Hljómur frelsisins og blaðamenn

Kvikmyndin Sound of Freedom hefur áður verið nefnd á þessum stað. Mæli ég með góðri greinaröð um þessa kvikmynd á Krossgötum [1|2|3] eftir höfund með leiftrandi réttlætiskennd í brjósti. 

Örlítill inngangur: Kvikmyndin fjallar um kerfisbundin barnarán og sölu á börnum, og sannsögulega lýsingu á því hvernig reynt er að bjarga þessum börnum. Donald Trump hefur sagst vera á móti kynlífsþrælkun barna og bauð höfundi myndarinnar í spjall á meðan sá fyrrnefndi var forseti. Fyrir vikið hefur boðskapur myndarinnar verið afskrifaður eins og einhvers konar Trump-boðskapur og samsæriskenning (maður óskar þess nú ekkert heitar en að barnarán og sala á börnum í kynlífsþrælkun sé hreinn hugarburður). Blaðamenn hafa í kjölfarið talið það vera skyldu sína að rægja þessa mynd og fjalla um hana á neikvæðum nótum.

Ég var eiginlega búinn að gleyma þessu máli öllu þar til ég rakst á sýningartíma myndarinnar í Danmörku og sá þar ýmsa dóma. Dómar kvikmyndagesta eru góðir, og meðaleinkunn 5,2 af 6 gefin. Dómar fjölmiðlanna, og svokallaðra fagmanna í kvikmyndarýni, eru vondir:

  • 2 stjörnur af 6 (borgaralega sinnað dagblað, en vísar í Trump)
  • 2 stjörnur af 6 (kristilegt dagblað, og kallar myndina óáhugaverða)
  • 3 stjörnur af 6 (kvikmyndarýni sem sér að því að bent sé á siðferðisbrest)
  • 1 stjarna af 6 (kvikmyndarýni, sem telur myndina ósmekklega)
  • 2 stjörnur af 6 (vinstrisinnað blað, sem kallar myndina tilfinningaklám)
  • 4 stjörnur af 6 (æsifréttablað sem þorir)
  • 4 stjörnur af 6 (borgaralega sinnað dagblað)

Á IMDB fær myndin 7,7 af 10 sem er mjög góð einkunn og byggð á yfir 84 þúsund einkunnagjöfum. Á IMDB eru það áhorfendur, en ekki svokallaðir sérfræðingar, sem gefa einkunnirnar. 

Auðvitað er ekki fáheyrt að kvikmynd sé elskuð af fólkinu á meðan spekingarnir eru ósáttir, og öfugt. En rökstuðningur þeirra sem gefa lélega einkunn eða veita neikvæða umfjöllun er oft einhver tilvísun í Trump og álíka fyrirbæri, og hér og hér má sjá stæk dæmi um þetta viðhorf.

Þetta fær mig til að hugleiða aðeins víðar hvernig blaðamenn nálgast vinnuna sína. Þeir hljóta jú að hafa sótt í blaðamennsku til að greina, aðgreina og gera grein fyrir einhverju. Þeir hljóta að hafa alist upp við að telja sig sjá kjarna málsins, hafa hæfileika til að greina hismið frá kjarnanum og geta boðið upp á einhverja fréttnæma eða áhugaverða nálgun á viðfangsefni samtímans.

Ef blaðamenn geta ekki horft á kvikmynd sem áhorfendur almennt virðast elska, byggða á raunverulegum atburðum, um björgun á börnum úr kynlífsþrælkun, og dæmt hana út frá öðru en því að Trump sagði eitthvað jákvætt um hana, eiga þeir sér þá einhverja von?

Ég held ekki, og er sífellt að styrkjast í þeirri afstöðu.

Blaðamenn geta auðvitað sagt okkur frá markatölu í íþróttaleik og hvað veðurfræðingur heldur að komi úr himnunum eftir einn eða í mesta lagi tvo daga, en mikið lengra nær það ekki.

Fyrir vikið þurfum við hin að sækja í efni óháðra blaðamanna, hlaðvörp, rökræður, skýrslur og jafnvel setja okkur inn í vísindagreinar sem fjölmiðlar hunsa af því það er ekki á handritinu sem þeir fengu til að skrifa.

En auðvitað bara gefið að við nennum að vita eitthvað meira en markatölur íþróttaleikja, og hvort við eigum að fara út í flíspeysu eða regnjakka næsta dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband