Vilji barna og mannrán

Mikil læti eru nú í gangi á Íslandi af því íslensk yfirvöld vilja framselja ákærðan lögbrjót til Noregs. 

Þessi lýsing á aðstæðum er hlutlaus og felur ekki í sér neina skoðun. Í henni eru engar staðreyndavillur. En tilfinningar eru sjóðandi heitar og menn kjósa að orða hlutina öðruvísi.

Því er haldið fram að einhver vilji barna eigi að fá að ráða. Það er mjög óvenjulegt fyrirkomulag í íslensku samfélagi. Börn eru hiklaust gerð föðurlaus gegn vilja sínum. Það er daglegt brauð. Vilji barnanna skiptir engu máli. Hann ætti kannski að gera það, en gerir það ekki.

Nú fyrir utan að lýsingar á vilja barnanna koma úr einni átt og engum öðrum skoðunum hleypt að hljóðnemanum.

Því er haldið fram að ef mamma mokar börnum upp í flugvél og stingur af úr landi með þau að þá sé það ekki mannrán því mæður geta ekki rænt börnum sínum. Bara feður. Jafnréttisparadísin á Íslandi er ekki komin lengra en það.

Ég hef engra hagsmuna að gæta í þessu hávaðamáli en leyfi mér að hafa töluverðar efasemdir um að hávaðaraddirnar séu einhvers konar raddir réttlætis sem berjast fyrir vilja barnanna. Miklu frekar held ég að hér séu tækifærissinnar á ferðinni - fólk sem lemur gjarnan niður feður og gerir börn þeirra föðurlaus - en stekkur núna á hinn vagninn og tekur upp hanskann fyrir manneskju sem oft og ítrekað hefur tapað sínum forræðismálum, meðal annarra mála sem viðkomandi hefur komið sér í, af því viðkomandi er með rétta tegund kynfæra.

Maður vonar auðvitað að börnin beri ekki of mikinn skaða af ástandinu - af því að sjá æstan skríl veitast að föður þeirra, af því að vera rifin út úr daglegu lífi sínu og flogið yfir hafið og endað þar á vergangi, af því að vera núna á milli tannanna á fólki sem fullyrðir hvaða skoðun þau hafa í miðri ringulreiðinni.

Forræðismál fara oft í ræsið þar sem niðurstaðan er föðurlaus börn. Núna er mamman búin að koma sér í fangelsi og börnin verða móðurlaus. Ekki er það betra, en heldur ekki verra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband