Áreiti og viðbragð

Ég stend mig að því þessa dagana að vera á höttunum eftir fallegri Biblíu. Eftir samskipti við gott fólk sem þekkir til hennar hef ég ákveðið að það verði annaðhvort íslenska þýðingin frá 1981 (sem virðist hvergi vera að finna) eða eitthvert umbrot af The New King James Version á ensku. 

Ég hef aldrei átt Biblíu. Einhvers staðar á ég Nýja testamentið sem ég las stundum sem unglingur fyrir fermingu og blaðaði aðeins í eftir það. Í mörg ár - áratugi - hugsaði ég ekkert meira um það. En eitthvað hefur orðið til þess að mér finnst ég núna verða að eignast Biblíu. Þá meina ég Biblíu á prenti.

Við búum í vestrænu samfélagi byggðu á kristnum rótum. Jafnvel þótt við teljum okkur flest vera allt að því eða algjörlega trúlaus - ég þar á meðal - þá neita ég ekki kristnum rótum samfélags okkar. Kannski er auðveldast að sjá þær rætur með því að bera saman vestræn samfélög við öll hin. Hvaða trúarbrögð boða að konan sé eign karlmannsins? Að það eigi að drepa frekar en fræða þá heiðnu eða rangtrúuðu? Að það sé engin fyrirgefning fyrir þá syndugu önnur en kvalarfullur dauðdagi? Þið vitið hvað ég á við.

Ýmsar ógnir stafa að samfélagi okkar, sumar nýjar og sumar gamlar, og mér þykir það leitt. Kannski það að eiga Biblíu geti jarðbundið mig aðeins í heimi nútímalegri trúarbragða, þar á meðal þess trúarbragðs að treysta siðblindum milljarðamæringum fyrir framtíð okkar.

Leit mín heldur áfram og valkvíðinn er ærandi en vonandi verð ég bráðum eigandi að fallegri Biblíu sem fær góðan og aðgengilegan stað á heimili mínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvaða trúarbrögð boða að konan sé eign karlmannsins? Kristni.

Að það eigi að drepa frekar en fræða þá heiðnu eða rangtrúuðu? Kristni.

Að það sé engin fyrirgefning fyrir þá syndugu önnur en kvalarfullur dauðdagi? Kristni.

Þú getur lesið um það í Biblíunni, þangað sóttu líka flest þessi öll hin samfélög þær hugmyndir,  þegar þú færð hana. En það sem við flokkum undir kristnar rætur hefur litla tengingu í Kristni og að miklum hluta til komið þrátt fyrir baráttu kirkjunnar gegn því.

Vagn (IP-tala skráð) 16.5.2023 kl. 20:34

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Allt gott og blessað hjá þér. Ef ég myndi segja: Hvaða trú boðar tönn fyrir tönn og auga fyrir auga - svar þitt væri líka "kristni". En þú ert að spá í öðru en ég.

Að öðru: Veistu hvar ég get keypt nýtt eintak af 1981 þýðingunni á íslensku af Biblíunni?

Geir Ágústsson, 16.5.2023 kl. 20:38

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Geir, það getur verið að þú fáir þessa útgáfu af biblíunni á bokalind.is.  Hann selur mest notaðar bækur og það er alveg ótrúlegt vað fæst hjá honum og ef hann á bókina ekki til þá leggur maður bara inn pöntun, það getur að sjálfsögðu liðið langur tími en oftast eru  það vikur.  Ég hef verslað mikið hjá honum og ekki skemmir fyrir að verðin eru mjög góð......... 

Jóhann Elíasson, 16.5.2023 kl. 21:02

4 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Geir Ágústsson!

Innihald Biblíunnar er Orð Guðs, og þó ekki, ef það er bara á prenti.

Orð Guðs er Jesús Kristur sjálfur.

1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. 2 Hann var í upphafi hjá Guði. 3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. 4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.

14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum. (Jóh. 1).

https://biblian.is/1981/johannesargudspjall-1-kafli/

Jesús segir: 4 Verið í mér, þá verð ég í yður…5 Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört . 6 Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. (Jóh. 15).

Þetta þýðir að Orð Guðs, Jesús, (Biblían), þarf að vera í þér og þú þarft að vera í Orðinu, Jesú. Prentsverta í bók hjálpar þér ekkert, jafnvel þótt þú haldir á bókinni.

Nei, í huga þínum og hjarta þarf Orð Guðs, Jesús, að vera og þú þarft að vera í því.

Án Jesú gildir reglan: Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót, bruna fyrir bruna, sár fyrir sár, skeinu fyrir skeinu. (2. Mós. 21:24-25).

En í Rómverjabréfinu 6. kafla og 23. versi stendur:

Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Geir Ágústsson! Takir þú við náðargjöf Guðs, sem er Orð Hans, Jesús Kristur inn í hjarta þitt, þá ertu hólpinn, sýknaður af syndum þínum. Þér verður þá ekki tortímt.

Jesús er þá sá sem tekur á sig tortímingu þína á krossinum. Þetta er fagnaðarerindið.

Guðmundur Örn Ragnarsson, 16.5.2023 kl. 21:50

5 identicon

Vagn (IP-tala skráð) 17.5.2023 kl. 02:03

6 identicon

Það er ekkert um boðskap Krists í gamla testamentinu.

Boðskap Krists er að finna í nýja testamentinu.

Kristni er það að trúa á Drottinn Jesú Krist og reyna að tileinka sér kærleiksboðskap hans.

Náð Drottins Jesú sé með öllum.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.5.2023 kl. 10:12

7 identicon

Sæll Geir,

Hvað það varðar að okkar samfélag sé byggt á kristnum rótum þá ætla ég að vera ósammála. Við tölum norrænt tungumál, við heitum flest norrænum eða germönskum nöfnum, við tveir til dæmis. Réttakerfið okkar er að grunni Rómarréttur. Við notum heimspeki og almennan þankagang sem kominn er frá Grikkjum. Jólin okkar eru eins heiðin og hægt er þó svo að kirkjan hafi gert sitt besta til að stela þeim. Ekkert af þessu tilheyrir kristni eða hefur neitt með trúarbrögð að gera. 

Í framhaldi má spyrja hverjar þessar meintu rætur séu eiginlega ?

Bergþór Friðriksson (IP-tala skráð) 17.5.2023 kl. 14:04

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Bergþór,

Kannski eru þær bara í hausnum á fólki. En það er athyglisverð hugaræfing að ímynda sér að múslímum hefði tekist að ná Evrópu á sínum tíma, ýmist frá Tyrklandi í austri eða í gegnum Spán frá vestri. Þú telur kannski að það hefði engu breytt. Ég er efins. 

Nema þú sért frekar á því að vestrænt samfélag sé frekar rómverskt en kristið. Margir góðir punktar á bak við það. Hvaða hvatar drifu áfram Cicero? Ná ræturnar kannski frekar til borgríkja Grikklands? 

Sama hvað: Mig langar í Biblíu og vil ekki að vestræn menning sé látin rotna til dauða, eins og þróunin er í dag. Mögulega tengist þetta tvennt illa eða ekki, mögulega er þetta nátengt.

Geir Ágústsson, 17.5.2023 kl. 17:37

9 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Rómverjar gerðu kristni að ríkistrú á fjórðu öld. Það hafði auðvitað gífurleg áhrif á vestræna menningu.

Wilhelm Emilsson, 17.5.2023 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband