Hjálpaðu ríkisstjórninni að fjármagna ríkisreksturinn!

Ríkissjóður verður rekinn með a.m.k. 140 milljarða kr. halla á þessu ári ef fer sem horfir. Ríkisstjórnin situr nú sveitt yfir fjárlagagerð þar sem mikil áhersla verður lögð á að hækka alla skatta. Útgjöld á að draga eitthvað saman en sá samdráttur nemur ekki einu sinni 10 prósentum, sem er vitaskuld alltof lítið fyrir gjaldþrota ríkissjóð.

Hugmyndafræðileg gjá finnst á milli þeirra sem telja að ríkið eigi að belgja sig út á kostnað skattgreiðenda, og hinna sem finnst að ríkið eigi að draga saman útgjöld sín eins og venja er í hefðbundnum rekstri fyrirtækja og heimila þegar tekjur dragast saman.

Þeir sem vilja mergsjúga skattgreiðendur nota gjarnan setningar eins og að "enn er svigrúm til skattahækkana" og "enn finnast þeir sem eru aflögufærir til að stoppa í gatið á fjárlögum".

En hvar er þetta aflögufæra fólk? 

Í stað þess að siga Skattmann á skattgreiðendur (með sögulega vel þekktum afleiðingum á hagkerfi og heimili) legg ég til að þeir sem telja sig aflögufæra, og vilja að ríkið hækki skatta frekar en að draga saman útgjöld, leggi sitt af mörkum og greiði einfaldlega meira í ríkissjóð.

Sú aðgerð er einföld, felur í sér heimsókn í bankann eða opnun heimabankans í tölvunni, og notkun eftirfarandi upplýsinga (sem ég hef að vísu ekki sannreynt sjálfur en vona að dugi):

Kt: 540269-6459
Rknr: 0001 - 26 - 025017

Vonandi léttir frjálst framlag skattahækkunarsinna byrðina sem Steingrímur J. og hans fólk ætlar að leggja á herðar þeirra sem eftir eru í hópi skattgreiðenda á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband