtök hjólreiðamanna: Frábærlega efnisleg andsvör!!

Helgi (IP-tala skráð) 10.10.2011 kl. 22:24

16 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Aum rök að segja að ekki sé hægt að hjóla á Íslandi nema 6 mánuði á ári! Sá sem segir þetta er greinilega of mikið inni í bílnum sínum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.10.2011 kl. 07:56

17 Smámynd: Geir Ágústsson

Baldur,

Ég hef hjólað lengra og styttra, á sumrin og veturna, og yfirleitt hvergi hjólastíg að sjá, og þetta gekk bara ljómandi vel. Þú hankar mig hvorki á hjólareynsluleysi né árstíðarsögum. Hef prófað þetta allt saman, og er ennþá á því að hjólastígar séu fjáraustur.

Hvað með að halda við gangstígunum sem fyrir eru í stað þess að leggja annan og breiðari stíg við hliðina á gangstígunum?

Geir Ágústsson, 11.10.2011 kl. 08:03

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ágætt sjónarmið.... ekkert að því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.10.2011 kl. 11:02

19 Smámynd: Morten Lange

Þetta er umræða sem kemur upp í nokkrum mismunandi litum hér og þar, en svo  þegar við  erum búin að ræða þessu heiftarlega ( frekar en rólega og með rökfestu og rökstuðningi) í tvo daga eða svo þreytumst við og förum héðan. Svo byrjar umræðan á sama stigi næst á annan stða kannski bara að hluta með sömu þáttakendur, og fólkið er jafn mikið fast í sínum skogröfum. (Ég er að ýkja þessu pínu) 
Hvað er til ráða ?  Kannski tveir eða þrír sem hafa tjáð sér hér mundu geta skrifað grein / úttekt á þessu saman og birt á "varanlegri" og helst  sýnilegri stað ?  Á stað sem gerir ráð fyrir vandaðri, lengri  greinar mep neðanmálgreonum /tilvitnunum  ofl? 
Ef vitnað er í heimildir væri hægt að skrifa á Wikipediu. Annar  möguleiki væri Wikibooks.  Eða þá grein í  tímariti eða dagblaði ?
Er einhver sem nennir að vanda sér við að skrifa um þetta málefni og gera það í samvinnu við fólki sem er / virðist vera  ósammála ?

Morten Lange, 11.10.2011 kl. 18:25

20 Smámynd: Morten Lange

Þá væri svo sem hægt að byrja ferlið hér, með að ræða málið dýpra, og reyna að leita að sameiginlegri skilningu, ef þið sem hafið rætt málið hafið þolinmæði til að koma aftur yfir vikutímabíli eða tveggja.

Morten Lange, 11.10.2011 kl. 18:28

21 Smámynd: Geir Ágústsson

Morten,

Það er gott mál að hvetja til vandaðrar umræðu og að menn rökstyðji mál sitt. 

Menn mega samt ekki ruglast á því að menn tali í litríku máli, og því að menn hafi ekki fært rök fyrir máli sínu. Það er hægt að rökstyðja, í litríku máli.

Hér er því haldið fram að ekki sé til fé í vösum skattgreiðenda til að leggja nýja tegund stíga, ætlaða hjólreiðum sérstaklega.

Því er einnig haldið fram hér að það sé hægt að hjóla hvert sem er (t.d. í Reykjavík), nánast hvenær sem er, ef menn vilja það á annað borð. 

Svo eru það þeir sem vilja að aðstæður til hjólreiða séu bættar til muna, og halda því fram að það muni fá fleiri til að leggja bílnum og draga hjólið fram. Fyrir því hafa engin rök verið færð. Eina hugsanlega leiðin sem ég sé til að fá menn úr bílnum er að gera akstur óbærilega dýran fyrir flest fólk.

Svo jú við skulum endilega ræða þetta mál. Ég vona samt að þeir sem vilja að meira fé sé varið í hjólastíga (af hvaða ástæðu sem er) sjái samt að það er slæm hagstjórn að skuldsetja borgarsjóð, sama hvað málefnið heitir, og að varla sé hægt að halda því kerfi vega og stíga sem nú þegar er til staðar í árferðinu sem nú ríkir (með þeim útgjaldapóstum sem borgarsjóður á að sögn að standa undir í dag).

Geir Ágústsson, 11.10.2011 kl. 18:54

22 Smámynd: Morten Lange

Innan hjólreiðasamtaka á vesturlöndum  hefur einmitt verið nokkuð hart deilt um það hvort það þurfi að leggja sér stíga til hjólreiða. LHM hefur hín síðari ár lagt mesta áherslu á tengingar á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og ekki tekið svo mjög undir með ýmsum í borgarkerfinu, á arkitektastofum ofl sem hafa viljað leggja hjólreiðabrautir "út um allt".  Viða í miðborginni geta vanir og brattir hjólreiðamenn, sérstaklega karlar hjolað nokkuð greiðlega í dag án þess að finnast óþægilegt ( vegna ógnun bílaumferðar og mengunar sérstaklega  ).  Með því að kynnast hjólafærni -fræðunum og öðlast færni og þor  er maður fær í flestan sjó. Nema að maður vill boðlegan / góðan valkost við stofnbrautirnar. Til dæmis Mjódd - Smáralind - IKEA  - Hafnarfjörður. Og Mosó - neðri Grafarholt - Ártún - Skeifan /Mjódd.   

En margir vilja hugsa líka til annarra en þessi bratti hugaðri. Og ætli LHM sé ekki svolítið að mýkjast í þessu, til dæmis eftir ráðsetfnurnar sem ég bendi á neðar.   Guillermo Penalosa sem talar um viðan heim og sem ég heyrði meðal annars á Velo-City Global 2010 ráðstefnunnni í Kaupmannahöfn talar um borgir fyrir 8 - 80 ára.  Vegna þess hvernig bílaumferðin er og lítill vilji til að hægja á honum og hækka sektir og setja öll slys þar sem ekið er á gangandi og hjólandi á herðar bilstjórans ( Sjá DK + NL) , þá þarf að bæta aðstöðuna  til hjólreiða fyrir  þá sem eru hrædda við bílana.  Og gera það aðlaðandi  að hjóla  og augljós og sýnilegur kostur.
Vissulega kostar þetta peninga, en ekki síður, finnst mér : þetta kostar landrými, meira malbik og það mun taka tíma. ( etc )
EN : að byggja út þannig að aðgengi til hjólreiðar batni fyrir 8 ára barni og 80 ára mannsekju, borgar sér.  Sjá til dæmis sem fyrstu atrennu :  http://heatwalkingcycling.org  ( prófið að nota standard gildi, og að 10.000 manns byrja að hjóla 20 mín á dag ).   11.000 tóku þátt í hjólað í vinnuna í ár.
Sjá  líka (og /hlustaðu á) fyrirlestur Þosteins Hermansson á "Hjólað til framtíða"  : http://lhm.is/lhm/frettir/721-hjolum-til-framtidar-radstefna-20110916

Morten Lange, 11.10.2011 kl. 19:52

23 identicon

Ég er að nota hjól sem samgôngutæki og hjóla til og frá vinnu allt árið. Það má mikið bæta aðstōðu þeirra sem eru að nota hjól, aðal vandamál mitt er að Reykjavíkurborg er ekki að sinna þvi að riðja stýgana á veturnar,ef það væri gert er ekki neitt mál að hjóla allt árið.

Eiríkur Bjōrnsson (IP-tala skráð) 11.10.2011 kl. 20:24

24 identicon

@Gunnar Th:

Ég segi hvergi að helming ársins sé ekki hægt að hjóla.

Sérð þú ekki færri á hjóli yfir háveturinn en yfir bjargræðistímann? Það var einfaldlega það sem ég átti við. Fylgstu með t.d. hjólreiðanotkun við grunnskóla, þá sérðu hvað ég á við.

Vindkæling fælir suma frá því að hjóla yfir háveturinn en auðvitað ekki alla. Hálka er líka vandamál fyrir hjólreiðamenn en ekki alla hjólreiðamenn - ekki satt?

Ef hjólreiðastígar væru mjög mikið notaðir allan ársins hring myndi ég ekki setja mig upp á móti því að þeim yrði komið upp víða um borgina. Þessu er bara einfaldlega ekki til að dreifa. Hvernig gengur borginni annars að riðja gangstéttar og hjólreiðastíga?

Hvað er annars að því að hjóla á gangstéttum? Hvers vegna þarf sérstaka hjólreiðastíga?

Helgi (IP-tala skráð) 11.10.2011 kl. 22:11

25 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er alveg rétt, segir sig eiginlega sjálft, að mun færri hjóla á veturna.

Það þarf ekkert allstaðar sérstaka hjólreiðastíga, en þeirra er er þörf víða.

Ef það tekst að auka hjólreiðar um... segjum 20%, gæti það þýtt að ódýrari samgöngulausnir verði raunhæfar fyrir bílaumferð. Þá verður fjárfesting í betri aðstæðum fyrir reiðhjólafólk, fljót að borga sig.

Þ.a.l. eru ekki verið að tala um eyðslu og óráðsíu, heldur sparnað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.10.2011 kl. 23:36

26 identicon

Um leið og það er talað um að leggja í fé í aðra samgöngumáta en einkabílinn, þá rísa menn eins og geir upp á afturlappirnar og láta eins og það sé verið að reyna að banna mönnum að keyra bíla. Þetta snýst um að hafa fjölbreytta valmöguleika í samgöngum. Undanfarna áratugi hefur einkabíllinn verið í algjörum forgangi hjá borgar- og samgönguyfirvöldum og sáralítið fé notað til að bæta stöðu annara samgöngumáta. Er ekki allt í lagi að jafna stöðuna öfurlítið?

Á málflutningi þínum má skilja að þér finnist ósanngjarn að notað sé skattfé til að bæta aðbúnað hjólreiðamanna. Hvað með alla fjármunina sem hafa verið notaðir til að leggja vegi og byggja mislæg gatnamót undanfarna áratugi? Eru ekki þeir sem ekki nota bíl þá að niðurgreiða umferðamannvirki fyrir ökumennina samkvæmt þínum rökum?

 Margir tala á þann veg að það sé náttúrulögmál að íslendingar noti frekar bíl en aðra samgöngumáta og svoleiðis sé það bara, punktur og basta. Staðreyndin er hins vegar sú að borgarskipulag og áherslur yfirvalda í samgöngumálum hafa mjög mótandi áhrif á ferðavenjur borgarbúa. Undanfarna áratugi hefur stefna borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda ýtt mjög undir notkun einkabíls á kostnað annara ferðamáta, svo sem hjólreiða og strætisvagna. 

Dæmi um bílaborg þar sem þróuninni hefur verið snúið við með skipulögðum hætti er Curitiba í Brasílíu. Þar var lögð ofuráhersla á að gera almenningssamgöngur skilvirkar ásamt því að stórbæta aðstöðu fyrir hjólandi og gangandi og á frekar skömmum tíma gjörbreyttist yfirbragð borgarinnar. 

Eitt enn sem er vert að hugleiða fyrir varðmenn einkabílsins. Ef fleiri hjóla eða taka strætó er meira pláss á götunum fyrir ykkur. 

Helgi Hallgrímsson (IP-tala skráð) 12.10.2011 kl. 01:05

27 Smámynd: Geir Ágústsson

Ef þeir sem vilja meira af fé borgarsjóðs veitt í lagningu hjólastíga gætu komið með raunhæfar leiðir til að fjármagna þetta hugðarefni sitt, t.d. lagt fram stórkostlegar niðurskurðartillögur á öðrum sviðum borgarinnar, þá skal ég hafa mig hægan.

En á meðan engar slíkar tillögur eru lagðar fram, þá lít ég á hjólastíga-áhugamennina sömu augum og aðra þrýstihópa sem heimta einfaldlega að skattgreiðendur hafi þeim mun minna fé á milli handanna. 

Jújú það er hægt að halda því fram að tvíbreiðir og upphitaðir hjólastígar muni minnka þörfina fyrir fleiri akgreinar á vegunum, en því er hægt að svara með því að á verstu vetrardögum þurfi að vera pláss á vegunum fyrir alla (svona eins og fyrir hverja vindmyllu sem framleiðir í dreifikerfið þarf að vera til kolaofn til að framleiða á dögum þar sem enginn vindur blæs.

Og það er hægt að hnýta í mig persónulega, gott og vel.

En það er einfaldlega óverjandi að ætlast til þess að skattgreiðendur fjármagni þetta áhugamál, nema á móti komi a.m.k. jafnstór niðurskurður í öðrum útgjaldaliðum borgarinnar. Hugsanlegur "sparnaður" til lengri tíma er eitt stórt "kannski". Skattgreiðendur þurfa að borða núna.

Geir Ágústsson, 12.10.2011 kl. 05:13

28 Smámynd: Morten Lange

Við förum svolítið í hringi hér, eins og gjarnan vill vera í bloggumræðum og kannski umræðum almennt.  Væri frábært að reyna að taka eitt fyrir í einu.  Á wiki-vef eða Google-docs skjali gæti verið skilvirkt  að flokka spurningarnir og rökin og vinna í þá alla samhliða.

Morten Lange, 12.10.2011 kl. 10:58

29 Smámynd: Morten Lange

Fannst þér fyrirlestur Þorsteins og útreikningar í likani Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar veita _einhverju_ (hluti af) svari við áhyggjur þínar, Geir ?

Morten Lange, 12.10.2011 kl. 14:22

30 Smámynd: Geir Ágústsson

Morten,

Þorsteinn nefnir ekki einu orði hvar borgarsjóður á að skera niður til að fjármagna þetta krúttlega hjólaverkefni. Hann talar mikið um "kostnað samfélagsins", en hvað með að margir velji einfaldlega að eyða miklu fé til að reka einkabíl? Það þarf enginn að segja neinum að það sé mikill sparnaður í að hjóla miðað við keyra.

Niðurstaðan: Til að koma fólki út úr einkabílnum þarf að gera það óbærilega dýrt fyrir venjulegt fólk að keyra. Hérna er ekki veðurfar til að lokka aðra en hrausta einstaklinga út á hjólið á veturna. Þeir sem eru hraustir en í einkabíl hafa einfaldlega valið dýran kost sem þessir eintaklingar telja betri en sparnaður hjólsins.

Geir Ágústsson, 13.10.2011 kl. 08:06

31 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Elena sem er sjóður á vegum Evrópska fjárfestingarbankans sem lánar til umhverfisvænna framkvæmda." segir í fréttinni.

Ennfremur segir: "Við erum líka að sækja um vegna metanvæðingar strætisvagnaflotans og byggingar gasgerðarstöðvar hjá Sorpu,“ segir Dagur B. Eggertsson

Þá er spurning hvort þessir 4 miljarðar fara í allt þetta, eða bara hjólin. Einnig, hver eru kjörin á láninu, miðað við "hefðbundin" lán.

Ef maður spáir í það, þá eru 4 miljarðar dálítið mikið í lagt, þegar verið er að skera niður í grunnþjónustu samfélagsins, eins og Geir bendir á.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.10.2011 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband