Heimanám hefur marga kosti

Mínir strákar eru í dönskum grunnskóla og þar er eiginlega ekkert heimanám. Stundum á að lesa aðeins heima en ekki mikið. Ég sé aldrei stærðfræðibækur, stíla eða málfræðiverkefni í töskunum þeirra. 

Að sögn er betra að krakkar séu lengi í skólanum og sleppi við heimanámið. Þetta jafnar aðstæður barna. Sum börn fá enga aðstoð heima og dragast aftur úr ef heimanám skiptir miklu máli. Það vandamál er leyst.

(Mér er spurn: Af hverju eignast fólk börn ef það getur ekki sinnt þeim?)

Hins vegar verða til mörg önnur vandamál þegar heimanámið fýkur.

Heimanám er vinna sem þarf að framkvæma samkvæmt eigin skipulagi. Þetta krefst ákveðins sjálfsaga sem þarf að tileinka sér. Á ég að byrja klukkan 16 eða 19? Tekur verkefni langan tíma eða stuttan? Þarf ég aðstoð eða bara ró og næði? Þetta læra krakkar með heimanáminu og það er jafnvel mikilvægari lexía en sjálft heimanámið.

Heimanám sameinar skóla og heimili. Foreldrar geta séð hvar börnin sín standa og brugðist við ef þeim finnst börnin sín eiga erfitt með námsefnið. Þetta gerir foreldra í raun að hluta kennaraliðsins og bætir í hóp manneskja sem hjálpa barni að tileinka sér námsefni.

Heimanámið þarf ekki að vera þungt og mikið til að ná öllum sínum markmiðum um skipulag, sjálfsaga og upplýsingagjafar til foreldra. 

Það voru mistök að afnema heimanám í Danmörku og ég hef þurft að gera ýmislegt til að bæta upp fyrir þau. Vonandi gera Íslendingar ekki sömu mistök.


mbl.is Horft á heimanám með öðruvísi gleraugum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Skiptir kannski ekki svo miklu máli hvort foreldrarnir þurfa að skipta sér af eða aðstoða við heimanámið, það sem skiptir máli er að börnin hafi næði og aðstöðu til þess að sinna því. En að leggja heimanámið af er fráleitt.

Kolbrún Hilmars, 14.4.2018 kl. 20:24

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sem krakki sinnti ég mínu heimanámi við eldhúsborð eða stofuborð. Á hvorugum stað var eitthvað sérstakt næði. Á móti kemur að það voru engin tæki sem hvísluðu að manni að kíkja á sig. Kannski foreldrar þurfi að vera betri að taka slaginn við internetið og allskyns tæki tengd því. 

Geir Ágústsson, 14.4.2018 kl. 20:40

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sjálf hafði ég nú þann háttinn á að sofna strax eftir kvöldmat og vakna svo um miðnætti til þess að sinna heimanáminu næstu 2-3 tímana. Á þessu höfðu foreldrar mínir fullan skilning, enda átti ég sjö yngri systkini og enginn friður fékkst fyrr en öll voru sofnuð.  Hvort nútímans tæki geta svo truflað meira en hópur af smákrökkum með öllum sínum hávaða og látum læt ég fræðinga um að dæma.  :)

Kolbrún Hilmars, 14.4.2018 kl. 22:29

4 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Heimanám er mikilvægt og gagnlegt, hvort sem maður fær aðstoð frá foreldrum eða ekki. Ég man alltaf eftir að hafa gaman af að skrifa ritgrð heima þegar ég var á aldrinum 10-12 ára. En eins og ég hef áður sagt, "það er verið að aumingjavæða þjóðina" af því að þá má ekki senda börnin heim með heimaverkefni um helgar úr skólunum og krakkar mega "ekki vinna" vegna Evrópureglna. Ég elskaði að vinna þegar ég var krakki. Ég var svo heppin að afi minn var bakari úti á landi, og ég mætti í bakaríið þegar mér hentaði til að hjálpa til við að pakkia inn brauðum og hereinsa bökunarpötur. Þegar ég var 13 ára var ég ráðin á sveitabæ til að passa börn, og ég mjólkaði beljur og var mjög liðtæk við að rýja sauðfé þarna þrjú vor.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 15.4.2018 kl. 02:04

5 identicon

Hvers vegna telja margir það eðlilegt og ásættanlegt ástand þegar viðfangsefni skólans færist inn fyrir vé heimilisins?  Hvað myndi skólayfirvöld segja ef viðfangsefni fjölskyldunnar og heimilisins myndu færast inn fyrir veggi skólastofunnar?

Hilmar (IP-tala skráð) 15.4.2018 kl. 11:32

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Skóli og heimili eru vonandi í hugum allra samstarf. Það er hagur foreldra að það gangi vel hjá börnum í skólanum og um leið hagur skóla að börn komi opin og jákvæð í skólastarfið. Ég lít ekki á skólann eins og fatahreinsun þar sem ég læt frá mér skítuga flík og ætlast til þess að hún sé hreinsuð og straujuð án frekari aðkomu minnar.

Geir Ágústsson, 15.4.2018 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband