Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

ASÍ: Málpípa ríkisstjórnarinnar

Samþykkt miðstjórnar ASÍ er eins og samin af Steingrími J. sjálfum.

Þar segir meðal annars:

  • Skattkerfið á að nota til "tekjujöfnunar"
  • Fjárlagahallinn er "nýfrjálshyggjunni" að kenna
  • Niðurskurðurinn á velferðarkerfinu er þarseinustu ríkisstjórn að kenna

..og svona má lengi telja. Nánast hver einasta setning er eins og skrifuð sem fegrunarstimpill fyrir getulausa ríkisstjórnina. 

Þetta dylst vonandi engum.


mbl.is Áhyggjur af stöðu velferðarkerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Happadráttur fyrir ríkisstjórnina (óverðskuldaður)

Stækkunaráform álversins í Straumsvík eru mikill en óverðskuldaður happadráttur fyrir ríkisstjórnina.

Ríkisstjórnin hefði aldrei hleypt þessu verkefni í gegn ef enn ætti eftir að framleiða skýrslur í nafni "umhverfismats". Sem betur fer var það löngu búið.

Ríkisstjórnin hefði aldrei hleypt þessu verkefni í gegn ef álverið í Straumsvík hefði þurft meira land en það hefur nú þegar. Hafnfirðingar hefðu einnig reynt að hindra landfræðilega aukningu álversins.

Ríkisstjórnin hefur ekki tekið vel í erlendar fjárfestingar hingað til, en það má sennilega teljast skömminni skárra að hafa Samfylkingarmann í iðnaðarráðuneytinu en eitt stykki vinstri-grænan.

Stækkun og endurbygging álversins í Straumsvík er óverðskuldaður happdrættisvinningur ríkisstjórnar sem gerir allt sem hún getur til að sigla þjóðarskútunni í strand. 


mbl.is Fjárfesta fyrir 86 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falið atvinnuleysi er mikið

Opinberar tölur um atvinnuleysi eru að mörgu leyti athyglisverðar og gefa örlitla vísbendingu um heilsu hagkerfisins. En ekki mikið meira en það.

Falið atvinnuleysi á Íslandi er mjög mikið. Það kemur meðal annars fram í eftirfarandi:

  • Íslensku bankarnir eru með nánast sama starfsmannafjölda í dag og fyrir hrun. Það er of mikið vinnuafl að sinna of fáum verkefnum. Þar þarf helst að segja upp hundruðum manns, en er ekki gert vegna pólitísks þrýstings.
  • Hið opinbera er of mannmargt. Þar er alltaf verið að bæta við fólki, en þó ekki þar sem á þarf að halda, heldur í ráðuneytum og í stjórnsýslunni. Þessu fólki þarf að segja upp sem fyrst en það er ekki gert vegna pólitísks þrýstings.
  • Á Íslandi er ennþá verið að byggja. Til dæmis er lítill mauraher í byggingarvinnu á tónlistarferlíkinu við Reykjavík. Engar forsendur eru fyrir þessum byggingum. Á Íslandi er offramboð af húsnæði. Það sem er byggt er byggt fyrir lánsfé hins opinbera og það er slæmt mál.
  • Hækkandi skattbyrði á fyrirtæki rýrir afkomu þeirra og hækkar kostnað á hvern starfsmann. Enn á að gera illt verra á næsta ári. Undirliggjandi uppsagnarhrinur hjá mörgum fyrirtækjum bíða nú bara réttrar tímasetningar. Á meðan blæðir fyrirtækjunum út.
  • Atvinnuleysi er falið á marga mismunandi vegu, t.d. með því að senda atvinnulaust fólk í skóla eða borga því fyrir "listsköpun" og fjarlægja það af atvinnuleysisskrá. Þetta er tvöfaldur útgjaldaliður fyrir ríkið því nú borgar ríkið ekki bara uppihald atvinnulausra heldur einnig menntun sem í flestum tilvikum mun ekki nýtast til neins.

7,1% atvinnuleysi segir Vinnumálastofnun. Rétt tala er sennilega nær 20% þegar allt er talið með.

Ríkið þarf að draga saman seglin og leyfa einkaframtakinu að fá lífvænleg rekstrarskilyrði svo 20% atvinnuleysi/verðmætasóun geti orðið að verðmætasköpun á ný. 

 


mbl.is Atvinnuleysi minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að 'spara' sig úr kreppunni

Í Svíþjóð, Þýskalandi og fleiri löndum hafa stjórnvöld mjög markvisst haft eitt að leiðarljósi eftir að kreppan skall á: Að reyna temja ríkisútgjöld eins mikið og pólitískur veruleiki leyfir, svo einkaframtakið eigi sér viðbjargar von.

Í Svíþjóð og Þýskalandi hefur mikið verið lagt upp úr því að temja fjárlagahalla ríkisins eftir að margar og stórar "tekju"lindir þess gufuðu upp í hruninu. Skattlagningarvendinum hefur ekki verið sveiflað þar af hinu íslenska ofstæki. Menn hafa ekki haft neinar grillur um að "eyða sig út úr kreppunni" eins og t.d. Íslendingar og Bandaríkjamenn reyna. 

(Norræna "velferðar"stjórnin á Íslandi hefur ekki fylgt fordæmi Svía, heldur Bandaríkjamanna! Kaldhæðnislegt!)

Svíar og Þjóðverjar eru nú þegar að uppskera árangur erfiðisins (sem mér finnst að vísu ekki mjög merkilegt, en séð í samhengi við önnur ríki, þá alveg svakalega merkilegt!). Hagkerfum þeirra er spáð örum bata og jafnvel vexti. 

Hugmyndafræðileg gjá er að myndast á milli þeirra sem vilja eyða lánsfé í neyslu eins og óðir unglingar í sykurvímu í verslunarmiðstöð, og þeirra sem vilja skera niður neyslu, leggja fyrir og fjárfesta eins og yfirvegað og fullorðið fólk. Hvor vinnur? Í mínum huga er engin spurning. 


mbl.is Spá 4,8% hagvexti í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listamenn, með og án ríkisstyrkja

Listamenn skiptast í tvo hópa: Þá sem skapa eitthvað sem einhver vill kaupa, og hinir sem skapa eitthvað sem enginn vill kaupa.

Fyrri hópurinn er eflaust fjölmennur og lætur skattgreiðendur alveg í friði. Síðari hópurinn telur sig einhvern veginn yfir annað fólk hafið og krefst þess að fá greitt, hvort sem það uppfyllir einhverja þörf eða ekki. 

Listamenn skila vafalaust miklu fé til landsins, en það réttlætir ekki að þeir fái jafngreiðan aðgang að vösum skattgreiðenda og raunin er. Það er auðvelt að benda á fjölda seldra flugmiða í tengslum við Iceland Airwaves og segja, "hey, sjáðu, þetta er okkur og ríkisstyrkjum til okkar að þakka!". Hitt sem hverfur við ríkisstuðninginn er erfiðara að benda á. En það er samt staðreynd að þegar ríkið hirti fé og sendi til Iceland Airwaves, þá hirti það fé sem ella hefði runnið í eitthvað annað, til dæmis tónleika listamannsins sem er ekki hluti af lista-menningar-elítunni.


mbl.is Listsköpun skilar gjaldeyristekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðveld leið: Gera 'ekkert'

Ég leyfi mér að benda á eina auðvelda leið til að "draga úr hlýnun loftslags" sem er: Gera ekkert.

Gefum okkur að maðurinn hafi mikil og mælanleg og sannanleg áhrif á breytingar í loftslagi Jarðar. Það er jafnvel hugsanlegt þótt ég hafi efasemdir um ýktustu frásagnir þess eðlis. En eigum við að gera eitthvað í því? Eigum við eyða orku, fé og auðlindum í að hægja á bruna jarðaefnaeldsneytis og láta beljur prumpa minna?

Nei, segi ég. Mun stærra og alvarlega vandamál á Jörðinni er fátækt. Hana sigrum við ekki með því að þvinga fátæka til að lifa við orkuskort ef þeir hafa ekki efni á nýjustu tækni ríkustu Vesturlanda. Sjúkdóma er ekki hægt að sigra ef peningunum er eytt í rándýr sólarorkuver og ríkisstyrktar vindmyllur. Ef og þegar veðurfar breytist (með og án manna) þá þarf fólk að eiga fé til að kaupa föt til að klæða sig eftir hinu nýja veðri. Ef það hlýnar þurfa fátækir að verða ríkir til að hafa efni á loftkælingu. Ef kólnar, þá þurfa fátækir að verða ríkir til að kaupa yfirhafnir. 

Að gera ekkert í loftslagsmálum og meira í að binda saman fátæka og ríka á einn stóran alþjóðamarkað er mín hugmynd. 


mbl.is Barist gegn loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðir eða AGS?

Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson hafa hagað sér eins og hlýðnir hundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins undanfarin misseri og hoppað þegar sjóðurinn hefur beðið um það. Sjóðurinn lýsti því yfir á lokuðum fundum að almennar afskriftir og niðurfellingar væru ekki fýsileg leið, á meðan raunsæið sagði flestu fólki að það væri nánast eina leiðin til að vinda ofan af skuldsetningu hagkerfisins.

En núna lítur út fyrir að Ögmundur Jónasson ætli að taka slaginn við samráðherra sína og bera einhvers konar jarðtengda skynsemi á borð ríkisstjórnarinnar. Það er gott mál, ef satt er.

Þann 7. október sl. birtist grein í Morgunblaðinu eftir Gunnlaug Jónsson, framkvæmdastjóra og fyrrverandi fjármálaráðgjafa, þar sem Gunnlaugur lýsti góðri hugmund um lausn á skuldavanda heimilanna. Hana má lesa hér. Hvernig væri að ræða þá hugmynd af fullri alvöru?


mbl.is Niðurfærsla rædd í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgar sig ekki að spara, en hvað með það?

Ljóst er að á Íslandi borgar sig ekki að spara. Það borgar sig ekki einu sinni að eiga eitthvað smáræði inn á bankabók, því á þá innistæðu hlaðast "verðbætur" sem teljast til fjármagnstekna og leiða til skerðingar á öllu sem fólk býst við að fá til baka af sköttum sínum í formi ýmissa "bóta" frá Tryggingastofnun ríkisins.

En þá spyr hinn vel menntaði hagfræðingur: Hvað með það? Hagkerfinu er haldið gangandi með eyðslu, en ekki sparnaði. Sparnaður dregur fé úr umferð og hægir á hjólum hagkerfisins. Fólk þarf að eyða sparnaði sínum og þannig fara hjólin að snúast á ný. Hagkerfið er knúið áfram af eftirspurn, en ekki framboði. Þetta kenndi Keynes okkur á sínum tíma og Krugman í dag, og við það stöndum við.

Og mikið rétt, samkvæmt "viðteknum" hagfræðikenningum þá gerir það ekkert til að fólk spari ekkert og eyði öllu og rúmlega það (jafnvel gott að fólk taki lán og eyði í neyslu).

En "viðteknar" hagfræðikenningar eru rangar. Það þarf ekki að kafa djúpt til að sjá hvað. Við vitum öll að það er gott að spara og við vitum líka að sparnaður okkar liggur ekki hreyfingarlaus í einhverjum kjallara og hverfur úr umferð (þótt slíkt sé ekki nauðsynlega slæmt). Hann er lánaður áfram til fjárfesta. Andstæða sparnaðar er eyðsla og við vitum líka öll að þeir sem eyða hverri einustu krónu og eiga engan varasjóð þurfa að taka dýr lán til að brúa bilið ef eitthvað kemur upp á. Slíkt lamar framtíðarlífskjör því skuldir þarf að borga.

En ef einhver hefur áhuga á því að kafa dýpra í huliðsheima hagfræðikenninga og framboðs/eftirspurnar þá get ég bent á þessa stuttu grein og þennan kafla í langri bók.


mbl.is Ríkið hirðir nánast allar tekjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað næst? Þjóðaratkvæði um heimili Ólínu Þ.?

Ólína Þorvarðardóttir vill að vernd á eignaréttindum kvótaeigenda verði sett í þjóðaratkvæði.

Hvað sem mönnum finnst um kvótakerfið og hvernig veiðiheimildum "eigi" að úthluta/ráðstafa, þá er það svo að kvóti í dag er eign eins og reiðhjól og einbýlishús, sem menn kaupa og selja og semja um verð á, og treysta því svo að ríkið verndi eign þeirra fyrir þjófnaði og ágangi.

Ef ríkið allar að ógilda alla kaupsamninga um kvóta á einu bretti þá má búast við því að þeir sem voru sviptir eignum sínum krefjist bóta.

Og þar sem 98% kvótans hefur skipt um hendur síðan kvótakerfinu var komið á, þá er um að ræða nánast hvert eitt og einasta kíló sem má veiða við Íslandsstrendur. 

Ég velti því fyrir mér hvort húseign Ólínu þingmanns verði gerð að pólitísku þrætuepli næst. Hún gæti búist við því að vera borin út í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu og þurfi að sækja sér bætur í gegnum dómskerfið. 

Hitt er svo að Samfylkingin hefur sýnt að henni er nákvæmlega sama um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðsla, ef hún kærir sig þá yfirleitt um þær, og það þrátt fyrir allt sitt tal undanfarin ár um mikilvægi og skynsemi þeirra. Oft bylur hæst í tómri tunnu. Oft eru umræðustjórnmálin innihaldslausust allra stjórnmála.


mbl.is Þjóðaratkvæði um fiskveiðistjórnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng forgangsröðun

Katrín Jakobsdóttir slær sig nú sem sérstakan riddara íslenskra bókmennta á þýsku. Hún segir blátt áfram að framlög skattgreiðenda til þýskuþýðingar á bókum hafi ekki verið skorið niður um eina krónu. Hún segir þetta án þess að skammast sín.

Á sama tíma er heilbrigðisstofnunum sagt að segja upp læknum og hjúkrunarfólki. 

Á sama tíma talar Katrín um vaxandi vinsældir íslenskra glæpasagna erlendis. En ef eftirspurnin er slík, af hverju þarf þá að féfletta skattgreiðendur til að þýða? Meira að segja hinn litli íslenski markaður er nógu stór til að standa undir einhverjum þýðingum á erlendum bókum (þótt ég viti ekki hvað skattgreiðendur eru látnir greiða fyrir af þeim, ef nokkuð). 

Hvað þarf að selja margar kiljur til að standa undir þýðingu? 3000? 2000?

Urðu íslenskar glæpasögur vinsælar og voru þýddar áður en ríkið kom til leiks? Ef svo er, hvað er ríkið þá að skipta sér af? Er það til að geta kaffært einhverja þýska bókasýningu með íslenskum bókum á þýsku?

Hvað ef Frakkar bjóða Íslendingum að verða "heiðursgestir" á einhverri bókasýningu í París? Þýðir það sjálfkrafa að íslenskir skattgreiðendur þurfa að blæða fyrir frönsku-þýðingar?

Forgangsröðun stjórnvalda er skrýtin, svo ekki sé meira sagt.


mbl.is „Eitthvert stærsta þýðingarverkefni heims“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband