Virkir í athugasemdum

Ég hlustaði nýlega á viðtal við mjög fróðan mann, Íslendingur með marga áratugi af víðtækri reynslu á bakinu. Fróðleiksbrunnur sem fylgist vel með fréttum og getur sagt vitræna hluti um nánast allt sem fer fram í dag og hefur farið fram seinustu ótal ár. 

En svo hljóp hann á sig í umræðum um Rússa og þá sérstaklega samskipti Rússa og Kínverja í dag. Hann sagði að Kínverjar væru að kaupa gas frá Rússlandi, sem er rétt, en sagði það koma frá Yamal-skaga í Rússlandi, sem er rangt. Kínverjar kaupa ekki rússneskt gas frá sömu lindum og Evrópa. Það er að fara breytast en er ekki rétt í dag. Rússneskar gasleiðslur

En hvaða máli skiptir það? Í raun engu fyrir sakir umræðunnar um málefni dagsins (mögulega meira ef menn ætla að líta til framtíðar), en sýnir bara hvað fróður maður þarf þó að fara varlega þegar hann þylur upp nokkuð sem eiga að heita staðreyndir en eru ekki. Smáatriði mögulega, en dæmi um að meira að segja fróðir menn segja nokkuð sem ætti að andmæla en gerist ekki því spyrill er engu fróðari.

Förum nú á hinn pólinn: Fólk sem veit lítið um fátt og ekkert um flest. Samansafn þessa fólks mætist iðulega í athugasemdakerfum fjölmiðla og samfélagsmiðla. Ég freistast stundum til að lesa skrif þessa fólks og sé alltaf eftir því. Freistast enn sjaldnar til að svara einhverjum af þessum athugasemdum en þá yfirleitt án iðrunar. Þetta er ormagryfja af fólki sem fullyrðir nánast alltaf ranglega um það sem er til umfjöllunar, ólíkt hinum fróða manni sem skeikaði aðeins á svolítilli staðreynd eða tveimur.

Lærdómurinn er mögulega sá að forðast virka í athugasemdum og hlusta frekar á fróða menn (og hér þarf sennilega að árétta að konur eru líka menn, þ.e. af dýrategundinni homo sapiens - "man"). En maður hlustar náttúrlega ekki á sjálfan sig og heldur áfram að vera óvirkur meðal virkra í athugasemdum, nema stundum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Enginn þorir að tala við mig beint, en í gegnum þriðja aðila fæ ég á tilfinninguna að þeir sem amast mest yfir því sem ég segi séu heilabilaðir, og ofskynji mikið.

Það er best að tala við fólk augliti til auglits, með símann við hendina til að "gúgla" jafnóðum vafaatriði.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.8.2022 kl. 21:02

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Þú ættir í samtölum þínum við fólk að framkvæma svolítið próf til að sjá hvort það sé kandídatar í viðtöl eða sem virkir í athugasemdum, nú eða hvorugt. Hvort það viti eitthvað meira en kemur fram í sjónvarpsfréttum RÚV. Hvort orðið "ivermectin" fái það til að segja "ormalyf", "æðislegt lyf" eða "hef aldrei heyrt á þetta lyf minnst". Einhver þyrfti að búa til einfaldan lista þar sem ákveðin svör gefa ákveðin stig. Lendi maður í samræðum við einhvern sem á netinu er virkur í athugasemdum þá á slíkt að tempra mjög væntingar manns til innihaldsríkra samræðna. 

Geir Ágústsson, 29.8.2022 kl. 08:21

3 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eins og allir vita, hef ég alltaf rétt fyrir mér, en þegar það virðist ekki vera svo, þá var viskan misskilin. Það hefur enginn áhuga á staðreyndum í dag, eins og segir í félagsmiðstöðinni, nú má ræða stjórnmál og trúmál en staðreyndir eru samsæriskenningar.

Guðjón E. Hreinberg, 29.8.2022 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband